Bæjarbúð

Bæjarbúð á Strandgötunni er að sögn eiganda fljótandi rými fyrir allskonar uppsprettu hönnunar en búðin á eldri systir á Djúpavogi sem kallast Bakkabúð.

Við hittum eigandann Guðmundu Báru Emilsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Bæjarbúð á Strandgötunni er að sögn eiganda fljótandi rými fyrir allskonar uppsprettu hönnunar

Fjárfestu í Strandgötunni

Sögu Bæjarbúðar má rekja til Bakkabúðar á Djúpavogi þar sem Guðmunda er fædd og uppalin. „Við mamma heitin keyptum saman gjafavöru- og minjagripaverslunina Bakkabúð árið 2016 og í kjölfarið ákváðum við fjölskyldan að stofna heildsölu með ýmsar hönnunarvörur.“

Eftir að hafa verið í nokkur ár að leigja húsnæði undir skrifstofu og lager hér í Hafnarfirði sáu þau húsnæðið á Strandgötu 43 til sölu og ákváðu að festa kaup á því. „Við fjárfestum sem sagt í Strandgötunni en upphaflega ætluðum við bara að vera með nokkurs konar sýningarsal fyrir heildverslunina en verandi komin í svona flott rými ákváðum við frekar að opna verslun,“ segir Guðmunda og bætir við að baka til séu þau einnig með skrifstofu sem nýtist vel.

Öðruvísi heimur hönnunar

Viðtökurnar við versluninni hafa verið mjög góðar að sögn Guðmundu. Hún segir að Hafnfirðingar séu duglegir að koma og þeir hafi sem dæmi haldið uppi þorranum af jólaverslun. Það hefur komið henni á óvart hvað margir koma hingað úr Reykjavík og greinilegt að fólk vilji koma í öðruvísi verslanir, sjá eitthvað nýtt.

„Ég segi oft að við séum öðruvísi heimur hönnunar, hér sér fólk merki sem það sér ekki annars staðar. Ég er mikill grúskari og er alltaf að leita að einhverju nýju, það er mitt áhugamál og margir ánægðir með það. Þá skiptir persónuleg þjónusta miklu máli og ég er því mikið sjálf í búðinni,“ segir Guðmunda og bætir við að enginn dagur sé eins í versluninni, stundum komi margir en aðra daga sé rólegt en þá gefist henni tími til að vinna að eigin hönnun og sinna öðrum verkum.

Vinsælustu vörurnar

Roka töskurnar og bókaljósin eru vinsælustu vörurnar í Bæjarbúð. „Við erum búin að vera með töskurnar í heildsölu í nokkur ár. Erum fyrsti heildsalinn á heimsvísu sem fór að selja þessar töskur en við kynntumst hönnuðinum á hans fyrstu sýningu. Salan fór samt hægt af stað en þegar þær komu í gluggann á Strandgötu urðu þær fljótt mjög vinsælar hér á landi. Töskurnar eru úr endurunnu efni og í dag seldar um allan heim.“

Þá segir Guðmunda að bókaljósin frá enska merkinu Gingko séu mjög vinsæl og hafi farið í marga jólapakka. „Þetta eru endurhlaðanlegir lampar til í ýmsum útfærslum og eru nokkurs konar skúlptúrar sérstaklega stærri gerðin.“

Eigin hönnun

Guðmunda hefur í nokkur ár unnið að hönnun vörumerkisins Krækiberið sem þau fjölskyldan eiga og selja mikið af á Djúpavogi og í verslanir víðs vegar um landið. Þar er aðaláherslan á vörur fyrir ferðamenn s.s. lundavörur, slæður, viskustykki og fleira.

„Á síðasta ári ákvað ég síðan að stofna nýtt merki sem sérhæfir sig í vörum úr íslenskri ull. Ég gaf því nafnið Ahoj og hef nú þegar hannað og látið framleiða hér á Íslandi húfur og sokka. Þessa dagana er ég að teikna peysur og hef ákveðið að gefa sköpuninni meira pláss á þessu ári,“ segir Guðmunda sem hefur verið að teikna og skapa síðan hún var lítil.

Góð jólaverslun og aukning í netverslun

Jólaverslunin í Bæjarbúð var góð og nokkur aukning frá árinu áður. „Verslunin var samt mjög dreifð yfir allan mánuðinn og fullt af fólki sem var að koma í fyrsta sinn í búðina. Þetta var skemmtilegur desember og greinilegt að fólk vildi versla við kaupmanninn á horninu.“

Að sögn Guðmundu var einnig mikil aukning í netversluninni en það sé hennar reynsla að nauðsynlegt er að sinna þeirri verslun vel. „Við settum mikið púður í netverslunina síðustu þrjá mánuði ársins og það skilaði sér greinilega. Ég sé því fyrir mér að halda áfram að vera dugleg að klappa henni,“ segir Guðmunda og bætir við að margir velji að koma í búðina og sækja vöruna og þá myndist líka persónuleg og góð samskipti við viðskiptavini.  

Bæjarbúð á nú þegar marga góða og trygga viðskiptavini sem eru spenntir að fylgjast með nýjum hönnunarvörum sem Guðmunda finnur. „Ég fer allavega tvisvar á ári á sýningar erlendis og uppgötva þar margar vörur. Tek oftast inn vörur í litlu magni í upphafi, sé hvernig gengur og ef mér líst vel á merkið þá sækjum við um umboðið. Við erum því mikið að rótera vörum og alltaf að koma með eitthvað nýtt.“ Hún er einmitt á leið til Parísar í vikunni en sækir annars mikið sýningar á Englandi og á Norðurlöndunum.  

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðmunda að verslunin hafi opnað í blússandi Covidástandi og því lítið um samanburð. Hún hafi þó alltaf haldið í trúnna um að þegar fólk sé mikið heima þá kaupi það sér gjarnan eitthvað fallegt og það hafi raungerst. Það hafi þó vissulega komið vikur þegar enginn var á ferli en þá hafi hún bara nýtt tímann í að vinna að öðrum verkefnum. Í heildina hafi tekjumissirinn allavega ekki verið mikill.

Hálfur Hafnarfirðingur

Eins og fram hefur komið er Guðmunda fædd og uppalin á Djúpavogi en segist samt vera hálfur Hafnfirðingur. „Afi minn er héðan og stór hluti fjölskyldu minnar býr hér og svo er ég gift inn í hafnfirska fjölskyldu og ég vil hvergi annars staðar vera,“ segir Guðmunda sem hefur núna búið í firðinum fagra í um tólf ár.

„Ég þarf að vera nálægt sjónum og höfninni og komandi frá litlu bæ finnst mér geggjað að upplifa hlýleikann og smábæjarbraginn.“

Jóga við eldavélina

Guðmunda segir að það sé erfitt að aðgreina vinnuna frá áhugamálunum þar sem hönnun sé hennar helsta áhugamál. „Ég elska líka að elda og segi stundum að mitt jóga fari fram við eldavélina. Þar geri ég alls konar tilraunir og tek viss tímabil, elda kannski mikið indverskt einn mánuðinn en fer í einhverja allt aðra átt í næsta mánuði.“ Aðspurð um uppáhalds matinn sinn segir hún það vera lasagne. „Ég er búin að mastera það og geri besta lasagne í heimi en leyndarmálið er góð tómatpúrra og nautakraftur.“

Þá segir Guðmunda að náttúran sé henni jafnframt ákaflega mikilvæg. „Ég er samt alls engin útivistartýpa en finnst gott að vera úti og týni mjög gjarnan steina og skeljar og er í raun alltaf með einhverja steina á mér,“ segir Guðmunda brosandi að lokum.