Á Strandgötunni, í húsi númer 32 bakvið fallegu bleiku hurðina, má finna verslunina Glowup sem selur snyrti-, hár- og húðvörur.
Við hittum eigandann Sunnu Júlíusdóttur til að kynnast rekstrinum.
Alltaf langað til að eiga verslun
Glowup byrjaði sem netverslun í september 2019 og þann 1. júní árið eftir opnaði verslunin á Strandgötunni. „Mig hefur alltaf langað til að eiga verslun, mamma og pabbi áttu verslun þegar þau voru yngri og ég hef alltaf vitað að ég myndi opna eina einhvern daginn,“ segir Sunna sem er förðunarfræðingur og starfaði sem deildarstjóri í snyrtivöruverslun Hagkaups þegar hún ákvað að taka skrefið og opna verslun. Fyrsta skrefið var netverslun en hún var alltaf staðráðin í að láta ekki þar við sitja. „Ég vildi líka hitta fólk, fá að ráðleggja því, en það gefur mér mikið, og gott að geta hjálpað einhverjum.“
Sunna var búin að leita lengi að hentugu húsnæði og segir að hún hafi verið við það að gefast upp þegar húsnæðið á Strandgötunni birtist loksins á fasteignavefnum. „Þetta gerðist allt mjög hratt, við skoðuðum húsnæðið sama dag og það var auglýst og vorum búin að skrifa undir daginn eftir,“ segir Sunna sem er afar ánægð með staðsetninguna.
Mikil rannsóknarvinna
Þegar kom að því að velja vörur í verslunina segir Sunna að hún hafi lagst í mikla rannsóknarvinnu og prófað fjöldann allan af merkjum. „Ég vildi gjarnan vera með merki sem eru lífræn og gera ekki tilraunir á dýrum, eru sem sagt cruelty free og vegan,“ segir Sunna sem er ákaflega sátt við merkin sem hún hefur fundið. Þá segist hún sjá sjálf um allt sem viðkemur rekstrinum, setti sem dæmi upp heimasíðuna og vefverslunina og hefur sótt sér mikla þekkingu í gegnum YouTube og tekið nokkur námskeið á netinu.
PUMP, SoSu og Hanskin
Vinsælast hjá Glowup eru Dripping Gold brúnkuvörurnar sem koma í ýmsum mismunandi útfærslum og eru frá merkinu SoSubySJ. „Ég er líka með snyrtivörur frá þessu merki svo sem augnskugga, varaliti og maskara sem og augnhár,“ segir Sunna og bætir við að þetta merki sé jafnframt duglegt að koma með nýjar vörur og framboðið hjá henni verði því enn breiðara í vetur.
Hárvörurnar í Glowup koma alla leiðina frá Ástralíu og heita PUMP Haircare. „Þessar vörur eru hannaðar af hárgreiðslukonu í Ástralíu sem leggur mikið upp úr umhverfismálum. Allar túpur eru nú sem dæmi unnar úr sykurreyr og verksmiðjan er knúin áfram á sólarorku,“ segir Sunna. Vörurnar hafa fengið afar góðar viðtökur hér á landi og þá sérstaklega öll krullulínan en henni fylgja ekki einungis hárvörur heldur einnig sérstakir burstar og silkikoddaver.
Stærsta húðvörulínan í versluninni kemur alla leiðina frá Suður-Kóreu og heitir Hanskin. „Suður-Kórea hefur í mörg ár verið mjög framarlega í framleiðslu á húðvörum og það er líftæknifyrirtæki sem á Hanskin í dag og þeirra formúlur eru mjög flottar,“ segir Sunna sem selur rakakrem, rakavatn, maska og hreinsiolíur frá þessu merki.
Ánægðir viðskiptavinir
Þó að Glowup eigi sér ekki langa sögu þá á hún nú þegar marga fasta viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur. „Salan á milli vefverslunarinnar og verslunarinnar í Strandgötu skiptist í raun ótrúlega jafnt niður,“ segir Sunna sem sendir töluvert af vörum út á land og nefnir að PUMP hárvörurnar séu sem dæmi, greinilega mjög vinsælar fyrir norðan. Viðskiptavinahópurinn stækkar annars jafnt og þétt og ánægðir viðskiptavinir eru vissulega besta auglýsingin að sögn Sunnu. „Gott dæmi er kona sem hafði keypt brúnku hjá okkur og mætti ákaflega fersk í vinnuna. Daginn eftir þá kom hópur af samstarfskonum hennar hingað labbandi í hádeginu og keypti sér samskonar brúnku,“ segir Sunna og brosir.
Konur eru annars í meirihluta viðskiptavina en Sunna segir að karlmenn séu líka í auknum mæli farnir að nota andlitsbrúnkuna sem sé ákaflega falleg og náttúruleg.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Sunna að hún þekki ekkert annað en að eiga verslun í þessu ástandi og því hafi hún engan samanburð. „Það verður spennandi að sjá hvað gerist í venjulegu árferði þegar árshátíðir og aðrar veislur verða haldnar reglulega“. Þá býst hún einnig við aukningu á sölu varalita þegar grímuskylda verði endanlega afnumin.
Sunna segir að hún hafi reyndar tekið eftir því að þegar það eru strangar samkomutakmarkanir þá aukist verslun í gegnum netið og fólk kaupi þá meira af hár- og húðvörum í stað snyrtivara.
Samstaða og ró
Sunna kann ákaflega vel við sig í Hafnarfirði og finnst gott að vera með verslun á Strandgötunni. „Samfélagið hérna er svo gott, fólk stendur saman, eitthvað sem tíðkast að ég held meira úti á landi,“ segir Sunna og bætir við að hún hafi sérstaklega tekið eftir því í kringum jólin þegar margir Hafnfirðingar vildu kaupa jólagjafirnar hér til að styðja við sitt samfélag.
Þá segir hún að hér sé líka allt sem maður þarf, góðir leikskólar og skólar, flottir veitingastaðir og fallegt umhverfi. „Það er einhver góð tilfinning og eitthvað öryggi sem ég skynja þegar ég geng um götur bæjarins, einhver ró sérstaklega í gamla bænum sem ég kann vel að meta,“ segir Sunna sem flutti reyndar nýlega úr bænum og býr núna í Kópavogi, þar sem hún ólst upp, en vil ólm komast aftur í Hafnarfjörðinn og leitar þessa dagana að húsnæði í Hafnarfirði.
Hvolpur, fjölskylda og ferðalög
Hvað áhugamál Sunnu varðar þá segir hún að vinnan sé í raun hennar áhugamál. „Mér finnst svakalega gaman í vinnunni og að fylgjast með öllu sem er í gangi í þessum bransa.“
Samverustundir með fjölskyldunni eru henni jafnframt dýrmætar og þau voru dugleg að ferðast áður en Covid skall á. „Við fengum annars lítinn hvolp í vor og njótum þess að leika við hann og í október er von á lítilli stúlku í fjölskylduna,“ segir Sunna að lokum og greinilegt að það eru spennandi tímar framundan.