Kökulist

Í Kökulist í Firði eru ótrúlega breitt vöruúrval og alltaf einhverjar nýjungar.

Við hittum hjónin Jón Rúnar Arilíusson og Elínu Maríu Nielsen, til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Í Kökulist í Firði eru ótrúlega breitt vöruúrval og alltaf einhverjar nýjungar.

25 ára saga

Í haust eru 25 ár síðan Jón opnaði sitt fyrsta bakarí, árið 1997 við Miðvanginn, en tveimur árum seinna færði hann sig yfir í Fjörðinn og hefur verið þar síðan. „Á þessum 25 árum hef ég í raun prufað allt og sjaldan setið auðum höndum. Hef verið með allt frá þrjá í vinnu til 100 manns. Rak kaffihús í miðbæ Reykjavíkur á tímabili, átti bakarí í Kringlunni, tvö í Garðabæ og við vorum á tímabili líka með tvö hér í Hafnafirði og þá höfum við keypt nokkur þrotabú í gegnum árin,“ segir Jón sem starfaði einnig með kokkalandsliðinu á árum áður, var eitt sinn Íslandsmeistari í kökuskreytingum og er í dag yfir sveinsprófsnefnd bakara.  

Síðastliðin sjö ár hefur Kökulist verið með bakarí í Firði sem og í Reykjanesbæ þar sem vinnslan er nú starfrækt þar sem rýmið hér í bæ var orðið alltof lítið.

Fyrstur með súrdeigsbrauðin

Sérstaða Kökulistar er að sögn Jóns hversu breitt vöruúrvalið er. „Við erum að baka á milli 80 og 100 vörutegundir í hverri viku og þar af eru 50 sem við bökum daglega. Það eru fáir með eins breiða flóru en við erum líka alltaf að koma með einhverjar nýjungar, einhver spennandi rjómastykki um helgar og í síðustu viku var ég sem dæmi með rúsínuvínarbrauð,“ segir Jón og Elín bætir við að þá séu þau líka að sinna ýmsum sérþörfum. „Við erum með vegan kleinuhringi um helgar og alltaf með nokkrar útgáfur af speltbrauði, laktósafríar kökur sem og aðrar eggjalausar.“

Elín segir að þau hafi líka verið langt á undan öllum varðandi ýmislegt í brauðgerð og verið sem dæmi fyrst með vinsælu súrdeigsbrauðin. „Ég byrjaði árið 1997 með langtímahefun og tók svo gerið alveg út nokkrum árum seinna. Við sjóðum líka fræin sem fara í brauðin okkar, þannig að steinefnin og olían úr fræjunum springa út og fara út í brauðið, sem er mjög hollt en öll okkar brauð eru sykurlaus, fitulaus og gerlaus,“ segir Jón.

Vinsælasta varan

Aðspurð hvaða vara sé vinsælust líta þau á hvort annað spyrjandi og segja eftir smá umhugsunarfrest að það sé erfitt að velja. „Sörurnar, franska bóndabrauðið, já og sólkjarnabrauðið hefur staðið upp úr í mörg ár svo er það náttúrulega núggat og skógarberjatertan,“ segir Jón og Elín samþykkir, þá sérstaklega hvað varðar sólkjarnabrauðið, en bætir við að samlokurnar þeirra séu líka svakalega vinsælar, hvítlaukssamlokan sem dæmi.

Fjölmargir fastagestir

Kökulist á afar marga fastaviðskiptavini sem koma aftur og aftur og sumir lengra að en aðrir. „Þýsk kona úr Kópavoginum kemur sem dæmi hingað reglulega til að kaupa rúnstykki en segist bara fá hjá okkur rúnstykki eins og heima í Þýskalandi. Þá hef ég ósjaldan hitt fólk sem talar um að við séum bakaríið með góðu brauðin,“ segir Jón og telur að margir kunni að meta það að þau geri enn ótrúlega margt á gamla mátann og það skili sér að hann hafi enn ástríðu fyrir starfi sínu.

