Vélsmiðjan Stálvík

Vélsmiðjan Stálvík á Hvaleyrarbrautinni er ungt fyrirtæki en þó með áratugareynslu.

Við hittum eigendurna Sigurð Kristinn Lárusson vélvirkja- og stálvirkjameistara og Jón Trausta Sverrisson vél- og orkutæknifræðing til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Vélsmiðjan Stálvík á Hvaleyrarbrautinni er ungt fyrirtæki en þó með áratugareynslu.

Áratugareynsla í faginu

Stálvík hefur verið starfandi síðan haustið 2019 en Sigurður og Jón Trausti eru með áratugareynslu í faginu. „Við vorum búnir að vinna saman í rúm átta ár þegar hugmyndin vaknar að stofna sitt eigið fyrirtæki og þá var í rauninni ekki aftur snúið,“ segir Sigurður og bætir við að þeir hafi einnig skoðað það að kaupa annað fyrirtæki en töldu á endanum það vera of kostnaðarsamt sem og meiri áhætta. Þeir telja að það sé líka öllum hollt að byrja frá núlli þó að upphafskostnaðurinn sé vissulega mjög mikill og þeir hafi þurft að setja allt sitt sparifé inn í reksturinn. „Á þessum rúmu tveimur árum erum við búnir að kaupa verkfæri fyrir tugi milljóna en við leggjum líka upp úr því að vera með góð tæki og erum orðnir vel græjaðir í dag og í raun búnir að taka fram úr mörgum smiðjum á okkar stærðargráðu,“ segir Jón Trausti en það er þeim ákaflega mikilvægt að vera orðin svo til alveg sjálfstæð smiðja.

Hanna, teikna og smíða

Þeir í Stálvík taka að sér ýmsa nýsmíði en eru líka í viðhaldi og viðgerðum. „Við erum með  heildarlausnir, komum með hugmyndir, hönnum, teiknum og smíðum enda með stálsmiði, rafsuðumenn, vélvirkja, verkfræðing og tæknifræðing hér í vinnu,“ segir Sigurður en helstu viðskiptavinir þeirra eru stóriðjur, orkugeirinn og sjávarútvegsfyrirtæki. Þeir segjast einnig taka að sér verkefni fyrir minni aðila en að undanförnu hafi eftirspurnin verið það mikil hjá stórfyrirtækjum að áherslan sé mun meiri þar í dag.

„Síðustu tvær vikurnar höfum við verið í stóru verkefni fyrir Elkem á Grundartanga, sem er okkar stærsti viðskiptavinur, og þá höfum við í raun unnið dag og nótt og fengið fjölmarga verktaka með okkur til að klára verkið“, segir Jón Trausti en starfsmenn Stálvíkur í dag eru 14 talsins en í þessu tiltekna verkefni voru rúmlega 40 manns að störfum fyrir þeirra hönd.

Sturtuklefar og sjónarrönd

Eitt af verkum Stálvíkur sem almenningur getur borið augum er stálsmíði í Sky Lagoon. „Þetta var skemmtilegt verkefni en við hönnuðum og smíðuðum meðal annars sturtuklefana í samráði við eigendur, gerðum öll handrið og þá hönnuðum við og smíðuðum vél sem þurfti að nota til að slípa niður og stilla af frægu sjónarröndina þeirra,“ segir Sigurður og Jón Trausti bætir við að þeir hafi í gegnum tíðina mikið unnið með arkitektastofum og þá helst með Haf Studio, sem á og rekur einnig verslunina Haf Store, að ýmsum verkefnum.

