Hjá Stúdíó Dís eru teknar barna-, fjölskyldu- og fermingarmyndir sem og passamyndir. Þar eru líka teknar myndir af ýmsum vörum og það nýjasta eru svokallaðar boudiour myndatökur.
Við hittum Heiðu Dís Bjarnadóttur, ljósmyndara og eiganda Stúdíó Dís til að kynnast rekstrinum.
Fjölbreyttar myndatökur
Stúdíó Dís hefur verið starfandi frá því í febrúar árið 2015 og þar hafa verið teknar margar og fjölbreyttar myndir, bæði í stúdíóinu en einnig víðs vegar um bæinn. „Ég fékk ung áhuga á ljósmyndun. Amma mín, Álfheiður Óladóttir (Heiða), vann í mörg ár í Passamynd - Listhús á Strandgötunni, sá meðal annars um passamyndatökurnar og þangað fór ég oft í heimsókn. Þá er Lárus Karl Ingason, ljósmyndari bróðir mömmu og mikill áhrifavaldur í vali mínu á starfi en hann var jafnframt minn meistari í námi“, segir Heiða Dís sem kláraði sveinspróf í ljósmyndun árið 2006 en hélt síðan stuttu seinna til Danmerkur og lærði margmiðlunarhönnun. „Ég starfaði því í nokkur ár sem vefstjóri hjá mismunandi fyrirtækjum en tók jafnframt að mér nokkur aukaverkefni sem ljósmyndari. Í lok ársins 2014 ákvað ég hins vegar að snúa mér alfarið að ljósmynduninni og opna mitt eigið stúdíó“.
Fimm daga gamlir nýburar
Í Stúdíó Dís er hægt að koma í hefðbundna myndatöku með lítil börn og fermingarbörn en Heiða Dís hefur líka sérhæft sig í að taka myndir af nýburum. „Ég vil þá helst fá krílin til mín þegar þau eru 5 til 14 daga gömul en þá eru þau oftast eins og leir í höndunum á mér“, segir Heiða Dís og brosir en bætir við að henni þyki líka gaman að fá börn á öllum aldri til sín og gangi oftast ákaflega vel. „Sum fermingarbörn eru sem dæmi frekar óörugg þegar þau koma en mér tekst alltaf á einhvern hátt að tala þau til og foreldarnir stundum mjög hissa á því hversu vel gangi“.
Passamyndir og viðburðir
Heiða Dís tekur líka reglulega passamyndir fyrir fólk sem er t.d. að endurnýja vegabréfið sitt eða sækja um nýja vinnu. „Það er hægt að panta passamyndatöku hjá mér á vefnum eða bara hringja í mig. Mér finnst annars áberandi margir Hafnfirðingar koma í svona myndatökur, sérstaklega eldra fólkið sem vill sækja þjónustu hér í bænum“, segir Heiða Dís og bætir við að þá fái líka mörg fyrirtæki hana til að taka starfsmannamyndir sem eru ýmis teknar hjá henni í stúdíóinu eða hún fer á staðinn enda lítið mál að taka með sér ljós og bakgrunnstjald.
Heiða Dís hefur undanfarin ár jafnframt séð um útskriftarmyndir fyrir Flensborg sem og NÚ skólann. Þá hefur hún tekið myndir á árshátíð Hafnarfjarðarbæjar og þar lagt áherslu á að fanga stemmninguna með myndum af gestum, skemmtikröftum og skreytingum.
Aukning í vörumyndatöku
Á undanförnum misserum hefur orðið töluverð aukning í vörumyndatökum hjá Stúdíó Dís enda eru íslenskar vefverslanir orðnar mun öflugri og þá er ákaflega mikilvægt að vera með góðar myndir af vörum. „Núna á eftir eru sem dæmi að koma til mín tvær konur sem eru að fara að opna vefverslun og fengu mig til að taka myndir fyrir sig. Í þannig verslun þarf oft að vera með fleiri en eina mynd af vörunni og ég mæli reyndar með að hafa þær allavega þrjár“, segir Heiða Dís sem hefur líka verið að taka myndir fyrir vefsíður og auglýsingar nokkurra hafnfirskra fyrirtækja s.s. RIF, Kænuna, Von harðfiskverkun og Rafal.
Heiða Dís segist lítið sem ekkert hafa auglýst þessa þjónustu sína að taka vörumyndir heldur komi verkefnin bara til hennar. „Þetta fréttist mann frá manni en það er náttúrulega besta auglýsingin. Mér finnst þetta annars skemmtileg og mikilvæg vinna og vil gjarnan aðstoða fleiri fyrirtæki við að hafa góðar myndir af sínum vörum“.
