Bifvélavirkinn

Bifvélavirkinn á Norðurhellu sérhæfir sig í viðgerðum á Volvo og til hans koma bílar víðs vegar af landinu.

Við hittum eigandann Jóhann David Barðason til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Bifvélavirkinn á Norðurhellu sérhæfir sig í viðgerðum á Volvo og til hans koma bílar víðs vegar af landinu.

Bifvélavirkinn laus

Jóhann hafði í nokkurn tíma hugsað um að fara út í eigin rekstur þegar hann lét loksins verða að því árið 2017 og fékk þá húsnæðið á Norðurhellu. „Ég var búin að vinna á bifreiðaverkstæðum til fjölda ára, bæði sem bifvélavirki og yfirmaður, lauk sveinsprófi í faginu árið 2006 og var kominn með meistarabréf árið 2013. Það var því kominn tími til að vera sjálfstæður“. Í upphafi vann hann á sinni eigin kennitölu en árið 2018 stofnaði hann loks fyrirtæki utan um reksturinn. „Stærsti hausverkurinn var að finna nafn. Ég sat hjá bókaranum mínum og spurði meira í gríni en alvöru hvort Bifvélavirkinn væri ekki bara laust. Okkur báðum til undrunar reyndist svo vera og ég var ekki lengi að taka ákvörðun,“ segir Jóhann og brosir.

Hann segir að einn helsti kosturinn við að vera með lítið verkstæði er að geta veitt persónulega þjónustu og eiga í nánara sambandi við viðskiptavini. „Það voru líka viss vinnubrögð sem ég vildi viðhafa en á stærri verkstæðum getur verið erfitt að koma breytingum í gegn. Þó flestir væru sammála þá gerðist bara ekkert“ segir Jóhann ánægður með að vera sinn eigin herra.

Vélaáhuginn vaknaði í tívolíinu

Áhugi Jóhanns á tækjum og bílum vaknaði strax á barnsaldri. „Pabbi var vörubílstjóri og ég á margar góðar minningar af bifreiðaverkstæðum. Við bjuggum meðal annars í Hveragerði og í nokkur ár sá pabbi um öll tækin í tívolíinu þar í bæ. Meðan aðrir krakkar fóru í tækin þá var ég meira í því að vera inni í tækjunum með pabba, yfirfara vélarnar og gera við“. Hann byrjaði því í vélfræði strax eftir grunnskólann en áttaði sig fljótt á því að hann vildi ekki vera vélstjóri á sjó og skipti yfir í bifvélavirkjann og sér alls ekki eftir þeirri ákvörðun.

Sérfræðingur í Volvo

Bifvélavirkinn tekur að sér allar hefðbundnar viðgerðir, bilanagreiningu, smurþjónustu, olíuskipti á sjálfskiptingum, ljósastillingar og þjónustu við loftkælingar (AC-kerfi). Verkstæðið hefur sérhæft sig í Volvo og Ford bifreiðum en tekur vissulega á móti öðrum gerðum bíla.

„Sérhæfingin felst einna helst í því að við eigum öll sérhæfðu verkfærin sem þarf til að gera við Volvo og kaupum jafnframt aðgang að tækniupplýsingum sem nauðsynlegt er að hafa við bilanagreiningu“. Hann segir að meirihluti viðskiptavina sinna séu því á Volvo og margir komi ansi langt að til að láta laga bílinn sinn. „Við erum í raun orðið landsþekkt verkstæði þegar kemur að Volvo en hingað hafa komið bílar frá Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Sauðárkrók og Höfn í Hornafirði. Þá eigum við líka ansi marga fasta viðskiptavini frá Akranesi og af Reykjanesinu fyrir utan alla á höfuðborgarsvæðinu“, segir Jóhann en samkvæmt honum spyrst þjónustan út meðal Volvo-eiganda en hann passar líka upp á að auðvelt er að finna upplýsingar um verkstæðið á netinu.

Gæðavottun og snyrtimennska

Bifvélavirkinn er gæðavottað verkstæði sem Jóhann telur vera ákaflega mikilvægt. „Til að hljóta svona vottun þarf að vera starfandi meistari á staðnum, starfsleyfi og tryggingar að vera í lagi og nauðsynlegt að fara eftir öllum lögum og reglum“, segir Jóhann en gæðavottunin er gefin út af Bílgreinasambandinu og hana þarf að endurnýja árlega.

