Ölhúsið

Á Ölhúsinu er lifandi tónlist um hverja helgi og besta úrval bæjarins á öl á krana en þar er einnig hægt að horfa á boltann í beinni, spila pool, fara í pílu eða taka þátt í bingó eða pub quiz.

Við hittum eigendurna og hjónin Ólaf Guðlaugsson og Aðalheiði Runólfsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Opið 363 daga ársins

Ölhúsið hefur verið starfandi frá því í apríl árið 2015 á Reykjavíkurvegi 60 en í húsnæðinu hefur verið ýmis rekstur í gegnum tíðina. Ólafur sá í nokkur ár um allt skemmtanahald á Spot og kom því með töluverða reynslu inn í reksturinn og lagði strax upp með að hafa reglulega fjölbreytta viðburði á staðnum. Aðalheiður er leikskólakennari en starfaði á þessum tíma sem dagmamma en hætti því starfi stuttu síðar enda í nógu að snúast á Ölhúsinu.

„Hér er opið 363 daga ársins, bara lokað á aðfangadag og jóladag og svo er boltinn farinn að rúlla á annan í jólum enda margir leikir yfir hátíðarnar. Þjónustustigið okkar er því ansi hátt“, segir Ólafur. Þau segjast jafnframt standa vaktina töluvert mikið sjálf og ganga í öll verk.

Fyrirtæki vikunnar

Á Ölhúsinu er lifandi tónlist, besta úrval bæjarins af bjór á krana, boltinn í beinni, pool, píla, bingó og pub-quiz.

Boltinn í beinni og lifandi tónlist

Meðal vinsælustu viðburða Ölhússins eru beinar útsendingar frá enska boltanum og meistaradeildinni og þá er oft fullt út úr dyrum og mikil stemmning. „Við erum með tólf skjái og eiginlega eitt fullkomnasta sjónvarpskerfi sem til er á landinu, bæði mynd og hljóð“, segir Ólafur og bætir við að það séu því oft fleiri en einn leikur í gangi. Aðalheiður segir að margir komi í treyju síns félags til að horfa en það sé áberandi besta mætingin þegar Liverpool eða Manchester United séu að spila.

Um hverja helgi, bæði föstudag og laugardag, er lifandi tónlist og samkvæmt Ólafi hafa nokkrir af stærstu skemmtikröftum landsins spilað á Ölhúsinu. „Við erum líka með bingó einu sinni í mánuði með flottum vinningum en þá er alltaf fullt og regluleg pub-quiz kvöld eru líka vinsæl“.

Pool og píla fyrir fólk á öllum aldri

Á þessum sex árum hafa Ólafur og Aðalheiður gert töluverðar breytingar á húsnæðinu, stækkað staðinn og gert afar snyrtilegan og hlýlegan.

Sumarið 2019 tók Ölhúsið við neðri hæð hússins og setti upp glæsilega aðstöðu fyrir pool, pílu og spilakassa. „Við erum með fjögur níu feta keppnisborð og hingað kemur fólk á öllum aldri að spila pool, vinir og vinnufélagar en einnig fjölskyldufólk enda skemmtileg afþreying“, segir Aðalheiður og bætir við að þá séu líka reglulega haldin poolmót á staðnum. Þá eru píluspjöld bæði uppi og niðri og þau ansi mikið notuð. „Það hefur orðið algjör sprenging í píluáhuga og sérstaklega vinsælt meðal vinnustaða að koma og keppa sín á milli“, segir Ólafur.

Innri salurinn hefur einnig fengið andlitslyftingu og þar er tilvalið fyrir hópa að koma saman enda hægt að loka því rými og þar er jafnframt sérstakt hljóðkerfi. Útiaðstaðan var bætt til muna síðastliðið sumar og eykur enn á möguleika staðarins. Ólafur og Aðalheiður taka hins vegar sérstaklega fram að í öllum þessum framkvæmdum þá hefur staðnum aldrei verið lokað heldur verið unnið á nóttunni og morgnanna.

