Te & Kaffi

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi á Stapahrauni er framsækið fyrirtæki með langa sögu sem í dag leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Við hittum Kristínu Maríu Dýrfjörð stjórnarformann og Guðmund Halldórsson framkvæmdastjóra til að kynnast rekstri Te & Kaffi sem er leiðandi á markaði í dag.  

Fyrirtæki vikunnar

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi er framsækið fyrirtæki með langa sögu sem í dag leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Skapa nýja menningu

Sögu Te & Kaffi má rekja allt til ársins 1984 þegar Berglind Guðbrandsdóttir og Sigmundur Dýrfjörð, foreldrar Kristínar fluttust heim frá Svíþjóð og söknuðu te og kaffimenningarinnar þaðan. „Á þessum tíma var lítið sem ekkert úrval af kaffi og tei hér á landi og þau ákváðu bara að gera eitthvað í því og opnuðu fyrstu verslunina á Barónstíg. Hún fékk fínar viðtökur en tveimur árum seinna fluttu þau í bakhús á Laugarvegi 24 sem var ekki einungis verslun heldur einnig kaffihús og þá fór allt á fullt og listaspírur bæjarins voru meðal fastagesta,“ segir Kristín og bætir við að 11 árum seinna hafi þau flutt sig yfir götuna á Laugaveg 27 þar sem Te & Kaffi er enn í dag með kaffihús enda húsnæðið í þeirra eigu.  

Guðmundur segir að á þessu tíma hafi ýmsar kaffitengdar vörur í sínum víðasta skilningi verið seldar í Te & Kaffi. „Ljós, dúkkulísur, sultur, sælgæti og postulín var meðal þess sem hægt var að kaupa hjá þeim og svo voru pressukönnur seldar í mjög miklu magni. Sérstaðan lá í vörum sem fengust ekki annar staðar.“

Í Hafnarfirði frá 1986

Í dag er fyrirtækið í eigu mæðgnanna Berglindar, Kristínar Maríu og Sunnu Rósar en Sigmundur lést fyrir nokkrum árum. Ásamt þeim eiga Guðmundur framkvæmdastjóri, Stefán framleiðslustjóri og Halldór framkvæmdastjóri kaffihúsanna hlut í fyrirtækinu.

Framleiðslan og skrifstofur fyrirtækisins eru staðsett í Stapahrauni. „Þegar við byrjuðum að rista okkar eigið kaffi, árið 1986, vorum við í Skútuhrauninu en fluttum okkur hingað í Stapahraunið árið 1995, fyrst í eitt hús en í dag erum við með þrjú hús í götunni undir reksturinn,“ segir Kristín og bætir við að pabbi hennar hafi verið Hafnfirðingur og því gjarnan viljað hafa höfuðstöðvarnar hér. Þá hafi nágrannar þeirra í Fjarðarkaupum einnig selt þeirra vörur allt frá upphafi sem annars fengust einungis í verslunum Te & Kaffi og örfáum Hagkaupsverslunum.   

Breytingar í kringum 20 ára afmælið

Að sögn Kristínar og Guðmundar varð mikil bylting á kaffihúsamarkaðnum í kringum aldarmótin í Evrópu og víðar. „Kaffibarþjónamótin fara á fullt, það varð almennt meiri metnaður fyrir kaffilögun, mjólkurlistin fór að ryðja sér til rúms og við ákváðum að vera með í þessari byltingu,“ segja þau og bæta við að það hafi verið ákaflega gaman að verða aftur og aftur vitni að þeirri gleði sem braust út hjá fólki þegar það fékk kaffibolla með fallegri mjólkurlist, eitthvað sem er orðið eðlilegt í dag.

Í kjölfarið ákvað Te & Kaffi að einbeita sér enn frekar að kaffihúsarekstri og gera vörumerkið sýnilegra. „Á 20 ára afmælinu okkar árið 2004 kynntum við nýtt lógó og nýjar umbúðir og lögðum mikla áherslu á að kynna vörumerkið sem var byggt á 20 ára þekkingu.“

Á þessum tíma hafði framleiðslugetan ekki verið nægilega mikil og því var fjárfest í nýrri pökkunarvél og ákveðið að stefna á að koma vörunum í allar matvöruverslanir landsins. Guðmundur var ráðinn til fyrirtækisins sem þeirra fyrsti sölumaður og innan fárra ára var hægt að fá Te & Kaffi vörurnar í flestum verslunum. „Ég ætlaði nú bara að vera hér í tvö ár en hér er ég enn,“ segir hann og brosir.

Uppáhaldskaffi Íslendinga

Í kringum árið 2010 urðu kaffihúsin eins og fólk þekkir þau í dag og fyrirtækið hætti sérverslunarrekstrinum. „Við erum núna með átta kaffihús en síðustu tíu árin höfum við lagt mikla áherslu á útlit kaffihúsanna okkar og stækkað suma staðina til að gera upplifunina sem besta.“ Þá eru þau ákaflega stolt af því að fjögur ár í röð kemur uppáhaldskaffi Íslendinga frá Te & Kaffi samkvæmt neyslukönnun Zenter.

