GeoCamp Iceland

GeoCamp Iceland er fræðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í fræðslutengdum verkefnum og móttöku nemenda- og kennarahópa með áherslu á jarðfræði, náttúruvísindi og loftslagsbreytingar.

Við hittum framkvæmdastjórann Arnbjörn Ólafsson, sem rekur Geocamp ásamt föður sínum Ólafi Jóni Arnbjörnssyni, til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

GeoCamp Iceland er fræðslu- og ferðaþjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á jarðfræði, náttúruvísindi og loftslagsbreytingar.

Vekja áhuga á raungreinum

Sögu GeoCamp Iceland má rekja til ársins 2009 þegar Ólafur Jón, þá starfandi skólameistari Fjölbrautarskóla Suðurnesja, stofnaði fyrirtæki utan um fræðsluferðir fyrir danska skóla, með áherslu á jarðfræði, sem hann hafði séð um í einhvern tíma. „Tilgangurinn var allt frá upphafi að reyna að vekja athygli og áhuga á raungreinum eins og jarðfræði, landafræði og náttúruvísindum. Aðsókn og áhugi ungs fólks á þessum greinum hér á landi hafði verið þverrandi eitthvað sem olli kennurum og skólastjórnendum áhyggjum“, segir Arnbjörn.

Þeir feðgar hafa báðir áratugalanga reynslu úr menntageiranum en Ólafur Jón hefur verið skólastjórnandi í um 30 ár og þar á undan kennari. Arnbjörn hefur einnig unnið fyrir menntastofnanir og verið í ýmsum verkefnum tengdum fræðslu í að verða 20 ár.

Mismunandi hópar og ferðir

Í upphafi var hlutverk GeoCamp Iceland eingöngu að taka á móti dönskum framhaldsskólanemendum og sömu skólarnir voru að senda hingað nemendur ár eftir ár. Í dag eru hóparnir fjölbreyttari hvað varðar bakgrunn og aldur. „Við höfum verið að taka á móti bandarískum hópum í auknu mæli, þar á meðal árlegum hópum frá félagi bandarískra landafræðikennara og háskólahópum frá á annan tug háskóla, en hingað hafa líka komið nemendahópar frá Kanada og Kína. Aldursbilið er því orðið mun breiðara en áður, allt frá unglingum upp í doktorsnema“, segir Arnbjörn.

Árlega koma um 400-500 manns til landsins á vegum GeoCamp Iceland og eru hér oftast í um tíu daga, sumir styttra en aðrir lengur. Hver ferð er þá aðlöguð að viðkomandi hóp og sveigjanleiki mikilvægur en samkvæmt Arnbirni er það ekki vandamálið í svona litlu fjölskyldufyrirtæki og þeir feðgar einnig vel tengdir og tilbúnir að fara óhefðbundnar leiðir gerist þess þörf.

Glöggt er gestsaugað

GeoCamp Iceland er því fræðsluaðili með ferðaþjónustuleyfi en uppleggið hefur allt frá upphafi verið að búa til fræðslutengd verkefni fyrir erlenda og íslenska nemendur. „Ísland er  gríðarlega áhugavert, hér er hægt að upplifa jarðfræðisöguna og náttúruvísindi í svo mikilli nánd. Hingað koma erlendir skólar til að læra og sjá. Það má því vissulega segja að glöggt sé gestsaugað en ég held að við áttum okkur ekki endilega á hversu sérstakt og magnað þetta er“.

Áhersla GeoCamp Iceland hefur ávallt verið á Reykjanesið en Arnbjörn segir að meðan flestir fari Gullna hringinn þá fari þeir meðal annars í Seltún, Eldvörp og út á Reykjanestá. „Þetta er svo stórbrotið og vanmetið svæði. Við getum verið með hópa þar í heila viku enda mikið að sjá og margt hægt að fræðast um svo sem orkugjafa, jarðfræði og sjávarlíffræði og við heimsækjum líka fjölbreytta starfsemi og hittum eldhuga í náttúruvísindum“.

Gagnagrunnar og samstarfsverkefni

Eitt af markmiðum GeoCamp er að búa til gagnagrunna að kennsluverkefnum sem standa öllum til boða. „Við pabbi erum miðlarar, við viljum tengja saman nemendahópa og kennarahópa. Okkar áskorun er að miðla efni sem verður til í ferðum okkar áfram til komandi hópa, búa til ný verkefni og fræðsluefni“. 

