Stúdíó Dís
Hjá Stúdíó Dís eru teknar barna-, fjölskyldu- og fermingarmyndir sem og passamyndir. Þar eru líka teknar myndir af ýmsum vörum og það nýjasta eru svokallaðar boudiour myndatökur.
Við hittum Heiðu Dís Bjarnadóttur, ljósmyndara og eiganda Stúdíó Dís til að kynnast rekstrinum.
Hjá Stúdíó Dís eru teknar barna-, fjölskyldu- og fermingarmyndir sem og passamyndir. Þar eru líka teknar myndir af ýmsum vörum og það nýjasta eru svokallaðar boudiour myndatökur.
Við hittum Heiðu Dís Bjarnadóttur, ljósmyndara og eiganda Stúdíó Dís til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Barna-, fjölskyldu- og fermingarmyndir, passamyndir, vörumyndir sem og boudiour myndir.
Fjölbreyttar myndatökur
Stúdíó Dís hefur verið starfandi frá því í febrúar árið 2015 og þar hafa verið teknar margar og fjölbreyttar myndir, bæði í stúdíóinu en einnig víðs vegar um bæinn. „Ég fékk ung áhuga á ljósmyndun. Amma mín, Álfheiður Óladóttir (Heiða), vann í mörg ár í Passamynd - Listhús á Strandgötunni, sá meðal annars um passamyndatökurnar og þangað fór ég oft í heimsókn. Þá er Lárus Karl Ingason, ljósmyndari bróðir mömmu og mikill áhrifavaldur í vali mínu á starfi en hann var jafnframt minn meistari í námi“, segir Heiða Dís sem kláraði sveinspróf í ljósmyndun árið 2006 en hélt síðan stuttu seinna til Danmerkur og lærði margmiðlunarhönnun. „Ég starfaði því í nokkur ár sem vefstjóri hjá mismunandi fyrirtækjum en tók jafnframt að mér nokkur aukaverkefni sem ljósmyndari. Í lok ársins 2014 ákvað ég hins vegar að snúa mér alfarið að ljósmynduninni og opna mitt eigið stúdíó“.
Fimm daga gamlir nýburar
Í Stúdíó Dís er hægt að koma í hefðbundna myndatöku með lítil börn og fermingarbörn en Heiða Dís hefur líka sérhæft sig í að taka myndir af nýburum. „Ég vil þá helst fá krílin til mín þegar þau eru 5 til 14 daga gömul en þá eru þau oftast eins og leir í höndunum á mér“, segir Heiða Dís og brosir en bætir við að henni þyki líka gaman að fá börn á öllum aldri til sín og gangi oftast ákaflega vel. „Sum fermingarbörn eru sem dæmi frekar óörugg þegar þau koma en mér tekst alltaf á einhvern hátt að tala þau til og foreldarnir stundum mjög hissa á því hversu vel gangi“.
Passamyndir og viðburðir
Heiða Dís tekur líka reglulega passamyndir fyrir fólk sem er t.d. að endurnýja vegabréfið sitt eða sækja um nýja vinnu. „Það er hægt að panta passamyndatöku hjá mér á vefnum eða bara hringja í mig. Mér finnst annars áberandi margir Hafnfirðingar koma í svona myndatökur, sérstaklega eldra fólkið sem vill sækja þjónustu hér í bænum“, segir Heiða Dís og bætir við að þá fái líka mörg fyrirtæki hana til að taka starfsmannamyndir sem eru ýmis teknar hjá henni í stúdíóinu eða hún fer á staðinn enda lítið mál að taka með sér ljós og bakgrunnstjald.
Heiða Dís hefur undanfarin ár jafnframt séð um útskriftarmyndir fyrir Flensborg sem og NÚ skólann. Þá hefur hún tekið myndir á árshátíð Hafnarfjarðarbæjar og þar lagt áherslu á að fanga stemmninguna með myndum af gestum, skemmtikröftum og skreytingum.
Aukning í vörumyndatöku
Á undanförnum misserum hefur orðið töluverð aukning í vörumyndatökum hjá Stúdíó Dís enda eru íslenskar vefverslanir orðnar mun öflugri og þá er ákaflega mikilvægt að vera með góðar myndir af vörum. „Núna á eftir eru sem dæmi að koma til mín tvær konur sem eru að fara að opna vefverslun og fengu mig til að taka myndir fyrir sig. Í þannig verslun þarf oft að vera með fleiri en eina mynd af vörunni og ég mæli reyndar með að hafa þær allavega þrjár“, segir Heiða Dís sem hefur líka verið að taka myndir fyrir vefsíður og auglýsingar nokkurra hafnfirskra fyrirtækja s.s. RIF, Kænuna, Von harðfiskverkun og Rafal.
Heiða Dís segist lítið sem ekkert hafa auglýst þessa þjónustu sína að taka vörumyndir heldur komi verkefnin bara til hennar. „Þetta fréttist mann frá manni en það er náttúrulega besta auglýsingin. Mér finnst þetta annars skemmtileg og mikilvæg vinna og vil gjarnan aðstoða fleiri fyrirtæki við að hafa góðar myndir af sínum vörum“.
Sjálfstyrkjandi boudiour myndataka
Það nýjasta sem Stúdíó Dís býður upp á eru Boudiour myndatökur undir nafninu Gyðjur. Hér eru á ferðinni fallegar, rómantískar og kynþokkafullar myndir af konum.
„Boudiour er franska, þýðir svefnherbergi eða búningsherbergi konunnar og er persónulegur staður. Þessar myndatökur eru hugsaðar fyrir konur sem vilja upplifa sjálfa sig fallegar og kynþokkafullar. Ég er mikið að vinna með jákvæða líkamsímynd og lít á þetta sem ákveðna sjálfstyrkingu. Líkamar eru allskonar en með réttum pósum, umhverfi og lýsingu er hægt að taka ótrúlega fallegar myndir“.
Að sögn Heiðu Dísar ætla sumar konur bara að eiga myndirnar fyrir sig en margar svo ánægðar og ákveða að gefa maka sínum þær eða jafnvel hengja þær upp á vegg. „Allar konurnar sem hafa komið til mín hafa verið ótrúlega ánægðar, einhverjar komu hálf skjálfandi inn en fóru út á bleiku skýi, sumar segja að þetta sé það skemmtilegasta sem þær hafi gert og allar mæla þær með svona myndatöku“, segir Heiða Dís.
Flutningur á nýju ári
Í dag er Stúdíó Dís staðsett á annarri hæð í Firði verslunarmiðstöð en um áramótin flytur ljósmyndastofan á Reykjavíkurveg 68. „Mig langaði að vera aðeins meira út af fyrir mig og ákvað því að færa mig um set. Ég hlakka mikið til að gera rýmið hlýlegt og huggulegt, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir Boudior myndatökurnar“, segir Heiða Dís og bætir við að hún láti sig líka dreyma um að vera með skemmtilega viðburði á nýja staðnum s.s. taka á móti gæsa- eða vinkonuhópum og vera með pósu- og förðunarnámskeið svo eitthvað sé nefnt.
Áhrif Covid
Heimsfaraldurinn hefur haft sín áhrif á rekstur Stúdíó Dís, nýburamyndatökurnar hafa sem dæmi dottið alveg upp fyrir og fólk hefur frestað mörgum tökum. „Fermingarmyndatökurnar dreifðust líka töluvert og því verið minna um vertíðir. Þetta hefur vissulega verið strembið, það var enga styrki eða aðstoð að fá en ég hef einhvern veginn náð að halda sjó“, segir Heiða Dís. Hún segir að á þessu tíma hafi hún þó byrjað að hugsa um nýjar leiðir, aðeins opnað á sér hausinn og áttað sig á því að hana langi að leggja enn meiri áherslu á boudoir sem og vörumyndatökur.
Listafólkið og Hellisgerði
Heiða Dís flutti í Hafnarfjörðinn þegar hún var tólf ára, var í Setbergsskóla og Flensborg en eyddi líka miklum tíma hjá ömmu sinni og afa í Köldukinninni þegar hún var lítil. Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Þetta er bara svo fallegur bær, viðkunnanlegur. Smáborgarbragur en samt risastór bær. Hér býr líka svo mikið af mögnuðu listafólki sem hefur áhrif á andann og gerjunina í bænum“.
Ef Heiða Dís ætti að velja sér uppáhalds stað í bænum verður hún að nefna Hellisgerði. „Þar er svo mikil fjölbreytni, hver árstíð hefur sinn sjarma og þar finnst mér alltaf gott að vera“.
Gerir upp gömul húsgögn og syngur
Þegar Heiða Dís er ekki í vinnunni finnst henni ákaflega gaman að gera upp gömul húsgögn. „Það er svo frábært að finna einhverja gamla hluti og gefa þeim nýtt líf. Þessa dagana er ég sem dæmi að gera upp gamlan rokkokó sófa sem ég ætla að nota í boudoir myndatökurnar“.
Hún segist þá alltaf vera á leiðinni að stunda meira yoga og dreymir um að fara í flot. „Ég syng líka mjög mikið, er í kór og nýbúin að eignast gamalt píanó. Er því að rifja upp það sem ég lærði sem barn og næ orðið að pikka upp nokkur lög á píanóið“, segir Heiða Dís að lokum með bros á vör.
Myndir: Stúdíó Dís og Markaðsstofa Hafnarfjarðar
Ölhúsið
Á Ölhúsinu er lifandi tónlist um hverja helgi og besta úrval bæjarins á öl á krana en þar er einnig hægt að horfa á boltann í beinni, spila pool, fara í pílu eða taka þátt í bingó eða pub quiz.
Við hittum eigendurna og hjónin Ólaf Guðlaugsson og Aðalheiði Runólfsdóttur til að kynnast rekstrinum.
Á Ölhúsinu er lifandi tónlist um hverja helgi og besta úrval bæjarins á öl á krana en þar er einnig hægt að horfa á boltann í beinni, spila pool, fara í pílu eða taka þátt í bingó eða pub quiz.
Við hittum eigendurna og hjónin Ólaf Guðlaugsson og Aðalheiði Runólfsdóttur til að kynnast rekstrinum.
Opið 363 daga ársins
Ölhúsið hefur verið starfandi frá því í apríl árið 2015 á Reykjavíkurvegi 60 en í húsnæðinu hefur verið ýmis rekstur í gegnum tíðina. Ólafur sá í nokkur ár um allt skemmtanahald á Spot og kom því með töluverða reynslu inn í reksturinn og lagði strax upp með að hafa reglulega fjölbreytta viðburði á staðnum. Aðalheiður er leikskólakennari en starfaði á þessum tíma sem dagmamma en hætti því starfi stuttu síðar enda í nógu að snúast á Ölhúsinu.
„Hér er opið 363 daga ársins, bara lokað á aðfangadag og jóladag og svo er boltinn farinn að rúlla á annan í jólum enda margir leikir yfir hátíðarnar. Þjónustustigið okkar er því ansi hátt“, segir Ólafur. Þau segjast jafnframt standa vaktina töluvert mikið sjálf og ganga í öll verk.
Fyrirtæki vikunnar
Á Ölhúsinu er lifandi tónlist, besta úrval bæjarins af bjór á krana, boltinn í beinni, pool, píla, bingó og pub-quiz.
Boltinn í beinni og lifandi tónlist
Meðal vinsælustu viðburða Ölhússins eru beinar útsendingar frá enska boltanum og meistaradeildinni og þá er oft fullt út úr dyrum og mikil stemmning. „Við erum með tólf skjái og eiginlega eitt fullkomnasta sjónvarpskerfi sem til er á landinu, bæði mynd og hljóð“, segir Ólafur og bætir við að það séu því oft fleiri en einn leikur í gangi. Aðalheiður segir að margir komi í treyju síns félags til að horfa en það sé áberandi besta mætingin þegar Liverpool eða Manchester United séu að spila.
Um hverja helgi, bæði föstudag og laugardag, er lifandi tónlist og samkvæmt Ólafi hafa nokkrir af stærstu skemmtikröftum landsins spilað á Ölhúsinu. „Við erum líka með bingó einu sinni í mánuði með flottum vinningum en þá er alltaf fullt og regluleg pub-quiz kvöld eru líka vinsæl“.
Pool og píla fyrir fólk á öllum aldri
Á þessum sex árum hafa Ólafur og Aðalheiður gert töluverðar breytingar á húsnæðinu, stækkað staðinn og gert afar snyrtilegan og hlýlegan.
Sumarið 2019 tók Ölhúsið við neðri hæð hússins og setti upp glæsilega aðstöðu fyrir pool, pílu og spilakassa. „Við erum með fjögur níu feta keppnisborð og hingað kemur fólk á öllum aldri að spila pool, vinir og vinnufélagar en einnig fjölskyldufólk enda skemmtileg afþreying“, segir Aðalheiður og bætir við að þá séu líka reglulega haldin poolmót á staðnum. Þá eru píluspjöld bæði uppi og niðri og þau ansi mikið notuð. „Það hefur orðið algjör sprenging í píluáhuga og sérstaklega vinsælt meðal vinnustaða að koma og keppa sín á milli“, segir Ólafur.
Innri salurinn hefur einnig fengið andlitslyftingu og þar er tilvalið fyrir hópa að koma saman enda hægt að loka því rými og þar er jafnframt sérstakt hljóðkerfi. Útiaðstaðan var bætt til muna síðastliðið sumar og eykur enn á möguleika staðarins. Ólafur og Aðalheiður taka hins vegar sérstaklega fram að í öllum þessum framkvæmdum þá hefur staðnum aldrei verið lokað heldur verið unnið á nóttunni og morgnanna.
Mikið úrval af bjór og jólabjórskóli
Á Ölhúsinu er samkvæmt þeim hjónum besta úrval bæjarins á öl á krana eða níu tegundir. Aðspurð hvaða bjór sé vinsælastur segir Ólafur að þessa dagana sé það jólabjórinn en annars sé það íslenski bjórinn. „Enda er íslenskur bjór á heimsmælikvarða, svo ferskur og án rotvarnarefni og er því að vinna ýmis verðlaun úti í heimi“.
Á barnum eru úrvalið afar fjölbreytt eins og góðum bar sæmir en Aðalheiður segir að það sé samt alltaf langmest drukkið af bjór. Í þeim anda hafa þau því ákveðið að vera með jólabjórskóla næstu vikurnar. „Við erum komin í samstarf við Svein Waage, einn helsta sérfræðing landsins þegar kemur að bjórsmökkun og fyrsta námskeiðið verður þann 19. nóvember næstkomandi“, segir Ólafur og tekur fram að þetta sé kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki eða aðra hópa til að koma saman eina kvöldstund. Það verður takmarkað sætapláss á hverjum námskeiði en hægt verður að panta pláss í gegnum Facebook síðu Ölhússins.
Fastagestirnir mikilvægir í Covid
Covid faraldurinn hefur haft gífurlega mikil áhrif á rekstur Ölhússins en staðurinn þurfti samt aldrei að loka þar sem þau eru með veitingaleyfi sem er víðtækara en kráarleyfi. „Á tímabili máttu þó einungis vera tíu manns, að mér meðtöldum, hér inni í þessu stóra rými og við vorum undir lögreglueftirliti“, segir Ólafur og Aðalheiður bætir við að þau hafi þurft að skrá alla niður, fækka borðum, stytta opnunartíma, aflýsa viðburðum, loka poolborðum og píluspjöldum svo eitthvað sé nefnt.
Þau segja að þessar stanslausu breytingar á reglum hafi vissulega tekið á en þau hafi staðið enn meira vaktina sjálf og komist í gegnum þennan skafl. „Við erum annars óendanlega þakklát öllum fastagestunum okkar sem hafa staðið þétt við bakið á okkur á þessum erfiðu tímum. Þeirra vegna vildum við líka aldrei skella í lás enda okkar staður mikilvægur mörgum. Hingað kemur fólk til að eiga samskipti við aðra, spjalla, spila eða tefla.“
Ölhúsið á einmitt stóran hóp af mjög tryggum fastagestum. „Þetta eru aðallega Hafnfirðingar, þverskurðurinn af samfélaginu, einhleypingar og fjölskyldufólk og á þeim er ekkert vesen.“
Hundasvæðið vel varðveitt perla
Aðalheiður og Ólafur eru bæði uppalin í Vestmannaeyjum en hafa búið í fjölda ára í Hafnarfirðinum. Þau eru sammála um að bæjarbragurinn hér sé ákaflega góður, takturinn sé öðruvísi og einstakur og líklega sé nálægðin við sjóinn og höfnina þeim, sem og þeim fjölmörgu Vestmanneyingum sem búa í Hafnarfirði, ákaflega mikilvæg. „Mér finnst aðgangur að kjörnum fulltrúum og stjórnsýslu vera góður og hér er tekið öðruvísi á hlutunum“, segir Ólafur og bætir við að hér sé líka allt sem þú þarft, við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn.
Aðspurð hvort þau eigi sér einhvern uppáhaldsstað í bænum segir Ólafur strax „þú meinar þá fyrir utan Ölhúsið“ og hlær. Aðalheiður segir að líklega sé það náttúran hér í kring, Hvaleyrarvatnið og hundasvæðið þar, sem er að sögn Ólafs vel varðveitt perla.
Góður matur og landsleikir
Þegar þau hjónin eru ekki að sinna öllum þeim verkum sem fylgja Ölhúsinu finnst þeim afar gott að elda góðan mat, slaka á og hitta góða vini. Naut og humar er þá efst á vinsældalistanum.
Í eðlilegu árferði eru þau einnig dugleg að ferðast. „Við förum gjarnan á stórmót í handbolta og fótbolta, og stefnum á að mæta til Ungverjalands og styðja strákana okkar í janúar“, segir Aðalheiður. Þá mæta þau einnig reglulega á leiki í Kaplakrika og styðja vel við félagið, bæði í fótbolta og handbolta.
GeoCamp Iceland
GeoCamp Iceland er fræðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í fræðslutengdum verkefnum og móttöku nemenda- og kennarahópa með áherslu á jarðfræði, náttúruvísindi og loftslagsbreytingar.
Við hittum framkvæmdastjórann Arnbjörn Ólafsson, sem rekur Geocamp ásamt föður sínum Ólafi Jóni Arnbirnssyni, til að kynnast rekstrinum.
GeoCamp Iceland er fræðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í fræðslutengdum verkefnum og móttöku nemenda- og kennarahópa með áherslu á jarðfræði, náttúruvísindi og loftslagsbreytingar.
Við hittum framkvæmdastjórann Arnbjörn Ólafsson, sem rekur Geocamp ásamt föður sínum Ólafi Jóni Arnbjörnssyni, til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
GeoCamp Iceland er fræðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á jarðfræði, náttúruvísindi og loftslagsbreytingar.