Áreiðanleiki og fagmennska

„Allt sem við gerum, gerum við vel og oft betur en vel,“ segir Jón Trausti og Sigurður tekur undir þetta og bætir við að þeir leggi mjög mikið upp úr því að standa við það sem þeir segja. „Áreiðanleiki og fagmennska er í raun okkar sérstaða. Við erum í þessu af líf og sál og reynum að sinna okkar viðskiptavinum alltaf vel.“

Þeir gera því miklar kröfur til síns starfsfólks sem þurfi að skila verkefnum af sér í hæstu gæðum. En það að fá gott starfsfólk sé einmitt þeirra stærsta vandamál í rekstri. „Það er mikil vöntun í faginu og við að keppa við stór fyrirtæki sem eru í eigu sjóða, stofnana eða banka um hæft fólk sem getur verið ansi krefjandi. Við erum núna 14 en þyrftum helst að vera 20.“ Þeir eru þó ákaflega ánægðir með starfsfólkið sitt í dag og leggja mikið á sig til að vera með góð tæki og gott andrúmsloft. Þá segjast þeir vera að vinna í því að koma upp hobbý-aðstöðu fyrir sitt fólk þar sem hægt er að sinna ýmsum viðgerðum í tengslum við áhugamál.

Áhrif Covid

Aðspurðir um áhrif Covid á reksturinn segja þeir að faraldurinn hafi vissulega bitið í þá. „Við gerðum alls konar kúnstir enda ekki í þeirri aðstöðu að geta látið fólkið okkar vinna að heiman. Við leigðum meðal annars húsnæði út í bæ fyrir tvo starfsmenn með tilheyrandi kostnaði og við Sigurður héldum alltaf fjarlægð frá hvor öðrum,“ segir Jón Trausti og bætir við að þeir hafi samt í raun verið heppnir í upphafi þegar staðan var sem verst að geta unnið í stóru tveggja mánaða verkefni, en á þeim tíma hafi síminn varla hringt enda allir að halda aftur að sér.

Þegar líða tók á faraldurinn streymdu verkefnin svo til þeirra, sérstaklega í tengslum við fyrirtæki sem nýttu tækifæri til að fara í viðgerðir sem höfðu setið á hakanum. „Við höfðum líka mikinn meðbyr með okkur allt frá upphafi. Aðilar sem þekktu til okkar vinnu studdu okkur vel og fyrirtækið stækkaði því hratt í faraldrinum,“ segir Sigurður en í febrúar 2020 var Stálvík með fjóra starfsmenn en eru nú með fjórtán.

Hlúð að iðnaðarfyrirtækjum

Sigurður og Jón Trausti hafa báðir búið í Hafnarfirði en gera það ekki í dag. Þeir eru samt ákaflega sáttir með að vera með fyrirtækið sitt hér í bæ. „Okkur langaði ekki vera á of stóru iðnaðarsvæði og týnast einhvern veginn þar. Okkur þykir þessi hluti Hafnarfjarðar því henta okkur ákaflega vel,“ segir Sigurður og bætir við að honum finnist að hér í bæ sé að vissu leyti betur hlúð að iðnaðarfyrirtækjum en í ýmsum nágrannasveitarfélögum.

„Þetta er líka ákaflega sjarmerandi bær og ég gæti vel hugsað mér að flytja hingað í framtíðinni,“ segir Jón Trausti og bætir við með bros á vör að hann kunni líka vel að meta fiskilyktina komandi frá litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum.

Mótorsport, hjól og útivist

Þeir félagar eru einnig nokkuð samstíga þegar kemur að áhugamálum og nefna báðir mótorsport og segjast gjarnan fara á mótorhjól, snjósleða og keyra stóra jeppa. „Helsta áhugamálið að undanförnu er samt sem áður Stálvík og öll ástríðan fer í að byggja fyrirtækið upp og hlúa að því,“ segir Sigurður og Jón Trausti tekur undir.

„Ég æfði blak með Haukum en varð að hætta því en núna er ég reyndar búin að kaupa mér fjallahjól og verð vonandi duglegur að hjóla í sumar, þó ekki sé nema til og frá vinnu,“ segir Jón Trausti. Sigurður segir að útivist gefi sér líka mikið og þau fjölskyldan fari gjarnan á fjöll á sumrin og ferðist líka um landið með hjólhýsi.