Fyrirtækið hefur því verið að sækja um ýmsa styrki og er þátttakandi í nokkrum evrópskum samstarfsverkefnum.  Eitt af því er samstarf með Tækniháskólanum í Liberec í Tékklandi til að þróa kennsluefni fyrir kennara sem hyggja á og eru með útikennslu í jarðvöngum. Annað verkefni á vegum Erasmus + fjallar um sjálfbærni og umhverfisvitund í grunnskólum með áherslu á raungreinakennslu. Þar er ætlunin að búa til kennsluefni og hvetja ungt fólk til umhverfisvitundar sem og búa til handbækur fyrir kennara.

Þriðja verkefnið, sem er í burðarliðnum, er að útbúa færanlega rannsóknarstofu sem nýtist við kennslu. „Ef verið er að kenna um jarðlög þarf ákveðinn búnað og við viljum að hægt verði að sækja bakpoka með búnaði og kennsluefni á rannsóknarstofuna“, segir Arnbjörn og bætir við að draumur þeirra feðga sé að með öllum þessum verkefnum aukist áhugi ungs fólks á raungreinum. „Við viljum efla raungreinakennslu á Íslandi með því að tengja íslenska nemendur við erlenda skólahópa og þau verkefni sem þeir eru að vinna að. Með því viljum við reyna að vekja fólk til umhugsunar um sjálfbærni og loftlagsmál en fræðsla er þar ávallt grunnurinn.“

Áhrif Covid

Á síðasta ári kom enginn hópur til landsins á vegum GeoCamp Iceland sökum Covid. Arnbjörn segir að þeir feðgar hafi þó ekki setið auðum höndum heldur nýtt tímann til að móta sína sýn og þróun á fræðsluefni. „Við byrjuðum líka í nokkrum af þessum evrópsku samstarfsverkefni okkar á þessum tíma en styrktum líka tengslin við innlenda aðila og erum ákaflega spenntir fyrir þessu öllu“.  

Þetta sumarið og nú í haust fór starfsemin hins vegar aftur á fullt og bókanir á næsta ári eru fleiri en nokkru sinni áður. „Það er orðin uppsöfnuð þörf og erlendir aðilar bíða bara eftir því að koma til landsins“, segir Arnbjörn sem er einnig á leiðinni til New Orleans í desember á ráðstefnu bandarísku jarðvísindasamtakanna til að kynna starfsemi GeoCamp Iceland

Miðbæjarstemmning og góðar gönguleiðir

Arnbjörn hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2015 og segist hafa kolfallið fyrir bænum, þá sérstaklega miðbæjarstemmningunni sem er honum ákaflega mikilvæg. „Ég bjó áður í miðbæ Reykjavíkur, var lattelepjandi trefill og þarf að hafa líf í kringum mig. Hér fann ég fallegt hús sem er í göngufæri við góða veitingastaði og kaffihús og er því ákaflega sáttur“.

Nálægðin við náttúruna er honum jafnframt mikilvæg. „Ég var að æfa mig fyrir göngu um Jakobsveginn fyrir tveimur árum og þá var frábært að geta æft sig á öllum þeim frábæru gönguleiðum sem eru hér kringum bæinn“.

Matur og menning

Aðspurður um áhugamálin segist Arnbjörn hafa gríðarlegan áhuga á mat, bæði elda en ekki síst að borða hann. Það er enginn sérstakur matur í uppáhaldi, það sé ákaflega breytilegt. „Þegar ég ætla að elda eitthvað gott hugsa ég fyrst hvaða hráefni ég hafi aðgang að, þá hvað mig langi í og svo getur veðrið einnig spilað inn í“. Mataráhuginn fylgir Arnbirni einnig á ferðalögum og þá hefur hann gaman að því að prófa nýja og spennandi staði.

Fjölskyldan eyðir annars miklum tíma í Kollabæ í Fljótshlíðinni. „Við keyptum ásamt foreldrum mínum gamalt eyðibýli, burstabæ, fyrir þremur árum sem við höfum verið að gera upp og byggt við. Þangað förum við nánast um hverja helgi“, segir Arnbjörn og bætir við að þangað hafi síðastliðið sumar tveir GeoCamp Iceland hópar fengi heimboð sem endaði með því að kúabóndi í nágrenninu og dóttir hans komu við og sungu fyrir hópinn. Ákaflega eftirminnileg og öðruvísi stund, sem er kannski lýsandi fyrir þá nánd og tengsl við heimafólk sem skólahóparnir upplifa í ferðum sínum með GeoCamp Iceland um landið.