Fjölskyldufyrirtækið Málmsteypan Hella á Kaplahrauni hefur verið starfandi í yfir 70 ár og framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.
Við hittum bræðurna Grétar Má og Leif Þorvaldssyni til að kynnast rekstrinum.
Íslenska pönnukökupannan
Hella hefur verið starfrækt allt frá árinu 1949 þegar Leifur Halldórsson, móðurafi Leifs og Grétars, stofnaði fyrirtækið ásamt nokkrum öðrum. „Í fyrstu voru framleidd búsáhöld, svo sem pottar og pönnur, og ýmsir hlutir til viðhalds á vélum og tækjum. Þar á meðal ýmislegt fyrir sjávarútveg og landbúnað enda mikið um innflutningshöft á þessum tíma og menn urðu að bjarga sér“, segir Leifur og bætir við að fyrirtækið hafi strax á upphafsárunum byrjað að framleiða íslensku pönnukökupönnuna sem er enn í dag framleidd og seld hjá Hellu.
Rótgróið fjölskyldufyrirtæki
Eins og fyrr segir stofnaði móðurafi Leifs og Grétars Hellu í slagtogi við nokkra aðra. Í kringum árið 1980 var fyrirtækið hins vegar alfarið komið í hendur móðurfjölskyldu þeirra og Þorvaldur faðir þeirra varð síðar framkvæmdastjóri. „Við bræður höfum unnið alla okkar starfsævi hér, byrjuðum ungir og þekkjum ekkert annað. Fyrir nokkrum árum keyptum við foreldra okkar út úr rekstrinum og eigum þetta tveir í dag“, segir Grétar en aðspurður um næsta ættlið segir hann að það sé algjörlega óráðið. Leifur bætir þá við að sonur hans starfi hjá þeim í dag og elsta dóttir Grétars taki einnig að sér ýmis störf samhliða skóla. „Við bræður verðum nú samt hér í mörg ár í viðbót og ótímabært að huga að því hvað næsti ættliður gerir“, segir Leifur og brosir.
Fjölbreytni og persónuleg þjónusta
Í dag hefur fjölbreytnin í framleiðslu Hellu aukist töluvert og alltaf einhver þróun í gangi. „Við erum með mikið af föstum viðskiptavinum s.s. álverið í Straumsvík og hafnfirsku vélsmiðjurnar Héðinn og Hamar og þá kaupa Trefjar líka mikið af okkur. Við framleiðum líka raflínubúnað í háspennulínur, fastsetningapolla fyrir skip og báta, upphækkunarsett fyrir bíla, ýmis tæki til matvælavinnslu sem og vegvísa og skilti“.
Grétar segir að oft á tíðum standi viðskiptavinurinn frammi fyrir einhverjum vanda og þeir bræður séu þá oft fengnir með í lið til að finna hentuga lausn. „Persónuleg þjónusta er því klárlega einn af okkar styrkleikum. Við höfum gaman að því að takast á við nýjar áskoranir og mikið um tilraunar- og þróunarstarf hér innandyra“.
Endurvinna ál
Hella kaupir mikið af brotamálm frá vélsmiðjum og öðrum fyrirtækjum sem yrði annars hent eða flutt úr landi. „Hátt í 40% af okkar framleiðslu er úr endurunnu áli og við erum þeir einu á landinu sem erum að endurvinna ál í miklu magni“, segir Leifur og bætir við að í gegnum tíðina hafi sem dæmi nokkur starfsmannafélög komið til þeirra með ál úr gömlum tækjum sem fyrirtæki eru að endurnýja og leyfa starfsmönnum að selja og nýta í sinn sjóð.
Eitt af því sem framleitt er í Hellu úr endurunni áli eru fallegu útibekkirnir sem finna má víðsvegar um landið. Þá var Hella meðal styrktaraðila í verkefninu Brúkum bekki þar sem Félag eldri borgara kom meðal annars að átaki í fjölgun bekkja við göngustíga bæjarins. Ýmis fyrirtæki studdu framtakið með kaupum á bekkjum sem allir voru framleiddir í Hellu, sem gaf einnig ellefta hvern bekk.
Krossar, leiðisplötur, húsnúmer ofl.
Í anddyri Hellu er jafnframt verslun þar sem hægt er að panta krossa, leiðisplötur og ýmis konar aukahluti fyrir leiði. Þá má kaupa húsnúmer og nafnamerkingar á hús eða sumarbústaði sem og frægu pönnukökupönnuna og samlokugrill.
Þar má líka sjá hin ýmsu skilti en samkvæmt þeim bræðrum hefur Hella líklega framleitt flest ef ekki öll skilti sem eru á íslenskum brúm. „Við framleiðum einnig lögreglusylgjur sem allir lögreglumenn fá við útskrift og höfum einnig steypt ýmis listaverk í gegnum tíðina“.
Áhrif Covid
Heimsfaraldurinn hefur ekki haft mikil áhrif á rekstur Hellu. „Í fyrstu bylgjunni byrjuðum við reyndar á því að skipta okkur niður á vaktir og minnkuðu starfshlutfall enda mikil óvissa“, segir Grétar en þetta ástand stóð einungis yfir í nokkrar vikur.
Það hefur því flest gengið sinn vanagang og þeir bræður segja að það komi sér vel að vera nokkuð sjálfbærir og þurfa lítið að treysta á innflutning. „Vissir aðilar sem voru farnir að kaupa hluti af samkeppnisaðilum okkar erlendis eru nú komnir aftur til okkar og margir að átta sig á því hversu mikilvægt er að fyrirtæki eins og okkar sé starfandi hér á landi“, segir Leifur.
Upplandið í uppáhaldi
Þeir bræður hafa alla tíð búið í Hafnarfirði og Grétar er meiri að segja sannur Gaflari, einn af þeim síðustu sem fæddist á Sólvangi. Aðspurðir um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segja þeir að bærinn sé einstaklega vel staðsettur, er ekki í Reykjavík en samt svo miðsvæðis. „Viðskiptavinir okkar eru sem dæmi flestir ekki lengi á leiðinni til okkar í Kaplahraunið“.
Þá segjast þeir nota upplandið ákaflega mikið enda náttúran þeim mikilvæg. „Við viljum helst fara þangað beint eftir vinnu, annað hvort á hjólum eða bara í göngu“, segir Leifur en hann er mjög tíður gestur á Helgafellinu. Grétar segir að hann sé meira á hjóli en fari af og til á Helgafellið með bróður sínum. „Við fórum sem dæmi upp á gamlársdag í fyrra og skutum upp rakettum og aldrei að vita nema við endurtökum það í ár“.
Útivist og mótorhjól
Þeir bræður eru greinilega mjög samrýmdir og eru líka mikið saman í frítíma sínum enda áhugamálin af svipuðum toga. „Við erum útikarlar, förum gjarnan upp á hálendið og í fjallaferðir í stórum hópum“, segir Leifur bætir við að þeir séu félagar í Jöklarannsóknarfélagi Íslands og fari gjarnan í ferðir með þeim.
Þá eru þeir báðir á mótorhjólum, þá gjarnan í einhverjum torfærum og brölti en einnig komnir á rafmagnsfjallahjól. „Við fórum í rafmagnið fyrir um þremur árum, svona til að kolefnisjafna“, segir Grétar brosandi en bætir við að rafmagnshjólið sé öðruvísi en samt margt svipað og alltaf ákaflega skemmtilegt.