Hafnfirska björgunarbúnaðsfyrirtækið Markus Lifenet ehf hefur verið starfandi í rúm 40 ár og selur vörur sínar um allan heim. Þökk sé Markúsarnetinu hefur þúsundum mannslífa verið bjargað.
Við hittum feðginin Pétur Theodór Pétursson og Rakel Ýr Pétursdóttur til að kynnast rekstrinum.
Hafnfirskur frumkvöðull
„Afi minn Markús B. Þorgeirsson, skipstjóri, var mikill frumkvöðull og hannaði upphaflega Markúsarnetið sem er nú selt um allan heim og það því nefnt eftir honum,“ segir Rakel en netið er fyrst og fremst hannað til að einn björgunarmaður geti komið manni í öryggi og tveir menn geti lyft einum manni í einu með handafli upp á björgunardekk.
Markús var að sögn Péturs alla tíð mjög björgunarsinnaður og telur að það að hafa misst félaga á sjó árið 1952, eftir að hafa sjálfur reynt að bjarga viðkomandi, hafi alla tíð setið í honum. „Árið 1979 var hann að vinna hjá Samskipum við að gera landgangsnet og þar kviknaði í raun hugmyndin að Markúsarnetinu og árið 1981 var hann byrjaður að kynna það og framleiða,“ segir Pétur og bætir við að ári seinna hafi hann hlotið styrk frá Alþingi og fór um landið til að kynna búnaðinn sem leiddi til þess að árið 1986 voru íslensk skip orðin skyldug til að vera með svona björgunarbúnað um borð.
Pétur og Katrín taka við
Markús lést árið 1984 aðeins sextugur að aldri en árið áður hafði Pétur byrjað að aðstoða tengdapabba sinn við þróun og framleiðslu á netinu samhliða starfi sínu sem smíðakennari í Víðistaðaskóla. „Eftir andlát Markúsar ákváðum við hjónin, Katrín og ég, að stökkva út í djúpu laugina og taka við rekstrinum, sem var samt alls ekki sjálfgefið enda við með litla reynslu af rekstri og bæði ánægð í okkar kennarastörfum. Í kjölfarið fór ég í nám hjá Iðntæknistofnun og áttaði mig þá fljótlega á því að ég yrði að hugsa þetta allt í stærra samhengi,“ segir Pétur og á þá við að þetta snerist ekki bara um að framleiða björgunarnet heldur hvernig eigi að bjarga mönnum úr sjó og þeirra hlutverk væri jafnframt að koma þeirri þekkingu áfram.
„Á þessum tíma sá mamma um saumaskapinn, sem lá aldeilis vel fyrir handavinnukennaranum en pabbi einbeitti sér meira að því að betrumbæta hönnunina og sækja ný efni,“ segir Rakel og pabbi hennar skýtur inn í að á þessum tíma hafi rauði kassinn eða hylkið sem enn í dag er notað undir Markúsarnetið orðið til en frummyndin myndaðist í smíðastofunni í Víðistaðaskóla.
Mikil þróun og breiðari framleiðslulína
Fyrirtækið fór mjög fljótt að hugsa út í heim og til urðu fleiri björgunarvörur. Í dag framleiða þau fyrir utan Markúsarnetið, neyðarstiga, kastlínu og klifurnet í mörgum stærðum. „Við byrjuðum á því að gera veltinet í slöngubáta en þau hafa þróast í mjög stór klifurnet. Við framleiðum sem dæmi net fyrir olíupramma sem eru þrír metrar á breidd og 25 metrar á lengd,“ segir Pétur en björgunarvörur þeirra eru nú fáanlegar fyrir allar tegundir báta, skip, borpalla og hafnarsvæði, virkjanir og brýr.
„Markúsarnetið hefur verið stöðluð vara frá árinu 1998 og því aðeins verið gerðar á því smávægilegar breytingar þá sérstaklega í takt við þróun í efnum sem hefur hjálpað okkur,“ segir Rakel en netin skemmast ekki eða morkna ef rétt farið með þau og 30 ára gömul net, sem hugsað hefur verið um, virka því enn vel.
Öflugt gæðastarf
Pétur hefur sérhæft sig í viðfangsefnum sem varða maður fyrir borð öryggi og björgun og meðal annars verið tæknilegur ráðgjafi í sendinefnd Íslands á tækninefndarfundum Alþjóða Siglingastofnunarinnar. „Í dag þurfa, samkvæmt alþjóðalögum, öll skip að vera með áætlun og framkvæmdarplan um hvernig þau ætli að bjarga fólki. Þar er stuðst við alþjóðastaðlinn ISO 19898, sem er í grunninn alíslenskur staðall sem ég vann meðal annars að. Að mínu mati þá hafði Markúsarnetið mikið að segja í þeirri vinnu og hafði áhrif á þessi alþjóðalög,“ segir Pétur.
Viðskiptavinir um allan heim
Markus Lifenet á í dag viðskiptavini um allan heim, s.s. í Ástralíu, Dubai, Rotterdam, Kína og Bandaríkjunum. „Söluaðili okkar í Bandaríkjunum selur mikið til bandarísku strandgæslunnar og þá notar taívanski herinn og taívanska strandgæslan mikið vörur frá okkur,“ segir Pétur og Rakel bætir við að þau selji líka mikið til olíuborpalla í Nígeríu.
