Bílaspítalinn

Fremst á  Kaplahrauninu er Bílaspítalinn, alhliða viðgerða- og sprautuverkstæði, sem hefur verið starfandi í hartnær 30 ár.

Við hittum eigandann Ingva Sigfússon til að kynnast rekstrinum.

Bilaspitalinn1b.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Bílaspítalinn er alhliða viðgerða- og sprautuverkstæði, sem hefur verið starfandi í hartnær 30 ár

Hófst allt í bílskúrnum

Saga Bílaspítalans hófst í raun í bílskúrnum heima hjá Ingva á Álftanesinu þar sem hann tók að sér viðgerðir fyrir fjölskyldu og vini. Árið 1992 tók hann hins vegar skrefið og leigði sér húsnæði í Kaplahrauni 9 og byrjaði að starfa undir nafninu Bílaspítalinn, nafni sem Þórður sonur hans á heiðurinn að.

Bilaspitalinn10.jpg

Bílaspítalinn er sannkallað fjölskyldufyrirtæki en á tímabili vann öll fjölskyldan í fyrirtækinu sem hefur nú verið í sínu eigin húsnæði að Kaplahrauni 1 allt frá árinu 1998. „Í dag starfar Anton sonur minn mér við hlið”, segir Ingvi sem seldi Bílaspítalann reyndar árið 2005 en keypti hann aftur árið 2011.

Öll þjónusta á einum stað

Sérstaða Bílaspítalans er að þeir taka bæði að sér viðgerðir sem og réttinga- og sprautuverkefni. „Við erum nokkurs konar kaupfélag, hjá okkur færðu allt til alls“, segir Ingvi og telur það vera kost að hafa alla þjónustu á einum stað og því óþarfi að ferja bíla á milli verkstæða sem er oft raunin með tjónaða bíla.

Hann segir að vinnan skiptist nokkuð jafnt á milli undirvagns- og boddívinnu, eins og hann nefnir þetta. „Suma daga er meira að gera í viðgerðum en aðra í sprautun og réttingum en þetta jafnast vanalega út.“

Breiður hópur viðskiptavina

Viðskiptavinir Bílaspítalans eru einstaklingar, fyrirtæki sem og öll tryggingafélögin. „Þegar kemur að sprautun og réttingum þá eru tryggingafélögin langstærsti kaupandinn en í viðgerðum er mun meiri breidd í viðskiptavinahópnum“, segir Ingvi sem leggur mikið upp úr því að veita góða þjónustu og ráðleggja viðskiptavinum sínum og segir að margir komi langt að með bílana sína til hans.

Bilaspitalinn3.jpg

„Við reynum oftast að klára verkin samdægurs enda vitum við að fólk má flest ekki við því að missa bílinn í lengri tíma.“ Viðskiptavinir geta þó vissulega fengið leigðan bíl hjá þeim meðan á viðgerð stendur. „Við vorum alltaf í samstarfi við nokkrar bílaleigur en nú er svo mikill skortur á bílum hjá þeim svo við urðum bara að kaupa okkur nokkra bíla sjálfir til að leigja út,“ segir Ingvi.

Stöðugar breytingar í gegnum árin

Frá því að Ingvi byrjaði í bifvélavirkjun hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í faginu. „Rafkerfin í bílunum hafa breyst rosalega, nú gerum við allar bilanagreiningar í tölvunni og það þarf sífellt að endurnýja hugbúnaðinn,“ segir Ingvi og bætir við að þá þurfi einnig að kaupa mikið af nýjum sérhæfðum verkfærum og það mörgum sinnum á ári.

Áhrif Covid

Það hefur verið rólegra að gera á verkstæðinu síðan Covid hófst enda færri bílar í umferðinni og þá rekast þeir jú síður saman að sögn Ingva. „Vinnudagurinn er orðinn styttri, kannski orðin eðlilegri, við vinnum núna bara til klukkan 17 en ekki 19 eins og raunin var oft hér áður fyrr.“

Bilaspitalinn4.jpg

Ingvi segir að hann hafi sem betur ekki þurft að segja upp mönnum. „Það hætti einn hjá okkur vegna aldurs og ég hef ekki enn ráðið annan í staðinn en að öðru leiti er mannskapurinn óbreyttur.“

Vinalegur bær

Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Ingvi að þetta sé ákaflega vinalegur bær. „Hann minnir mig dálítið á heimabæinn minn Sauðárkrók, þetta er bær sem tekur utan um mann og það er hjarta í honum.“ Hann kann vel við sig á Kaplahrauninu en þar sem má finna fjölda bifreiðaverkstæða og segir Ingvi að það sé gott samstarf þar á milli og stundum fái menn lánuð verkfæri.

Ingvi og starfsmenn hans eru annars duglegir að heimsækja matsölustaði bæjarins í hádeginu, þeir eru fjölmargir í Hraununum, en hann segir að stundum kíki þeir líka í miðbæinn en sá hluti bæjarins er í miklu uppáhaldi hjá Ingva.  

Bakar pönnukökur og safnar bílum

Ingvi er öflugur pönnukökugerðarmaður og bakar stundum á fjórum pönnum í einu. „Ég var ekki nema sjö ára þegar ég lærði að baka pönnukökur og það í vinnutjaldi Rarik. Pabbi minn starfaði hjá því fyrirtæki og við mamma ferðuðumst oft með vinnuflokknum og sáum um matinn og þá var oft skellt í pönnsur,“ segir Ingvi.

Þegar hann er ekki í vinnunni nýtur hann þess að vera í bústaðnum í Árnesi og vera með fjölskyldunni. Þá má segja að Ingvi sé með bíladellu og er ákaflega hrifinn af Audi bílum. „Þegar ég var 40 ára hafði ég átt 47 Audi bíla en þá ákvað ég að hætta að telja,“ segir Ingvi með bros á vör.