Umhverfismálin í öndvegi

Stjórnendur Te & Kaffi huga mikið að umhverfismálum og hafa verið með loftlagsbókhald frá árinu 2017. „Þegar Parísarsáttmálinn var undirritaður árið 2016 ákváðum við að taka þessi mál föstum tökum, enda mikilvægt að hver og einn hugsi hvað hann geti gert,“ segir Guðmundur og bætir við að þau hafi unnið með Unicef allt frá árinu 2008 og þar sé ávallt sagt að enginn getur gert allt, en allir geti gert eitthvað. Þetta hugarfar hafi orðið þeim viss hvatning og ýtt við þeim þegar kemur að umhverfissjónarmiðum.

Með loftlagsbókhaldinu náði fyrirtækið að kortleggja kolefnisfótspor sitt hérlendis og komst að því að rúmlega 80% af beinni losun komi í gegnum gasnotkun enda kaffið ristað með gasi. „Við ákváðum því að skipta út orkugjafa og frá og með september 2021 er allt gert með metangasi sem er umhverfisvænn orkugjafi unninn úr lífrænum úrgangi. Þetta var vissulega töluverð fjárfesting og heilmikil framkvæmd en við teljum þetta sannarlega vera rétt skref til framtíðar,“ segir Kristín stolt.

Lífrænar umbúðir

Allar umbúðir Te & Kaffi í dag eru vistvænar og jarðgeranlegar. Þær flokkast því með lífrænu sorpi þar sem þær brotna hratt niður og enda sem molta eða metan. Sé þess ekki kostur má flokka þær með almennu heimilissorpi. „Við erum kannski aðeins á undan eða erum allavega tilbúin þegar allir landsmenn fá til sín lífræna tunnu í janúar 2023,“ segir Kristín og bætir við að það sé ákaflega mikilvægt að gera vel í þessum málaflokki. Þeirra upplifun sé jafnframt að ungt fólk sem sæki kaffihúsin þeirra og starfi hjá þeim setji sérstaklega ákveðnar kröfur þegar kemur að umhverfismálum og með því að standa sig í þeim laði þau til sín gott starfsfólk.  

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðmundur að hann hafi vissulega komið sterkt við þau. „Þetta var sérstaklega erfitt fyrir kaffihúsin og fyrirtækjamarkaðinn, vinnustaðir tæmdust sem og veitingahúsin sem kaupa mikið af kaffi af okkur.“

Þau ákváðu snemma í fyrstu bylgjunni að loka kaffihúsunum enda fáir sem komu og starfsfólk óttaslegið. „Við stjórnendurnir ákváðum bara að leggjast undir feld og skoða hvernig við gætum framkvæmt þetta með kaffihúsin og opnuðum þau aftur mánuði seinna með ströngum sóttvarnarreglum. Þau voru samt eins og harmonikka í langan tíma, stöðugt verið að breyta reglunum sem við þurfum að fylgja,“ segir Kristín.

Á sama tíma var brjálað að gera í matvöruverslunum þar sem fólk var m.a. að hamstra kaffi. „Það var unnið myrkranna á milli í framleiðslunni á tvískiptum vöktum til að forðast smit. Skrifstofan tæmdist og ég var hér oftast einn meðan aðrir unnu að heiman enda fullt í gangi. Við þurftum að endursemja við birgja, fresta greiðslum, reyna að fá einhverja afslætti og bara sinna daglegum skrifstofurekstri,“ segir Guðmundur.

Þau segja að þetta hafi vissulega verið krefjandi tími en eftir á að hyggja komust þau samt nokkuð vel í gegnum þetta.

Miðbærinn og Fjarðarkaup

Kristín og Guðmundur búa hvorug í Hafnarfirði en segjast nú samt sem áður eyða mjög miklum tíma í bænum og kunni ákaflega vel við sig hér.

„Ég elska gamla bæinn og Strandgötuna og svo er Fjarðarkaup eitt það besta við Hafnarfjörð,“ segir Kristín og brosir. Þá segist hún líka fara gjarnan í Hellisgerði þaðan sem hún á margar góðar æskuminningar en amma hennar og afi bjuggu á Skúlaskeiðinu.

Guðmundur talar um að Hafnarfjörður búi yfir sögu og sál sem fá bæjarfélög geti státað sig af. „Það er eitthvað sérstakt við Hafnarfjörð, hann hefur eitthvað sem aðrir hafa ekki. Ég myndi samt vilja styrkja Strandgötuna enn frekar enda tækifæri til að veita miðbæ Reykjavíkur sterkari samkeppni.“

Útivera og ferðalög

Frítíma sínum verja Guðmundur og Kristín bæði gjarnan með útiveru. „Ég hreyfi mig mikið, spila golf á sumrin, geng á fjöll og eyði sumrunum helst fyrir vestan í Ísafjarðardjúpinu þar sem ég ólst upp og fer þar gjarnan út á sjó og róa kajak,“ segir Guðmundur.

Kristín segist gjarnan vera út í náttúrunni, stundi líka fluguveiði og fari á skíði. „Ég elska líka að skoða heiminn og landið okkar og vona að ég eigi eftir að gera enn meira af því í framtíðinni,“ segir hún að lokum.