Vekja áhuga á raungreinum
Sögu GeoCamp Iceland má rekja til ársins 2009 þegar Ólafur Jón, þá starfandi skólameistari Fjölbrautarskóla Suðurnesja, stofnaði fyrirtæki utan um fræðsluferðir fyrir danska skóla, með áherslu á jarðfræði, sem hann hafði séð um í einhvern tíma. „Tilgangurinn var allt frá upphafi að reyna að vekja athygli og áhuga á raungreinum eins og jarðfræði, landafræði og náttúruvísindum. Aðsókn og áhugi ungs fólks á þessum greinum hér á landi hafði verið þverrandi eitthvað sem olli kennurum og skólastjórnendum áhyggjum“, segir Arnbjörn.
Þeir feðgar hafa báðir áratugalanga reynslu úr menntageiranum en Ólafur Jón hefur verið skólastjórnandi í um 30 ár og þar á undan kennari. Arnbjörn hefur einnig unnið fyrir menntastofnanir og verið í ýmsum verkefnum tengdum fræðslu í að verða 20 ár.
Mismunandi hópar og ferðir
Í upphafi var hlutverk GeoCamp Iceland eingöngu að taka á móti dönskum framhaldsskólanemendum og sömu skólarnir voru að senda hingað nemendur ár eftir ár. Í dag eru hóparnir fjölbreyttari hvað varðar bakgrunn og aldur. „Við höfum verið að taka á móti bandarískum hópum í auknu mæli, þar á meðal árlegum hópum frá félagi bandarískra landafræðikennara og háskólahópum frá á annan tug háskóla, en hingað hafa líka komið nemendahópar frá Kanada og Kína. Aldursbilið er því orðið mun breiðara en áður, allt frá unglingum upp í doktorsnema“, segir Arnbjörn.
Árlega koma um 400-500 manns til landsins á vegum GeoCamp Iceland og eru hér oftast í um tíu daga, sumir styttra en aðrir lengur. Hver ferð er þá aðlöguð að viðkomandi hóp og sveigjanleiki mikilvægur en samkvæmt Arnbirni er það ekki vandamálið í svona litlu fjölskyldufyrirtæki og þeir feðgar einnig vel tengdir og tilbúnir að fara óhefðbundnar leiðir gerist þess þörf.
Glöggt er gestsaugað
GeoCamp Iceland er því fræðsluaðili með ferðaþjónustuleyfi en uppleggið hefur allt frá upphafi verið að búa til fræðslutengd verkefni fyrir erlenda og íslenska nemendur. „Ísland er gríðarlega áhugavert, hér er hægt að upplifa jarðfræðisöguna og náttúruvísindi í svo mikilli nánd. Hingað koma erlendir skólar til að læra og sjá. Það má því vissulega segja að glöggt sé gestsaugað en ég held að við áttum okkur ekki endilega á hversu sérstakt og magnað þetta er“.
Áhersla GeoCamp Iceland hefur ávallt verið á Reykjanesið en Arnbjörn segir að meðan flestir fari Gullna hringinn þá fari þeir meðal annars í Seltún, Eldvörp og út á Reykjanestá. „Þetta er svo stórbrotið og vanmetið svæði. Við getum verið með hópa þar í heila viku enda mikið að sjá og margt hægt að fræðast um svo sem orkugjafa, jarðfræði og sjávarlíffræði og við heimsækjum líka fjölbreytta starfsemi og hittum eldhuga í náttúruvísindum“.
Gagnagrunnar og samstarfsverkefni
Eitt af markmiðum GeoCamp er að búa til gagnagrunna að kennsluverkefnum sem standa öllum til boða. „Við pabbi erum miðlarar, við viljum tengja saman nemendahópa og kennarahópa. Okkar áskorun er að miðla efni sem verður til í ferðum okkar áfram til komandi hópa, búa til ný verkefni og fræðsluefni“.
Fyrirtækið hefur því verið að sækja um ýmsa styrki og er þátttakandi í nokkrum evrópskum samstarfsverkefnum. Eitt af því er samstarf með Tækniháskólanum í Liberec í Tékklandi til að þróa kennsluefni fyrir kennara sem hyggja á og eru með útikennslu í jarðvöngum. Annað verkefni á vegum Erasmus + fjallar um sjálfbærni og umhverfisvitund í grunnskólum með áherslu á raungreinakennslu. Þar er ætlunin að búa til kennsluefni og hvetja ungt fólk til umhverfisvitundar sem og búa til handbækur fyrir kennara.
Þriðja verkefnið, sem er í burðarliðnum, er að útbúa færanlega rannsóknarstofu sem nýtist við kennslu. „Ef verið er að kenna um jarðlög þarf ákveðinn búnað og við viljum að hægt verði að sækja bakpoka með búnaði og kennsluefni á rannsóknarstofuna“, segir Arnbjörn og bætir við að draumur þeirra feðga sé að með öllum þessum verkefnum aukist áhugi ungs fólks á raungreinum. „Við viljum efla raungreinakennslu á Íslandi með því að tengja íslenska nemendur við erlenda skólahópa og þau verkefni sem þeir eru að vinna að. Með því viljum við reyna að vekja fólk til umhugsunar um sjálfbærni og loftlagsmál en fræðsla er þar ávallt grunnurinn.“
Áhrif Covid
Á síðasta ári kom enginn hópur til landsins á vegum GeoCamp Iceland sökum Covid. Arnbjörn segir að þeir feðgar hafi þó ekki setið auðum höndum heldur nýtt tímann til að móta sína sýn og þróun á fræðsluefni. „Við byrjuðum líka í nokkrum af þessum evrópsku samstarfsverkefni okkar á þessum tíma en styrktum líka tengslin við innlenda aðila og erum ákaflega spenntir fyrir þessu öllu“.
Þetta sumarið og nú í haust fór starfsemin hins vegar aftur á fullt og bókanir á næsta ári eru fleiri en nokkru sinni áður. „Það er orðin uppsöfnuð þörf og erlendir aðilar bíða bara eftir því að koma til landsins“, segir Arnbjörn sem er einnig á leiðinni til New Orleans í desember á ráðstefnu bandarísku jarðvísindasamtakanna til að kynna starfsemi GeoCamp Iceland
Miðbæjarstemmning og góðar gönguleiðir
Arnbjörn hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2015 og segist hafa kolfallið fyrir bænum, þá sérstaklega miðbæjarstemmningunni sem er honum ákaflega mikilvæg. „Ég bjó áður í miðbæ Reykjavíkur, var lattelepjandi trefill og þarf að hafa líf í kringum mig. Hér fann ég fallegt hús sem er í göngufæri við góða veitingastaði og kaffihús og er því ákaflega sáttur“.
Nálægðin við náttúruna er honum jafnframt mikilvæg. „Ég var að æfa mig fyrir göngu um Jakobsveginn fyrir tveimur árum og þá var frábært að geta æft sig á öllum þeim frábæru gönguleiðum sem eru hér kringum bæinn“.
Matur og menning
Aðspurður um áhugamálin segist Arnbjörn hafa gríðarlegan áhuga á mat, bæði elda en ekki síst að borða hann. Það er enginn sérstakur matur í uppáhaldi, það sé ákaflega breytilegt. „Þegar ég ætla að elda eitthvað gott hugsa ég fyrst hvaða hráefni ég hafi aðgang að, þá hvað mig langi í og svo getur veðrið einnig spilað inn í“. Mataráhuginn fylgir Arnbirni einnig á ferðalögum og þá hefur hann gaman að því að prófa nýja og spennandi staði.
Fjölskyldan eyðir annars miklum tíma í Kollabæ í Fljótshlíðinni. „Við keyptum ásamt foreldrum mínum gamalt eyðibýli, burstabæ, fyrir þremur árum sem við höfum verið að gera upp og byggt við. Þangað förum við nánast um hverja helgi“, segir Arnbjörn og bætir við að þangað hafi síðastliðið sumar tveir GeoCamp Iceland hópar fengi heimboð sem endaði með því að kúabóndi í nágrenninu og dóttir hans komu við og sungu fyrir hópinn. Ákaflega eftirminnileg og öðruvísi stund, sem er kannski lýsandi fyrir þá nánd og tengsl við heimafólk sem skólahóparnir upplifa í ferðum sínum með GeoCamp Iceland um landið.
Ísblik
Hjá Ísblik í Brekkutröð er framleiddur þurrís og umhverfisvæn nýjung í sótthreinsiefnum.
Við hittum framkvæmdastjórann Erlend Geir Arnarson til að kynnast rekstrinum.
Hjá Ísblik í Brekkutröð er framleiddur þurrís og umhverfisvæn nýjung í sótthreinsiefnum.
Við hittum framkvæmdastjórann Erlend Geir Arnarson til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Ísblik í Brekkutröð er framleiddur þurrís og umhverfisvæn nýjung í sótthreinsiefnum.
Sáu strax tækifæri
Ísblik var stofnað í janúar 2017 af Erlendi Geir og félaga hans Ólafi Jóhanni Ólafssyni. „Það var eiginlega fyrir tilviljun sem ég hnaut um þurrís og þurríshreinsun og sá strax tækifæri og vissi að mín þekking og reynsla kæmi að góðum notum. Ég er vélstjóri með MBA gráðu en eftir að hafa starfað hjá stórum fyrirtækjum til fjölda ára, bæði hér heima og erlendis, fannst mér kominn tími til að vera minn eigin herra“, segir Erlendur sem fór með Ólafi til Danmerkur að heimsækja nokkur fyrirtæki í þurrísbransanum og ákváðu þeir í kjölfarið að slá til.
Í dag er Ísblik stærsti framleiðandi þurríss á Íslandi en Erlendur segir að lykillinn að velgengninni sé sveigjanleiki og góð þjónusta. Starfsemi þeirra er annars í raun tvíþætt þegar kemur að þurrísnum, annars vegar framleiðsla og hins vegar þurríshreinsun.
Framleiða þurrís
Framleiðsla á þurrís vegur þyngst hjá Ísblik. Meðal viðskiptavina eru matvælaframleiðendur, heilbrigðisstofnanir, veitingarekstur og einstaklingar. „Við framleiðum mörg tonn af þurrís í hverri viku og keyrum út til okkar viðskiptavina, oftast eldsnemma á morgnanna þar sem ferskfiskframleiðendur eru stór hluti kaupenda og hjá þeim byrjar dagurinn snemma“, segir Erlendur og bætir við að þurrísinn nýtist ferskfiskframleiðendur ekki einungis til að kæla heldur hrekur hann súrefni frá fiskinum, svo örverur geti ekki vaxið og lengir þar af leiðandi líftíma afurðanna.
Þurrísinn hefur einnig verið vinsæll hjá veitingastöðum og einstaklingum í veislur þar sem gufan sem hann myndar skapar skemmtilega stemningu og vekur hrifningu hjá ungum sem öldnum. „Það verður líklega nóg að gera um helgina þar sem margir eru að halda hrekkjavökuveislur og þurrísinn er vinsæll þar“.
Hreinsa tæki og myglu
Þurrís hentar líka vel í hreinsun á ýmsum tækjum og búnaði sem og til að fjarlægja myglu. Hann tærir hvorki né sverfur og þessari hreinsunaraðferð fylgir hvorki eld- né sprengihætta, né heldur bleyta eða óhreinindi. „Meðal viðskiptavina okkar má nefna stóriðjur, veitufyrirtæki, tryggingafélög, útgerðarfélög, byggingafélög og einstaklinga. Þegar þurrís skellir á þurru yfirborði þá breytist hann á augabragði úr föstu formi aftur yfir í gas og við það verður 700 -föld rúmmálsaukning. Þetta þeytir í raun óhreinindum af og eftir verður tandurhreinn, skraufaþurr og sótthreinsaður flötur“, segir Erlendur.
Þurríshreinsun er jafnframt umhverfisvæn aðferð en þurrísinn er framleiddur úr kolsýru sem kemur náttúrulega upp úr jörðinni, t.d. að Hæðarenda í Grímsnesi. Erlendur segir fyrstu árin hafa farið í að koma aðferðinni á framfæri en nú sé þekkingin á henni alltaf að aukast hér á landi og segist hann því hlakka til að takast á við aukin í verkefni af þessu tagi í framtíðinni.
Ný öflug sótthreinsilausn
Nýjasta varan hjá Ísblik er umhverfisvænt sótthreinsiefni sem þeir framleiða undir nafninu Bjartur. Um er að ræða svo kallað ECA (Electro Chemical Activation- ísl. rafauðgun) vatn sem er framleitt með því að rafgreina saltvatnsblöndu. Ferlið felst í að lítilsháttar rafstraumi er hleypt á blöndu af venjulegu vatni og saltlausn í sérhæfðum rafgreiningarbúnaði og við það verður til Hýpóklórsýra (HOCI) og lítilsháttar klór (0,5%) sem er er hvorki ætandi né ónæmisvaldandi.
„Þetta er öflug hreinsi- og sótthreinsilausn sem banar örverum en hefur engin áhrif á lífverur, þ.e. fólk og dýr. Auk þess að framleiða efnið þá er Ísblik líka með umboð fyrir framleiðslukerfi fyrir ECA, allt frá litlum búnaði fyrir heimili upp í stór kerfi fyrir stórnotendur, s.s. matvælaframleiðendur, sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Viðskiptavinir okkar eru að náð alveg ótrúlegum árangri með ECA hvort heldur sem er í landbúnaði, fiskeldi eða fiskverkun. Öll vinna við þrif verður einfaldari og fljótlegri þar sem ekki þarf að skola efnið af og búnaðurinn er fljótur að borga sig upp því ekki þarf lengur að kaupa kemísk efni á brúsum sem búið er að flytja langar leiðir og þarf að lokum að farga. Fyrirtækin verða því umhverfisvænni og kolefnisspor þeirra minnkar umtalsvert.
Hægt er að fá litla ECA einingu sem hentar vel fyrir heimili. „Ég nota ECA lausnina sjálfur til að sótthreinsa þurrískisturnar hjá okkur þegar þær koma aftur í hús og eins nota ég hana mikið heima. Við hreinsum ísskápinn okkar með þessu, úðum á tannburstana og meira að segja á fiskinn áður en við eldum hann til að minnka lykt“ segir Erlendur.
Áhrif Covid
Erlendur segir að Covid hafi ekki haft mikil áhrif á rekstur Ísblik. Aðeins hægði á um tíma, ekki síst þegar faraldurinn geysaði sem hæst. Minna var um hreinsiverkefni um tíma og einnig varð samdráttur hjá okkar viðskiptavinum á meðan neyslumynstur var að finna sér nýjan farveg. Virðiskeðjan breyttist og það var erfitt að vera í öflugu sölu- og markaðsstarfi“, segir Erlendur en bætir við að þetta ár hafi verið mjög gott og hvorki Ísblik, né nokkrir af þeirra viðskiptavinum hafi lent í sóttkví og þurft að loka.
Ástjörnin og Ásfjallið í uppáhaldi
Erlendur er Breiðhyltingur og Túngnamaður en hefur þó búið í Hafnarfirði frá því um tvítugt, fyrir utan nokkurra ára erlendis. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann strax að það sé bæjarbragurinn. Þó bærinn hafi vissulega stækkað mikið þá nær hann að halda í einhvern góðan anda. Erlendur er félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og þykir það ákaflega góður og mikilvægur félagsskapur ekki síst til að styrkja tengslanetið innan bæjarins.
Ef hann ætti að velja einhvern uppáhaldsstað í bænum þá yrði það Ástjörnin og Ásfjallið sem þau hjónin ganga mikið um. Þá er höfnin honum líka mikilvæg, skipin og smábátahöfnin gefa skemmtilegt yfirbragð þó það sé vissulega öðruvísi stemmning þar núna heldur en áður fyrr þegar hann vann sem vélstjóri.
Fjölskyldujörðin og afabarnið
Þegar Erlendur er ekki í vinnunni nýtur hann þess að fara í Biskupstungurnar þar sem hann á afdrep. „Amma mín og afi bjuggu þarna svo þetta er nokkurra hektara fjölskyldujörð. Þar er ég alltaf eitthvað að ditta að, auka fjölbreytnina í gróðrinum, gera göngustíga og kurla tré. Besta afslöppunin er þó að sitja á sláttutraktornum, svo ekki sé nú talað um að fara í pottinn í lok dags“.
Í sveitinni skella þau hjónin sér líka alltaf af og til í golf á vellinum í Úthlíð. „Ég var líka að eignast fyrsta afabarnið fyrir sex mánuðum og það er nú aldeilis glænýtt og spennandi hlutverk sem ég nýt þess að sinna“ segir Erlendur og brosir.
IK innréttingar
IK innréttingar á Rauðhellu sinnir allri almennri sérsmíði og leggur áherslu á að skila af sér góðu verki.
Við hittum smiðina og eigendur Heiðar Ólafsson og Breka Konráðsson til að kynnast rekstrinum.
IK innréttingar á Rauðhellu sinnir allri almennri sérsmíði og leggur áherslu á að skila af sér góðu verki.
Við hittum smiðina og eigendur Heiðar Ólafsson og Breka Konráðsson til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
IK innréttingar á Rauðhellu sinnir allri almennri sérsmíði
40 ára saga
Sögu IK innréttinga má rekja allt til ársins 1981 en þá hóf Innréttingarverkstæði Kristjáns starfsemi sína. Árið 2013 frétti Kári Harðarson, meðeigandi Heiðars og Breka að Kristján væri kominn á aldur og vildi gjarnan selja reksturinn. Kári taldi þetta kjörið tækifæri og keypti verkstæðið ásamt Heiðari og stuttu seinna kom Breki inn í reksturinn. Heiðar og Breki kynntust í smíðanáminu í Iðnskólanum og hafa alla tíð fylgst nokkuð þétt að í hinum ýmsum smíðastörfum. Kári er í öðrum daglegum rekstri en er IK Innréttingum alltaf innan handar ef þörf krefur.
„Við ákváðum að breyta nafninu í IK innréttingar, ákveðin stytting en á sama tíma heiðrum við minningu Kristjáns“, segir Heiðar. Tveimur árum seinna ákváðu þeir jafnframt að færa sig úr Skútuhrauninu í hentugra húsnæði á Rauðhellu.
Sérsmíði
Þeir félagar segjast sinna allri almennri sérsmíði. „Við erum þó fyrst og fremst í innréttingum fyrir
eldhús, baðherbergi og þvottahús, smíðum líka fataskápa og fleira“, segir Heiðar og bætir við að
þeir geri líka ýmislegt annað, séu með sprautuklefa og gefi því oft gömlum innréttingum
andlitslyftingu.
„Við erum í raun með fjóra stóra viðskiptavini, eitt fasteignafélag og þrjár hönnunarstofur, sem sjá okkur fyrir öllum verkum“, segir Breki og Heiðar nefnir að þeir hafi aldrei auglýst sig og málið sé bara að skila góðu verki og þá komi viðskiptavinirnir alltaf aftur til þeirra.
