Dalakofinn

Dalakofinn á Linnetstíg er ein elsta starfandi kvenfataverslun landsins. Við hittum eigendurna og systurnar Sjöfn og Guðrúnu Sæmundsdætur til að kynnast rekstrinum.

dalakofinn5BB.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Dalakofinn á Linnetstíg er ein elsta starfandi kvenfataverslun landsins.

Aldar upp við verslunarrekstur

Sjöfn og Guðrún hafa í raun verið tengdar verslunarrekstri alla sína tíð. Foreldrar þeirra, Guðlaug Karlsdóttir og Sæmundur Þórðarson, opnuðu kvenfataverslunina Laufið í miðbæ Reykjavíkur árið 1954 og þar unnu þær stundum sem litlar stelpur, sérstaklega fyrir jólin. Sögu Dalakofans má hins vegar rekja aftur til ársins 1975 þegar pabbi þeirra opnaði verslunina á Linnetstíg 1. „Mamma og pabbi ákváðu þarna að þau vildu ekki lengur vinna saman og betra væri að vera með sitthvora búðina“, segir Guðrún og bætir við pabbi hennar hafi valið nafnið á búðina sem hafi, þrátt fyrir vera alltaf ákaflega fínn í tauinu með hatt og yfirvaraskegg, verið óttalegur sveitakarl sem vildi eiga sinn Dalakofa.

Systurnar tóku alfarið yfir reksturinn árið 1992, eftir að hafa verið þar með annan fótinn í mörg ár,  en þá var pabbi þeirra farinn að nálgast níræðisaldurinn og loksins tilbúinn að hætta. Nokkrum árum seinna þegar verslunarmiðstöðin Fjörðurinn opnaði ákváðu þær að flytja sig um set og voru þar allt til ársins 2016 þegar þær fluttu aftur á Linnetstíginn, í þetta sinn í hús númer tvö. „Í þessum flutningum okkar höfum við samt aldrei þurft að panta bíl heldur bara labbað með kassana yfir“, segir Sjöfn og brosir.   

Nýjar vörur í hverri viku

Eftir öll þessi ár í verslunarrekstri segjast þær alltaf vera jafn spenntar þegar von er á nýjum vörum. Í dag koma sendingar oftast í hverri viku og þær fá aldrei mörg eintök af hverri flík. „Við leggjum upp úr því að hafa góðar vörur fyrir okkar viðskiptavini og vitum hvað okkar konur vilja,“ segir Guðrún en flestar vörurnar koma frá Danmörku, Ítalíu, Frakklandi og Bretlandi. Sjöfn segir að þær fari alla jafna tvisvar á ári á vörusýningar og hafa gert í fjölda mörg ár, annars vegar til Kaupmannahafnar og hins vegar til London.  

Þær viðurkenna að vera alltaf hrifnastar af litríku sumarvörunum en það gangi þó ekki að versla bara það sem þeim sjálfum finnist flott heldur nauðsynlegt að hugsa til heildarinnar.

Áhugi er lykillinn

Viðskiptavinir Dalakofans eru allt frá 13 til 100 ára en stærsti hópurinn eru þó eldri konur sem hafa margar hverjar komið í verslunina í tugi ára. Lykillinn að velgengninni er að sögn Sjafnar númer eitt, tvö og þrjú að sýna viðskiptavininum áhuga og sinna honum. „Við vitum orðið hvaða stærðir sumar konur þurfa og hvernig smekk þær hafa og ósjaldan aðstoðað fólk við að finna eitthvað á mömmur sínar.“

Þær segjast líka hafa tengst mörgum afar vel í gegnum tíðina. „Það eru margar konur sem staldra lengi við hjá okkur, setjast jafnvel í sófann og fá kaffi enda leggjum við upp úr því að hafa notalegt hér“ segir Sjöfn og Guðrún bætir við að þær tárist því oft við að sjá dánartilkynningar en viti líka til þess að einhverjar hafi farið í himnaförina í dressi frá þeim.

dalakofinn6.jpg

Gera sér dagamun

Sjöfn segir að það sé aldrei leiðinlegt í vinnunni, þeim líði ákaflega vel í húsnæðinu á Linnetstígnum, eru með útsýni á alla kanta og sjá alltaf hvað er í gangi í bænum. „Við erum líka duglegar að sitja úti þegar veður leyfir og þá staldrar fólk oft við og spjallar.“ Þá segjast þær hafa gaman að því að gera sér dagamun, klæða sig sem dæmi alltaf í búning á öskudaginn og halda gjarnan afmælisveislur eða kaffiboð í versluninni. „45 ára afmælisveislan okkar, sem við héldum í mars síðastliðinn, heppnaðist einstaklega vel, við fengum Heiðar snyrtir og hingað komu ákaflega margir og gerðu sér glaðan dag“, segir Guðrún.

Áhrif Covid

Aðspurðar um áhrif Covid á reksturinn segja þær að fyrstu þrír mánuðirnir hafi verið mjög erfiðir. „Það kom enginn inn, við ákváðum samt að vera alltaf á vaktinni, styttum opnunartímann aðeins en lokuðum aldrei.“ Þegar vora tók og um sumarið var hins vegar mjög mikið að gera enda fólk ekki að fara til útlanda og þær segja að í raun hafi gengið afar vel síðan.

Á þessum tíma hafa þær þó ekki komist á vörusýningar erlendis eins og vanalega. „Við höfum því þurft að versla í gegnum WhatsApp sem gekk smá brösulega í byrjun en núna erum við orðnar ansi góðar í því“, segir Sjöfn og Guðrún bætir við að birgjarnir viti líka nokkurn veginn eftir því hverju þær eru að sækjast.

Systurnar ákváðu á þessum tíma að prófa að kaupa meira af kjólum fyrir yngri konur þar sem þær eldri voru ragari við að koma í búðina á tímabili. Það gekk ákaflega vel og því hefur nokkuð af nýjum hópi kvenna bæst í hópinn. „Við höfum líka verið duglegri að vekja athygli á vörunum okkar á samfélagsmiðlum og það skilar sér alltaf og við þá gjarnan að senda eitthvað út á land.“

dalakofinn1.jpg

Vesturbæjarvillingar

Sjöfn og Guðrún eru uppaldar í Hafnarfirði og fjölskyldan bjó alltaf í sama húsinu á Merkúrgötunni og þar búa þær systur í dag. „Við erum vesturbæjarvillingar,“ segir Guðrún og brosir og Sjöfn bætir við að þær vilji hvergi annar staðar vera en í Hafnarfirði, hér sé gott andrúmsloft og bæjarbragur. Hellisgerði og Hvaleyrarvatn eru í nokkru uppáhaldi og þær fara gjarnan í sundlaugarnar. „Guðrún fer alltaf í Suðurbæjarlaugina en ég fer líka í gömlu laugina á Herjólfsgötunni“, segir Sjöfn og nefnir einnig Víðistaðatúnið sem góðan stað til að fara með barnabörnin á.

Garðpartý með söng og hlátri

Þegar þær systur standa ekki vaktina í búðinni sinni njóta þær þess að vera með fjölskyldunni, fara í sund eða göngutúra og Guðrún hjólar um bæinn á rafhjóli. „Við erum líka með stóran og mikinn garð sem þarf að sinna en þar höldum við gjarnan garðpartý þar sem mikið er sungið og hlegið“, segja þær systur að lokum.