Ísblik

Hjá Ísblik í Brekkutröð er framleiddur þurrís og umhverfisvæn nýjung í sótthreinsiefnum.

Við hittum framkvæmdastjórann Erlend Geir Arnarson til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Hjá Ísblik í Brekkutröð er framleiddur þurrís og umhverfisvæn nýjung í sótthreinsiefnum.

Sáu strax tækifæri

Ísblik var stofnað í janúar 2017 af Erlendi Geir og félaga hans Ólafi Jóhanni Ólafssyni. „Það var eiginlega fyrir tilviljun sem ég hnaut um þurrís og þurríshreinsun og sá strax tækifæri og vissi að mín þekking og reynsla kæmi að góðum notum. Ég er vélstjóri með MBA gráðu en eftir að hafa starfað hjá stórum fyrirtækjum til fjölda ára, bæði hér heima og erlendis, fannst mér kominn tími til að vera minn eigin herra“, segir Erlendur sem fór með Ólafi til Danmerkur að heimsækja nokkur fyrirtæki í þurrísbransanum og ákváðu þeir í kjölfarið að slá til.

Í dag er Ísblik stærsti framleiðandi þurríss á Íslandi en Erlendur segir að lykillinn að velgengninni sé sveigjanleiki og góð þjónusta. Starfsemi þeirra er annars í raun tvíþætt þegar kemur að þurrísnum, annars vegar framleiðsla og hins vegar þurríshreinsun.

Framleiða þurrís

Framleiðsla á þurrís vegur þyngst hjá Ísblik. Meðal viðskiptavina eru matvælaframleiðendur, heilbrigðisstofnanir, veitingarekstur og einstaklingar. „Við framleiðum mörg tonn af þurrís í hverri viku og keyrum út til okkar viðskiptavina, oftast eldsnemma á morgnanna þar sem ferskfiskframleiðendur eru stór hluti kaupenda og hjá þeim byrjar dagurinn snemma“, segir Erlendur og bætir við að þurrísinn nýtist ferskfiskframleiðendur ekki einungis til að kæla heldur hrekur hann súrefni frá fiskinum, svo örverur geti ekki vaxið og lengir þar af leiðandi líftíma afurðanna.

Þurrísinn hefur einnig verið vinsæll hjá veitingastöðum og einstaklingum í veislur þar sem gufan sem hann myndar skapar skemmtilega stemningu og vekur hrifningu hjá ungum sem öldnum. „Það verður líklega nóg að gera um helgina þar sem margir eru að halda hrekkjavökuveislur og þurrísinn er vinsæll þar“.

Hreinsa tæki og myglu

Þurrís hentar líka vel í hreinsun á ýmsum tækjum og búnaði sem og til að fjarlægja myglu. Hann tærir hvorki né sverfur og þessari hreinsunaraðferð fylgir hvorki eld- né sprengihætta, né heldur bleyta eða óhreinindi. „Meðal viðskiptavina okkar má nefna stóriðjur, veitufyrirtæki, tryggingafélög, útgerðarfélög, byggingafélög og einstaklinga. Þegar þurrís skellir á þurru yfirborði þá breytist hann á augabragði úr föstu formi aftur yfir í gas og við það verður 700 -föld rúmmálsaukning. Þetta þeytir í raun óhreinindum af og eftir verður tandurhreinn, skraufaþurr og sótthreinsaður flötur“, segir Erlendur.

Þurríshreinsun er jafnframt umhverfisvæn aðferð en þurrísinn er framleiddur úr kolsýru sem kemur náttúrulega upp úr jörðinni, t.d. að Hæðarenda í Grímsnesi. Erlendur segir fyrstu árin hafa farið í að koma aðferðinni á framfæri en nú sé þekkingin á henni alltaf að aukast hér á landi og segist hann því hlakka til að takast á við aukin í verkefni af þessu tagi í framtíðinni.

Ný öflug sótthreinsilausn

Nýjasta varan hjá Ísblik er umhverfisvænt sótthreinsiefni sem þeir framleiða undir nafninu Bjartur. Um er að ræða svo kallað ECA (Electro Chemical Activation- ísl. rafauðgun) vatn sem er framleitt með því að rafgreina saltvatnsblöndu. Ferlið felst í að lítilsháttar rafstraumi er hleypt á blöndu af venjulegu vatni og saltlausn í sérhæfðum rafgreiningarbúnaði og við það verður til Hýpóklórsýra (HOCI) og lítilsháttar klór (0,5%) sem er er hvorki ætandi né ónæmisvaldandi.