Samstarf með hönnuðum
Handverk IK innréttinga má einna helst finna í heimahúsum og atvinnuhúsnæðum. „Hönnunarstofurnar eru mikið að vinna í eldri húsum sem þarf að endurbæta og fasteignafélagið í atvinnuhúsnæðum. Við fáum þá nýjar teikningar og smíðum eftir þeim en oft á tíðum fá hönnuðir líka álit okkar varðandi sniðugar lausnir enda gott samstarf ákaflega mikilvægt“, segir Heiðar. Breki bætir þá við að þeir hafi líka smíðað hátt í 200 náttborð sem eru seld hjá Vogue og eru ákaflega vinsæl en Heiðar segir að honum finnist annars ákaflega gaman að gera eitthvað sem hann hafi ekki gert áður. „Mér finnst frábært að fá ögrandi verkefni og láta það heppnast þó maður þurfi stundum hálfpartinn að finna upp hjólið.“
Miklar tískusveiflur
Þegar kemur að innréttingum eru þeir félagar sammála um að þar séu miklar tískusveiflur. „Þegar við byrjuðum var allt hvítt eða eik, síðan varð alltaf ljósgrátt en í dag eru frontar orðnir dekkri“, segir Heiðar. Breki segir að efnisval gangi einfaldlega í hringi, hvítar háglans innréttingar séu alveg dottnar út núna en hann spáir því að þær komi örugglega aftur eftir sjö til átta ár. Þá sé plastlagt efni meira að ryðja sér til rúms heldur en spónlagt þar sem það sé mun endingarbetra.
Þó efnisvalið breytist þá er handverkið oft svipað og þeir segja að vélarnar þeirra endist vel. Nýverið
fjárfestu þeir þó í stórum tölvustýrðum yfirfræsara sem leysir nokkrar gamlar af hólmi. „Það er helst að það komi uppfærslur þegar kemur að skúffukerfum, lömum, innvolsum og efnisúrvali. Við fylgjumst því vel með þróun á þeim markaði“.
Áhrif Covid
Þeir segja að Covid hafi í raun haft lítil áhrif á starf þeirra enda lítill vinnustaður. Þó hafi þeir vissulega orðið varir við töluvert af efnisskorti. „Það var vöntun á plötum og timbri, framleiðslur úti í heimi stoppuðu hreinlega og litla Ísland var aftarlega á listanum þegar kom að afgreiðslu pantana“, segir Breki og það hafi því oft verið mikil seinkunn á verkum og sé í raun enn og þeir sjá ekki endilega fyrir endann á því. „Við erum því farnir að panta inn efni miklu fyrr en áður, þurfum að hugsa vel fram í tímann og vera skipulagðir“, segir Heiðar.
Kaplakrikinn í uppáhaldi
Heiðar er Hafnfirðingur, uppalinn í bænum og vill hvergi annars staðar búa. Aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann strax að það sé öll sagan, þar á meðal fallegur miðbær en hér sé líka allt afar fjölskylduvænt og rólegt. Þegar hann er beðinn um að nefna uppáhaldsstaðinn sinn í bænum stendur ekki á svari. „Kaplakrikinn en þaðan á ég margar góðar minningar og mæti reglulega á leiki“.
Breki býr í Reykjavík, keyrir alltaf á móti umferðinni á leið til vinnu og kann vel við sig í Hafnarfirðinum. „Þetta er bær, hér eru barir og kaffihús og miðbærinn og höfnin eru mjög sjarmerandi“.
Bjór og píla
Þegar þeir félagarnir eru ekki að smíða þá brugga þeir gjarnan saman bjór og spila pílu. „Við erum fjórir saman að brugga og pílast og stofnuðum Dart Brewery á síðasta ári og erum að gera ýmsar tilraunir í bjórgerð“.
Breki segist líka vera forfallinn veiðimaður, stundi stangveiði á sumrin og skotveiði á veturna. Heiðar
er meira í boltanum, spilar bumbubolta einu sinni í viku og fylgist vel með liðunum sínum FH og
Tottenham.
Sjónlínan
Í Sjónlínunni á Strandgötunni er sérstök áhersla lögð á gæði en þar hefur einnig verið unnið frumkvöðlastarf í því að klæðskerasníða margskipt gler.
Við hittum hjónin og eigendur Sjónlínunnar Kristínu Dóru Sigurjónsdóttur (Dóra) og Pétur Óskarsson til að kynnast rekstrinum.
Í Sjónlínunni á Strandgötunni er sérstök áhersla lögð á gæði en þar hefur einnig verið unnið frumkvöðlastarf í því að klæðskerasníða margskipt gler.
Við hittum hjónin og eigendur Sjónlínunnar Kristínu Dóru Sigurjónsdóttur (Dóra) og Pétur Óskarsson til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Í Sjónlínunni hefur verið unnið frumkvöðlastarf í því að klæðskerasníða margskipt gler.
Gler ekki sama og gler
Sjónlínan opnaði þann 1. nóvember árið 2007 og hefur allt frá upphafi verið á Strandgötu 39 en Dóra og Pétur voru strax harðákveðin í því að verslunin yrði að vera í Hafnarfirði, þeirra heimabæ. Þau bjuggu þó til fjölda ára í Þýskalandi og þar lærði Dóra sjóntækjafræði og starfaði í greininni. „Ég öðlaðist mikla og dýramæta reynslu í Þýskalandi sem er ákaflega kröfuharður markaður þegar kemur að gleraugum“, segir Dóra og ítrekar að gler séu ekki bara gler og það geti verið afar mikill gæðamunur þar á. Pétur segir að þeim hafi því fundist vera tækifæri á markaði fyrir gleraugnaverslun sem leggur sérstaklega mikla áherslu á gæði. Dóra er með fagþekkinguna og stendur daglega vaktina en Pétur sér um markaðsmál, fjármál, innflutning og fleira sem til fellur.
Fullkominn tækjabúnaður
Sjónlínan hefur yfir að ráða fullkomnum tækjabúnaði til sjónmælinga. Dóra sjónmælir viðskiptavini, aðstoðar þá við að velja umgjörð og að ákveða hvaða gler passi fyrir viðkomandi. Glerin koma öll frá Þýskalandi en Dóra sker þau í umgjarðirnar og stillir gleraugun á andlit hvers og eins. „Dagarnir eru mjög mismunandi, stundum er ég mikið í því að sjónmæla, aðra daga á verkstæðinu að skera gler eða gera við en stundum er mest að gera fram í búð“, segir Dóra.
Klæðskerasníða margskipt gler
Þegar kemur að margskiptum glerjum er að ýmsu að huga og Sjónlínan er með sérstakt 3D tæki til að gera mikilvægar mælingar. „Við erum frumkvöðlar í því að klæðskerasníða margskipt gler hér á landi“, segir Pétur en nauðsynlegt sé að vita hvernig andlitslag viðkomandi hefur og við hvað hann starfar. „Atvinnubílstjórar, skurðlæknar eða fólk sem vinnur við tölvu þarf sem dæmi mismunandi gler enda aðstæður þeirra afar frábrugðnar“.
Dóra segir að fyrstu árin hafi fólk mikið vera að koma til hennar sem var búið að upplifa vandræði með margskiptu gleraugun sín. „Við leystum það vandamál og það spurðist greinilega út. Það hefur því margoft gerst að fleiri en einn frá einhverjum vinnustað komi til mín eftir að hafa heyrt af gæðum glerjanna okkar sem og þjónustu“.
Mikil framþróun
Aðspurð segja þau hjónin að í þessum bransa sé ákaflega mikil framþróun. „Það eru hreinlega lífsgæði að vera með góð gleraugu og sem betur fer gerast reglulega einhver verkfræðiundur“, segir Pétur og brosir. Hann á þá við að gleraugu sé orðin mun léttari, dökknandi glerin orðin betri, glampavörn miklu betri og bláljósafilter orðinn hluti af góðum glerjum í dag.
Sumir með sparigleraugu
Hafnfirðingar eru vissulega stór hluti viðskiptavina Sjónlínunnar en þangað kemur einnig fólk víða að. „Við eigum sem dæmi marga viðskiptavini utan af landsbyggðinni og oft eru það heilu fjölskyldunnar sem koma til okkar“, segir Dóra en margir hafa verið í viðskiptum við Sjónlínuna allt frá upphafi.
Dóra segir annars mjög mismunandi hversu lengi fólk eigi gleraugun sín. „Stundum breytist sjónin og þá þarf að skipta, sumir fá þá bara ný gler meðan aðrir velja einnig nýja umgjörð. Það færist líka í aukana að fólk eigi gleraugu til skiptanna, eiga þá kannski ein sparigleraugu“, segir hún og brosir.
Vintage hornið
Í versluninni má finna svokallað vintage horn en þar eru ónotaðar gamlar umgjarðir frá um 1960 til 1985 keyptar af gömlu lagerum í Þýskalandi. „Þetta byrjaði mjög smátt sem nokkurs konar áhugamál hjá mér að finna gamlar umgjarðir. Við vorum með þrjár í upphafi en núna eru þær hátt í 100“, segir Dóra. Pétur segir að hann kalli þetta oft popparahornið enda sé það sérstaklega vinsælt meðal tónlistarmanna en einnig ýmissa listamanna og ungs fólks.
Áhrif Covid
Heimsfaraldurinn hafði vissulega einhver áhrif á rekstur Sjónlínunnar. Versluninni var lokað í nokkrar vikur í fyrstu bylgjunni en aðaláhrifin tengdust frekar lengri afhendingartíma vara. „Það hægði mikið á ýmsum ferlum, afgreiðsla sumra vara stoppaði algerlega þar sem eitthvað efni vantaði í framleiðsluna eða fyrirtæki voru sett í sóttkví“, segir Pétur og ítrekar að í þessum geira sé mikið handsmíðað og fólk gat því lítið unnið heima við eins og í öðrum geirum.
Annað sem breyttist var að Dóra og Pétur gátu ekki farið á vörusýningar sem þau sækja reglulega í París, München eða Mílanó og fengu heldur enga heimsókn frá þýska fyrirtækinu Rodenstock, þaðan sem þau fá glerin og mælingartæki, til að fá fræðslu um það nýjasta í bransanum.
Lognið og Kugelbake
Pétur er Hafnfirðingur, alinn upp á Sléttuhrauninu svo í Norðurbænum. Í dag búa þau hjónin í miðbænum, einungis nokkrum metrum frá verslunninni og kunna ákaflega vel við sig. „Það er alltaf logn í miðbænum og hér er gott að ala upp börn“, segir Pétur og bætir við að honum þyki líka vænt um mannlífið, finnist gott að þekkja marga sem hér búa og nálægðin við náttúruna sé líka verðmætt.
Strandlengjan er einnig í uppáhaldi en Dóra segist ganga þar á á hverjum degi með hundinn og þá eigi Kugelbake, innsiglingamerkið frá vinabænum Cuxhaven, sérstakan stað í huga fjölskyldunnar en þau heimsóttu innsiglingamerkið þegar þau fóru til Cuxhaven fyrir nokkrum árum. „Annars elska ég líka Strandgötuna og er ákaflega ánægð með hversu margar flottar búðir hafa opnað hér og mannlífið alltaf að verða meira og betra“, segir Dóra.
Göngur og skíði
Þegar Dóra og Pétur eru ekki í vinnunni þá fara þau gjarnan í fjallgöngur eða á skíði. „Við förum gjarnan öll fjölskyldan saman á skíði sem er hrikalega skemmtilegt en svo erum við líka mikið fyrir göngur“, segir Dóra. Hún segist þá oft vera með hundinn með sér og hlusti gjarnan á eitthvað skemmtilegt og segir að Storytel sé í raun algjör bylting fyrir göngufólk og hún taki ósjaldan aukahring til að klára kafla eða einhverja frásögn.
Pétur gengur um Hafnarfjörðinn á hverjum laugardagsmorgni með félögum sínum úr Flensborg. „Við hittumst alltaf við Hafnarfjarðarkirkju, göngum um um bæinn og endum svo á kaffihúsi og ráðum heimsmálin“, segir Pétur en um er að ræða um átta manna hóp sem hefur haft þennan háttinn á í hverri viku frá árinu 2003.
VON mathús & bar
Á VON mathús & bar er lögð áhersla á ferskt íslenskt hráefni og notalega stemmningu. Staðurinn á marga trausta viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur.
Á VON mathús & bar er lögð áhersla á ferskt íslenskt hráefni og notalega stemmningu. Staðurinn á marga trausta viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur.
Við hittum eigendurna og hjónin Einar Hjaltason og Kristjönu Þuru Bergþórsdóttur sem eru að eigin sögn afar dugleg að hafnarfjarða.
Fyrirtæki vikunnar
Á VON mathús & bar er lögð áhersla á ferskt íslenskt hráefni og notalega stemmningu.
Vildu bæta flóruna í bænum
Rétt fyrir jólin árið 2015, nánar tiltekið þann 18. desember, opnaði VON mathús & bar í gamla Drafnarhúsinu við Strandgötuna. Einar og Kristjana voru þá svo til nýflutt í Hafnarfjörðinn, með lítið barn og vildu gjarnan vinna hér og skapa sér sína eigin atvinnu. „Pælingin var líka að bæta við í flóruna í Hafnarfirði en okkur fannst vanta þessa þjónustu, það er gæði í mat og drykk í casual umhverfi,“ segir Einar og Kristjana bætir við að það hafi nú samt margir haft litla trú á þessu enda staðsetning talin vera lykilatriði í veitingageiranum.
Þegar ákvörðunin var tekin gekk allt hratt fyrir sig. „Við hættum í okkar vinnu í september, fengum húsnæðið afhent í nóvember og vorum búin að opna í desember.“ Þau smíðuðu og innréttuðu allan staðinn sjálf með góðri aðstoð fjölskyldu og vina. „Mamma mín er stílisti og kom með margar góðar hugmyndir og síðan fengum við nokkra skemmtilega muni gefna meðal annars úr skúrnum frá tengdapabba,“ segir Einar. Í upphafi var staðurinn mun hrárri en hann er í dag en hægt og bítandi hafa þau verið að gera ýmsar breytingar.
Frábærar viðtökur
Hafnfirðingar voru greinilega tilbúnir í stað af þessu tagi þar sem viðtökurnar voru frábærar. „Fyrsta árið var bara algjört dúndur, allir eitthvað svo spenntir og þyrstir,“ segir Kristjana og það hljóðnaði því fljótt í efasemdarmönnum. Einar segir að það sé líka að verða töluverð breyting í veitingageiranum og fleiri að átta sig á því að hægt er að vera með góða staði á öðrum stöðum en í miðbæ Reykjavíkur. „Það hafa nokkrir hverfisstaðir opnað að undanförnu og við ákaflega ánægð með þá þróun.“
Þau eru einnig ákaflega ánægð með að það séu komnir fleiri góðir veitingastaðir hér í Hafnarfirði, sem og öflugt starf í Bæjarbíó og Gaflaraleikhúsinu. „Hafnarfjörður er orðinn áfangastaður þegar kemur að mat og afþreyingu, sem er ótrúlega jákvætt.“ Einar og Kristjana eru því dugleg að sækja aðra staði í bænum, voru sem dæmi nýkomin af Kænunni þegar viðtalið var tekið og segjast fara reglulega á Víkingakránna með vinum og börnum þeirra.
Breytilegur matseðill
Aðspurð um hver sé sérstaða VON mathúss horfa þau á hvort annað og segja að þetta sé alltaf erfið spurning. „Við notum aðallega íslenskt hráefni og erum mikið með fisk og grænmeti en grunnhugmyndin er í raun ferskur og einfaldur matseðill,“ segir Einar og bætir við að þá sé hádegisseðillinn alltaf breytilegur, sé í raun aldrei eins og breytist frá degi til dags.
„Við erum þreytt á því að vera of formleg,“ segir Kristjana og þau breyti því líka reglulega kvöldmatseðlinum, fái stundum bara leið á réttum og hendi þeim þá bara út og leyfi staðnum að þróast, eldi gjarnan það sem þeim finnist gott. Einar tekur undir þetta og segir að þau séu núna sem dæmi með mikið af réttum undir ítölskum áhrifum enda elski þau ítalskan mat.
„Við vinnum líka mikið með grænmeti, erum bæði með vegan- og grænmetisrétti sem eru mjög vinsælir, sérstaklega hjá ungu fólki en aldurshópurinn sem kemur til okkar er orðin mun breiðari en hann var í upphafi,“ segir Kristjana.
Fastagestirnir algjört gull
VON mathús á mjög mikið af fastagestum, fólk sem kemur jafnvel tvisvar til þrisvar í viku í hádeginu og hefur gert í nokkur ár. „Fastagestirnir okkar eru algjört gull, við værum ekkert án þeirra en þetta eru mismunandi hópar,“ segir Kristjana og nefnir þá reglulegu hádegisgestina, en síðan eru það vinkonuhópar sem koma til að borða og drekka, svo bjórhópar sem fá nokkra ískalda af krana og eitthvað smáræðis með því.
Þau segja að meirihluti gesta séu vissulega Hafnfirðingar og þetta því hverfisstaður en til þeirra komi líka fólk lengra að. „Hafnfirðingar eru svo miklir pepparar og fá gjarnan vini sína til að koma hingað sem er frábært,“ segir Einar.
Ófeimin við breytingar
Einar og Kristjana standa vaktina mjög mikið sjálf og eru því ekki með marga starfsmenn. Þau segja að þessa sé vissulega ekki alltaf dans á rósum, rekstrarkostnaður hafi aukist mikið að undanförnu og það sé oft erfitt að slíta bilið á milli vinnu og heimilis. „Þetta er samt bara lífstíll og okkur þykir hann skemmtilegur. Við viljum hitta viðskiptavini okkar og spjalla, og þeir vilja hitta okkur.“
Þau segjast þó ófeiminn við að gera breytingar til að láta allt ganga upp. „Við erum sem dæmi alltaf með lokað á sunnudögum og mánudögum, eitthvað sem sumum fannst skrýtið í upphafi, en við þurfum bara okkar frí,“ segir Kristjana og bætir við að þau eigi líka gott bakland sem aðstoði þau.
Notaleg stemmning
Á VON er lagt upp með að hafa gott og afslappað andrúmsloft. „Staðurinn er ekki stór, eldhúsið er opið en hér er á sama tíma oftast notaleg og góð stemmning,“ segir Einar og Kristjana bætir við að það sé orðið afar vinsælt að koma hingað og deila nokkrum smáréttum og þá myndist einhver skemmtileg stemmning. Þau segja jafnframt að það sé mikilvægt að starfsfólkið í þjónustunni nái að lesa salinn rétt og velji t.d. mismunandi tónlist eftir því hvernig gestasamsetningin sé hverju sinni.
