Ramba

Ramba, netverslunin með alhafnfirska nafnið, selur hágæða hönnunar- og heimilisvörur. Við hittum eigandann Guðný Stefánsdóttur til að kynnast rekstrinum.

ramba2B.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Ramba, netverslunin með alhafnfirska nafnið, selur hágæða hönnunar- og heimilisvörur.

Alin upp í búðarbransanum

Ramba varð til snemma á síðasta ári en Guðný segist í raun alltaf hafa vitað að hún myndi opna einhvers konar verslun, spurningin var ekki hvort heldur hvernig. „Ég er alin upp í búðarbransanum, mamma átti skóbúð og ég hef í gegnum árin unnið í ýmsum verslunum. Þrátt fyrir að hafa menntað mig í ferðamálafræði þá togaði hönnun og verslunarbransinn alltaf í mig“, segir Guðný sem tók loksins skrefið ásamt manni sínum og vinahjónum og ákveðið var að leggja áherslu á sérvaldar hágæða hönnunar- og heimilisvörur.

Fíngerðu plastglösin slógu í gegn

Í netversluninni má finna matarstell, skálar, vasa, kerti, ilmstangir, hátalara, lampa, viðarbretti, hillur, spegla, rúmföt, myndir og margt fleira. „Við erum mikið með vörur frá Danmörku og Svíþjóð en einnig töluvert af íslenskri hönnun sem mér þykir einstaklega skemmtilegt enda myndast þá góð persónuleg tengsl við hönnuðina.“ Ramba selur meðal annars vörur frá hafnfirska hönnuðinum Önnu Þórunni og frá íslensku merkjunum IHanna, Pastel Paper og Nostr.

ramba8.jpg

Þekktasta varan þeirra er að sögn Guðnýjar Picnic glösin, fíngerð og falleg plastglös á fæti sem henta vel í útilegur og í heita pottinn. „Þetta er í raun heil lína og frábær borðbúnaður fyrir útileguna sem sló strax í gegn og kom okkur í raun á kortið.“

Lítið fjölskyldufyrirtæki

Í dag sér Guðný alfarið um reksturinn en fjölskyldumeðlimir hjálpa þó oft til enda er netverslunin staðsett á heimili þeirra í Grænukinn. Eiginmaðurinn, Gestur Jónsson, keyrir gjarnan út pantanir og tíu ára sonurinn hefur ósjaldan afhent viðskiptavinum vörur. „Við erum líka farin að leigja bílskúr af einum nágrannanum og önnur nágrannakona hefur afhent vörur fyrir okkur ef við erum út úr bænum“, segir Guðný og greinilegt að allir hjálpist að í Grænukinninni en þar bjó Guðný einnig sem barn og keypti húsið af afa sínum og ömmu. 

Guðný tekur fram að þó hún sjái um flest allt í tengslum við reksturinn þá geti enginn rekið fyrirtæki aleinn, vinir og vandamenn séu ákaflega mikilvægir. Í hennar tilviki er nauðsynlegt að fá aðstoð við að keyra út, nú eða fá álit við vöruval og nýlega hafi vinkona hennar sem dæmi komið með henni á vörusýningu í París.

ramba5.jpg

Þjónustulund mikilvæg

Eftir að hafa starfað í verslunum í mörg ár segist Guðný vita hvað fólk vill og hvað ekki. Góð þjónusta er lykillinn og hún leggur mikið upp úr því að veita hana. „Það er hægt að skila öllum vörum hjá okkur og við endurgreiðum ef fólk vill ekki inneignarnótu, eitthvað sem er ákaflega mikilvægt í netverslun eins og þessari.“ Þá fylgja lavenderstrá með hverri sendingu til að auka enn á gleðina við að opna pakkann og honum fylgir þá líka góð lykt.

Alhafnfirskt nafn

Aðspurð um nafnið Ramba hlær Guðný og segir að það sé jú alhafnfirskt og hugmyndin að nafngiftinni hafi komið nokkuð snemma í ferlinu. „Ég og vinkona mín, sem var með mér þessu í upphafi, erum báðar Hafnfirðingar og að ramba var hinn eðlilegasti hlutur fyrir okkur. Eiginmenn okkar skyldu hins vegar ekkert í þessu orði og notuðu frekar að vega salt. Þetta varð því einhvern veginn alltaf orð sem okkur fannst fyndið og notuðum óspart. Verandi hafnfirsk verslun fannst okkur nafnið því ákaflega viðeigandi.“

Dreymir um að opna verslun

Draumurinn er að opna verslun í miðbæ Hafnarfjarðar en það er að sögn Guðnýjar hægara sagt en gert að finna húsnæði. „Mig langar að vera með verslun þar sem fólk á göngu droppar inn og þá væri frábært að geta sjálf labbað í vinnuna,“ segir Guðný sem er líka fullviss um að Hafnfirðingar styrki Hafnfirðinga. „Við erum lið sem styrkir hvort annað.“

ramba9.jpg

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðný að þau hafi opnað í miðjum faraldri og þekki í raun ekkert annað. Hún telur annars að áhrifin hafi í raun bara verið jákvæð fyrir Ramba. Fólk var mikið heima og skoðaði og keypti þá vörur á netinu. „Íslendingar lærðu líka að versla á netinu á þessum tíma, flestir áttuðu sig á því hversu þægilegt og auðvelt það er og margir farnir að nýta sér það í meira magni í dag.“

Guðný nefnir einnig að á verstu Covid tímunum hafi fólk ekki viljað fara neitt og þá hafi verið gott að vera með fría heimsendingu. „Við afhentum allar vörur með grímu og hanska og stundum skildum við vörur eftir fyrir utan hjá fólki.“ Fyrsta hálfa árið var öll heimsending frí til að hjálpa versluninni að koma sér á kortið en í dag kostar hún ekkert ef keypt er fyrir meira en tíu þúsund krónur. „Fólk bætir þá stundum einhverju í pöntunina til að ná í þá upphæð en aðrir koma hingað til okkar að sækja vörur.“

Lækurinn í uppáhaldi

Guðný er Hafnfirðingur og hefur búið hér mest alla ævi. „Mér finnst miðbærinn orðinn svo æðislegur og er svo þakklát verslunareigendum sem hafa lagt sig fram við að vekja athygli á bænum okkar og búið til einstaka og notalega stemmningu,“ segir Guðný og bætir við að hún reyni ávallt að sækja vörur og þjónustu í Hafnarfirði.

ramba6.jpg

Ef hún ætti að nefna einhvern uppáhaldsstað í bænum þá yrði það lækurinn, þangað sem hún fer mikið með börnin sín en jafnframt er henni mikilvægt að búa örstutt frá einstakri náttúru þar sem ríkir algjör friður.

Fjallgöngur og hjól

Fjallgöngur og samverustundir með fjölskyldunni gefa Guðný ákaflega mikið. „Ég fer gjarnan í fjallgöngu ef ég þarf að hreinsa hugann en hef einnig farið í lengri og meira krefjandi göngur. Gekk t.d. á Hvannadalshnjúk fyrir nokkrum árum.“ Hún segir að í undirbúningsferlinu fyrir Hnjúkinn hafi Helgafell verið ákaflega góður æfingastaður og hún farið þangað fjórum sinnum í viku.

Fjölskyldan er þá einnig töluvert á hjólum en Gestur, maðurinn hennar er Íslandsmeistari í fjallahjólabruni. „Við erum bara mikið útiverufólk og viljum gjarnan vera nálægt fjöllum og ferðuðumst sem dæmi um landið í sumar í 29 daga með tjaldvagninn í eftirdragi“, segir Guðný brosandi að lokum.