Í Sundskóla Hörpu eru yngstu nemendurnir einungis tveggja mánaða en í skólanum er lögð sérstök áhersla á að börn og foreldrar eigi gæðastund saman í lauginni.
Við hittum Hörpu Þrastardóttur, eiganda og kennara sundskólans til að kynnast rekstrinum.
Verkfræðingur sem kennir ungbarnasund
Harpa hefur verið í tíður gestur í Suðurbæjarlauginni allt frá því hún var barn. Fór þar á sitt fyrsta sundnámskeið fimm ára gömul, tók allt sitt skólasund í lauginni og byrjaði svo að æfa sund þegar hún var 10 ára. „Árið 2008 tók ég síðan við þjálfun hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar og kenndi þar mikið yngstu börnunum,“ segir Harpa.
Þegar hún eignaðist dóttur sína árið 2016 fór hún með hana í ungbarnasund og í kjölfarið hvatti kennarinn Hörpu til að sækja námskeið hjá Busla, félagi ungbarnasundskennara þar sem þörf væri á enn fleiri ungbarnasundsnámskeiðum. „Ég ákvað að slá til en þurfti reyndar að fá undanþágu þar sem ég er verkfræðingur og ekki með bakgrunn í íþróttafræðum eða heilbrigðismenntun en áralöng reynsla af sundþjálfun vóg þar upp á móti,“ segir Harpa sem heldur að hún sé eini verkfræðingurinn sem kenni ungbarnasund í dag. Eftir námskeiðið var ekki aftur snúið og hún stofnaði Sundskóla Hörpu sem var með sitt fyrsta námskeið í upphafi árs 2018.
Úr tveimur hópum í sextán
Sundskóli Hörpu bíður upp á sundkennslu fyrir börn frá tveggja mánaða aldri og allt fram að upphafi grunnskólagöngu. Hún segir að námskeiðin veiti börnum alhliða örvun og styrki þau mikið og séu jafnframt afar jákvæð fyrir hreyfiþroskann enda mun auðveldara að hreyfa sig í vatni.
„Ég er alla jafna með fjórar mismunandi gerðir af námskeiðum. Fyrst er það ungbarnasundið, þar sem ég er bæði með byrjenda og framhaldsnámskeið og síðan er ég með sundskóla fyrir börn frá eins til þriggja ára annars vegar og hins vegar tveggja til sex ára. Þessa önnina er ég reyndar tímabundið einnig með 4-7 ára hóp“ segir Harpa sem í dag er með 16 mismunandi hópa í gangi, sex hópar á laugardögum í Suðurbæjarlauginni en tíu hópa í Mörkinni þar sem hún kennir á sunnudögum og mánudögum og stendur hvert námskeið yfir í sex vikur í senn.
„Þetta fór hægt af stað í upphafi en eftirspurnin hefur verið það mikil að ég fór úr tveimur hópum í 16 á fjórum árum. Nýjasti sundskólinn varð því mjög fljótt með þeim stærstu,“ segir Harpa ánægð og þakkar þetta vissulega ánægðum viðskiptavinum sem koma alltaf aftur og aftur en sum börn hafa verið í sundskólanum í nokkur ár og margir foreldrar komið með börn númer tvö og einhverjir núna að koma með það þriðja. Hún leggur þá áherslu á að þó að sum börnin byrji mjög ung þá sé aldrei of seint að byrja.
Leikir, söngur og köfun
Í sundskólanum er mikil áhersla lögð á að hafa gaman og leikir og söngur spila þar stórt hlutverk. „Það auðveldar kennsluna töluvert að vera í leik, börnin læra oft hraðar þannig og komast frekar yfir vatnshræðslu,“ segir Harpa.
Í ungbarnasundinu byrja allir tímar á söng og ákveðnar æfingar gerðar með hverju lagi. „Við syngjum og gerum þá vissar æfingar með hverju lagi og börnin læra hratt hverju þau eiga von á. Sem dæmi er alltaf sama lagið þegar við erum að fara að kafa.“
Það tengja ef til vill margir köfun við ungbarnasund og hafa séð myndir af litlum krílum í kafi. „Börn fæðast með köfunarviðbrögðin og þau eru til staðar fyrstu mánuðina og með æfingum getum við viðhaldið þeim. Við blásum þá alltaf framan í þau fyrst svo þau dragi inn andann og fara síðan í kaf,“ segir Harpa en ítrekar að það sé þó engin skylda að kafa og sumir foreldar ákveði að sleppa því alfarið.
Gæðastundir í lauginni
Tilgangur allra námskeiða í sundskólanum er að barn og foreldri eða foreldrar eigi gæðastundir saman í lauginni á meðan barnið fær aðlögun og kennslu í vatni sem hentar aldri og getu. „Það er mikil nánd í lauginni, mikil snerting og foreldrar þurfa að horfa í augu barnsins þegar verið er að gera æfingar en aðalatriðið er að hafa gaman.“
Harpa segir foreldra vera jafn mismunandi og þeir eru margir. Sumir foreldrar eru sjálfir vatnshræddir en þá getur verið gott að koma og fá ráð hjá kennaranum og byggja upp sitt öryggi til að geta farið með barnið sitt í sund í framtíðinni. Þá segir hún að stundum sé annað foreldrið ofan í lauginni og hitt á bakkanum en það sé þó oftast skemmtilegast þegar bæði eru ofan í.
Ömmur og afar eða systkini koma stundum að horfa á eða leysa annað foreldrið af ef einhver forfallast. „Það eru annars oft afar sem eru ákaflega duglegir að koma með eldri börnunum á námskeið og dæmi um afa sem hefur komið með nær öll barnabörnin sín á sundnámskeið hjá mér og átt reglulegar gæðastundir með þeim í lauginni.“
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Harpa að þetta hafi vissulega verið erfitt, sérstaklega þegar Suðurbæjarlaug var lokuð í marga mánuði, fyrst vegna Covid en síðan vegna viðgerða. „Þetta var erfiðast þegar lokað var á miðju námskeiði en við tókum svo upp þráðin á þeim námskeiðum þegar laugin opnaði aftur.“
Það kom nú samt eitthvað jákvætt út úr þessu þar sem Harpa ákvað að byrja líka með námskeið í Mörkinni vegna lokunar Suðurbæjarlaugar og starfsemin þar hefur vissulega blómstrað og aðstaðan til fyrirmyndar. Harpa ákvað jafnframt að hætta allri þjálfun hjá SH í upphafi Covid og hafði því tækifæri til að auka starfsemi sundskólans og sér alls ekki eftir því.
Góðar sundlaugar bestar
Harpa er Hafnfirðingur, ólst upp í Suðurbænum, var í Öldutúnsskóla og æfði sund með SH. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn er hún fljót að svara að það séu góðar sundlaugar. „Við erum með allar tegundir af laugum sem hver og ein hefur sinn sjarma og ég er ákaflega hrifin af þeim öllum.“ Þá bætir hún við að miðbærinn sé skemmtilegur og hún versli og sæki flesta þjónustu hér í bænum.
Útivist og pottarnir
Í frítíma sínum stundar Harpa gjarnan einhverja útivist. „Ég hef mjög gaman af því að fara í fjallgöngur og síðan erum við fjölskyldan að reyna að koma okkur á skíði sem mér finnst ákaflega heillandi.“ Þá segist hún líka gjarnan fara í sund en þá einungis í pottana. „Ég er alveg hætt að synda sjálf, hef gaman af því að kenna sund en finnst síður skemmtilegt að synda sjálf, nema þá helst með tónlist í eyrunum,“ segir Harpa að lokum með bros á vör.