Sjónlínan

Í Sjónlínunni á Strandgötunni er sérstök áhersla lögð á gæði en þar hefur einnig verið unnið frumkvöðlastarf í því að klæðskerasníða margskipt gler.

Við hittum hjónin og eigendur Sjónlínunnar Kristínu Dóru Sigurjónsdóttur (Dóra) og Pétur Óskarsson til að kynnast rekstrinum.

sjonlinan13.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Í Sjónlínunni hefur verið unnið frumkvöðlastarf í því að klæðskerasníða margskipt gler.

Gler ekki sama og gler

Sjónlínan opnaði þann 1. nóvember árið 2007 og hefur allt frá upphafi verið á Strandgötu 39 en Dóra og Pétur voru strax harðákveðin í því að verslunin yrði að vera í Hafnarfirði, þeirra heimabæ. Þau bjuggu þó til fjölda ára í Þýskalandi og þar lærði Dóra sjóntækjafræði og starfaði í greininni. „Ég öðlaðist mikla og dýramæta reynslu í Þýskalandi sem er ákaflega kröfuharður markaður þegar kemur að gleraugum“, segir Dóra og ítrekar að gler séu ekki bara gler og það geti verið afar mikill gæðamunur þar á. Pétur segir að þeim hafi því fundist vera tækifæri á markaði fyrir gleraugnaverslun sem leggur sérstaklega mikla áherslu á gæði. Dóra er með fagþekkinguna og stendur daglega vaktina en Pétur sér um markaðsmál, fjármál, innflutning og fleira sem til fellur.

Fullkominn tækjabúnaður

Sjónlínan hefur yfir að ráða fullkomnum tækjabúnaði til sjónmælinga. Dóra sjónmælir viðskiptavini, aðstoðar þá við að velja umgjörð og að ákveða hvaða gler passi fyrir viðkomandi. Glerin koma öll frá Þýskalandi en Dóra sker þau í umgjarðirnar og stillir gleraugun á andlit hvers og eins. „Dagarnir eru mjög mismunandi, stundum er ég mikið í því að sjónmæla, aðra daga á verkstæðinu að skera gler eða gera við en stundum er mest að gera fram í búð“, segir Dóra.

Klæðskerasníða margskipt gler

Þegar kemur að margskiptum glerjum er að ýmsu að huga og Sjónlínan er með sérstakt 3D tæki til að gera mikilvægar mælingar. „Við erum frumkvöðlar í því að klæðskerasníða margskipt gler hér á landi“, segir Pétur en nauðsynlegt sé að vita hvernig andlitslag viðkomandi hefur og við hvað hann starfar. „Atvinnubílstjórar, skurðlæknar eða fólk sem vinnur við tölvu þarf sem dæmi mismunandi gler enda aðstæður þeirra afar frábrugðnar“.

Dóra segir að fyrstu árin hafi fólk mikið vera að koma til hennar sem var búið að upplifa vandræði með margskiptu gleraugun sín. „Við leystum það vandamál og það spurðist greinilega út. Það hefur því margoft gerst að fleiri en einn frá einhverjum vinnustað komi til mín eftir að hafa heyrt af gæðum glerjanna okkar sem og þjónustu“.

sjonlinan7.jpg

Mikil framþróun

Aðspurð segja þau hjónin að í þessum bransa sé ákaflega mikil framþróun. „Það eru hreinlega lífsgæði að vera með góð gleraugu og sem betur fer gerast reglulega einhver verkfræðiundur“, segir Pétur og brosir. Hann á þá við að gleraugu sé orðin mun léttari, dökknandi glerin orðin betri, glampavörn miklu betri og bláljósafilter orðinn hluti af góðum glerjum í dag.

Sumir með sparigleraugu

Hafnfirðingar eru vissulega stór hluti viðskiptavina Sjónlínunnar en þangað kemur einnig fólk víða að. „Við eigum sem dæmi marga viðskiptavini utan af landsbyggðinni og oft eru það heilu fjölskyldunnar sem koma til okkar“, segir Dóra en margir hafa verið í viðskiptum við Sjónlínuna allt frá upphafi.

