Í Lífsgæðasetri St. Jó má finna iðjuþjálfunarfyrirtækið Heimastyrk sem veitir afar fjölbreytta þjónustu, ráðgjöf og þjálfun til heilsueflingar.
Við hittum Guðrúnu Jóhönnu Hallgrímsdóttur iðjuþjálfa og eiganda Heimastyrks til að kynnast rekstrinum.
Aukavinnan varð aðal
Guðrún vann lengi á Hrafnistu hér í Hafnarfirði sem iðjuþjálfi og kunni ákaflega vel við sig. „Það var svo gaman að kynnast reynslumiklum Hafnfirðingum sem sögðu mér ótrúlega margar áhugaverðar sögur og yndislegt að vinna með þeim.“ Samhliða starfinu á Hrafnistu og síðar hjá Reykjavíkurborg tók hún jafnframt að sér ýmis önnur auka verkefni og ákvað loksins að taka skrefið og stofna sitt eigið fyrirtæki og vinna alfarið sjálfstætt. Heimastyrkur fékk nafnið sitt árið 2017 og flutti árið 2020 í St. Jó árið.
Fjölbreytnin í fyrirrúmi
Guðrún segir að nafnið á fyrirtækinu sé ákaflega lýsandi fyrir þá þjónustu sem hún veiti. „Mitt hlutverk sem iðjuþjálfi er að styrkja heilsu fólks. Heimastyrkur stendur fyrir að styrkja fólk að innan enda líkaminn heimastöðin en svo tengist þjónusta oft heimili þeirra, þar sem vani og rútína myndast sem þarf stundum að breyta. Ég þjálfa fólk í gegnum iðju og hjálpa því sem dæmi að einfalda hluti sem eru nauðsynlegir til að eiga orku í það sem veitir viðkomandi tilgang og nærir andlega eða félagslega. Sumir kalla mig því skemmtanastjóra í iðju,“ segir Guðrún og brosir.
Starfið er samkvæmt henni ákaflega fjölbreytt. „Á einum degi get ég verið að hjálpa einum við forgangsröðun í námi, þjálfa annan í fínhreyfingum, aðstoða þann þriðja við að panta hjálpartæki og að lokum farið í ökumat með þeim fjórða.“ Þá séu þjónustuþegarnir jafnframt á öllum aldri.
Forvarnir heilla
Hluti þeirra einstaklinga sem koma til Guðrúnar eru á vegum VIRK og hafa lent í kulnun, veikindum eða öðru og þurfa aðstoð iðjuþjálfa í sinni endurhæfingu. Þá vinnur hún jafnframt töluvert með Parkinsonsamtökunum, Gigtarmiðstöð Íslands, Vigdísarholti og Vestmannabæ þar sem hún sinnir bæði þjálfun og fræðslu.
Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög fá þá gjarnan Guðrúnu til sín bæði til að gera ýmsar úttektir en jafnframt veita mikilvæga forvarnarfræðslu til að bæta aðstæður og öryggi fólks. „Forvarnir heilla mig ávallt meir og meir enda ákaflega mikilvæg þjónusta. Ég er því sérstaklega ánægð þegar ég fæ að koma inn í fyrirtæki eða stofnanir og meta streituvalda á vinnustaðnum og hitta fólk áður en það lendir sem dæmi í stoðkerfisvanda eða kulnun,“ segir Guðrún og bætir við að annað dæmi um forvarnarstarf felist í að fara í heimilisathuganir og benda á lausnir og þjálfun sem geti seinkað búsetu á hjúkrunarheimili.
