VON mathús & bar

Á VON mathús & bar er lögð áhersla á ferskt íslenskt hráefni og notalega stemmningu. Staðurinn á marga trausta viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur.

Við hittum eigendurna og hjónin Einar Hjaltason og Kristjönu Þuru Bergþórsdóttur sem eru að eigin sögn afar dugleg að hafnarfjarða.

von8.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Á VON mathús & bar er lögð áhersla á ferskt íslenskt hráefni og notalega stemmningu.

Vildu bæta flóruna í bænum

Rétt fyrir jólin árið 2015, nánar tiltekið þann 18. desember, opnaði VON mathús & bar í gamla Drafnarhúsinu við Strandgötuna. Einar og Kristjana voru þá svo til nýflutt í Hafnarfjörðinn, með lítið barn og vildu gjarnan vinna hér og skapa sér sína eigin atvinnu. „Pælingin var líka að bæta við í flóruna í Hafnarfirði en okkur fannst vanta þessa þjónustu, það er gæði í mat og drykk í casual umhverfi,“ segir Einar og Kristjana bætir við að það hafi nú samt margir haft litla trú á þessu enda staðsetning talin vera lykilatriði í veitingageiranum.

242694909_1884199831787068_4143449553914423615_n.jpg

Þegar ákvörðunin var tekin gekk allt hratt fyrir sig. „Við hættum í okkar vinnu í september, fengum húsnæðið afhent í nóvember og vorum búin að opna í desember.“ Þau smíðuðu og innréttuðu allan staðinn sjálf með góðri aðstoð fjölskyldu og vina. „Mamma mín er stílisti og kom með margar góðar hugmyndir og síðan fengum við nokkra skemmtilega muni gefna meðal annars úr skúrnum frá tengdapabba,“ segir Einar. Í upphafi var staðurinn mun hrárri en hann er í dag en hægt og bítandi hafa þau verið að gera ýmsar breytingar.

Frábærar viðtökur

Hafnfirðingar voru greinilega tilbúnir í stað af þessu tagi þar sem viðtökurnar voru frábærar. „Fyrsta árið var bara algjört dúndur, allir eitthvað svo spenntir og þyrstir,“ segir Kristjana og það hljóðnaði því fljótt í efasemdarmönnum. Einar segir að það sé líka að verða töluverð breyting í veitingageiranum og fleiri að átta sig á því að hægt er að vera með góða staði á öðrum stöðum en í miðbæ Reykjavíkur. „Það hafa nokkrir hverfisstaðir opnað að undanförnu og við ákaflega ánægð með þá þróun.“

Þau eru einnig ákaflega ánægð með að það séu komnir fleiri góðir veitingastaðir hér í Hafnarfirði, sem og öflugt starf í Bæjarbíó og Gaflaraleikhúsinu. „Hafnarfjörður er orðinn áfangastaður þegar kemur að mat og afþreyingu, sem er ótrúlega jákvætt.“ Einar og Kristjana eru því dugleg að sækja aðra staði í bænum, voru sem dæmi nýkomin af Kænunni þegar viðtalið var tekið og segjast fara reglulega á Víkingakránna með vinum og börnum þeirra.

Breytilegur matseðill

Aðspurð um hver sé sérstaða VON mathúss horfa þau á hvort annað og segja að þetta sé alltaf erfið spurning. „Við notum aðallega íslenskt hráefni og erum mikið með fisk og grænmeti en grunnhugmyndin er í raun ferskur og einfaldur matseðill,“ segir Einar og bætir við að þá sé hádegisseðillinn alltaf breytilegur, sé í raun aldrei eins og breytist frá degi til dags.

von7.jpg

„Við erum þreytt á því að vera of formleg,“ segir Kristjana og þau breyti því líka reglulega kvöldmatseðlinum, fái stundum bara leið á réttum og hendi þeim þá bara út og leyfi staðnum að þróast, eldi gjarnan það sem þeim finnist gott. Einar tekur undir þetta og segir að þau séu núna sem dæmi með mikið af réttum undir ítölskum áhrifum enda elski þau ítalskan mat.

„Við vinnum líka mikið með grænmeti, erum bæði með vegan- og grænmetisrétti sem eru mjög vinsælir, sérstaklega hjá ungu fólki en aldurshópurinn sem kemur til okkar er orðin mun breiðari en hann var í upphafi,“ segir Kristjana.

Fastagestirnir algjört gull

VON mathús á mjög mikið af fastagestum, fólk sem kemur jafnvel tvisvar til þrisvar í viku í hádeginu og hefur gert í nokkur ár. „Fastagestirnir okkar eru algjört gull, við værum ekkert án þeirra en þetta eru mismunandi hópar,“ segir Kristjana og nefnir þá reglulegu hádegisgestina, en síðan eru það vinkonuhópar sem koma til að borða og drekka, svo bjórhópar sem fá nokkra ískalda af krana og eitthvað smáræðis með því.  