Þá er mikið lagt upp úr snyrtimennsku í starfsemi Bifvélavirkjans. „Þetta er ekki eins sóðaleg starfsemi og var hér áður fyrr. Mér finnst því að ímyndin sem bílaverkstæði hafa, oft á tíðum vera orðin gömul og ekki sanngjörn. Það hefur orðið viss vitundarvakning og verkstæði þarf ekki að vera skítugt en starfsmenn þurfa vissulega að vera meðvitaðir og leggja sig fram við að lágmarka óþrifnað“, segir Jóhann og útskýrir hvernig sé til dæmis hægt að vera með ruslatunnu undir bílnum þegar verið er að vinna í óhreinum bremsum.

Lánar viðskiptavinum bíl  

Fyrir um einu ári síðan ákvað Jóhann að kaupa tvo bíla sem viðskiptavinir geta fengið að láni, meðan á viðgerðum stendur, þeim að kostnaðarlausu. „Með þessu erum við að auka þjónustustigið til muna og hefur oft á tíðum orðið til þess að fólk hefur ákveðið að koma með bílinn hingað. Þetta eykur sveigjanleika fólks en ég veit ekki um önnur verkstæði sem bjóða upp á þessa þjónustu“, segir Jóhann og býst við því að auka við lánsbílaflotann í framtíðinni.

Leitar að stærra húsnæði

Bifvélavirkinn hefur frá upphafi verið á Norðurhellu, hefur stækkað við sig einu sinni en þarf á enn stærra húsnæði að halda. „Ég er byrjaður að leita að nýju húsnæði, þarf um 300 fermetra en gengur því miður illa að finna eitthvað hentugt. Fann reyndar eitt gott um daginn en það var því miður í Kópavogi og þangað vil ég ekki fara“, segir Jóhann sem telur ákaflega mikilvægt að vera í svona rekstri í sama sveitarfélagi og hann býr í og ef einhver veit um eitthvað heppilegt húsnæði má endilega hafa samband.

Áhrif Covid

Aðspurður um áhrif Covid á reksturinn segir Jóhann að þau hafi verið engin, ef einhver þá bara jákvæð. „Það var rosalegur vöxtur á síðasta ári sem má kannski rekja til þess að Íslendingar voru meira heima að ferðast á sínum bílum“.

Giftur inn í Hafnarfjörð

Eins og fram kom hér á undan er Jóhann uppalinn í Hvergerði en hefur búið lengst í Hafnarfirði. „Ég er giftur inn í Hafnarfjörð og það kom aldrei neitt annað til greina en að búa hér, nú eða vera í fjarbúð“, segir Jóhann og hlær. Það sem honum finnst annars best við Hafnarfjörðinn er smábæjarbragurinn og þorpsstemmningin. „Það koma jú margir Hafnfirðingar hér á verkstæðið og byrja að spjalla og það er einhver sjarmi yfir því að geta fundið einhverja tengingu við flesta. Við búum í sama hverfi eða erum með börn í sama skóla eða íþróttastarfi“, segir Jóhann sem er nýfluttur í Norðurbæinn eftir mörg ár í Setberginu.

Handverk, ferðlög og veiðar

Þegar Jóhann er ekki að sinna bílum þá segist hann hafa gaman að ýmislegu sýsli og handverki. „Ég hef eitthvað verið í járnsmíði en einnig verið að föndra við tré og smíðaði sem dæmi sófaborðið heima sjálfur.“ Undanfarna mánuði hefur mikið af frítímanum annars verið nýttur í að sinna húsinu sem þau fjölskyldan fluttu í núna í sumar.

„Við ferðumst líka mikið innanlands með fellihýsið í eftirdragi og ég fer á veiðar, bæði skot og stöng. Þá reyni ég að verja sem mestum tíma með börnunum og fylgist með þeim í þeirra íþróttum sem felur í sér mikið áhorf á handbolta-, körfubolta og fótboltaleiki“, segir Jóhann að lokum.