Trú á eigin getu
Eitt helsta markmið Heimastyrks er að veita stuðning til sjálfshjálpar, vellíðan og trú á eigin getu og áhrifamátt gegnum iðju og félagslega þátttöku. Guðrún segir að suma hitti hún einungis í eitt skipti en aðrir komi oftar. „Ég vil í raun gera mig óþarfa sem fyrst og reyni að kenna fólki sem mest, svo það geti sinnt öllu í sínu lífi með aðferðum sem henta þeim. Það mætti alveg kalla mig nokkurs konar lífsþjálfa, hjá mér gengur allt út á að finna tilgang hvers og eins og hvað viðkomandi finnst skemmtilegt og nærandi að iðka. Að vera iðjulaus getur nefnilega verið mjög erfitt enda myndum við sjálfstraust okkar í gegnum þá iðju sem við sinnum.“
Mörg járn í eldinum
Það má vissulega segja að Guðrún sé með mörg járn í eldinum en meðfram starfinu hjá Heimastyrk er hún aðjúnkt við iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri og í handleiðslunámi við Háskóla Íslands. „Ég hef verið að kenna í nokkur ár og þykir það ákaflega gefandi en kennslan krefst þess að ég haldi mér vel upplýstri og fylgist vel með allri framþróun í faginu sem er af hinu góða,“ segir Guðrún sem skrifar jafnframt reglulega greinar fyrir veftímaritið Aldur er bara tala og var í stjórn Iðjuþjálfarafélags Íslands þar til nýverið en félagið berst m.a. fyrir því að þjónusta þeirra verði niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.
Áhrif Covid
Aðspurð um hvaða áhrif Covid hafði á reksturinn er Guðrún fljót að segja að þau hafi í raun verið engin. „Fólk heldur áfram að vera veikt og kljást við ýmis konar vandamál í daglegri iðju þó heimsfaraldur sé í gangi og ég fór því áfram í heimsóknir og fólk kom til mín, allir bara með grímur og vel sprittaðir,“ segir Guðrún en bætir við að vissulega hafi orðið einhver aukning í fjarþjónustu.
„Ég hef alltaf unnið mikið í gegnum netið og aldrei sett það fyrir mig. Við vorum því sem dæmi fljót að skella handaþjálfuninni fyrir Parkinsonsamtökin yfir á netið og uppskárum í raun mikla gleði með það frá aðilum sem búa út á landi og gátu nú verið með.“
Guðrún segir að eftir Covid þá hafi hins vegar þörfin á iðjuþjálfun aukist. „Margir þurfa aðstoð við að koma sér aftur á stað við ýmsa iðju, komast í rútínu og vera í félagslegum tengslum sem minnkuðu gríðarlega á þessum tíma.“ Þá eru margir sem fengu veiruna að glíma við ýmsar afleiðingar s.s. viðkvæmni gagnvart birtu, hljóði og snertingu sem og að hafa misst bragð- og lyktarskyn. Í svona aðstæðum geta iðjuþjálfar aðstoðað við að draga úr skynáreiti, einfalda ýmsa iðju og veitt ráðgjöf t.d. varðandi hjálpartæki.
Best við Hafnarfjörð
Guðrún ólst upp á Hlíðarbrautinni með St. Jó í bakgarðinum og er mjög ánægð með að vera komin í það fallega hús með fyrirtækið sitt. „Ég er ákaflega þakklát fyrir að vera hluti af því góða samfélagi sem starfar hér í dag og finnst það vera mikill heiður að vera hér.“
Hún segist annars hafa búið á nokkrum stöðum í gegnum ævina en Hafnarfjörður hafi alltaf togað í hana. „Hér liggja mínar rætur og Hafnarfjörður er minn heimabær og að vera heima veitir mér styrk,“ segir Guðrún sem elskar að vera við sjóinn og horfa á Ásfjallið út um stofugluggann. Aðspurð um sinn uppáhaldsstað í Hafnarfirði nefnir hún fljótt Ástjörnina og einnig Keilissvæðið þar sem náttúran, ölduhljóð og fuglalíf veiti henni vissa hugarró.
Gaman að leika sér
Þegar kemur að áhugamálum segir Guðrún að hún hafi í raun sameinað vinnuna og áhugamálin. „Ég hef mikinn áhuga á fólki, vellíðan og heilsu. Útivera er mér því mikilvæg, ég elska að ferðast og svo er dásamlegt að vera í góðum vinahópum og ég á sem betur fer marga góða vini enda mikil félagsvera,“ segir Guðrún og bætir við að þá finnist henni líka alltaf gaman að leika sér og syngi jafnframt mikið en oftast bara þegar hún sé ein enda hálf laglaus og fölsk að eigin sögn.