Þau segja að meirihluti gesta séu vissulega Hafnfirðingar og þetta því hverfisstaður en til þeirra komi líka fólk lengra að. „Hafnfirðingar eru svo miklir pepparar og fá gjarnan vini sína til að koma hingað sem er frábært,“ segir Einar.

Ófeimin við breytingar

von4.jpg

Einar og Kristjana standa vaktina mjög mikið sjálf og eru því ekki með marga starfsmenn. Þau segja að þessa sé vissulega ekki alltaf dans á rósum, rekstrarkostnaður hafi aukist mikið að undanförnu og það sé oft erfitt að slíta bilið á milli vinnu og heimilis. „Þetta er samt bara lífstíll og okkur þykir hann skemmtilegur. Við viljum hitta viðskiptavini okkar og spjalla, og þeir vilja hitta okkur.“

Þau segjast þó ófeiminn við að gera breytingar til að láta allt ganga upp. „Við erum sem dæmi alltaf með lokað á sunnudögum og mánudögum, eitthvað sem sumum fannst skrýtið í upphafi, en við þurfum bara okkar frí,“ segir Kristjana og bætir við að þau eigi líka gott bakland sem aðstoði þau.

Notaleg stemmning

Á VON er lagt upp með að hafa gott og afslappað andrúmsloft. „Staðurinn er ekki stór, eldhúsið er opið en hér er á sama tíma oftast notaleg og góð stemmning,“ segir Einar og Kristjana bætir við að það sé orðið afar vinsælt að koma hingað og deila nokkrum smáréttum og þá myndist einhver skemmtileg stemmning.  Þau segja jafnframt að það sé mikilvægt að starfsfólkið í þjónustunni nái að lesa salinn rétt og velji t.d. mismunandi tónlist eftir því hvernig gestasamsetningin sé hverju sinni.

Áhrif Covid

Covid faraldurinn hafði vissulega mikil áhrif á rekstur mathússins. „Þetta var mjög skrýtinn og krefjandi tími og við þurftum að aðlaga okkur dag frá degi og vera útsjónarsöm,“ segir Kristjana en þau lokuðu staðnum í upphafi faraldursins í einn mánuð, eftir það tók við um sex vikna tímabil þar sem þau voru með mismunandi útfærslur af take-away. Einar bætir við að allar takmarkanir hafi snert þeirra rekstur, svo sem opnunartakmarkanir og 2ja metra reglan, og því hafi þau oft þurft að reikna dæmið út dag fyrir dag s.s. hvort það borgi sig að geta bara tekið á móti tíu gestum í einu.

Þau sjá þó eitt jákvætt við faraldurinn en það er að hegðunarmynstur fólks hefur breyst og það nú opnara fyrir því að koma á öðrum tíma. „Fólk kemur núna fyrr út að borða, sem dæmi kl. 17 á laugardögum, eitthvað sem er mjög gott fyrir veitingahúsamenninguna á Íslandi.“

Dugleg að hafnarfjarða

Kristjana er fædd og uppalin í Hafnarfirði en Einar flutti hingað árið 2014 og fann um leið að hér var afar góður andi. „Það er einhver sérstakur bæjarbragur hér, Hafnfirðingar styðja hvern annan og vilja að öðrum gangi vel, hugsa um hagsmuni annarra,“ segir Einar og bætir við að þau tvö séu einmitt mjög dugleg í að hafnarfjarða og hafi gert undanfarin ár, og á þá við að þau peppi bæinn gjarnan upp. „Suma daga hafnarfjarða ég næstum því yfir mig,“ segir Kristjana og hlær en það sem henni finnst best við bæinn sinn er í raun miðbærinn og höfnin, lífið í kringum siglingaklúbbinn sé skemmtilegt og Hellisgerði er algjör perla.

Þá er upplandið þeim hjónum afar kært. Þau ganga reglulega á Helgarfellið, njóta sín við Hvaleyrarvatnið og fara gjarnan í skógræktina.

Leirdúfur og draugasögur

Í frítíma sínum segjast Kristjana og Einar gjarnan ferðast enda mikilvægt að komast til útlanda, prófa veitingastaði og fá hugmyndir. „Við gerðum mjög mikið af því að fara út fyrir Covid en síðustu tvö árin höfum við ferðast meira hér innanlands.“

Einar segist annars skjóta leirdúfur, sem sé hrikalega skemmtilegt og krefjist mikillar einbeitingar og þá fari hann stundum á veiðar. Kristjana stundar yoga og nýtur þess að vera með fjölskyldu og vinum en elski líka að hlusta á draugasögur og það sé í raun hennar hugleiðsla.