Dóra segir annars mjög mismunandi hversu lengi fólk eigi gleraugun sín. „Stundum breytist sjónin og þá þarf að skipta, sumir fá þá bara ný gler meðan aðrir velja einnig nýja umgjörð. Það færist líka í aukana að fólk eigi gleraugu til skiptanna, eiga þá kannski ein sparigleraugu“, segir hún og brosir.

sjonlinan11_vintage.jpg

Vintage hornið

Í versluninni má finna svokallað vintage horn en þar eru ónotaðar gamlar umgjarðir frá um 1960 til 1985 keyptar af gömlu lagerum í Þýskalandi. „Þetta byrjaði mjög smátt sem nokkurs konar áhugamál hjá mér að finna gamlar umgjarðir. Við vorum með þrjár í upphafi en núna eru þær hátt í 100“, segir Dóra. Pétur segir að hann kalli þetta oft popparahornið enda sé það sérstaklega vinsælt meðal tónlistarmanna en einnig ýmissa listamanna og ungs fólks.  

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hafði vissulega einhver áhrif á rekstur Sjónlínunnar. Versluninni var lokað í nokkrar vikur í fyrstu bylgjunni en aðaláhrifin tengdust frekar lengri afhendingartíma vara. „Það hægði mikið á ýmsum ferlum, afgreiðsla sumra vara stoppaði algerlega þar sem eitthvað efni vantaði í framleiðsluna eða fyrirtæki voru sett í sóttkví“, segir Pétur og ítrekar að í þessum geira sé mikið handsmíðað og fólk gat því lítið unnið heima við eins og í öðrum geirum.

Annað sem breyttist var að Dóra og Pétur gátu ekki farið á vörusýningar sem þau sækja reglulega í París, München eða Mílanó og fengu heldur enga heimsókn frá þýska fyrirtækinu Rodenstock, þaðan sem þau fá glerin og mælingartæki, til að fá fræðslu um það nýjasta í bransanum.

Lognið og Kugelbake

Pétur er Hafnfirðingur, alinn upp á Sléttuhrauninu svo í Norðurbænum. Í dag búa þau hjónin í miðbænum, einungis nokkrum metrum frá verslunninni og kunna ákaflega vel við sig. „Það er alltaf logn í miðbænum og hér er gott að ala upp börn“, segir Pétur og bætir við að honum þyki líka vænt um mannlífið, finnist gott að þekkja marga sem hér búa og nálægðin við náttúruna sé líka verðmætt.

Strandlengjan er einnig í uppáhaldi en Dóra segist ganga þar á á hverjum degi með hundinn og þá eigi Kugelbake, innsiglingamerkið frá vinabænum Cuxhaven, sérstakan stað í huga fjölskyldunnar en þau heimsóttu innsiglingamerkið þegar þau fóru til Cuxhaven fyrir nokkrum árum. „Annars elska ég líka Strandgötuna og er ákaflega ánægð með hversu margar flottar búðir hafa opnað hér og mannlífið alltaf að verða meira og betra“, segir Dóra.

sjonlinan1.jpg

Göngur og skíði

Þegar Dóra og Pétur eru ekki í vinnunni þá fara þau gjarnan í fjallgöngur eða á skíði. „Við förum gjarnan öll fjölskyldan saman á skíði sem er hrikalega skemmtilegt en svo erum við líka mikið fyrir göngur“, segir Dóra. Hún segist þá oft vera með hundinn með sér og hlusti gjarnan á eitthvað skemmtilegt og segir að Storytel sé í raun algjör bylting fyrir göngufólk og hún taki ósjaldan aukahring til að klára kafla eða einhverja frásögn.

Pétur gengur um Hafnarfjörðinn á hverjum laugardagsmorgni með félögum sínum úr Flensborg. „Við hittumst alltaf við Hafnarfjarðarkirkju, göngum um um bæinn og endum svo á kaffihúsi og ráðum heimsmálin“, segir Pétur en um er að ræða um átta manna hóp sem hefur haft þennan háttinn á í hverri viku frá árinu 2003.