Áhrif Covid
Covid faraldurinn hafði vissulega mikil áhrif á rekstur mathússins. „Þetta var mjög skrýtinn og krefjandi tími og við þurftum að aðlaga okkur dag frá degi og vera útsjónarsöm,“ segir Kristjana en þau lokuðu staðnum í upphafi faraldursins í einn mánuð, eftir það tók við um sex vikna tímabil þar sem þau voru með mismunandi útfærslur af take-away. Einar bætir við að allar takmarkanir hafi snert þeirra rekstur, svo sem opnunartakmarkanir og 2ja metra reglan, og því hafi þau oft þurft að reikna dæmið út dag fyrir dag s.s. hvort það borgi sig að geta bara tekið á móti tíu gestum í einu.
Þau sjá þó eitt jákvætt við faraldurinn en það er að hegðunarmynstur fólks hefur breyst og það nú opnara fyrir því að koma á öðrum tíma. „Fólk kemur núna fyrr út að borða, sem dæmi kl. 17 á laugardögum, eitthvað sem er mjög gott fyrir veitingahúsamenninguna á Íslandi.“
Dugleg að hafnarfjarða
Kristjana er fædd og uppalin í Hafnarfirði en Einar flutti hingað árið 2014 og fann um leið að hér var afar góður andi. „Það er einhver sérstakur bæjarbragur hér, Hafnfirðingar styðja hvern annan og vilja að öðrum gangi vel, hugsa um hagsmuni annarra,“ segir Einar og bætir við að þau tvö séu einmitt mjög dugleg í að hafnarfjarða og hafi gert undanfarin ár, og á þá við að þau peppi bæinn gjarnan upp. „Suma daga hafnarfjarða ég næstum því yfir mig,“ segir Kristjana og hlær en það sem henni finnst best við bæinn sinn er í raun miðbærinn og höfnin, lífið í kringum siglingaklúbbinn sé skemmtilegt og Hellisgerði er algjör perla.
Þá er upplandið þeim hjónum afar kært. Þau ganga reglulega á Helgarfellið, njóta sín við Hvaleyrarvatnið og fara gjarnan í skógræktina.
Leirdúfur og draugasögur
Í frítíma sínum segjast Kristjana og Einar gjarnan ferðast enda mikilvægt að komast til útlanda, prófa veitingastaði og fá hugmyndir. „Við gerðum mjög mikið af því að fara út fyrir Covid en síðustu tvö árin höfum við ferðast meira hér innanlands.“
Einar segist annars skjóta leirdúfur, sem sé hrikalega skemmtilegt og krefjist mikillar einbeitingar og þá fari hann stundum á veiðar. Kristjana stundar yoga og nýtur þess að vera með fjölskyldu og vinum en elski líka að hlusta á draugasögur og það sé í raun hennar hugleiðsla.
Ramba
Ramba, netverslunin með alhafnfirska nafnið, selur hágæða hönnunar- og heimilisvörur. Við hittum eigandann Guðný Stefánsdóttur til að kynnast rekstrinum.
Ramba, netverslunin með alhafnfirska nafnið, selur hágæða hönnunar- og heimilisvörur. Við hittum eigandann Guðný Stefánsdóttur til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Ramba, netverslunin með alhafnfirska nafnið, selur hágæða hönnunar- og heimilisvörur.
Alin upp í búðarbransanum
Ramba varð til snemma á síðasta ári en Guðný segist í raun alltaf hafa vitað að hún myndi opna einhvers konar verslun, spurningin var ekki hvort heldur hvernig. „Ég er alin upp í búðarbransanum, mamma átti skóbúð og ég hef í gegnum árin unnið í ýmsum verslunum. Þrátt fyrir að hafa menntað mig í ferðamálafræði þá togaði hönnun og verslunarbransinn alltaf í mig“, segir Guðný sem tók loksins skrefið ásamt manni sínum og vinahjónum og ákveðið var að leggja áherslu á sérvaldar hágæða hönnunar- og heimilisvörur.
Fíngerðu plastglösin slógu í gegn
Í netversluninni má finna matarstell, skálar, vasa, kerti, ilmstangir, hátalara, lampa, viðarbretti, hillur, spegla, rúmföt, myndir og margt fleira. „Við erum mikið með vörur frá Danmörku og Svíþjóð en einnig töluvert af íslenskri hönnun sem mér þykir einstaklega skemmtilegt enda myndast þá góð persónuleg tengsl við hönnuðina.“ Ramba selur meðal annars vörur frá hafnfirska hönnuðinum Önnu Þórunni og frá íslensku merkjunum IHanna, Pastel Paper og Nostr.
Þekktasta varan þeirra er að sögn Guðnýjar Picnic glösin, fíngerð og falleg plastglös á fæti sem henta vel í útilegur og í heita pottinn. „Þetta er í raun heil lína og frábær borðbúnaður fyrir útileguna sem sló strax í gegn og kom okkur í raun á kortið.“
Lítið fjölskyldufyrirtæki
Í dag sér Guðný alfarið um reksturinn en fjölskyldumeðlimir hjálpa þó oft til enda er netverslunin staðsett á heimili þeirra í Grænukinn. Eiginmaðurinn, Gestur Jónsson, keyrir gjarnan út pantanir og tíu ára sonurinn hefur ósjaldan afhent viðskiptavinum vörur. „Við erum líka farin að leigja bílskúr af einum nágrannanum og önnur nágrannakona hefur afhent vörur fyrir okkur ef við erum út úr bænum“, segir Guðný og greinilegt að allir hjálpist að í Grænukinninni en þar bjó Guðný einnig sem barn og keypti húsið af afa sínum og ömmu.
Guðný tekur fram að þó hún sjái um flest allt í tengslum við reksturinn þá geti enginn rekið fyrirtæki aleinn, vinir og vandamenn séu ákaflega mikilvægir. Í hennar tilviki er nauðsynlegt að fá aðstoð við að keyra út, nú eða fá álit við vöruval og nýlega hafi vinkona hennar sem dæmi komið með henni á vörusýningu í París.
Þjónustulund mikilvæg
Eftir að hafa starfað í verslunum í mörg ár segist Guðný vita hvað fólk vill og hvað ekki. Góð þjónusta er lykillinn og hún leggur mikið upp úr því að veita hana. „Það er hægt að skila öllum vörum hjá okkur og við endurgreiðum ef fólk vill ekki inneignarnótu, eitthvað sem er ákaflega mikilvægt í netverslun eins og þessari.“ Þá fylgja lavenderstrá með hverri sendingu til að auka enn á gleðina við að opna pakkann og honum fylgir þá líka góð lykt.
Alhafnfirskt nafn
Aðspurð um nafnið Ramba hlær Guðný og segir að það sé jú alhafnfirskt og hugmyndin að nafngiftinni hafi komið nokkuð snemma í ferlinu. „Ég og vinkona mín, sem var með mér þessu í upphafi, erum báðar Hafnfirðingar og að ramba var hinn eðlilegasti hlutur fyrir okkur. Eiginmenn okkar skyldu hins vegar ekkert í þessu orði og notuðu frekar að vega salt. Þetta varð því einhvern veginn alltaf orð sem okkur fannst fyndið og notuðum óspart. Verandi hafnfirsk verslun fannst okkur nafnið því ákaflega viðeigandi.“
Dreymir um að opna verslun
Draumurinn er að opna verslun í miðbæ Hafnarfjarðar en það er að sögn Guðnýjar hægara sagt en gert að finna húsnæði. „Mig langar að vera með verslun þar sem fólk á göngu droppar inn og þá væri frábært að geta sjálf labbað í vinnuna,“ segir Guðný sem er líka fullviss um að Hafnfirðingar styrki Hafnfirðinga. „Við erum lið sem styrkir hvort annað.“
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðný að þau hafi opnað í miðjum faraldri og þekki í raun ekkert annað. Hún telur annars að áhrifin hafi í raun bara verið jákvæð fyrir Ramba. Fólk var mikið heima og skoðaði og keypti þá vörur á netinu. „Íslendingar lærðu líka að versla á netinu á þessum tíma, flestir áttuðu sig á því hversu þægilegt og auðvelt það er og margir farnir að nýta sér það í meira magni í dag.“
Guðný nefnir einnig að á verstu Covid tímunum hafi fólk ekki viljað fara neitt og þá hafi verið gott að vera með fría heimsendingu. „Við afhentum allar vörur með grímu og hanska og stundum skildum við vörur eftir fyrir utan hjá fólki.“ Fyrsta hálfa árið var öll heimsending frí til að hjálpa versluninni að koma sér á kortið en í dag kostar hún ekkert ef keypt er fyrir meira en tíu þúsund krónur. „Fólk bætir þá stundum einhverju í pöntunina til að ná í þá upphæð en aðrir koma hingað til okkar að sækja vörur.“
Lækurinn í uppáhaldi
Guðný er Hafnfirðingur og hefur búið hér mest alla ævi. „Mér finnst miðbærinn orðinn svo æðislegur og er svo þakklát verslunareigendum sem hafa lagt sig fram við að vekja athygli á bænum okkar og búið til einstaka og notalega stemmningu,“ segir Guðný og bætir við að hún reyni ávallt að sækja vörur og þjónustu í Hafnarfirði.
Ef hún ætti að nefna einhvern uppáhaldsstað í bænum þá yrði það lækurinn, þangað sem hún fer mikið með börnin sín en jafnframt er henni mikilvægt að búa örstutt frá einstakri náttúru þar sem ríkir algjör friður.
Fjallgöngur og hjól
Fjallgöngur og samverustundir með fjölskyldunni gefa Guðný ákaflega mikið. „Ég fer gjarnan í fjallgöngu ef ég þarf að hreinsa hugann en hef einnig farið í lengri og meira krefjandi göngur. Gekk t.d. á Hvannadalshnjúk fyrir nokkrum árum.“ Hún segir að í undirbúningsferlinu fyrir Hnjúkinn hafi Helgafell verið ákaflega góður æfingastaður og hún farið þangað fjórum sinnum í viku.
Fjölskyldan er þá einnig töluvert á hjólum en Gestur, maðurinn hennar er Íslandsmeistari í fjallahjólabruni. „Við erum bara mikið útiverufólk og viljum gjarnan vera nálægt fjöllum og ferðuðumst sem dæmi um landið í sumar í 29 daga með tjaldvagninn í eftirdragi“, segir Guðný brosandi að lokum.
Berserkir axarkast
Hjá Berserkjum axarkasti á Hjallahrauninu kemur fólk saman til að kasta öxum sem er að sögn eigenda góð blanda af keppni og vitleysu.
Við hittum eigendurna Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur og Elvar Ólafsson til að kynnast rekstrinum.
Hjá Berserkjum axarkasti á Hjallahrauninu kemur fólk saman til að kasta öxum sem er að sögn eigenda góð blanda af keppni og vitleysu.
Við hittum eigendurna Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur og Elvar Ólafsson til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Berserkjum axarkasti kemur fólk saman til að kasta öxum sem er góð blanda af keppni og vitleysu.
Kynntust axarkasti í Kanada og Nýja-Sjálandi
Starfsemi Berserkja axarkasts hófst formlega þann 10. maí árið 2018 þegar tekið var á móti fyrsta hópnum á Hjallahrauninu. Undirbúningurinn hafði þá staðið yfir í nokkra mánuði, finna þurfti húsnæði, innrétta það og ýmislegt fleira sem felst í því að opna fyrirtæki. „Við Elvar kynntumst bæði axarkasti árið 2017 en reyndar í sitthvorum heimshlutanum, hann í Kanada en ég í Nýja-Sjálandi,“ segir Helga en þau kolféllu strax fyrir þessu þá og tóku fljótlega ákvörðun um að opna svona stað saman. Þess má geta að þau eru tengd fjölskylduböndum en Rannveig systir Helgu er sambýliskona Elvars og situr jafnframt í stjórn fyrirtækisins.
„Í undirbúningsferlinu fórum við líka til London í skoðunar- og æfingarferð, sem kom sér ákaflega vel,“ segir Elvar en þá hafa þau jafnframt lært heilmikið um axarkast í gegnum YouTube og eru í nokkrum alþjóðlegum axarkastshópum á samfélagsmiðlum.
Axarkast fyrir alla
Það geta allir stundað axarkast að sögn Elvars og Helgu. „Við erum með 16 ára aldurstakmark en yngri börn geta komið í fylgd með fullorðnum,“ segir Helga og Elvar bætir við að hingað hafi komið eldri maður í göngugrind en einnig átta ára barn og báðum gengið vel, þó það sé ekki sjálfgefið.
Íslendingar eru í miklum meirihluta viðskiptavina, þó nokkrir túristar hafi vissulega komið til þeirra. „Hingað koma oft fyrirtæki í hópefli, þá er vinsælt að stoppa hjá okkur í steggjunum og gæsunum en hingað koma líka vinahópar, fjölskyldur eða fólk á stefnumóti,“ segir Elvar.
Kennsla og keppni
Elvar og Helga voru staðráðin í því frá upphafi að allir fengju kennslu þegar þeir kæmu til þeirra. „Við réttum fólki ekki bara exi og hleypum þeim af stað, heldur er ávallt starfsmaður með hverjum hóp sem kennir grundvallaratriðin og fylgist með og leiðbeinir,“ segir Helga en staðsetning, kraftur og snúningur skipta mestu máli í axarkasti.
Þá er ávallt sett upp mót fyrir hópa til að gera þetta enn skemmtilegra. „Axarkast er upplifun en jafnframt góð blanda af keppni og vitleysu,“ segir Elvar og brosir.
Yfir 5000 heimsóknir
Viðtökurnar voru strax í upphafi nokkuð góðar og reksturinn var kominn á fljúgandi siglingu þegar Covid skall á. „Við höfum fengið rúmlega 5000 heimsóknir hingað á Hjallahraunið frá opnun,“ segir Helga en Elvar bætir við að þá hafi líka mjög margir farið í axarkast á þeirra vegum utandyra.
Berserkir eiga nefnilega sex svokölluð ferðasett og geta boðið upp á axarkast utandyra á góðviðrisdögum. Þau hafa þá aðallega verið á Víðistaðatúni eða Hörðuvöllum hér í Hafnarfirði en einnig ferðast með það í hinar ýmsu sveitir. „Það er oft gott að vera utandyra ef hóparnir eru stórir,“ segir Elvar en í húsnæðinu á Hjallahrauni taka þau í mesta lagi 24 inn í einu.
Æfingar og mót
Þann 26. september næstkomandi verður haldið haustmót Berserkja og öllum velkomið að taka þátt, bæði byrjendum og þeim sem hafa verið að kasta öxum í lengri tíma. „Við höfum haldið fimm mót hingað til og ávallt verið ótrúlega gaman,“ segir Helga og bætir við að hluti mótsgjaldsins sé að fá að mæta á nokkrar æfingar á næstu dögum. Þau eiga von á því að fyrrum keppendur taki þátt en vonast líka til að sjá ný andlit. „Við viljum gjarnan vera með æfingahóp sem kæmi hingað reglulega og myndum þá vera enn oftar með mót,“ segir Elvar en fyrir Covid voru nokkrir farnir að æfa en það hefur því miður ekki enn farið aftur á stað. Þau eru á því að þetta sé frábært hjónasport en einnig fyrir vini, bræður, systur eða frændsystkini.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segja þau strax að hann hafi verið töluverður. „Við þurftum tvisvar að loka. Breyttum opnunartíma og hættum að leyfa fólki að koma inn af götunni, núna þarf því alltaf að panta tíma fyrirfram til að við getum passað upp á fjöldann og fjarlægðir,“ segir Helga og Elvar bætir við að Covid hafi alls ekki verið gott fyrir hópefli. Þau segjast þó hafa verið með nokkuð af minni hópum þá sérstaklega fjölskyldum sem voru hvort sem er saman í búbblu.
Núna er hins vegar allt komið aftur á fullt enda þörfin orðin mikil og vinnustaðir duglegir að skipuleggja hópefli. „Það var reyndar líka brjálað að gera síðasta sumar og við höfðum þá varla undan,“ segir Elvar en besti tími ársins í axarkastinu er vanalega á vorin og haustin.
Vel tekið í Hafnarfirði
Elvar hefur búið í Hafnarfirði í mörg ár og kann ákaflega vel við sig hér og segir að Norðurbærinn sé sinn staður. „Víðistaðatún er í nokkru uppáhaldi, gönguleiðirnar í hrauninu, frisbígolfið og aparólan.“
Helga býr ekki hér en segir að hún kunni ákaflega vel við bæinn og hefur góða reynslu af því að vera hér í rekstri. „Bærinn hefur tekið okkur afar vel og þá sérstaklega þegar kemur að afnotum af grasssvæðunum.“ Helga segist líka alltaf vera að átta sig á því betur og betur hvað þetta er skemmtilegur bær, kann vel við Strandgötuna og fari gjarnan á tónleika í Bæjarbíó og þá komi Elvar oft með.
Borðspil og bogfimi
Elvar og Helga eiga töluvert af áhugamálum. „Fótbolti, badminton, borðspil og síðan er ég byrjaður að spila á bassa,“ segir Elvar og á þá við bæði borðspil af flóknari gerðinni en einnig fjölskylduspil. „Ég syng og stunda bogfimi, samt ekki á sama tíma,“ segir Helga og hlær en hún hefur verið í kórum í tæp 20 ár. Elvar skýtur því inn í að lokum að Helga sé margfaldur Íslandsmeistari í bogfimi sem sé aldeilis fínn grunnur fyrir axarkastið.
Dalakofinn
Dalakofinn á Linnetstíg er ein elsta starfandi kvenfataverslun landsins. Við hittum eigendurna og systurnar Sjöfn og Guðrúnu Sæmundsdætur til að kynnast rekstrinum.
Dalakofinn á Linnetstíg er ein elsta starfandi kvenfataverslun landsins. Við hittum eigendurna og systurnar Sjöfn og Guðrúnu Sæmundsdætur til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Dalakofinn á Linnetstíg er ein elsta starfandi kvenfataverslun landsins.
Aldar upp við verslunarrekstur
Sjöfn og Guðrún hafa í raun verið tengdar verslunarrekstri alla sína tíð. Foreldrar þeirra, Guðlaug Karlsdóttir og Sæmundur Þórðarson, opnuðu kvenfataverslunina Laufið í miðbæ Reykjavíkur árið 1954 og þar unnu þær stundum sem litlar stelpur, sérstaklega fyrir jólin. Sögu Dalakofans má hins vegar rekja aftur til ársins 1975 þegar pabbi þeirra opnaði verslunina á Linnetstíg 1. „Mamma og pabbi ákváðu þarna að þau vildu ekki lengur vinna saman og betra væri að vera með sitthvora búðina“, segir Guðrún og bætir við pabbi hennar hafi valið nafnið á búðina sem hafi, þrátt fyrir vera alltaf ákaflega fínn í tauinu með hatt og yfirvaraskegg, verið óttalegur sveitakarl sem vildi eiga sinn Dalakofa.
