IK innréttingar á Rauðhellu sinnir allri almennri sérsmíði og leggur áherslu á að skila af sér góðu verki.
Við hittum smiðina og eigendur Heiðar Ólafsson og Breka Konráðsson til að kynnast rekstrinum.
40 ára saga
Sögu IK innréttinga má rekja allt til ársins 1981 en þá hóf Innréttingarverkstæði Kristjáns starfsemi sína. Árið 2013 frétti Kári Harðarson, meðeigandi Heiðars og Breka að Kristján væri kominn á aldur og vildi gjarnan selja reksturinn. Kári taldi þetta kjörið tækifæri og keypti verkstæðið ásamt Heiðari og stuttu seinna kom Breki inn í reksturinn. Heiðar og Breki kynntust í smíðanáminu í Iðnskólanum og hafa alla tíð fylgst nokkuð þétt að í hinum ýmsum smíðastörfum. Kári er í öðrum daglegum rekstri en er IK Innréttingum alltaf innan handar ef þörf krefur.
„Við ákváðum að breyta nafninu í IK innréttingar, ákveðin stytting en á sama tíma heiðrum við minningu Kristjáns“, segir Heiðar. Tveimur árum seinna ákváðu þeir jafnframt að færa sig úr Skútuhrauninu í hentugra húsnæði á Rauðhellu.
Sérsmíði
Þeir félagar segjast sinna allri almennri sérsmíði. „Við erum þó fyrst og fremst í innréttingum fyrir
eldhús, baðherbergi og þvottahús, smíðum líka fataskápa og fleira“, segir Heiðar og bætir við að
þeir geri líka ýmislegt annað, séu með sprautuklefa og gefi því oft gömlum innréttingum
andlitslyftingu.
„Við erum í raun með fjóra stóra viðskiptavini, eitt fasteignafélag og þrjár hönnunarstofur, sem sjá okkur fyrir öllum verkum“, segir Breki og Heiðar nefnir að þeir hafi aldrei auglýst sig og málið sé bara að skila góðu verki og þá komi viðskiptavinirnir alltaf aftur til þeirra.
Samstarf með hönnuðum
Handverk IK innréttinga má einna helst finna í heimahúsum og atvinnuhúsnæðum. „Hönnunarstofurnar eru mikið að vinna í eldri húsum sem þarf að endurbæta og fasteignafélagið í atvinnuhúsnæðum. Við fáum þá nýjar teikningar og smíðum eftir þeim en oft á tíðum fá hönnuðir líka álit okkar varðandi sniðugar lausnir enda gott samstarf ákaflega mikilvægt“, segir Heiðar. Breki bætir þá við að þeir hafi líka smíðað hátt í 200 náttborð sem eru seld hjá Vogue og eru ákaflega vinsæl en Heiðar segir að honum finnist annars ákaflega gaman að gera eitthvað sem hann hafi ekki gert áður. „Mér finnst frábært að fá ögrandi verkefni og láta það heppnast þó maður þurfi stundum hálfpartinn að finna upp hjólið.“
Miklar tískusveiflur
Þegar kemur að innréttingum eru þeir félagar sammála um að þar séu miklar tískusveiflur. „Þegar við byrjuðum var allt hvítt eða eik, síðan varð alltaf ljósgrátt en í dag eru frontar orðnir dekkri“, segir Heiðar. Breki segir að efnisval gangi einfaldlega í hringi, hvítar háglans innréttingar séu alveg dottnar út núna en hann spáir því að þær komi örugglega aftur eftir sjö til átta ár. Þá sé plastlagt efni meira að ryðja sér til rúms heldur en spónlagt þar sem það sé mun endingarbetra.
Þó efnisvalið breytist þá er handverkið oft svipað og þeir segja að vélarnar þeirra endist vel. Nýverið
fjárfestu þeir þó í stórum tölvustýrðum yfirfræsara sem leysir nokkrar gamlar af hólmi. „Það er helst að það komi uppfærslur þegar kemur að skúffukerfum, lömum, innvolsum og efnisúrvali. Við fylgjumst því vel með þróun á þeim markaði“.
Áhrif Covid
Þeir segja að Covid hafi í raun haft lítil áhrif á starf þeirra enda lítill vinnustaður. Þó hafi þeir vissulega orðið varir við töluvert af efnisskorti. „Það var vöntun á plötum og timbri, framleiðslur úti í heimi stoppuðu hreinlega og litla Ísland var aftarlega á listanum þegar kom að afgreiðslu pantana“, segir Breki og það hafi því oft verið mikil seinkunn á verkum og sé í raun enn og þeir sjá ekki endilega fyrir endann á því. „Við erum því farnir að panta inn efni miklu fyrr en áður, þurfum að hugsa vel fram í tímann og vera skipulagðir“, segir Heiðar.
Kaplakrikinn í uppáhaldi
Heiðar er Hafnfirðingur, uppalinn í bænum og vill hvergi annars staðar búa. Aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann strax að það sé öll sagan, þar á meðal fallegur miðbær en hér sé líka allt afar fjölskylduvænt og rólegt. Þegar hann er beðinn um að nefna uppáhaldsstaðinn sinn í bænum stendur ekki á svari. „Kaplakrikinn en þaðan á ég margar góðar minningar og mæti reglulega á leiki“.
Breki býr í Reykjavík, keyrir alltaf á móti umferðinni á leið til vinnu og kann vel við sig í Hafnarfirðinum. „Þetta er bær, hér eru barir og kaffihús og miðbærinn og höfnin eru mjög sjarmerandi“.
Bjór og píla
Þegar þeir félagarnir eru ekki að smíða þá brugga þeir gjarnan saman bjór og spila pílu. „Við erum fjórir saman að brugga og pílast og stofnuðum Dart Brewery á síðasta ári og erum að gera ýmsar tilraunir í bjórgerð“.
Breki segist líka vera forfallinn veiðimaður, stundi stangveiði á sumrin og skotveiði á veturna. Heiðar
er meira í boltanum, spilar bumbubolta einu sinni í viku og fylgist vel með liðunum sínum FH og
Tottenham.