Á Ban Kúnn á Tjarnarvöllum er Padthai vinsælasti rétturinn en hann er byggður á uppskrift frá tælenskri langömmu.
Við hittum eigendurna og hjónin Svavar G. Jónsson og Natthawat Voramool til að kynnast rekstrinum.
Hófst á Austurgötuhátíðinni
Fyrir rúmri viku fagnaði Ban Kúnn átta ára afmæli en staðurinn opnaði þann 31. janúar árið 2014 og fékk strax mjög góðar viðtökur. Hugmyndin að opna veitingastað á sér þó lengri sögu og má rekja til fyrstu Austurgötuhátíðarinnar árið 2011 þar sem þeir slógu í gegn með matartjaldið sitt.
„Við búum á Austurgötunni og vildum að sjálfsögðu taka þátt í hátíðinni og Natthawat var fljótur að ákveða að við myndum selja mat og verslaði inn, að mér fannst, heil ósköp. Ásóknin varð hins vegar svo mikil að það var farið í búðina fimm eða sex sinnum þann daginn,“ segir Svavar. Þeir endurtóku leikinn ári seinna og þá segist Natthawat hafa bætt vorrúllum á matseðilinn en fyrsta árið voru þeir með eggjanúðlur og Panang karrí.
„Við fengum margar fyrirspurnir um hvort við værum með veitingahús og einhver sagðist hafa beðið í heilt ár eftir að fá núðlurnar okkar aftur. Í kjölfarið ákváðum við að hætta að spá og spekúlera og fara bara í að leita að húsnæði og eftir mikla og langa leit enduðum við hérna á Tjarnarvöllum.“
Heima hjá þér
Aðspurðir um nafnið á staðnum segir Natthawat að það þýði í raun heima hjá þér og að systir hans hafi rekið veitingahús á Tælandi með þessu nafni. Honum fannst ekkert annað nafn koma til greina á veitingastaðinn þeirra Svavars sem þeir reyna líka að hafa heimilislegan og skreyta með mörgum fallegum og táknrænum hlutum frá Tælandi. Þar á meðal eru myndir af tælenskum kóngum, bæði núverandi og fyrrverandi. „Kóngur númer tíu ríkir í dag en margir veitingastaðir á Tælandi eru líka með mynd af kóngi númer fimm þar sem hann var mikill matreiðslumaður,“ segir Natthawat og bendir einnig á aðrar myndir og muni sem eiga að færa staðnum velgengni samkvæmt tælenskri hjátrú. Þá bætir Svavar við að þeir hafi keypt öll húsgögnin fyrir staðin notuð og reyni að vera útsjónasamir.
Uppskriftin frá langömmu
Matseðilinn hjá Ban Kúnn er fjölbreyttur, þar er allt unnið frá grunni og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. „Kjúklingurinn er vinsælastur en rækju-, svínakjöts- og grænmetisréttir eru líka alltaf á boðstólnum og það hefur orðið mikil aukning í sölu á veganréttum,“ segir Svavar en á matseðlinum eru enn eggjanúðlurnar sem og Panang karríið sem var selt á fyrstu Austurgötuhátíðinni. Upphaflega Panang-ið kemur reyndar og fer og gengur stundum undir nafninu 17. júní rétturinn.
Vinsælast á Ban Kúnn í dag er hins vegar Padthai sem er byggður á uppskrift frá langömmu Natthawat í Tælandi og er nokkurs konar leyniuppskrift staðarins. Þá er hnetusósan þeirra byggð á uppskrift frá ömmu hans sem eldaði afar góðan mat. „Fjölskylda mín hefur verið mikið í matargerð og ég á tvær systur sem hafa rekið veitingastaði, þar á meðal einn stóran í Bankok þar sem ég vann á árum áður meðfram námi,“ segir Natthawat.
Fólk kemur aftur og aftur
Í gegnum árin hefur Ban Kúnn eignast marga fastagesti sem koma alltaf aftur og aftur. „Sumir panta alltaf það sama en aðrir prófa gjarnan eitthvað nýtt. Við fáum líka mikið af fólki utan af landi hingað og sem dæmi ein fjölskylda frá Hellu sem kemur alltaf til okkar þegar hún kemur í bæinn,“ segir Svavar og bætir við að þá komi reglulega til þeirra ýmsir hópar á vegum ferðaskrifstofa og gestir á Hótel Völlum séu jafnframt duglegir að koma.
Áhrif Covid
Þeir viðurkenna báðir að Covid tíminn hafi verið ansi erfiður. Þeir hafi þurft að segja upp fólki, stytt opnunartímann en sem betur fer alveg sloppið við að þurfa að loka vegna veikinda eða sóttkvíar.
„Föstu viðskiptavinirnir okkar hafa sem betur fer haldið áfram að koma en það er bara rólegra yfir öllu og fólk farið að elda meira heima. Þá eru fáir ferðamenn á ferli sem voru alltaf viss hluti af okkar viðskiptavinum. En við höfum annars verið strangir á öllum sóttvarnarreglum og fólk almennt verið ánægt með það.“
Búa í fjölskylduhúsinu á Austurgötu
Svavar og Natthawat búa á Austurgötunni í húsinu sem langamma Svavars keypti árið 1913 og hefur verið í fjölskyldunni með nokkrum hléum í gegnum árin. Þeim líður afar vel í miðbænum og Natthawat unir sér sérstaklega vel í garðinum þeirra þar sem þeir eru með gróðurhús og hann ræktar mikið af grænmeti og káli. „Þetta er fallegur bær, hér er rólegt og gott að vera,“ segir hann og ef hann ætti að nefna uppáhaldsstað þá yrði það Hellisgerði.
Svavar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, frumbyggi í Kinnunum, og segir að það besta við bæinn sé í raun tilfinningin. „Hér er fólkið mitt, hér líður mér vel og hér á ég heima.“
Ljósmyndun, saga, spil og söngur
Svavar hefur mikinn áhuga á myndavélum og ljósmyndun og á Ban Kúnn má skoða glæsilegt myndavélasafn hans þar sem meðal annars eru yfir 100 ára gamlar myndavélar. „Ég byrjaði að safna myndavélum um fermingu, á enn mína fyrstu myndavél og safnið orðið ansi stórt og fjölbreytt. Ég er víst komin langt í 400 vélar,“ segir hann og brosir. Saga Hafnarfjarðar er Svavari jafnframt afar hugleikinn, þá sérstaklega saga húsa og fólks.
Natthawat ræktar gjarnan blóm og grænmeti og spilar gjarnan á spil í frítíma sínum. „Ég söng líka mikið og dansaði á árum áður og hef tekið þátt í ýmsum sýningum en hef gert eitthvað minna af því undanfarið,“ segir hann brosandi að lokum.