Systurnar tóku alfarið yfir reksturinn árið 1992, eftir að hafa verið þar með annan fótinn í mörg ár, en þá var pabbi þeirra farinn að nálgast níræðisaldurinn og loksins tilbúinn að hætta. Nokkrum árum seinna þegar verslunarmiðstöðin Fjörðurinn opnaði ákváðu þær að flytja sig um set og voru þar allt til ársins 2016 þegar þær fluttu aftur á Linnetstíginn, í þetta sinn í hús númer tvö. „Í þessum flutningum okkar höfum við samt aldrei þurft að panta bíl heldur bara labbað með kassana yfir“, segir Sjöfn og brosir.
Nýjar vörur í hverri viku
Eftir öll þessi ár í verslunarrekstri segjast þær alltaf vera jafn spenntar þegar von er á nýjum vörum. Í dag koma sendingar oftast í hverri viku og þær fá aldrei mörg eintök af hverri flík. „Við leggjum upp úr því að hafa góðar vörur fyrir okkar viðskiptavini og vitum hvað okkar konur vilja,“ segir Guðrún en flestar vörurnar koma frá Danmörku, Ítalíu, Frakklandi og Bretlandi. Sjöfn segir að þær fari alla jafna tvisvar á ári á vörusýningar og hafa gert í fjölda mörg ár, annars vegar til Kaupmannahafnar og hins vegar til London.
Þær viðurkenna að vera alltaf hrifnastar af litríku sumarvörunum en það gangi þó ekki að versla bara það sem þeim sjálfum finnist flott heldur nauðsynlegt að hugsa til heildarinnar.
Áhugi er lykillinn
Viðskiptavinir Dalakofans eru allt frá 13 til 100 ára en stærsti hópurinn eru þó eldri konur sem hafa margar hverjar komið í verslunina í tugi ára. Lykillinn að velgengninni er að sögn Sjafnar númer eitt, tvö og þrjú að sýna viðskiptavininum áhuga og sinna honum. „Við vitum orðið hvaða stærðir sumar konur þurfa og hvernig smekk þær hafa og ósjaldan aðstoðað fólk við að finna eitthvað á mömmur sínar.“
Þær segjast líka hafa tengst mörgum afar vel í gegnum tíðina. „Það eru margar konur sem staldra lengi við hjá okkur, setjast jafnvel í sófann og fá kaffi enda leggjum við upp úr því að hafa notalegt hér“ segir Sjöfn og Guðrún bætir við að þær tárist því oft við að sjá dánartilkynningar en viti líka til þess að einhverjar hafi farið í himnaförina í dressi frá þeim.
Gera sér dagamun
Sjöfn segir að það sé aldrei leiðinlegt í vinnunni, þeim líði ákaflega vel í húsnæðinu á Linnetstígnum, eru með útsýni á alla kanta og sjá alltaf hvað er í gangi í bænum. „Við erum líka duglegar að sitja úti þegar veður leyfir og þá staldrar fólk oft við og spjallar.“ Þá segjast þær hafa gaman að því að gera sér dagamun, klæða sig sem dæmi alltaf í búning á öskudaginn og halda gjarnan afmælisveislur eða kaffiboð í versluninni. „45 ára afmælisveislan okkar, sem við héldum í mars síðastliðinn, heppnaðist einstaklega vel, við fengum Heiðar snyrtir og hingað komu ákaflega margir og gerðu sér glaðan dag“, segir Guðrún.
Áhrif Covid
Aðspurðar um áhrif Covid á reksturinn segja þær að fyrstu þrír mánuðirnir hafi verið mjög erfiðir. „Það kom enginn inn, við ákváðum samt að vera alltaf á vaktinni, styttum opnunartímann aðeins en lokuðum aldrei.“ Þegar vora tók og um sumarið var hins vegar mjög mikið að gera enda fólk ekki að fara til útlanda og þær segja að í raun hafi gengið afar vel síðan.
Á þessum tíma hafa þær þó ekki komist á vörusýningar erlendis eins og vanalega. „Við höfum því þurft að versla í gegnum WhatsApp sem gekk smá brösulega í byrjun en núna erum við orðnar ansi góðar í því“, segir Sjöfn og Guðrún bætir við að birgjarnir viti líka nokkurn veginn eftir því hverju þær eru að sækjast.
Systurnar ákváðu á þessum tíma að prófa að kaupa meira af kjólum fyrir yngri konur þar sem þær eldri voru ragari við að koma í búðina á tímabili. Það gekk ákaflega vel og því hefur nokkuð af nýjum hópi kvenna bæst í hópinn. „Við höfum líka verið duglegri að vekja athygli á vörunum okkar á samfélagsmiðlum og það skilar sér alltaf og við þá gjarnan að senda eitthvað út á land.“
Vesturbæjarvillingar
Sjöfn og Guðrún eru uppaldar í Hafnarfirði og fjölskyldan bjó alltaf í sama húsinu á Merkúrgötunni og þar búa þær systur í dag. „Við erum vesturbæjarvillingar,“ segir Guðrún og brosir og Sjöfn bætir við að þær vilji hvergi annar staðar vera en í Hafnarfirði, hér sé gott andrúmsloft og bæjarbragur. Hellisgerði og Hvaleyrarvatn eru í nokkru uppáhaldi og þær fara gjarnan í sundlaugarnar. „Guðrún fer alltaf í Suðurbæjarlaugina en ég fer líka í gömlu laugina á Herjólfsgötunni“, segir Sjöfn og nefnir einnig Víðistaðatúnið sem góðan stað til að fara með barnabörnin á.
Garðpartý með söng og hlátri
Þegar þær systur standa ekki vaktina í búðinni sinni njóta þær þess að vera með fjölskyldunni, fara í sund eða göngutúra og Guðrún hjólar um bæinn á rafhjóli. „Við erum líka með stóran og mikinn garð sem þarf að sinna en þar höldum við gjarnan garðpartý þar sem mikið er sungið og hlegið“, segja þær systur að lokum.
Yogahúsið
Mýkt og slökun einkennir flesta tímana í Yogahúsinu í St. Jó, sem er elsta jógastöð bæjarins.
Við hittum eigendurna Írisi Eiríksdóttur, Helgu Óskarsdóttur og Lindu Björk Holm til að kynnast rekstrinum.
Mýkt og slökun einkennir flesta tímana í Yogahúsinu í St. Jó, sem er elsta jógastöð bæjarins.
Við hittum eigendurna Írisi Eiríksdóttur, Helgu Óskarsdóttur og Lindu Björk Holm til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Mýkt og slökun einkennir flesta tímana í Yogahúsinu í St. Jó, sem er elsta jógastöð bæjarins.
Elsta jógastöð bæjarins
Sögu Yogahússins má rekja aftur til ársins 2011 en fyrstu tímarnir voru í raun haldnir í stofunni heima hjá Írisi en stuttu seinna fengu hún og þáverandi meðeigandi, Sigríður Erna, leigt húsnæði við Trönuhraun. „Ég held að við séum því elsta starfandi jógastöðin í Hafnarfirði,“ segir Íris og bætir við að það að opna eigin stöð hafi í raun bara verið hugdetta í lokaprófalestri í jógakennaranáminu og áður en hún vissi af var allt komið á fullt.
Húsnæðið í Trönuhrauni var að hennar sögn nokkuð óvenjulegt eða skemmtilega öðruvísi. „Það var útgerð sem átti húsið og við því í raun umkringd fiskikörum og villiköttum en þegar fólk opnaði hurðina inn til okkar tók á móti þeim nýr heimur, fallegur og notalegur. Þetta minnti mig því oft á einkennilegu staðina úti í heimi sem ég hef sótt jóga í, sem dæmi í New York.“
Þakklátar fyrir St. Jó
Í dag er Yogahúsið með aðsetur í Lífgæðasetrinu í St. Jó og Helga og Linda Björk, sem áður voru iðkendur, orðnar meðeigendur og komnar með ýmis jógakennararéttindi. „Við erum búnar að vera hér allt frá opnun haustið 2019 og okkur þykir vænt um að fá að vera í þessu fallega húsi. Umsóknarferlið var nokkuð strangt og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu en vorum sem betur fer valdar,“ segir Linda með bros á vör.
Þeim líður öllum vel í húsinu og bíða spenntar eftir því að framkvæmdum ljúki og þær geti flutt upp á efstu hæðina. Þar fá þær aðgang að stærri sal og betri aðstöðu sem eykur möguleika þeirra á enn víðari þjónustu tengdri vellíðan. „Við ætlum sem dæmi í samstarf við Parkinsonsamtökin þegar þau koma hingað í hús. Vera með mjúkt jóga og slökun fyrir þeirra skjólstæðinga sem og ekki síst aðstandendur,“ segir Helga sem er þakklát fyrir að vera hluti af þessu fallega samfélagi í hjarta Hafnarfjarðar.
Mýkt og slökun
Í flestum tímum hjá Yogahúsinu er áhersla á mýkt og slökun en samkvæmt þeim er fólk mikið að sækjast eftir streitulosun og leiðum til að hægja á. „Við höfum sem dæmi verið með vinsælt námskeið um örmögnun og streitu og þangað hafa margir komið í gegnum Virk,“ segir Íris. Haustdagskrá þeirra hefst annars á næstu dögum og þar á meðal eru tímar sem kallast Jógaflæði, Jóga Nidra, meðgöngujóga, mömmujóga og jóga í vatni.
„Við erum einnig með Flot í kyrrð sem er í raun nokkurs konar hliðarafurð Yogahússins,“ segir Helga. Þar er á ferðinni flotþerapía sem er meðal annars haldin í Suðurbæjarlaug og Íris og Helga sjá um en þær eru þessa dagana að ljúka fyrsta flotþerapíunáminu sem hefur verið haldið hér á landi.
Tryggir iðkendur og fjölbreytni
Iðkendur í Yogahúsinu hafa sumir fylgt þeim allt frá upphafi. „Við eigum nokkra mjög trygga iðkendur en svo kemur líka alltaf nýtt fólk til okkar og margir sem koma aftur og aftur,“ segir Linda og að hennar sögn kemur fólk víða að, bæði af höfuðborgarsvæðinu sem og viss hópur frá Suðurnesjum.
Þær segjast hafa í gegnum tíðina verið með marga skemmtilega viðburði og prófað ýmislegt. „Við höfum verið með jógahelgi á Sólheimum, hugleiðslustund í Gjábakkahelli á Þingvöllum, útijóga á Víðistaðatúni, aðventustund í Fríkirkjunni, fjölskyldujóga á aðfangadagsmorgun sem og séð um kennslu í jógaferð á Tenerife svo eitthvað sé nefnt.“ Þá hefur Yogahúsið einnig tekið á móti fyrirtækjahópum í hópefli, gæsunarhópum og farið inn í fyrirtæki.
Áhrif Covid
Covid hefur vissulega haft mikil áhrif á rekstur Yogahússins og þær þurftu að loka í töluverðan tíma eins og aðrar sambærilegar stöðvar. „Við vorum þá með fría fjarkennslu til að reyna að halda sambandi við okkar fólk en þetta hefur vissulega verið þungur róður,“ segir Íris. Þær eru þó allar sammála um að það hafi aldrei komið til greina að gefast upp, enda ákaflega þrautseigjar.
Sökum Covid er dagskrá haustsins einnig aðeins skert. „Við erum sem dæmi ekki með Kundalini jóga núna, þar er alltof mikil kröftug öndun sem er ekki sniðug í svona árferði,“ segir Helga og þá þurfa þær jafnframt að skrá alla nákvæmlega niður á námskeiðin og geta ekki verið með opna tíma eins og áður. Linda bætir við að þær séu bara eins og aðrir að læra að finna taktinn við að lifa með covid en hlakki vissulega til að sjá salinn aftur fullan af fólki sem er tilbúið að njóta með þeim.
Róin, náttúran og álfarnir
Þær stöllurnar búa allar í Hafnarfirði og hafa gert til fjölda ára, Helga bjó hér jafnframt sem barn. Aðspurðar hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Linda strax að hér sé einhver falleg ró og andrúmsloftið gott. „Mér finnst miðbærinn líka vera orðinn hinn nýi 101, fullt af góðum verslunum og flottir veitingastaðir og gott að geta trítlað í bæinn.“ Íris nefnir strax náttúruna, bæði í upplandinu en einnig Hellisgerði og Víðistaðatún. „Hér er einhver notalegur smábæjarbragur og síðan eigum við álfana og alla söguna.“ Helga tekur undir að náttúruan sé henni mikilvæg en bætir við að hér þekki allir alla, fjölskyldan hennar búi líka öll hér. „Svo er það höfnin, kaffihúsin, bókasafnið og hvað Hafnfirðingar eru líka tryggir sínum.“
Fjölskyldan, sund og prjónar
Þegar spurt er um áhugamál þá segir Íris strax að hún njóti þess helst að vera með fjölskyldu sinni og vinum. „Ég rækta garðinn minn, það er fjölskyldu mína, en það gefur mér ákaflega mikið og ætli ég sé ekki smá ítölsk mamma í mér.“ Útivera er Írisi jafnframt mikilvæg og hún fer einnig í sjósund. Helga tekur undir orð Írisar um fjölskylduna og útiveru en segist þó frekar fara í sundlaugarnar í staðin fyrir sjóinn. Linda segist prjóna mikið, þá eigi hún líka stóran garð og hund sem þurfi að sinna. „Við fjölskyldan förum líka gjarnan í ferðalög og veiðitúra. Mér leiðist því aldrei og oftast með nóg fyrir stafni.“
Glowup
Á Strandgötunni, í húsi númer 32 bakvið fallegu bleiku hurðina, má finna verslunina Glowup sem selur snyrti-, hár- og húðvörur.
Við hittum eigandann Sunnu Júlíusdóttur til að kynnast rekstrinum.
Á Strandgötunni, í húsi númer 32 bakvið fallegu bleiku hurðina, má finna verslunina Glowup sem selur snyrti-, hár- og húðvörur.
Við hittum eigandann Sunnu Júlíusdóttur til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Glowup, litla búðin á Strandgötunni með bleiku hurðina, selur snyrti-, hár- og húðvörur.
Alltaf langað til að eiga verslun
Glowup byrjaði sem netverslun í september 2019 og þann 1. júní árið eftir opnaði verslunin á Strandgötunni. „Mig hefur alltaf langað til að eiga verslun, mamma og pabbi áttu verslun þegar þau voru yngri og ég hef alltaf vitað að ég myndi opna eina einhvern daginn,“ segir Sunna sem er förðunarfræðingur og starfaði sem deildarstjóri í snyrtivöruverslun Hagkaups þegar hún ákvað að taka skrefið og opna verslun. Fyrsta skrefið var netverslun en hún var alltaf staðráðin í að láta ekki þar við sitja. „Ég vildi líka hitta fólk, fá að ráðleggja því, en það gefur mér mikið, og gott að geta hjálpað einhverjum.“
Sunna var búin að leita lengi að hentugu húsnæði og segir að hún hafi verið við það að gefast upp þegar húsnæðið á Strandgötunni birtist loksins á fasteignavefnum. „Þetta gerðist allt mjög hratt, við skoðuðum húsnæðið sama dag og það var auglýst og vorum búin að skrifa undir daginn eftir,“ segir Sunna sem er afar ánægð með staðsetninguna.
Mikil rannsóknarvinna
Þegar kom að því að velja vörur í verslunina segir Sunna að hún hafi lagst í mikla rannsóknarvinnu og prófað fjöldann allan af merkjum. „Ég vildi gjarnan vera með merki sem eru lífræn og gera ekki tilraunir á dýrum, eru sem sagt cruelty free og vegan,“ segir Sunna sem er ákaflega sátt við merkin sem hún hefur fundið. Þá segist hún sjá sjálf um allt sem viðkemur rekstrinum, setti sem dæmi upp heimasíðuna og vefverslunina og hefur sótt sér mikla þekkingu í gegnum YouTube og tekið nokkur námskeið á netinu.
PUMP, SoSu og Hanskin
Vinsælast hjá Glowup eru Dripping Gold brúnkuvörurnar sem koma í ýmsum mismunandi útfærslum og eru frá merkinu SoSubySJ. „Ég er líka með snyrtivörur frá þessu merki svo sem augnskugga, varaliti og maskara sem og augnhár,“ segir Sunna og bætir við að þetta merki sé jafnframt duglegt að koma með nýjar vörur og framboðið hjá henni verði því enn breiðara í vetur.
Hárvörurnar í Glowup koma alla leiðina frá Ástralíu og heita PUMP Haircare. „Þessar vörur eru hannaðar af hárgreiðslukonu í Ástralíu sem leggur mikið upp úr umhverfismálum. Allar túpur eru nú sem dæmi unnar úr sykurreyr og verksmiðjan er knúin áfram á sólarorku,“ segir Sunna. Vörurnar hafa fengið afar góðar viðtökur hér á landi og þá sérstaklega öll krullulínan en henni fylgja ekki einungis hárvörur heldur einnig sérstakir burstar og silkikoddaver.
Stærsta húðvörulínan í versluninni kemur alla leiðina frá Suður-Kóreu og heitir Hanskin. „Suður-Kórea hefur í mörg ár verið mjög framarlega í framleiðslu á húðvörum og það er líftæknifyrirtæki sem á Hanskin í dag og þeirra formúlur eru mjög flottar,“ segir Sunna sem selur rakakrem, rakavatn, maska og hreinsiolíur frá þessu merki.
Ánægðir viðskiptavinir
Þó að Glowup eigi sér ekki langa sögu þá á hún nú þegar marga fasta viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur. „Salan á milli vefverslunarinnar og verslunarinnar í Strandgötu skiptist í raun ótrúlega jafnt niður,“ segir Sunna sem sendir töluvert af vörum út á land og nefnir að PUMP hárvörurnar séu sem dæmi, greinilega mjög vinsælar fyrir norðan. Viðskiptavinahópurinn stækkar annars jafnt og þétt og ánægðir viðskiptavinir eru vissulega besta auglýsingin að sögn Sunnu. „Gott dæmi er kona sem hafði keypt brúnku hjá okkur og mætti ákaflega fersk í vinnuna. Daginn eftir þá kom hópur af samstarfskonum hennar hingað labbandi í hádeginu og keypti sér samskonar brúnku,“ segir Sunna og brosir.
Konur eru annars í meirihluta viðskiptavina en Sunna segir að karlmenn séu líka í auknum mæli farnir að nota andlitsbrúnkuna sem sé ákaflega falleg og náttúruleg.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Sunna að hún þekki ekkert annað en að eiga verslun í þessu ástandi og því hafi hún engan samanburð. „Það verður spennandi að sjá hvað gerist í venjulegu árferði þegar árshátíðir og aðrar veislur verða haldnar reglulega“. Þá býst hún einnig við aukningu á sölu varalita þegar grímuskylda verði endanlega afnumin.
Sunna segir að hún hafi reyndar tekið eftir því að þegar það eru strangar samkomutakmarkanir þá aukist verslun í gegnum netið og fólk kaupi þá meira af hár- og húðvörum í stað snyrtivara.
