Hjá Berserkjum axarkasti á Hjallahrauninu kemur fólk saman til að kasta öxum sem er að sögn eigenda góð blanda af keppni og vitleysu.
Við hittum eigendurna Helgu Kolbrúnu Magnúsdóttur og Elvar Ólafsson til að kynnast rekstrinum.
Kynntust axarkasti í Kanada og Nýja-Sjálandi
Starfsemi Berserkja axarkasts hófst formlega þann 10. maí árið 2018 þegar tekið var á móti fyrsta hópnum á Hjallahrauninu. Undirbúningurinn hafði þá staðið yfir í nokkra mánuði, finna þurfti húsnæði, innrétta það og ýmislegt fleira sem felst í því að opna fyrirtæki. „Við Elvar kynntumst bæði axarkasti árið 2017 en reyndar í sitthvorum heimshlutanum, hann í Kanada en ég í Nýja-Sjálandi,“ segir Helga en þau kolféllu strax fyrir þessu þá og tóku fljótlega ákvörðun um að opna svona stað saman. Þess má geta að þau eru tengd fjölskylduböndum en Rannveig systir Helgu er sambýliskona Elvars og situr jafnframt í stjórn fyrirtækisins.
„Í undirbúningsferlinu fórum við líka til London í skoðunar- og æfingarferð, sem kom sér ákaflega vel,“ segir Elvar en þá hafa þau jafnframt lært heilmikið um axarkast í gegnum YouTube og eru í nokkrum alþjóðlegum axarkastshópum á samfélagsmiðlum.
Axarkast fyrir alla
Það geta allir stundað axarkast að sögn Elvars og Helgu. „Við erum með 16 ára aldurstakmark en yngri börn geta komið í fylgd með fullorðnum,“ segir Helga og Elvar bætir við að hingað hafi komið eldri maður í göngugrind en einnig átta ára barn og báðum gengið vel, þó það sé ekki sjálfgefið.
Íslendingar eru í miklum meirihluta viðskiptavina, þó nokkrir túristar hafi vissulega komið til þeirra. „Hingað koma oft fyrirtæki í hópefli, þá er vinsælt að stoppa hjá okkur í steggjunum og gæsunum en hingað koma líka vinahópar, fjölskyldur eða fólk á stefnumóti,“ segir Elvar.
Kennsla og keppni
Elvar og Helga voru staðráðin í því frá upphafi að allir fengju kennslu þegar þeir kæmu til þeirra. „Við réttum fólki ekki bara exi og hleypum þeim af stað, heldur er ávallt starfsmaður með hverjum hóp sem kennir grundvallaratriðin og fylgist með og leiðbeinir,“ segir Helga en staðsetning, kraftur og snúningur skipta mestu máli í axarkasti.
Þá er ávallt sett upp mót fyrir hópa til að gera þetta enn skemmtilegra. „Axarkast er upplifun en jafnframt góð blanda af keppni og vitleysu,“ segir Elvar og brosir.
Yfir 5000 heimsóknir
Viðtökurnar voru strax í upphafi nokkuð góðar og reksturinn var kominn á fljúgandi siglingu þegar Covid skall á. „Við höfum fengið rúmlega 5000 heimsóknir hingað á Hjallahraunið frá opnun,“ segir Helga en Elvar bætir við að þá hafi líka mjög margir farið í axarkast á þeirra vegum utandyra.
Berserkir eiga nefnilega sex svokölluð ferðasett og geta boðið upp á axarkast utandyra á góðviðrisdögum. Þau hafa þá aðallega verið á Víðistaðatúni eða Hörðuvöllum hér í Hafnarfirði en einnig ferðast með það í hinar ýmsu sveitir. „Það er oft gott að vera utandyra ef hóparnir eru stórir,“ segir Elvar en í húsnæðinu á Hjallahrauni taka þau í mesta lagi 24 inn í einu.
Æfingar og mót
Þann 26. september næstkomandi verður haldið haustmót Berserkja og öllum velkomið að taka þátt, bæði byrjendum og þeim sem hafa verið að kasta öxum í lengri tíma. „Við höfum haldið fimm mót hingað til og ávallt verið ótrúlega gaman,“ segir Helga og bætir við að hluti mótsgjaldsins sé að fá að mæta á nokkrar æfingar á næstu dögum. Þau eiga von á því að fyrrum keppendur taki þátt en vonast líka til að sjá ný andlit. „Við viljum gjarnan vera með æfingahóp sem kæmi hingað reglulega og myndum þá vera enn oftar með mót,“ segir Elvar en fyrir Covid voru nokkrir farnir að æfa en það hefur því miður ekki enn farið aftur á stað. Þau eru á því að þetta sé frábært hjónasport en einnig fyrir vini, bræður, systur eða frændsystkini.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segja þau strax að hann hafi verið töluverður. „Við þurftum tvisvar að loka. Breyttum opnunartíma og hættum að leyfa fólki að koma inn af götunni, núna þarf því alltaf að panta tíma fyrirfram til að við getum passað upp á fjöldann og fjarlægðir,“ segir Helga og Elvar bætir við að Covid hafi alls ekki verið gott fyrir hópefli. Þau segjast þó hafa verið með nokkuð af minni hópum þá sérstaklega fjölskyldum sem voru hvort sem er saman í búbblu.
Núna er hins vegar allt komið aftur á fullt enda þörfin orðin mikil og vinnustaðir duglegir að skipuleggja hópefli. „Það var reyndar líka brjálað að gera síðasta sumar og við höfðum þá varla undan,“ segir Elvar en besti tími ársins í axarkastinu er vanalega á vorin og haustin.
Vel tekið í Hafnarfirði
Elvar hefur búið í Hafnarfirði í mörg ár og kann ákaflega vel við sig hér og segir að Norðurbærinn sé sinn staður. „Víðistaðatún er í nokkru uppáhaldi, gönguleiðirnar í hrauninu, frisbígolfið og aparólan.“
Helga býr ekki hér en segir að hún kunni ákaflega vel við bæinn og hefur góða reynslu af því að vera hér í rekstri. „Bærinn hefur tekið okkur afar vel og þá sérstaklega þegar kemur að afnotum af grasssvæðunum.“ Helga segist líka alltaf vera að átta sig á því betur og betur hvað þetta er skemmtilegur bær, kann vel við Strandgötuna og fari gjarnan á tónleika í Bæjarbíó og þá komi Elvar oft með.
Borðspil og bogfimi
Elvar og Helga eiga töluvert af áhugamálum. „Fótbolti, badminton, borðspil og síðan er ég byrjaður að spila á bassa,“ segir Elvar og á þá við bæði borðspil af flóknari gerðinni en einnig fjölskylduspil. „Ég syng og stunda bogfimi, samt ekki á sama tíma,“ segir Helga og hlær en hún hefur verið í kórum í tæp 20 ár. Elvar skýtur því inn í að lokum að Helga sé margfaldur Íslandsmeistari í bogfimi sem sé aldeilis fínn grunnur fyrir axarkastið.