„Þetta er öflug hreinsi- og sótthreinsilausn sem banar örverum en hefur engin áhrif á lífverur, þ.e. fólk og dýr. Auk þess að framleiða efnið þá er Ísblik líka með umboð fyrir framleiðslukerfi fyrir ECA, allt frá litlum búnaði fyrir heimili upp í stór kerfi fyrir stórnotendur, s.s. matvælaframleiðendur, sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir. Viðskiptavinir okkar eru að náð alveg ótrúlegum árangri með ECA hvort heldur sem er í landbúnaði, fiskeldi eða fiskverkun. Öll vinna við þrif verður einfaldari og fljótlegri þar sem ekki þarf að skola efnið af og búnaðurinn er fljótur að borga sig upp því ekki þarf lengur að kaupa kemísk efni á brúsum sem búið er að flytja langar leiðir og þarf að lokum að farga. Fyrirtækin verða því umhverfisvænni og kolefnisspor þeirra minnkar umtalsvert.

Hægt er að fá litla ECA einingu sem hentar vel fyrir heimili. „Ég nota ECA lausnina sjálfur til að sótthreinsa þurrískisturnar hjá okkur þegar þær koma aftur í hús og eins nota ég hana mikið heima. Við hreinsum ísskápinn okkar með þessu, úðum á tannburstana og meira að segja á fiskinn áður en við eldum hann til að minnka lykt“ segir Erlendur.

Áhrif Covid

Erlendur segir að Covid hafi ekki haft mikil áhrif á rekstur Ísblik. Aðeins hægði á um tíma, ekki síst þegar faraldurinn geysaði sem hæst. Minna var um hreinsiverkefni um tíma og einnig varð samdráttur hjá okkar viðskiptavinum á meðan neyslumynstur var að finna sér nýjan farveg. Virðiskeðjan breyttist og það var erfitt að vera í öflugu sölu- og markaðsstarfi“, segir Erlendur en bætir við að þetta ár hafi verið mjög gott og hvorki Ísblik, né nokkrir af þeirra viðskiptavinum hafi lent í sóttkví og þurft að loka.

Ástjörnin og Ásfjallið í uppáhaldi

Erlendur er Breiðhyltingur og Túngnamaður en hefur þó búið í Hafnarfirði frá því um tvítugt, fyrir utan nokkurra ára erlendis. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann strax að það sé bæjarbragurinn. Þó bærinn hafi vissulega stækkað mikið þá nær hann að halda í einhvern góðan anda. Erlendur er félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og þykir það ákaflega góður og mikilvægur félagsskapur ekki síst til að styrkja tengslanetið innan bæjarins.

Ef hann ætti að velja einhvern uppáhaldsstað í bænum þá yrði það Ástjörnin og Ásfjallið sem þau hjónin ganga mikið um. Þá er höfnin honum líka mikilvæg, skipin og smábátahöfnin gefa skemmtilegt yfirbragð þó það sé vissulega öðruvísi stemmning þar núna heldur en áður fyrr þegar hann vann sem vélstjóri.

Fjölskyldujörðin og afabarnið

Þegar Erlendur er ekki í vinnunni nýtur hann þess að fara í Biskupstungurnar þar sem hann á afdrep. „Amma mín og afi bjuggu þarna svo þetta er nokkurra hektara fjölskyldujörð. Þar er ég alltaf eitthvað að ditta að, auka fjölbreytnina í gróðrinum, gera göngustíga og kurla tré. Besta afslöppunin er þó að sitja á sláttutraktornum, svo ekki sé nú talað um að fara í pottinn í lok dags“.  

Í sveitinni skella þau hjónin sér líka alltaf af og til í golf á vellinum í Úthlíð. „Ég var líka að eignast fyrsta afabarnið fyrir sex mánuðum og það er nú aldeilis glænýtt og spennandi hlutverk sem ég nýt þess að sinna“ segir Erlendur og brosir.