Samstaða og ró
Sunna kann ákaflega vel við sig í Hafnarfirði og finnst gott að vera með verslun á Strandgötunni. „Samfélagið hérna er svo gott, fólk stendur saman, eitthvað sem tíðkast að ég held meira úti á landi,“ segir Sunna og bætir við að hún hafi sérstaklega tekið eftir því í kringum jólin þegar margir Hafnfirðingar vildu kaupa jólagjafirnar hér til að styðja við sitt samfélag.
Þá segir hún að hér sé líka allt sem maður þarf, góðir leikskólar og skólar, flottir veitingastaðir og fallegt umhverfi. „Það er einhver góð tilfinning og eitthvað öryggi sem ég skynja þegar ég geng um götur bæjarins, einhver ró sérstaklega í gamla bænum sem ég kann vel að meta,“ segir Sunna sem flutti reyndar nýlega úr bænum og býr núna í Kópavogi, þar sem hún ólst upp, en vil ólm komast aftur í Hafnarfjörðinn og leitar þessa dagana að húsnæði í Hafnarfirði.
Hvolpur, fjölskylda og ferðalög
Hvað áhugamál Sunnu varðar þá segir hún að vinnan sé í raun hennar áhugamál. „Mér finnst svakalega gaman í vinnunni og að fylgjast með öllu sem er í gangi í þessum bransa.“
Samverustundir með fjölskyldunni eru henni jafnframt dýrmætar og þau voru dugleg að ferðast áður en Covid skall á. „Við fengum annars lítinn hvolp í vor og njótum þess að leika við hann og í október er von á lítilli stúlku í fjölskylduna,“ segir Sunna að lokum og greinilegt að það eru spennandi tímar framundan.
Bílaspítalinn
Fremst á Kaplahrauninu er Bílaspítalinn, alhliða viðgerða- og sprautuverkstæði, sem hefur verið starfandi í hartnær 30 ár.
Við hittum eigandann Ingva Sigfússon til að kynnast rekstrinum.
Fremst á Kaplahrauninu er Bílaspítalinn, alhliða viðgerða- og sprautuverkstæði, sem hefur verið starfandi í hartnær 30 ár.
Við hittum eigandann Ingva Sigfússon til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Bílaspítalinn er alhliða viðgerða- og sprautuverkstæði, sem hefur verið starfandi í hartnær 30 ár
Hófst allt í bílskúrnum
Saga Bílaspítalans hófst í raun í bílskúrnum heima hjá Ingva á Álftanesinu þar sem hann tók að sér viðgerðir fyrir fjölskyldu og vini. Árið 1992 tók hann hins vegar skrefið og leigði sér húsnæði í Kaplahrauni 9 og byrjaði að starfa undir nafninu Bílaspítalinn, nafni sem Þórður sonur hans á heiðurinn að.
Bílaspítalinn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki en á tímabili vann öll fjölskyldan í fyrirtækinu sem hefur nú verið í sínu eigin húsnæði að Kaplahrauni 1 allt frá árinu 1998. „Í dag starfar Anton sonur minn mér við hlið”, segir Ingvi sem seldi Bílaspítalann reyndar árið 2005 en keypti hann aftur árið 2011.
Öll þjónusta á einum stað
Sérstaða Bílaspítalans er að þeir taka bæði að sér viðgerðir sem og réttinga- og sprautuverkefni. „Við erum nokkurs konar kaupfélag, hjá okkur færðu allt til alls“, segir Ingvi og telur það vera kost að hafa alla þjónustu á einum stað og því óþarfi að ferja bíla á milli verkstæða sem er oft raunin með tjónaða bíla.
Hann segir að vinnan skiptist nokkuð jafnt á milli undirvagns- og boddívinnu, eins og hann nefnir þetta. „Suma daga er meira að gera í viðgerðum en aðra í sprautun og réttingum en þetta jafnast vanalega út.“
Breiður hópur viðskiptavina
Viðskiptavinir Bílaspítalans eru einstaklingar, fyrirtæki sem og öll tryggingafélögin. „Þegar kemur að sprautun og réttingum þá eru tryggingafélögin langstærsti kaupandinn en í viðgerðum er mun meiri breidd í viðskiptavinahópnum“, segir Ingvi sem leggur mikið upp úr því að veita góða þjónustu og ráðleggja viðskiptavinum sínum og segir að margir komi langt að með bílana sína til hans.
„Við reynum oftast að klára verkin samdægurs enda vitum við að fólk má flest ekki við því að missa bílinn í lengri tíma.“ Viðskiptavinir geta þó vissulega fengið leigðan bíl hjá þeim meðan á viðgerð stendur. „Við vorum alltaf í samstarfi við nokkrar bílaleigur en nú er svo mikill skortur á bílum hjá þeim svo við urðum bara að kaupa okkur nokkra bíla sjálfir til að leigja út,“ segir Ingvi.
Stöðugar breytingar í gegnum árin
Frá því að Ingvi byrjaði í bifvélavirkjun hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í faginu. „Rafkerfin í bílunum hafa breyst rosalega, nú gerum við allar bilanagreiningar í tölvunni og það þarf sífellt að endurnýja hugbúnaðinn,“ segir Ingvi og bætir við að þá þurfi einnig að kaupa mikið af nýjum sérhæfðum verkfærum og það mörgum sinnum á ári.
Áhrif Covid
Það hefur verið rólegra að gera á verkstæðinu síðan Covid hófst enda færri bílar í umferðinni og þá rekast þeir jú síður saman að sögn Ingva. „Vinnudagurinn er orðinn styttri, kannski orðin eðlilegri, við vinnum núna bara til klukkan 17 en ekki 19 eins og raunin var oft hér áður fyrr.“
Ingvi segir að hann hafi sem betur ekki þurft að segja upp mönnum. „Það hætti einn hjá okkur vegna aldurs og ég hef ekki enn ráðið annan í staðinn en að öðru leiti er mannskapurinn óbreyttur.“
Vinalegur bær
Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Ingvi að þetta sé ákaflega vinalegur bær. „Hann minnir mig dálítið á heimabæinn minn Sauðárkrók, þetta er bær sem tekur utan um mann og það er hjarta í honum.“ Hann kann vel við sig á Kaplahrauninu en þar sem má finna fjölda bifreiðaverkstæða og segir Ingvi að það sé gott samstarf þar á milli og stundum fái menn lánuð verkfæri.
Ingvi og starfsmenn hans eru annars duglegir að heimsækja matsölustaði bæjarins í hádeginu, þeir eru fjölmargir í Hraununum, en hann segir að stundum kíki þeir líka í miðbæinn en sá hluti bæjarins er í miklu uppáhaldi hjá Ingva.
Bakar pönnukökur og safnar bílum
Ingvi er öflugur pönnukökugerðarmaður og bakar stundum á fjórum pönnum í einu. „Ég var ekki nema sjö ára þegar ég lærði að baka pönnukökur og það í vinnutjaldi Rarik. Pabbi minn starfaði hjá því fyrirtæki og við mamma ferðuðumst oft með vinnuflokknum og sáum um matinn og þá var oft skellt í pönnsur,“ segir Ingvi.
Þegar hann er ekki í vinnunni nýtur hann þess að vera í bústaðnum í Árnesi og vera með fjölskyldunni. Þá má segja að Ingvi sé með bíladellu og er ákaflega hrifinn af Audi bílum. „Þegar ég var 40 ára hafði ég átt 47 Audi bíla en þá ákvað ég að hætta að telja,“ segir Ingvi með bros á vör.
Stoð ehf.
Stoð ehf. framleiðir stoðtæki og selur ýmis hjálpartæki og heilsuvörur. Þetta er rótgróið þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði staðsett á Trönuhrauninu sem fagnar 40 ára afmæli á næsta ári.
Við hittum Ásu Jóhannesdóttur framkvæmdastjórar Stoðar til að kynnast rekstrinum.
Stoð ehf. framleiðir stoðtæki og selur ýmis hjálpartæki og heilsuvörur. Þetta er rótgróið þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði staðsett á Trönuhrauninu sem fagnar 40 ára afmæli á næsta ári.
Við hittum Ásu Jóhannesdóttur framkvæmdastjórar Stoðar til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Stoð eru smíðaðar spelkur, gervilimir og skór en þar má einnig kaupa ýmis hjálpartæki og heilsuvörur.
Tæp 40 ára saga
Stoð var stofnað árið 1982 af tveimur stoðtækjafræðingum þeim Sveini Finnbogasyni og Erni Ólafssyni. Fyrirtækið var hlutafélag nokkurra einstaklinga, ásamt Sveini og Erni, allt til ársins 2018 þegar núverandi eigandi Veritas kaupir það. Sveinn er enn starfandi hjá Stoð.
„Fyrirtækið var stofnað í kringum framleiðslu á stoðtækjum en byrjaði fljótlega að selja ýmis hjálpartæki s.s. hjólastóla, göngugrindur og ýmis baðhjálpartæki,“ segir Ása og bætir við að fyrirtækið hafi í raun stækkað jafnt og þétt í gegnum árin. Þá hafi ávallt verið lögð mikil áhersla á góða og persónulega þjónustu enda séu þau ekki einungis að selja vörur heldur einnig þjónustu og lausnir fyrir hvern og einn einstakling og því mikilvægt að hafa þekkingu og innsýn inn í þeirra veruleika.
Þegar komið er inn í húsnæðið á Trönuhrauninu tekur verslunarrýmið á móti manni en í húsnæðinu leynist svo mikið meira en það og starfsemin í raun mjög fjölþætt. Þarna eru smíðaðar spelkur, gervilimir og skór en einnig má finna þar verkstæði, móttökuherbergi og skrifstofur.
Einstakur mannauður
Hjá Stoð starfa í dag 30 einstaklingar og margir með háan starfsaldur og mikla reynslu. Menntunarstigið er afar hátt en ásamt stoðtækjafræðingum og -smiðum eru sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi, heilbrigðisverkfræðingur, íþróttafræðingur, þroskaþjálfi og hjúkrunarfræðingur meðal annars í starfshópnum. „Við erum með alveg einstakan mannauð þar sem þekking og fagmennska er í fyrirrúmi. Við getum því veitt heildræna nálgun en í okkar starfi er ákaflega mikilvægt að hlusta vel eftir þörfum viðskiptavina og veita afburðaþjónustu,“ segir Ása og bætir við að þau styrki stoðtækjafræðinga til náms þar sem það sé þeim ákaflega mikilvægt að halda þekkingunni í landinu.
Náin tengsl við viðskiptavini
Helstu viðskiptavinir Stoðar eru einstaklingar sem þurfa á ýmsum hjálpar- og stoðtækjum að halda en þá koma einnig til þeirra eldra fólk sem býr enn heima og þarf tæki til að auka við sitt öryggi.
„Við eigum mjög marga fastaviðskiptavini og fylgjum vissum aðilum í raun frá vöggu til grafar. Það þarf að stækka og breyta tækjum og starfsfólk okkar hefur í gegnum tíðina tengst mörgum mjög náið og viss vináttubönd skapast,“ segir Ása.
Starfsfólk Stoðar er jafnframt í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk og selur til að mynda mikið af vörum til sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila. „Við aðstoðum þá við val á vörum, hvernig hægt sé að ryðja burt hindrunum og koma með réttar lausnir. Þá sjáum við einnig um að kenna starfsfólki á vörurnar,“ segir Ása og bætir við að þau þurfi þess vegna að fylgjast vel með nýjungum og þróun á t.d. hjólastólum og hjólum, gervilimum ofl.
Stoð hreyfing
Fólk sem stundar mikla hreyfingu bættist í viðskiptavinahóp Stoðar á síðasta ári þegar fyrirtækið keypti verslunina Flexor á Bíldshöfða sem heitir nú Stoð. Þar er meðal annars hægt að fá göngugreiningu og ráðgjöf varðandi kaup á skóm, sokkum og hlífum. „Það er stækkandi hópur fólks sem stundar íþróttir og hreyfingu og við hjálpum mörgum að koma sér af stað með ráðgjöf um hvernig skó sé best að kaupa,“ segir Ása. Mikið af þessum vörum má einnig fá hjá Stoð á Trönuhrauni.
Áhrif Covid
Covid hafði vissulega áhrif á rekstur Stoðar. „Við erum að sinna veikum einstaklingum en gátum því miður ekki hitt þá þegar ástandið var sem verst og máttum ekki fara inn á stofnanir og hjúkrunarheimili,“ segir Ása en bætir við að þau hafi vissulega nýtt sér tæknina til að kenna á og kynna sínar vörur en ýmis önnur þjónusta varð því miður að bíða.
Hún segir að starfsfólk sitt sem og skjólstæðingar hafi samt sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni en nú horfi þau bjartsýn fram á veginn. „Við erum vissulega enn með grímur í okkar nærþjónustu en ég vona að bráðum getum við sleppt þeim þar sem þær geta stundum verið hamlandi þegar við erum að reyna að skilja og skynja einstaklinga.“
Sterkar rætur til Hafnarfjarðar
Ása hefur aldrei búið í Hafnarfirði en á þó sterkar rætur hingað. „Amma og afi bjuggu á Norðurbrautinni og mamma því Hafnfirðingur og ég var mikið hér sem barn, á sem dæmi sterkar minningar tengdar fiskbúðinni og Fjarðarkaupum,“ segir Ása brosandi sem nældi sér jafnframt í Hafnfirðing.
Hún segir að bæjarstæðið, þá sérstaklega gamli bærinn með öll sínum gömlu húsum sé ákaflega fallegur. „Það er líka einhver sérstök þorpsstemmning hér sem ég kann að vel að meta og svo finnst mér hraun í bakgörðum alveg himneskt.“ Þá segist hún sækja ýmsa þjónustu í bænum, geri sín innkaup, fari út að borða í hádeginu og hárgreiðslustofan hennar sé í Hafnarfirði.
Fjallgöngur og bústaðasmíði
Þegar Ása er ekki í vinnunni stundar hún mikið útivist en Siggi, maðurinn hennar, er jarðfræðingur og þau hafa því ávallt verið mikið á fjöllum með börnunum sínum fjórum. „Við erum annars byrjuð að byggja okkar sumarhús í Borgarfirðinum. Við byggjum það sjálf með dyggri aðstoð bændanna í Hvítársíðunni,“ segir Ása sem er greinilega mjög spennt fyrir verkefninu og nefnir að nýverið hafi þau sem dæmi verið að ulla og plasta, eitthvað sem hún hafi aldrei gert áður.
Íshús Hafnarfjarðar
Töskuhönnuður, bátasmiður, keramiker, gullsmiður, blöðrulistamaður, vöruhönnuður, arkitekt, myndskreytir og tónskáld eru meðal þeirra sem eru með vinnuaðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar.
Við hittum Ólaf Gunnar Sverrisson (Óla) eiganda Íshússins til að kynnast rekstrinum.
Töskuhönnuður, bátasmiður, keramiker, gullsmiður, blöðrulistamaður, vöruhönnuður, arkitekt, myndhöfundur og tónskáld eru meðal þeirra sem eru með vinnuaðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar.
Við hittum Ólaf Gunnar Sverrisson (Óla) eiganda Íshússins til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Í Íshúsi Hafnarfjarðar eru 50 aðilar með vinnuaðstöðu og þar myndast oft áhugavert þverfaglegt samkurl
Hugmyndin lengi í maganum
Í Íshúsinu kemur saman skapandi fólk úr ólíkum greinum og leigir opið vinnustofurými og úr verður samfélag. Óli var búinn að ganga með hugmyndina að svona stað í maganum í langan tíma en árið 2014 varð hún að veruleika þegar hann og eiginkona hans Anna María Karlsdóttir opnuðu Íshúsið. „Ég ólst upp í svona umhverfi, pabbi minn Sverrir Ólafsson listamaður var einn af stofnendum listamiðstöðvarinnar í Straumi og ég var mikið með honum þar,“ segir Óli og bætir við að hann hafi þó sjálfur viljað hafa sína listamiðstöð fyrir breiðan hóp hönnuða, iðn- og listamanna.
Þverfaglegt samkurl
Í upphafi voru um tólf rými en aðstaðan hefur stækkað og breyst í gegnum árin. Í dag eru 37 rými eða einingar innan Íshússins og í þeim hafa 50 aðilar aðstöðu. Að sögn Óla er húsnæðinu í raun skipt upp í þrjú svæði. „Uppi á lofti er keramikdeildin, hérna niðri eru síðan trésmíðaverkstæðið þar sem getur verið dálitið um ryk og hávaða en hinu megin í húsinu þar sem verið er að vinna með textíl, gullsmíði eða myndskreytingar sem dæmi er mun meira um rólegheit.“
Hluti leigjenda hafa verið í húsinu allt frá upphafi en aðrir skemur. „Flestir eru með langtíma leigusamning en svo hafa sumir komið hér inn í einn mánuð eða skemur, þar á meðal erlendir listamenn, en við erum ákaflega sveigjanleg með flest hérna í húsinu,“ segir Óli sem segist alltaf vera að sjá eitthvað nýtt enda mikil þróun og ýmsar tilraunir gerðar. Hann segir að það sé jafnframt mikill samgangur á milli aðila og margir sem vinni saman í hugmyndum og úr því verði oft áhugavert þverfaglegt samkurl. „Grunnhugsunin fyrir svona stað er einmitt að eiga samtal og fólk komi hingað með hugmyndir sem það getur þróað áfram án þess að þurfa að fara í mikla fjárfestingu. Eins og gengur og gerist virkar sumt en annað ekki.“
Iðnvillingur
Sjálfur er Óli tréskipasmiður og lærði í Dröfn. Hann hefur einnig frá unga aldri teiknað mikið og stúderað ýmsar listar. „Ég hef prófað ýmislegt í gegnum tíðina gert skartgripi, húsgögn, keramik og er í raun óttarlegur iðnvillingur. Ef mér dettur eitthvað í hug þá hef ég vanalega bara hafist handa og prófað,“ segir Óli sem hefur undanfarin ár unnið mikið í kringum þróun og uppbyggingu á mink campers, litla gula hjólhýsinu sem eru nú komið í sölu. Þessa dagana er hann þó mest að vinna við prótótýpur af kúlugróðurhúsi þar sem hugmyndin er að fólk geti bæði ræktað gróður en jafnframt sinnt mannrækt svo sem með jóga eða hugleiðslu.
Opið hús á sjómannadaginn
Það er reglulega opið hús hjá Íshúsinu. „Við opnum dyrnar alltaf upp á gátt í kringum Bjarta daga, á sjómannadaginn, á afmælisdaginn okkar í nóvember og svo í kringum jólin,“ segir Óli og vill hvetja sem flesta til að kíkja til þeirra núna á sjómannadaginn og ítrekar að vel verði hugað að sóttvörnum. Þá er alla jafna opið upp á keramikloftið fyrsta fimmtudag í mánuði.