Elín stendur reglulega fyrir aftan afgreiðsluborðið og þekkir orðið mjög marga viðskiptavini. Hún segir að meðal daglegra gesta séu Hafnfirðingar á eftirlaunum sem komi til þeirra og sitji saman í dágóða stund á kaffitorginu til að leysa heimsins vandamál. Annars séu viðskiptavinir þeirra á öllum aldri.

Veisluþjónusta, tyllidagar og netverslun

Kökulist hefur verið með veisluþjónustu til fjölda ára og þau segja að margar fjölskyldur sem og fyrirtæki snúi sér alltaf til þeirra þegar eitthvað stendur til. „Það eru ófáar fjölskyldurnar sem hafa keypt skírnarkökur, fermingarkökur og síðan brúðkaupstertur hjá okkur og önnur kynslóð fjölskyldunnar farin að taka við.“

Þá segja þau að salan í kringum hina ýmsu tyllidaga í kringum árið aukist jafnt og þétt. Næst á dagskrá sé Valentínusardagurinn, þá konudagurinn og í lok mánaðarins bolludagurinn sem sé vissulega stærstur. „Við bökum um 15 þúsund bollur og það eru mörg handtök við hverja einustu bollu og sá dagur krefst því mjög mikils undirbúnings,“ segir Jón.

Elín segir að í nokkur ár hafi þau verið að selja vörur í gegnum netverslun sína og það hafi orðið lygilega mikil aukning þar undanfarin ár, þá sérstaklega þegar kemur að myndskreyttum barnatertum.   

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hefur vissulega haft sín áhrif hjá Kökulist en það hefur þó alls ekki verið samdráttur, ef eitthvað er þá frekar aukning. Elín segir að fólk sé greinilega meira í því að gera sér dagamun en sé einnig oft að kaupa eitthvað til að gleðja aðra. „Hingað koma margir sem vilja færa vinum eða ættingjum eitthvað í einangrun eða handa eldra fólki á dvalarheimilum eða sjúkrahúsum,“ segir Elín og Jón bætir við að þá séu margir ansi úrræðagóðir en nýverið hafi þau sem dæmi útbúið 100 manna erfidrykkju þar sem hver skammtur var settur í öskju sem fólk fékk þegar það gekk út úr kirkjunni. „Mér finnst líka að fólk hafi lært ákveðið æðruleysi og flestir kippa sér ekki lengur upp við það að þurfa að standa smá í röð, eitthvað sem reyndist mörgum erfitt áður fyrr,“ segir Jón.

Þau segjast annars hafa sett upp tvær aðskildar vaktir í vinnslunni snemma í faraldrinum og séu sérstaklega þakklát fyrir það núna undanfarnar vikur þegar omíkron afbrigðið hefur geysað yfir og stundum staðið tæpt með að halda öllu opnu.

Hafnfirðingar tryggir sínum

Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er Jón fljótur að svara að þetta sé eitthvað fallegasta bæjarstæði á landinu og hér sé ótrúlega mikill bæjarbragur. „Ég hef sem dæmi verið kynntur af manni fyrir öðru fólki á 17. júní sem bakarinn minn,“ segir Jón og brosir.  

Elín segir að Hafnfirðingar séu einnig ákaflega tryggir fyrirtækjunum í bænum og versli helst í heimabyggð, eitthvað sem henni þykir vænt um. „Þó ég sé ekki fædd hér og uppalin þá finnst mér ég vera orðinn mikill Hafnfirðingur og farin að þekkja mjög marga og vil núna hvergi annars staðar búa.“

Ferðalög, fluguveiði og fjölskyldan

Jón og Elín segjast vera dugleg að ferðast, hafa nokkrum sinnum farið hringinn og skoða þá gjarnan ár og fossa og fara einnig á fjöll. „Við höfum í gegnum árin einnig verið dugleg að ferðast til útlanda, bæði í lengri og styttri ferðir,“ segir Elín og bætir við að þá fari þau gjarnan á skíði og séu í raun mjög aktív, alltaf eitthvað að gera.

„Ég fer einnig reglulega í fluguveiði í góðra vina hópi“, segir Jón en bætir við að fjölskyldusamvera sé þeim einnig afar kær en saman eiga þau stóran hóp, alls sex börn og sjö barnabörn.