Þau segjast annars auglýsa vöruna lítið, treysti á sín gæði og þetta sé mest nokkurs konar word of mouth sala. „Gott dæmi er þegar Íslenska strandgæslan var við störf við Miðjarðarhafið og notaði netin okkar varð í kjölfarið mikil aukning í eftirspurn. Við eigum þó vissulega nokkra samkeppnisaðila víðs vegar um heiminn en netin okkar eru léttari og meðfærilegri og þar af leiðandi oft vinsælli,“ segir Rakel og brosir.
Þriðji ættliðurinn tekur við
Rakel sér í dag að mestu leiti um allan daglegan rekstur fyrirtækisins. „Ég sinni enn vissri þróunarvinnu og vinnslu staðla en þarf ekki lengur að mæta hingað á hverjum degi,“ segir Pétur ánægður. Rakel segist hafa verið alin upp í fyrirtækinu, enda yngst í systkinahópnum og þegar hún lauk viðskiptafræði árið 2008 bauðst henni vinna í fyrirtækinu og hún sló til. „Ég bjóst kannski ekki við því þá að vera hérna svona lengi en þetta er mjög gaman. Þetta er mín fjölskyldusaga, ég er með þetta í blóðinu. Þá þykir mér ekki síður gaman að sjá hluti verða til, ná að hafa áhrif út á við, sérstaklega þegar kemur að allri hugsun tengdri björgun.“
Hún segir að fjölbreytnin í starfinu henti henni ákaflega vel, það sé fínt að sitja við tölvuna í tvo tíma en skella sér þess á milli í saumaskapinn, í pökkun eða gera prófanir. „Ég brenn annars fyrir því að betrumbætur verði gerðar varðandi reglulega skoðun á búnaði hér á landi. Bretar og Japanir eru orðnir mjög öflugir á þessu sviði og það er viss vakning í gangi í heiminum varðandi þetta og við Íslendingar eigum að gera betur,“ segir Rakel ákveðin en skoðunarþjónusta hefur aukist töluvert í þeirra rekstri undanfarin ár.
Áhrif Covid
Að sögn Rakelar hefur áhrif Covid á reksturinn í raun bara verið jákvæður þar sem margir nýttu tímann til að gera upp bátana sína og keyptu nýjan búnað. „Við vorum sem dæmi með heilmikla sölu í Bandaríkjunum og stóru flutningafyrirtækin í Rotterdam voru einnig mikið að yfirfara sín skip og endurnýja búnað.“
Hún segir að þau hafi sem betur fer aldrei þurft að loka og enginn starfsmaður smitast. „Við höfum líka verið á fullu að koma okkur fyrir í nýja húsnæðinu okkar hér á Hvaleyrarbrautinni sem við fluttum inn í upphafi faraldursins í febrúar 2020.“ Hún segir að þó hafi vissulega verið meiri óvissa með afhendingu á birgðum erlendis frá en þau hafi sem betur fer aldrei lent í því að eiga ekki hráefni, þó stundum hafi það staðið tæpt.
Þytur og Hellisgerði í uppáhaldi
Pétur hefur búið í Hafnarfirðinum frá árinu 1969 og kann ákaflega vel við sig. „Þetta er fallegur bær, hér er allt til alls og stutt að fara.“ Aðspurður um uppáhaldsstað sinn í bænum er Pétur fljótur að nefna siglingaklúbbinn Þyt, sem hann stofnaði á sínum tíma og veitti forstöðu til margra ára.
Rakel er fædd og uppalin á Hverfisgötunni og segist varla hafa farið út úr bænum til tvítugs. Í dag býr hún þó í Reykjavík en dreymir um að flytja aftur í Hafnarfjörðinn. „Hér er skemmtilegur miðbær og ég sæki mikið í alla þjónustu hér og verð að viðurkenna að stundum er ég nú abbó út í vini mína sem geta bara labbað heim eftir tónleika í Bæjarbíó eða góðan kvöldverð á VON,“ segir Rakel og bætir við að Hellisgerði sé líka í uppáhaldi og þangað sé alltaf gott að koma.
Siglingar, ættfræði og matur
Pétur segist eiga fjölmörg áhugamál en siglingar séu þar fremstar, bæði módelsiglingar og alvöru siglingar. „Ég hef siglt um heimsins höf og reyni að sigla sem oftast. Þá finnst mér ákaflega gaman sjá krakka þroskast í siglingum,“ segir Pétur og bætir við að þessa dagana sé hann líka á bólakafi í ættfræði og hafi ákaflega gaman af því.
„,Matur er mitt áhugamál, þá sérstaklega að prófa eitthvað nýtt og njóta hans,“ segir Rakel en maðurinn hennar er matreiðslumaður og hún segir að þau fari mikið út að borða og líka til útlanda til að njóta matar. Þá segist hún vera fótboltamamma og eiga hund sem dragi hana í fjallgöngur. Hún láti hins vegar sjóinn alveg eiga sig, ólíkt föður sínum og kunni mun betur við sig á landi.