Áhrif Covid
Að sögn Óla hafði Covid mjög mismunandi áhrif á fólkið sem er með vinnustofur í Íshúsinu. „Hjá sumum varð óskaplega rólegt, einhverjir drógu sig bara inn í skel meðan að aðrir hafa aldrei haft eins mikið að gera.“ Mesta röskunin í húsinu almennt var þó að það voru engin opin hús sem margir hafi vissulega saknað. Þau þurftu samt sem betur fer aldrei að loka húsinu og enginn þurft að fara í sóttkví vegna veru sinnar þar.
Bæjarfílingur og höfnin
Óli er uppalinn hér í Hafnarfirði, gekk í Víðistaðaskóla og hann og Anna María bjuggu lengi í bænum en eru núna flutt í gamlan sveitabæ á Álftanesi en sækja alla þjónustu hér. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann það vera bæjarfílinginn. „Þó við séum orðið stórt sveitarfélag þá er enn einhver bæjarfílingur eða landsbyggðarfílingur hér sem ég kann ákaflega vel við.“ Þá bætir hann við að höfnin hafi sinn sjarma, þar ólst hann mikið upp, man eftir skipaniðinum á nóttunni, togarana vera koma inn í höfnina og mikið líf í frystihúsunum.
Sund og ferðalög
Óli er fastagestur í Suðurbæjarlauginni en hann fer einnig töluvert í sjóinn til að synda eða segir að Anna María sé dugleg að taka hann með í sjóinn. „Við ferðumst einnig gjarnan um landið, erum hrifin af heitu laugunum og síðan förum við reglulega á ættaróðalið hennar Önnu Maríu í Skagafirði til að slaka á,“ segir Óli að lokum.
Kænan
Í sexhyrnda húsinu við við höfnina er Kænan, vinsæli hádegisverðarstaðurinn með heimilislega matinn.
Við hittum Oddstein Gíslason (Steina) eiganda Kænunnar til að kynnast rekstrinum.
Í sexhyrnda húsinu við við höfnina er Kænan, vinsæli hádegisverðarstaðurinn með heimilislega matinn. Við hittum Oddstein Gíslason (Steina) eiganda Kænunnar til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Á Kænunni er lamb í bearnaise og purusteikin vinsælust
40 ára saga
Kænan hefur verið starfandi í rétt rúm 40 ár en dregur uppruna sinn af því þegar Árni Ingvarsson byrjaði að selja pulsur og fleira niður við höfn úr hjólhýsi. Elsa dóttir hans og Ingvar maður hennar ákveða síðan árið 1980 að byggja timburhús og stofna veitingastaðinn Kænuna við höfnina. Árið 1989 fékk timburhúsið hins vegar að víkja fyrir sexhyrnda húsinu sem hýsir staðinn enn þann dag í dag.
„Hér hefur verið farsæll rekstur í 40 ár en ég tók við staðnum árið 2016 og það hefur gengið mjög vel. Ég gerði fljótlega töluverðar breytingar, málaði, skipti út húsgögnum og tækjum í eldhúsi sem var kominn tími á,“ segir Steini sem hefur sjálfur verið 40 ár í matreiðslugeiranum og rak sem dæmi hádegisverðarstaðinn Bakhúsið við Hótel Hafnarfjörð og tók flesta viðskiptavini sína þaðan með sér niður á Kænu.
Lamb í bearnaise og purusteikin vinsælust
Á Kænunni er ávallt hægt að velja um fisk- eða kjötrétt plús einn aukarétt og þá er salatbar, súpa og kaffi innifalið í verðinu. Að sögn Steina er líka hægt að fá ábót og því fer enginn svangur þaðan út.
Það er annars viss stöðugleiki sem einkennir matseðilinn og hægt að ganga að því vísu á mánudögum að fá ýsu í raspi og á föstudögum lambalæri í bearnaise og purusteik. „Föstudagarnir eru langvinsælastir hjá okkur en þá hafa allt um 300 manns farið í gegn og sumir komið langt að,“ segir Steini og bætir við að þá sé líka alltaf kaka og rjómi í eftirrétt.
Fjölmargir fastakúnnar
Stór hluti viðskiptavina Kænunnar eru starfsmenn fyrirtækja í nágrenninu sem borga matinn fyrir sitt fólk. „Við erum í raun mötuneyti þessara fyrirtækja og hér koma því mjög margir iðnaðarmenn. Hingað kemur samt líka bara öll flóran s.s. eldra fólk sem er hætt að vinna og menn í jakkafötum en konur eru reyndar í mjög miklum minnihluta,“ segir Steini sem sendir einnig mat í nokkur fyrirtæki í hverju hádegi og því fara alla jafna um 300-350 máltíðir út á dag.
Aðspurður um sérstöðu Kænunnar segir hann það vera stöðugleikinn, staðsetningin og að maturinn sé unnin úr góðu hráefni. „Þegar sama fólkið kemur hingað ár eftir ár erum við greinilega að gera eitthvað rétt.“
Morgunkaffi, klúbbar og veislur
Hádegið er aðaltíminn á Kænunni, staðurinn opnar samt ávallt klukkan 7:30 en í morgunsárið koma vissir hópar í kaffi og spjall og hafa gert í mörg ár. Þegar okkur ber að garði eftir hádegistörnina er árgangur 1942 að hittast í kaffi og köku, eins og þau gera einu sinni í mánuði, og að sögn Steina er líka gönguhópur sem kemur á hverjum laugardegi.
Lions, Rotary og Kiwanis eru einnig meðal viðskiptavina Kænunnar, sumir klúbbar hittast hjá þeim á Óseyrarbrautinni en aðrir fá sendan mat til sín. „Það hefur verið ótrúlega gott að hafa þessa klúbba í viðskiptum en þeir hafa verið nokkuð góðar dyr fyrir mig utanbæjarmanninn inn í bæinn og þar hef ég myndað afar góð tengsl,“ segir Steini og brosir.
Á Kænunni hafa í gegnum tíðina einnig verið haldnar fjölmargar veislur, s.s. fermingar og brúðkaup en Steini selur einnig veitingar út úr húsi fyrir veislur og móttökur en viðurkennir að hann hafi ekki lagt mikla áherslu á þann hluta rekstrarins í seinni tíð.
Áhrif Covid
Í fyrstu bylgunni af Covid þurfti að fækka starfsfólki Kænunnar og setja á hlutabótaleið en í maí voru allir komnir aftur í fulla vinnu. „Við erum með gott pláss og auðvelt að stúka staðinn niður sem hefur komið sér ákaflega vel,“ segir Steini og bætir við að þá hafi allir verið tillitssamir, setið skemur en áður og sýnt stöðunni skilning.
Starfsfólk einhverja fyrirtækja hættu að mæta þegar ástandið var sem verst en fékk í staðinn matinn sendan á vinnustaðinn og einhverjir komu og sóttu bara mat og fóru með. Steini segir að andrúmsloftið hafi þó vissulega breyst aðeins. „Áður var fólk vant því að setjast niður hjá ókunnugum ef það var laust pláss við borðið en það gerist því miður ekki í dag og strúktúrinn því aðeins breyst en hann kemur vonandi aftur.“
Hann segir að þetta ástand hafi vissulega tekið á en hann og hans fólk standi í báðar lappirnar eftir þetta þó þau hafi saknað jólahlaðborðanna, þorrablótanna sem og starfsemi allra klúbbanna sem lagðist algjörlega af. „Við vorum ansi heppinn að fá síðastliðið haust að sjá amerískum hermönnum í sóttkví um mat í nokkrar vikur og þessar vikurnar erum við að þjónusta sóttkvíarhótel,“ segir Steini þakklátur fyrir törnina sem er núna í gangi.
Annað tempó í Hafnarfirði
Steini hefur unnið í Hafnarfirði frá árinu 2009 og kann ákaflega vel við sig hér. Hann keyrir hingað á hverjum morgni úr Vesturbænum þar sem hann býr. „Mér finnst miklu rólegra yfir öllu hér heldur en í Reykjavík, einhver þorpsbragur og allt annað tempó. Ég væri alveg til í að flytja í Hafnarfjörð en veit að fjölskylda mín er ekki endilega á sama máli.“
Steini segist jafnframt vera farinn að þekkja orðið töluvert mikið af Hafnfirðingum, allavega í sjón, sem hann kunni vel við.
Golf og sumarbústaðurinn
Þegar Steini er spurður um áhugamál er hann fljótur að svara, golf. „Ég spilaði fyrstu árin töluvert hér á Hvaleyrinni en er núna kominn í Nesklúbbinn og mér líður mjög vel á golfvellinum.“ Þá segist hann eiga sumarbústað í Grímsnesi og þar nái hann að slaka á. Annars er hann duglegur að vera með börnum og barnabörnum og sækir þá gjarnan fótbolta- og körfuboltaleiki sem og balletsýningar með þeim.
Umbúðagerðin
Umbúðagerðin er nýtt framleiðslufyrirtæki á Melabrautinni sem framleiðir fjölbreytta pappakassa úr bylgjupappa. Hafnarfjörður hefur þar með eignast sína eigin kassagerð.
Við hittum hjónin Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur og Eyþór Pál Hauksson eigendur Umbúðagerðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Umbúðagerðin er nýtt framleiðslufyrirtæki á Melabrautinni sem framleiðir fjölbreytta pappakassa úr bylgjupappa. Hafnarfjörður hefur þar með eignast sína eigin kassagerð.
Við hittum hjónin Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur og Eyþór Pál Hauksson eigendur Umbúðagerðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Með Umbúðagerðinni á Melabrautinni hefur Hafnarfjörður eignast sína eigin kassagerð.
Úr innflutningi í eigin framleiðsla
Umbúðagerðin var stofnuð árið 2014 en í upphafi var það einungis í innflutningi á umbúðum. Sigrún og Eyþór sáu síðan tækifæri á markaðnum og ákváðu að hefja framleiðslu á umbúðum úr bylgjupappa. „Þetta var stór ákvörðun sem fylgdi töluverð fjárfesting þar sem bæði þurfti að fjárfesta í vélbúnaði og setja upp verksmiðju frá grunni auk þess sem við fluttum litla fyrirtækið okkar Prentmiðlun úr bílskúrnum heima í tæplega 500 fermetra húsnæði hér í Hafnarfirði,“ segir Eyþór sem er prentari og með áratugareynslu á því sviði.
Húsnæðið á Melabrautinni fundu þau á seinni hluta síðasta árs en framleiðsla á fyrstu pappakössunum hófst í upphafi þessa árs. „Sérstaða okkar er að við getum sérframleitt kassa fyrir okkar viðskiptavini í þeirri stærð sem óskað er eftir án þess að það kosti handlegginn ef svo má að orði komast. Þá höfum við lagt okkur fram við að veita skjóta þjónustu og bjarga mönnum um kassa ef mikið liggur við, eitthvað sem tekur annars margar vikur eða mánuði ef flytja þarf umbúðirnar inn,“ segir Sigrún og bætir við að þá eigi viðskiptavinir þeirra auðveldara með að kaupa umbúðir í minna magni og bindur hún vonir við að innlend fyrirtæki taki við sér hvað þetta varðar.
Hagræðing með réttum kassa
Að sögn þeirra hjóna er kassi ekki bara kassi en það getur verið töluverð hagræðing í því að nota réttan kassa. „Það er sem dæmi dýrt að flytja loft og óþarfi að vera með of efnismikila bylgju ef þess þess er ekki þörf,“ segir Eyþór og Sigrún bætir við að það kosti líka sitt fyrir fyrirtæki að nota dýrmæta fermetra undir mikið magn umbúða og því oft betra að kaupa minna í einu og vera í reglulegum viðskiptum með kassa.
Bylgjupappinn sem þau nota kemur allur frá Evrópu, úr ábyrgum skógum með FSC vottun og vel hugað að umhverfismálum. Endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfall bylgjupappírs er gríðarlega hátt og því talið afar umhverfisvænt hráefni. „Við leggjum líka mikið upp úr því að nýta hráefnið sem allra best og hendum sem dæmi ekki afskurðarræmum heldur höfum við verið að hvetja fólk til að nýta það til pakkninga, sem undirlag fyrir gæludýrin sín eða í moltugerð í garðinum sem dæmi,“ segir Sigrún.
Breið flóra viðskiptavina
Umbúðagerðin er mest að vinna fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Þar á meðal eru fiskvinnslur, heildsölur, framleiðslufyrirtæki og netverslanir svo eitthvað sé nefnt. Enn þjónusta þau fyrirtæki sem þau sinntu áður, þegar þau voru í innflutningi, nema í dag eru kassarnir framleiddir hér í Hafnarfirði og boðið upp á hraðari og persónulegri þjónustu á sambærilegu verði. „Einnig höfum við verið að taka þátt í þróunarverkefnum og vinna að hentugum lausnum með viðskiptavinum okkar. Gerum þá ýmsar tilraunir og prófanir sem getur verið skemmtilegt og áhugavert ferli,“ segir Eyþór en viðskiptavinir þeirra koma alls staðar af landinu.
Hnífar og skæri úr keramík
Nýverið hóf Umbúðagerðin að selja hnífa og skæri úr keramík frá bandaríska fyrirtækinu Slice sem hentar vel fyrir ýmsan iðnað sem og heimili. „Keramíkið hefur ellefu sinnum lengri endingu en sambærilegir hnífar með stálblöðum. Þetta eru verkfæri sem eru ákaflega einföld og örugg í notkun og eru síður líklegri til að valda slysum eða ryðga,“ segir Sigrún sem heillaðist af þessum vörum og ákvað að byrja að flytja þær inn og selja samhliða pappakössunum sem vörulínu fyrir umbúða- og pökkunarlausnir. Þá segist hún einnig vera ákaflega ánægð með að fyrirtækið Slice sé samfélagslega ábyrgt en 1% af allri sölu fyrirtækisins fer til rannsókna á einhverfu.
Áhrif Covid
Covid hefur haft mikil áhrif á umbúðageirann um allan heim að sögn Eyþórs. Verksmiðjur ekki verið að framleiða eins mikið og vanalega á sama tíma og fólk hefur þurft að vera meira heima við og nýtt sér þjónustu netverslana en netverslun hefur aukist gríðarlega í Covid sem hefur sömuleiðis haft mikil áhrif á eftirspurn á markaði. „Framleiðendur hafa ekki verið að taka við nýjum viðskiptavinum og sumir sett hámarks kvóta á sína viðskiptavini. Við vorum því í raun heppinn að finna góðan aðila sem hefur getað útvegað okkur hráefni,“ segir Eyþór en í þessu ástandi hefur afgreiðslutíminn verið að lengjast og verð sömuleiðis að hækka enda eftirspurnin mun meiri en framboðið. Þetta hefur vissulega haft áhrif á okkur sem aðra auk þess sem það hefur verið erfiðara að banka upp á hjá fyrirtækjum til að kynna sína þjónustu.
Best við Hafnarfjörðinn
Sigrún og Eyþór kunna ákaflega vel við sig hér í Hafnarfirði og segjast bæði elska að keyra í vinnuna frá Álftanesinu enda leiðin afar fögur. „Við komum bæði úr litlum samfélögum vestan af fjörðum og finnum að hér ríkir góður andi og þetta er samfélag, eitthvað sem við kunnum vel að meta,“ segir Sigrún og bætir við að þau hafi í gegnum árin sem dæmi alltaf komið hingað á sjómannadaginn og sæki gjarnan veitingastaði, verslanir og ýmsa þjónustu í bænum.
Siglingar og félagsstörf
Aðspurð um áhugamál segja þau í fyrstu að vinnudagarnir geti verið ansi langir. Þau fari þó reglulega á heimaslóðirnar vestur á firði, en Eyþór er fæddur og uppalinn á Ísafirði og Sigrún er frá Suðureyri en þar eiga þau gamalt hús og lítinn bát. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á siglinum, var mikið á seglbretti hér áður fyrr, og síðar á kajak en ég hef nýlega tekið skemmtibátaskírteini og stefni á að taka skútupróf í sumar ef tími gefst til,“ segir Eyþór.
Sigrún er öflug í ýmsum félagsstörfum þá sérstaklega þegar kemur að skólamálum og er formaður Heimilis og skóla, landssambands foreldra. „Ég var einnig að gefa út ljóðabók sem heitir Ljóðin hans pabba sem eru ljóð og vísur eftir föður minn Eðvarð Sturluson og fer ágóði bókarinnar í endurbætur á Suðureyrarkirkju sem er okkur fjölskyldunni afar kær,“ segir Sigrún að lokum.
Litla Hönnunar Búðin
Á þeim tæpum sjö árum sem Litla Hönnunar Búðin á Strandgötunni hefur verið starfandi hefur framboðið aukist til muna, húsnæðið stækkað og lítið gallerí orðið hluti af rekstrinum.
Við hittum Sigríði Margréti Jónsdóttur (Siggu Möggu) eiganda Litlu Hönnunar Búðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Á þeim tæpum sjö árum sem Litla Hönnunar Búðin á Strandgötunni hefur verið starfandi hefur framboðið aukist til muna, húsnæðið stækkað og lítið gallerí orðið hluti af rekstrinum.
Við hittum Sigríði Margréti Jónsdóttur (Siggu Möggu) eiganda Litlu Hönnunar Búðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Í Litlu Hönnunar Búðinni er afar fjölbreytt vöruúrval og fastaviðskiptavinirnir afar dýrmætir.
Vinnustofan varð að verslun
Litla Hönnunar Búðin opnaði haustið 2014 í litla húsinu við Strandgötu 17 og var fljótt málað í fallegum ljósbleikum lit. „Ég var búin að leigja rýmið og ætlaði að nýta það sem vinnustofu en varð síðan skyndilega án atvinnu og ákvað því að opna búð í staðin með aðeins öðruvísi hönnunarvörur,“ segir Sigga Magga sem fór fljótt í samstarf við ýmsa íslenska hönnuði og listamenn og hóf síðan sjálf að finna einstakar vörur víðsvegar að.
Hún segir að þetta hafi allt byrjað nokkuð rólega og henni fannst stundum eins og fólk væri smá feimið að koma inn í svona litla búð þar sem nálægðin er mikil. Reksturinn gekk samt bara nokkuð vel og þegar húsnæðið við hliðina á losnaði í ársbyrjun 2018 ákvað hún að flytja sig yfir. „Þetta var mjög stórt skref, allt í einu vorum við komin í næstum fjórfalt stærra húsnæði og skuldbindingin orðin mun meiri. Á sama tíma mynduðust ný tækifæri, möguleiki til að auka vöruúrvalið og svo varð ég bara að vona að Hafnfirðingar yrðu duglegir að versla í búðinni.“
Úlfurinn
Samhliða rekstrinum hélt Sigga Magga áfram að vinna við vörumerkið sitt Úlfinn en þær vörur eru ávallt seldar í versluninni. „Úlfurinn minn hefur þróast mikið í gegnum árin og aldeilis stækkað. Í upphafi var ég að gera myndir, skera út í pappír og vinna með mismunandi bakgrunn og fór síðan að þrykkja. Í dag er Úlfurinn orðinn að vörulínu með hálsmen, eyrnalokka, stuttermaboli, peysur og húfu fyrir utan myndirnar sem eru enn fáanlegar,“ segir Sigga Magga sem segir að úlfur sé í hennar huga sterkur, traustur, klókur, þrautseigur, gáfaður, gefandi, leiðtogi og vinur.
