Yogahúsið

Mýkt og slökun einkennir flesta tímana í Yogahúsinu í St. Jó, sem er elsta jógastöð bæjarins.

Við hittum eigendurna Írisi Eiríksdóttur, Helgu Óskarsdóttur og Lindu Björk Holm til að kynnast rekstrinum.

yogahusid5B.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Mýkt og slökun einkennir flesta tímana í Yogahúsinu í St. Jó, sem er elsta jógastöð bæjarins.

Elsta jógastöð bæjarins

Sögu Yogahússins má rekja aftur til ársins 2011 en fyrstu tímarnir voru í raun haldnir í stofunni heima hjá Írisi en stuttu seinna fengu hún og þáverandi meðeigandi, Sigríður Erna, leigt húsnæði við Trönuhraun. „Ég held að við séum því elsta starfandi jógastöðin í Hafnarfirði,“ segir Íris og bætir við að það að opna eigin stöð hafi í raun bara verið hugdetta í lokaprófalestri í jógakennaranáminu og áður en hún vissi af var allt komið á fullt.

Húsnæðið í Trönuhrauni var að hennar sögn nokkuð óvenjulegt eða skemmtilega öðruvísi. „Það var útgerð sem átti húsið og við því í raun umkringd fiskikörum og villiköttum en þegar fólk opnaði hurðina inn til okkar tók á móti þeim nýr heimur, fallegur og notalegur. Þetta minnti mig því oft á einkennilegu staðina úti í heimi sem ég hef sótt jóga í, sem dæmi í New York.“

Þakklátar fyrir St. Jó

Í dag er Yogahúsið með aðsetur í Lífgæðasetrinu í St. Jó og Helga og Linda Björk, sem áður voru iðkendur, orðnar meðeigendur og komnar með ýmis jógakennararéttindi. „Við erum búnar að vera hér allt frá opnun haustið 2019 og okkur þykir vænt um að fá að vera í þessu fallega húsi. Umsóknarferlið var nokkuð strangt og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu en vorum sem betur fer valdar,“ segir Linda með bros á vör.

Þeim líður öllum vel í húsinu og bíða spenntar eftir því að framkvæmdum ljúki og þær geti flutt upp á efstu hæðina. Þar fá þær aðgang að stærri sal og betri aðstöðu sem eykur möguleika þeirra á enn víðari þjónustu tengdri vellíðan. „Við ætlum sem dæmi í samstarf við Parkinsonsamtökin þegar þau koma hingað í hús. Vera með mjúkt jóga og slökun fyrir þeirra skjólstæðinga sem og ekki síst aðstandendur,“ segir Helga sem er þakklát fyrir að vera hluti af þessu fallega samfélagi í hjarta Hafnarfjarðar.

Mýkt og slökun

Í flestum tímum hjá Yogahúsinu er áhersla á mýkt og slökun en samkvæmt þeim er fólk mikið að sækjast eftir streitulosun og leiðum til að hægja á. „Við höfum sem dæmi verið með vinsælt námskeið um örmögnun og streitu og þangað hafa margir komið í gegnum Virk,“ segir Íris. Haustdagskrá þeirra hefst annars á næstu dögum og þar á meðal eru tímar sem kallast Jógaflæði, Jóga Nidra, meðgöngujóga, mömmujóga og jóga í vatni.

„Við erum einnig með Flot í kyrrð sem er í raun nokkurs konar hliðarafurð Yogahússins,“ segir Helga. Þar er á ferðinni flotþerapía sem er meðal annars haldin í Suðurbæjarlaug og Íris og Helga sjá um en þær eru þessa dagana að ljúka fyrsta flotþerapíunáminu sem hefur verið haldið hér á landi.

yogahusid7.jpg

Tryggir iðkendur og fjölbreytni

Iðkendur í Yogahúsinu hafa sumir fylgt þeim allt frá upphafi. „Við eigum nokkra mjög trygga iðkendur en svo kemur líka alltaf nýtt fólk til okkar og margir sem koma aftur og aftur,“ segir Linda og að hennar sögn kemur fólk víða að, bæði af höfuðborgarsvæðinu sem og viss hópur frá Suðurnesjum.

Þær segjast hafa í gegnum tíðina verið með marga skemmtilega viðburði og prófað ýmislegt. „Við höfum verið með jógahelgi á Sólheimum, hugleiðslustund í Gjábakkahelli á Þingvöllum, útijóga á Víðistaðatúni, aðventustund í Fríkirkjunni, fjölskyldujóga á aðfangadagsmorgun sem og séð um kennslu í jógaferð á Tenerife svo eitthvað sé nefnt.“ Þá hefur Yogahúsið einnig tekið á móti fyrirtækjahópum í hópefli, gæsunarhópum og farið inn í fyrirtæki.

185034612_3613660495400589_6484407174754104640_n.png

Áhrif Covid

Covid hefur vissulega haft mikil áhrif á rekstur Yogahússins og þær þurftu að loka í töluverðan tíma eins og aðrar sambærilegar stöðvar. „Við vorum þá með fría fjarkennslu til að reyna að halda sambandi við okkar fólk en þetta hefur vissulega verið þungur róður,“ segir Íris. Þær eru þó allar sammála um að það hafi aldrei komið til greina að gefast upp, enda ákaflega þrautseigjar.

Sökum Covid er dagskrá haustsins einnig aðeins skert. „Við erum sem dæmi ekki með Kundalini jóga núna, þar er alltof mikil kröftug öndun sem er ekki sniðug í svona árferði,“ segir Helga og þá þurfa þær jafnframt að skrá alla nákvæmlega niður á námskeiðin og geta ekki verið með opna tíma eins og áður. Linda bætir við að þær séu bara eins og aðrir að læra að finna taktinn við að lifa með covid en hlakki vissulega til að sjá salinn aftur fullan af fólki sem er tilbúið að njóta með þeim.

Róin, náttúran og álfarnir

Þær stöllurnar búa allar í Hafnarfirði og hafa gert til fjölda ára, Helga bjó hér jafnframt sem barn. Aðspurðar hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Linda strax að hér sé einhver falleg ró og andrúmsloftið gott. „Mér finnst miðbærinn líka vera orðinn hinn nýi 101, fullt af góðum verslunum og flottir veitingastaðir og gott að geta trítlað í bæinn.“ Íris nefnir strax náttúruna, bæði í upplandinu en einnig Hellisgerði og Víðistaðatún. „Hér er einhver notalegur smábæjarbragur og síðan eigum við álfana og alla söguna.“ Helga tekur undir að náttúruan sé henni mikilvæg en bætir við að hér þekki allir alla, fjölskyldan hennar búi líka öll hér. „Svo er það höfnin, kaffihúsin, bókasafnið og hvað Hafnfirðingar eru líka tryggir sínum.“

yogahusid1.jpg

Fjölskyldan, sund og prjónar

Þegar spurt er um áhugamál þá segir Íris strax að hún njóti þess helst að vera með fjölskyldu sinni og vinum. „Ég rækta garðinn minn, það er fjölskyldu mína, en það gefur mér ákaflega mikið og ætli ég sé ekki smá ítölsk mamma í mér.“ Útivera er Írisi jafnframt mikilvæg og hún fer einnig í sjósund. Helga tekur undir orð Írisar um fjölskylduna og útiveru en segist þó frekar fara í sundlaugarnar í staðin fyrir sjóinn. Linda segist prjóna mikið, þá eigi hún líka stóran garð og hund sem þurfi að sinna. „Við fjölskyldan förum líka gjarnan í ferðalög og veiðitúra. Mér leiðist því aldrei og oftast með nóg fyrir stafni.“