Sjálfstyrkjandi boudiour myndataka
Það nýjasta sem Stúdíó Dís býður upp á eru Boudiour myndatökur undir nafninu Gyðjur. Hér eru á ferðinni fallegar, rómantískar og kynþokkafullar myndir af konum.
„Boudiour er franska, þýðir svefnherbergi eða búningsherbergi konunnar og er persónulegur staður. Þessar myndatökur eru hugsaðar fyrir konur sem vilja upplifa sjálfa sig fallegar og kynþokkafullar. Ég er mikið að vinna með jákvæða líkamsímynd og lít á þetta sem ákveðna sjálfstyrkingu. Líkamar eru allskonar en með réttum pósum, umhverfi og lýsingu er hægt að taka ótrúlega fallegar myndir“.
Að sögn Heiðu Dísar ætla sumar konur bara að eiga myndirnar fyrir sig en margar svo ánægðar og ákveða að gefa maka sínum þær eða jafnvel hengja þær upp á vegg. „Allar konurnar sem hafa komið til mín hafa verið ótrúlega ánægðar, einhverjar komu hálf skjálfandi inn en fóru út á bleiku skýi, sumar segja að þetta sé það skemmtilegasta sem þær hafi gert og allar mæla þær með svona myndatöku“, segir Heiða Dís.
Flutningur á nýju ári
Í dag er Stúdíó Dís staðsett á annarri hæð í Firði verslunarmiðstöð en um áramótin flytur ljósmyndastofan á Reykjavíkurveg 68. „Mig langaði að vera aðeins meira út af fyrir mig og ákvað því að færa mig um set. Ég hlakka mikið til að gera rýmið hlýlegt og huggulegt, sem er sérstaklega mikilvægt fyrir Boudior myndatökurnar“, segir Heiða Dís og bætir við að hún láti sig líka dreyma um að vera með skemmtilega viðburði á nýja staðnum s.s. taka á móti gæsa- eða vinkonuhópum og vera með pósu- og förðunarnámskeið svo eitthvað sé nefnt.
Áhrif Covid
Heimsfaraldurinn hefur haft sín áhrif á rekstur Stúdíó Dís, nýburamyndatökurnar hafa sem dæmi dottið alveg upp fyrir og fólk hefur frestað mörgum tökum. „Fermingarmyndatökurnar dreifðust líka töluvert og því verið minna um vertíðir. Þetta hefur vissulega verið strembið, það var enga styrki eða aðstoð að fá en ég hef einhvern veginn náð að halda sjó“, segir Heiða Dís. Hún segir að á þessu tíma hafi hún þó byrjað að hugsa um nýjar leiðir, aðeins opnað á sér hausinn og áttað sig á því að hana langi að leggja enn meiri áherslu á boudoir sem og vörumyndatökur.
Listafólkið og Hellisgerði
Heiða Dís flutti í Hafnarfjörðinn þegar hún var tólf ára, var í Setbergsskóla og Flensborg en eyddi líka miklum tíma hjá ömmu sinni og afa í Köldukinninni þegar hún var lítil. Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Þetta er bara svo fallegur bær, viðkunnanlegur. Smáborgarbragur en samt risastór bær. Hér býr líka svo mikið af mögnuðu listafólki sem hefur áhrif á andann og gerjunina í bænum“.
Ef Heiða Dís ætti að velja sér uppáhalds stað í bænum verður hún að nefna Hellisgerði. „Þar er svo mikil fjölbreytni, hver árstíð hefur sinn sjarma og þar finnst mér alltaf gott að vera“.
Gerir upp gömul húsgögn og syngur
Þegar Heiða Dís er ekki í vinnunni finnst henni ákaflega gaman að gera upp gömul húsgögn. „Það er svo frábært að finna einhverja gamla hluti og gefa þeim nýtt líf. Þessa dagana er ég sem dæmi að gera upp gamlan rokkokó sófa sem ég ætla að nota í boudoir myndatökurnar“.
Hún segist þá alltaf vera á leiðinni að stunda meira yoga og dreymir um að fara í flot. „Ég syng líka mjög mikið, er í kór og nýbúin að eignast gamalt píanó. Er því að rifja upp það sem ég lærði sem barn og næ orðið að pikka upp nokkur lög á píanóið“, segir Heiða Dís að lokum með bros á vör.
Myndir: Stúdíó Dís og Markaðsstofa Hafnarfjarðar