Fjölbreytt vöruúrval
Í dag er vöruúrvalið í Litlu Hönnunar Búðinni ansi fjölbreytt og að sögn Siggu Möggu kemur það fólki stundum mjög á óvart. „Við erum með gjafavörur fyrir allan aldur og öll kyn eins og skartgripi, kerti, púsl, naglalökk, spiladósir, myndir, súkkulaði og óáfengt freyðivín en einnig mikið af umhverfisvænum snyrti- og hreinlætisvörum.“
Nokkrar vörur hafa fylgt versluninni allt frá upphafi, sumir komið og farið og segir Sigga Magga að hún hafi verið upphafsstaður fyrir einhverja hönnuði sem hafi síðan ákveðið að stofna eigin verslun. „Hafnfirski skartgripahönnuðurinn Bára sem er með Blakk by B vörurnar hefur sem dæmi selt sínar vörur hjá mér alla tíð sem mér þykir afar vænt um.“
Hugmyndir að nýjum vörum til að selja í versluninni fær Sigga Magga annars víða að. Viðskiptavinir koma stundum með hugmyndir en hún segist sjálf vera líka orðin ansi lúnkinn við að finna flottar vörur og sýnir nýju litríku töskurnar, pokana og veskin frá hollenska merkinu Susan Bijl sem eru nýjasta viðbótin.
Þakklát fastaviðskiptavinum
Í Litlu Hönnunar Búðinni er mikið lagt upp úr hlýlegu andrúmslofti og persónulegri þjónustu. „Það hefur alltaf verið mitt mottó að viðskiptavinum líði vel þegar þeir koma hingað inn og ég reyni líka að hafa sem minnsta álagningu til að halda verðum niðri eða að það sé sanngjarnt fyrir alla aðila,“ segir Sigga Magga og bætir við að hún eigi mjög marga fastaviðskiptavini sem sé því heilsað með vinalegu hæ-i í staðin fyrir góðan daginn.
„Ég er óendanlega þakklát fyrir fólkið sem kemur alltaf aftur og aftur og leggur sig sem dæmi fram við að kaupa allar gjafir hér í Hafnarfirði. Rekstur eins og þessi gengur annars ekkert upp. Ef fólk vill hafa svona litlar búðir hér í bænum þá þarf það að koma og versla,“ segir Sigga Magga ákveðin.
Vefverslun og Litla Gallerí
Stóran hluta af vörunum í versluninni má einnig kaupa í vefversluninni litlahonnunarbudin.is sem hefur verið starfrækt í nokkur ár. Þar er boðið upp á fría heimsendingu um allt land en að sögn Siggu Möggu eru líka margir sem skoða fyrst vöruúrvalið á netinu en komi síðan í búðina og versli.
Haustið 2019 ákváð Sigga Magga ásamt Elvari, manninum sínum, að nýta lager búðarinnar og búa til gallerí. „Við vorum búin að vera með þessa hugmynd í nokkra mánuði enda ekkert gallerí starfandi í Hafnarfirði og rýmið skemmtilegt og öðruvísi,“ segir Sigga Magga um upphafið að Litla Gallerí sem er samtengt búðinni en með sérinngang.
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, sérstaklega frá listamönnum. Fyrst um sinn voru mánaðarlegar sýningar en frá og með síðustu áramótum var fyrirkomulaginu breytt og núna er ný sýning um hverja helgi. „Það skemmtilega við að hafa svona ör skipti er að sýningarnar draga alltaf til sín nýtt og nýtt fólk. Þar af eru einhverjir sem eru að uppgötva hvað Hafnarfjörður hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða,“ segir Sigga Magga sem greinilega ber hag bæjarins í brjósti.
Þungur róður í Covid
Að sögn Siggu Möggu hefur Covid haft mikil áhrif á reksturinn og róðurinn verið ansi þungur enda lítið verið um veislur og hátíðarhöld og fólk því minna að kaupa gjafir. Versluninni var lokað í nokkrar vikur í fyrstu bylgunni, eitthvað sem allir sýndu skilning, en vefverslunin kom þá sterk inn. „Þetta er lítill og viðkvæmur rekstur en ég vonast til að fólk styðji vel við bakið á okkur núna til að komast út úr þessu. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Sigga Magga og brosir.
Allt í göngufæri
Sigga Magga hefur búið í Hafnarfirði allt frá barnæsku. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörð segir hún strax: „Hér get ég sótt allt, náttúru, innkaup, þjónustu, samfélag - allt í göngufæri. Lítið og kósý, friður og ró.“
Uppland Hafnarfjarðar er annars í miklu uppáhaldi hjá henni, sérstaklega Krýsuvíkin og nágrenni Hvaleyrarvatns þar sem hún gengur mjög mikið. Þá er Strandgatan og mannlífið sem henni fylgir einnig í uppáhaldi hjá Siggu Möggu.
Hundar og útivist
Sigga Magga á fimm hunda og er hundaræktandi. „Ég rækta Coton de Tulér hunda og hef gert það síðan árið 2007 en átt tegundina í yfir 20 ár. Hundar eru mín ástríða, ég vinn mikið með Hundaræktendafélaginu, sýni hundana mína og geng með þá á fjöll.“
Þá segist Sigga Magga líka ferðast gjarnan um landið og fer reglulega á Strandirnar þar sem fjölskylduóðalið Veiðileysa er í Veiðileysufirði. „Okkur finnst lítið mál að hoppa upp í bíl og keyra bara af stað en ef við förum ekki vestur á Strandir þá verður Snæfellsnesið eða Þingvellir oft fyrir valinu“, segir Sigga Magga að lokum.
Haraldur Jónsson ehf
Fasteignafélagið Haraldur Jónsson ehf á fjölmargar fasteignir í Hafnarfirði en fjölskyldan á bakvið fyrirtækið á sér atvinnusögu í bænum allt frá árinu 1970.
Við hittum Marinellu R. Haraldsdóttur á skrifstofunni í Norðurturninum í Firði en hún er í forsvari fyrir fyrirtækið ásamt föður sínum Haraldi Jónssyni.
Fasteignafélagið Haraldur Jónsson ehf á fjölmargar fasteignir í Hafnarfirði en fjölskyldan á bakvið fyrirtækið á sér atvinnusögu í bænum allt frá árinu 1970.
Við hittum Marinellu R. Haraldsdóttur á skrifstofunni í Norðurturninum í Firði en hún er í forsvari fyrir fyrirtækið ásamt föður sínum Haraldi Jónssyni.
Fyrirtæki vikunnar
Fasteignafélagið Haraldur Jónsson ehf á fjölmargar eignir í Hafnarfirði.
Fjölskyldufyrirtæki með langa sögu
„Grunnurinn að fyrirtækinu er vissulega í útgerð en afi minn og langafi stofnuðu sitt fyrsta fyrirtæki, Sjólastöðina, árið 1963 og fjölskyldan verið tengd rekstri og útgerð allt frá þeim tíma,“ segir Marinella. Faðir hennar stofnaði fyrirtækið Haraldur Jónsson ehf árið 2002 og keypti síðar allar eignir af fjölskyldu sinni og rekur fasteignirnar undir eigin nafni.
Marinella segir að í dag eigi fyrirtækið stóran hluta í verslunarmiðstöðinni Firði og fjórar hæðir í turnum tveimur tengdum Firði. Þess utan eru eignirnar í bænum fimm talsins. „Við eigum Íshúsið, Drafnarslippinn, byggingu á Óseyrarbrautinni, Fornubúðir 3 sem og eitt hús á Bæjarhrauninu.“
Fjölbreyttir leigjendur
Fyrirtækið er alla jafna með um 20 til 30 leigjendur. Sumir þeirra hafa verið mjög lengi en í fasteignum þar sem breytingar eru í farvatninu er, eins og gefur að skilja, minna um langtímaleigu. „Leigjendur okkar eru í mjög fjölbreyttri starfsemi en þar á meðal er fasteignasala, fiskvinnsla, tattústofa, söngkona, sprotafyrirtæki og vélsmiður,“ segir Marinella og bætir við að nýjustu leigjendurnir séu aðilar sem hafa gert langtímasamning um veislusalinn á efstu hæðinni í Firði þar sem opna á svokallaða betri stofu.
Spennandi verkefni framundan
Það eru að sögn Marinellu ótrúlega spennandi verkefni fram undan en fyrirtækið tekur virkan þátt í uppbyggingu í miðbænum og á Flensborgarhafnarsvæðinu. „Við erum stór hluthafi í fyrirtækinu 220 Fjörður sem stendur bakvið stækkunina á Firði sem teygir sig yfir á Strandgötuna en þar verður bókasafnið, stór matvöruverslun, ásamt öðrum minni verslunum og íbúðir eða skrifstofur á efstu hæðunum,“ segir Marinella sem greinilega er spennt fyrir verkefninu og vonar að hægt verði að byrja á framkvæmdum á næsta ári.
Annað stórt verkefni sem er á borði fyrirtækisins í dag er uppbyggingin á Flensborgar- og Óseyrarsvæðinu þar sem áður stóð meðal annars fiskmarkaðurinn sem brann sumarið 2019. „Það var mjög erfitt fyrir okkur fjölskylduna, sérstaklega pabba, þegar fiskmarkaðurinn brann en hann var mun meira en bara bygging í huga pabba sem kom að stofnun markaðarins á sínum tíma,“ segir Marinella. Þau vilja því gjarnan að á þetta svæði komi einhver blómleg starfsemi. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að Tækniskólinn byggi þarna húsnæði og verði þá allur undir einu þaki og einnig verði byggðar stúdentaíbúðir á svæðinu. „Við erum mjög ánægð með að fá að halda áfram að byggja upp á hafnarsvæðinu, sem við þekkjum svo vel, en nú með öðrum áherslum enda hefur hafnarstarfsemin breyst mikið.“ Marinella segir að þetta sé þó afar langt ferli, nú sé verið að vinna við aðal- og deiliskipulag en hún vonar að hægt verið að byrja að byggja upp svæðið eftir tvö til þrjú ár.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á rekstur fyrirtækisins segir Marinella að faraldurinn hafi vissulega haft sín áhrif. „Það sem hefur áhrif á leigjendur okkar hefur áhrif á okkur. Einn leigjandi þurfti sem dæmi því miður að hætta sínum rekstri en við höfum reynt að koma til móts við okkar fólk á þessum erfiðu tímum.“ Þá hefur útleiga á veislusalnum efst í Firði verið lítil sem engin. Fyrirtækið er annars með stórt stuðningsnet í kringum sig og mun standa Covid vel af sér. Að sögn Marinellu var bruninn á fiskmarkaðnum þeim mun erfiðari en þar var stærsti hluti af leigutekjum félagsins.
Höfnin og hjartað
Marinella er mikill Hafnfirðingur í sér og hefur búið hér frá unga aldri. Hún er alin upp í Norðurbænum, ól börnin sín upp í Áslandinu en býr nú í Hvömmunum og hefur liðið vel í öllum þessum hverfum. „Höfnin er alltaf það besta við Hafnarfjörðinn enda hefur hún verið hluti af mínu lífi allt frá barnæsku, byrjaði ung að vinna í frystihúsinu. Svo er það hjartað í bænum sem er eitthvað svo fallegt, hér er einhver viss sjarmi, við erum smábærinn í borginni og skiljanlegt að landsbyggðarfólk flytji gjarnan i Hafnarfjörð,“ segir Marinella brosandi og lýsir einnig fallega útsýninu yfir miðbæinn sem hún hefur frá skrifstofunni sinni.
Fjölskyldan og ferðalög
Þegar Marinella er ekki í vinnunni nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni. „Öll börnin mín eru öflug í sínum tómstundum og ég legg mikið upp úr því að fylgja þeim eftir,“ segir Marinella sem sést því oft á hliðarlínunni þegar kemur að keppni í körfubolta, hestaíþróttinni eða fótbolta. Þá segist hún einnig reyna að ferðast eins mikið og hún getur, sérstaklega innanlands yfir sumarmánuðina og þá er Húsafell í miklu uppáhaldi þar sem fjölskyldan hefur verið með bústað frá árinu 1979.
ICE Design by Thora H
Eyrnalokkar, hálsmen, hringar, armbönd, ermahnappar, bindisnælur, vasapelar og lyklakippur skreyttar með fiskiroði og hálsmen og hringar með íslenskum hraunmolum eru meðal þess sem má fá hjá ICE Design by Thora H í Firði.
Við hittum Þóru Hvanndal, konuna á bakvið merkið til að kynnast rekstrinum.
Eyrnalokkar, hálsmen, hringar, armbönd, ermahnappar, bindisnælur, vasapelar og lyklakippur skreyttar með fiskiroði og hálsmen og hringar með íslenskum hraunmolum eru meðal þess sem má fá hjá ICE Design by Thora H í Firði.
Við hittum Þóru Hvanndal, konuna á bakvið merkið til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Skartgripir með fiskiroði og hraunmolum eru meðal þess sem ICE Design by Thora H selur.
Seldi fyrstu eyrnalokkana sem barn
Þóra var aðeins 12 ára þegar hún byrjaði að búa til og selja eyrnalokka. „Við vorum tvær vinkonurnar sem vorum að gera eyrnalokka sem við seldum niður á Lækjartorgi og kölluðum okkur Lokkar hf.,“ segir Þóra og brosir. Hana dreymdi því lengi vel að gerast gullsmiður en ákvað hins vegar rúmlega tvítug að fara til Danmerkur og læra blómaskreytingar. Dvölin þar í landi sem átti bara að vera eitt ár endaði með því að vera 18 ár og oftast var skartgripagerðaráhuginn ekki langt undan. „Ég fór í grunntækninám í gullsmíði en ákvað að halda ekki áfram og sótti frekar ýmis námskeið tengd skartgripagerð,“ segir Þóra sem segist því vera skartgripahönnuður.
Hraun og fiskiroð
Þóra vinnur alla skartgripi sína úr silfri en skreytir þá annars vegar með hrauni og hins vegar með roði. „Ég byrjaði að vinna með hraunið árið 2005 en margir voru á því að það væri ekki hægt að vinna með það en ég þrjóskaðist áfram og tókst ætlunarverkið,“ segir Þóra. Úr varð að hún stofnaði fyrirtækið ICE Design by Thora H í mars 2008 og fór að selja silfurhálsmen og -hringa skreyttum hraunmolum.
Um svipað leiti kynntist hún roði af þorski, lax og hlýra og fannst spennandi að prófa að vinna með það. Hún fékk strax góðar viðtökur og í dag selur Þóra eyrnalokka, hálsmen, hringa, armbönd, ermahnappa, bindisnælur, vasapela og lyklakippur skreytt með ýmiss konar roði. „Fyrst keypti ég sútað og litað roð en nú er ég byrjuð að handmála það sjálf og er sem dæmi þessa dagana undir miklum áhrifum frá litum gossins á Reykjanesi í litavali,“ segir Þóra en vinsælasta vara hennar er án efa eyrnalokkar með fiskiroði sem eru til í þremur stærðum og mismunandi litum og margir sem eiga þá í nokkrum útgáfum.
Hraunmolatínsla viss íhugun
Hraunmolana tínir Þóra í þremur fjörum og segir að hraunið sé mismunandi eftir því hvar hún finni það. Hraunmolarnir í fjörunni í Hafnarfirði eru grófastir, fjaran í Gróttu geymir aðeins fínna hraun en fínast er það hins vegar í fjörunni við Vík. „Fyrir mér er það viss íhugun eða heilun að fara í fjöruna og finna fallegt sjávarslípað hraun. Ég sit þá í fjörunni og grófsortera steinana en tíni svo aftur út bestu molana þegar ég kem heim og sýð þá til að hreinsa áður en ég get byrjað að vinna með hraunið,“ segir Þóra og bætir við að sumir skartgripir séu einungis með hraunmola úr Hafnarfirði, Gróttu eða Vík en í öðrum gripum blandar hún þessum þremur tegundum saman og hefur þróað vissa tækni til þess.
Verslun í Firði
Í október síðastliðnum opnaði Þóra verslun á fyrstu hæðinni í Firði sem er opin þrjá daga vikunnar en áður seldi hún vörur sínar í Litlu Hönnunar Búðinni sem og í Danmörku. „Ég hef einnig verið með bás í jólaþorpinu síðastliðinn sex ár sem hefur ávallt gengið mjög vel og margir sem versla þar hjá mér ár eftir ár,“ segir Þóra sem er þessa dagana einnig að leggja lokahönd á nýja vefsíðu með sinni eigin vefverslun sem hún bindur miklar vonir við.
Áhrif Covid
Covid hefur vissulega haft mikil áhrif á rekstur ICE Design, bæði jákvæð og neikvæð. „Ég missti vinnuna hjá Icelandair síðastliðið vor, sem var vissulega mikið sjokk, en ég hef starfað í flugbransanum í yfir 20 ár. Það var þó til þess að ég lét verða að því að opna búðina mína hér í Firði, eitthvað sem ég hefði ekki getað gert þegar ég var í fullri vinnu,“ segir Þóra. Hún segir að það hafi gengið ágætlega, reyndar sé mikill munur í sölu á milli mánaða og hún gerir sér grein fyrir því að geta ekki lifað á þessu einu saman og er því að leita sér að hlutastarfi. Hún er þrátt fyrir það spennt að sjá hvernig muni ganga í venjulegu árferði þegar það verða haldnar fermingar, stúdentsveislur og afmæli og segist hafa fulla trú á því að með hækkandi sól verði allt betra.
Miðbærinn æðislegur
Þóra hefur búið í Hafnarfirði allt frá því hún flutti heim frá Danmörku fyrir sjö árum og gæti ekki hugsað sér að búa nein staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Þó ég sé fædd og uppalin í Reykjavík þá er ég smá sveitastelpa og Hafnarfjörður hentar mér einstaklega vel. Hér er bæjarbragur og miðbærinn er æðislegur,“ segir Þóra sem segist sækja nær alla þjónustu hér í bænum og dreymir um að finna hlutastarf hér sem hún geti unnið meðfram búðinni sinni og þurfi sem minnst að fara úr firðinum fagra.
Ferðalög og fuglasöngur
Þóra segir að ferðalög séu eitt af hennar áhugamálum, gjarnan utanlands en núna séu hún og Andri maður hennar dugleg að ferðast innanlands. „Eins og gefur að skilja þá sæki ég gjarnan í fjörurnar en yfir höfuð þá þykir mér íslensk náttúran ákaflega fögur og saknaði hennar þegar ég bjó í Danmörku,“ segir Þóra og bætir við að það sé líka fátt betra en að liggja í heita pottinum heima á palli eða uppi í sumarbústað og hlusta á fuglasöng.