Mikið úrval af bjór og jólabjórskóli

Á Ölhúsinu er samkvæmt þeim hjónum besta úrval bæjarins á öl á krana eða níu tegundir. Aðspurð hvaða bjór sé vinsælastur segir Ólafur að þessa dagana sé það jólabjórinn en annars sé það íslenski bjórinn. „Enda er íslenskur bjór á heimsmælikvarða, svo ferskur og án rotvarnarefni og er því að vinna ýmis verðlaun úti í heimi“.

Á barnum eru úrvalið afar fjölbreytt eins og góðum bar sæmir en Aðalheiður segir að það sé samt alltaf langmest drukkið af bjór. Í þeim anda hafa þau því ákveðið að vera með jólabjórskóla næstu vikurnar. „Við erum komin í samstarf við Svein Waage, einn helsta sérfræðing landsins þegar kemur að bjórsmökkun og fyrsta námskeiðið verður þann 19. nóvember næstkomandi“, segir Ólafur og tekur fram að þetta sé kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki eða aðra hópa til að koma saman eina kvöldstund. Það verður takmarkað sætapláss á hverjum námskeiði en hægt verður að panta pláss í  gegnum Facebook síðu Ölhússins.

Fastagestirnir mikilvægir í Covid

Covid faraldurinn hefur haft gífurlega mikil áhrif á rekstur Ölhússins en staðurinn þurfti samt aldrei að loka þar sem þau eru með veitingaleyfi sem er víðtækara en kráarleyfi. „Á tímabili máttu þó einungis vera tíu manns, að mér meðtöldum, hér inni í þessu stóra rými og við vorum undir lögreglueftirliti“, segir Ólafur og Aðalheiður bætir við að þau hafi þurft að skrá alla niður, fækka borðum, stytta opnunartíma, aflýsa viðburðum, loka poolborðum og píluspjöldum svo eitthvað sé nefnt.

Þau segja að þessar stanslausu breytingar á reglum hafi vissulega tekið á en þau hafi staðið enn meira vaktina sjálf og komist í gegnum þennan skafl. „Við erum annars óendanlega þakklát öllum fastagestunum okkar sem hafa staðið þétt við bakið á okkur á þessum erfiðu tímum. Þeirra vegna vildum við líka aldrei skella í lás enda okkar staður mikilvægur mörgum. Hingað kemur fólk til að eiga samskipti við aðra, spjalla, spila eða tefla.“

Ölhúsið á einmitt stóran hóp af mjög tryggum fastagestum. „Þetta eru aðallega Hafnfirðingar, þverskurðurinn af samfélaginu, einhleypingar og fjölskyldufólk og á þeim er ekkert vesen.“

Hundasvæðið vel varðveitt perla

Aðalheiður og Ólafur eru bæði uppalin í Vestmannaeyjum en hafa búið í fjölda ára í Hafnarfirðinum. Þau eru sammála um að bæjarbragurinn hér sé ákaflega góður, takturinn sé öðruvísi og einstakur og líklega sé nálægðin við sjóinn og höfnina þeim, sem og þeim fjölmörgu Vestmanneyingum sem búa í Hafnarfirði, ákaflega mikilvæg. „Mér finnst aðgangur að kjörnum fulltrúum og stjórnsýslu vera góður og hér er tekið öðruvísi á hlutunum“, segir Ólafur og bætir við að hér sé líka allt sem þú þarft, við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn.

Aðspurð hvort þau eigi sér einhvern uppáhaldsstað í bænum segir Ólafur strax „þú meinar þá fyrir utan Ölhúsið“ og hlær. Aðalheiður segir að líklega sé það náttúran hér í kring, Hvaleyrarvatnið og hundasvæðið þar, sem er að sögn Ólafs vel varðveitt perla.

Góður matur og landsleikir

Þegar þau hjónin eru ekki að sinna öllum þeim verkum sem fylgja Ölhúsinu finnst þeim afar gott að elda góðan mat, slaka á og hitta góða vini. Naut og humar er þá efst á vinsældalistanum.

Í eðlilegu árferði eru þau einnig dugleg að ferðast. „Við förum gjarnan á stórmót í handbolta og fótbolta, og stefnum á að mæta til Ungverjalands og styðja strákana okkar í janúar“, segir Aðalheiður. Þá mæta þau einnig reglulega á leiki í Kaplakrika og styðja vel við félagið, bæði í fótbolta og handbolta.