Stoð ehf. framleiðir stoðtæki og selur ýmis hjálpartæki og heilsuvörur. Þetta er rótgróið þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði staðsett á Trönuhrauninu sem fagnar 40 ára afmæli á næsta ári.
Við hittum Ásu Jóhannesdóttur framkvæmdastjórar Stoðar til að kynnast rekstrinum.
Tæp 40 ára saga
Stoð var stofnað árið 1982 af tveimur stoðtækjafræðingum þeim Sveini Finnbogasyni og Erni Ólafssyni. Fyrirtækið var hlutafélag nokkurra einstaklinga, ásamt Sveini og Erni, allt til ársins 2018 þegar núverandi eigandi Veritas kaupir það. Sveinn er enn starfandi hjá Stoð.
„Fyrirtækið var stofnað í kringum framleiðslu á stoðtækjum en byrjaði fljótlega að selja ýmis hjálpartæki s.s. hjólastóla, göngugrindur og ýmis baðhjálpartæki,“ segir Ása og bætir við að fyrirtækið hafi í raun stækkað jafnt og þétt í gegnum árin. Þá hafi ávallt verið lögð mikil áhersla á góða og persónulega þjónustu enda séu þau ekki einungis að selja vörur heldur einnig þjónustu og lausnir fyrir hvern og einn einstakling og því mikilvægt að hafa þekkingu og innsýn inn í þeirra veruleika.
Þegar komið er inn í húsnæðið á Trönuhrauninu tekur verslunarrýmið á móti manni en í húsnæðinu leynist svo mikið meira en það og starfsemin í raun mjög fjölþætt. Þarna eru smíðaðar spelkur, gervilimir og skór en einnig má finna þar verkstæði, móttökuherbergi og skrifstofur.
Einstakur mannauður
Hjá Stoð starfa í dag 30 einstaklingar og margir með háan starfsaldur og mikla reynslu. Menntunarstigið er afar hátt en ásamt stoðtækjafræðingum og -smiðum eru sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi, heilbrigðisverkfræðingur, íþróttafræðingur, þroskaþjálfi og hjúkrunarfræðingur meðal annars í starfshópnum. „Við erum með alveg einstakan mannauð þar sem þekking og fagmennska er í fyrirrúmi. Við getum því veitt heildræna nálgun en í okkar starfi er ákaflega mikilvægt að hlusta vel eftir þörfum viðskiptavina og veita afburðaþjónustu,“ segir Ása og bætir við að þau styrki stoðtækjafræðinga til náms þar sem það sé þeim ákaflega mikilvægt að halda þekkingunni í landinu.
Náin tengsl við viðskiptavini
Helstu viðskiptavinir Stoðar eru einstaklingar sem þurfa á ýmsum hjálpar- og stoðtækjum að halda en þá koma einnig til þeirra eldra fólk sem býr enn heima og þarf tæki til að auka við sitt öryggi.
„Við eigum mjög marga fastaviðskiptavini og fylgjum vissum aðilum í raun frá vöggu til grafar. Það þarf að stækka og breyta tækjum og starfsfólk okkar hefur í gegnum tíðina tengst mörgum mjög náið og viss vináttubönd skapast,“ segir Ása.
Starfsfólk Stoðar er jafnframt í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk og selur til að mynda mikið af vörum til sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila. „Við aðstoðum þá við val á vörum, hvernig hægt sé að ryðja burt hindrunum og koma með réttar lausnir. Þá sjáum við einnig um að kenna starfsfólki á vörurnar,“ segir Ása og bætir við að þau þurfi þess vegna að fylgjast vel með nýjungum og þróun á t.d. hjólastólum og hjólum, gervilimum ofl.
Stoð hreyfing
Fólk sem stundar mikla hreyfingu bættist í viðskiptavinahóp Stoðar á síðasta ári þegar fyrirtækið keypti verslunina Flexor á Bíldshöfða sem heitir nú Stoð. Þar er meðal annars hægt að fá göngugreiningu og ráðgjöf varðandi kaup á skóm, sokkum og hlífum. „Það er stækkandi hópur fólks sem stundar íþróttir og hreyfingu og við hjálpum mörgum að koma sér af stað með ráðgjöf um hvernig skó sé best að kaupa,“ segir Ása. Mikið af þessum vörum má einnig fá hjá Stoð á Trönuhrauni.
Áhrif Covid
Covid hafði vissulega áhrif á rekstur Stoðar. „Við erum að sinna veikum einstaklingum en gátum því miður ekki hitt þá þegar ástandið var sem verst og máttum ekki fara inn á stofnanir og hjúkrunarheimili,“ segir Ása en bætir við að þau hafi vissulega nýtt sér tæknina til að kenna á og kynna sínar vörur en ýmis önnur þjónusta varð því miður að bíða.
Hún segir að starfsfólk sitt sem og skjólstæðingar hafi samt sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni en nú horfi þau bjartsýn fram á veginn. „Við erum vissulega enn með grímur í okkar nærþjónustu en ég vona að bráðum getum við sleppt þeim þar sem þær geta stundum verið hamlandi þegar við erum að reyna að skilja og skynja einstaklinga.“
Sterkar rætur til Hafnarfjarðar
Ása hefur aldrei búið í Hafnarfirði en á þó sterkar rætur hingað. „Amma og afi bjuggu á Norðurbrautinni og mamma því Hafnfirðingur og ég var mikið hér sem barn, á sem dæmi sterkar minningar tengdar fiskbúðinni og Fjarðarkaupum,“ segir Ása brosandi sem nældi sér jafnframt í Hafnfirðing.
Hún segir að bæjarstæðið, þá sérstaklega gamli bærinn með öll sínum gömlu húsum sé ákaflega fallegur. „Það er líka einhver sérstök þorpsstemmning hér sem ég kann að vel að meta og svo finnst mér hraun í bakgörðum alveg himneskt.“ Þá segist hún sækja ýmsa þjónustu í bænum, geri sín innkaup, fari út að borða í hádeginu og hárgreiðslustofan hennar sé í Hafnarfirði.
Fjallgöngur og bústaðasmíði
Þegar Ása er ekki í vinnunni stundar hún mikið útivist en Siggi, maðurinn hennar, er jarðfræðingur og þau hafa því ávallt verið mikið á fjöllum með börnunum sínum fjórum. „Við erum annars byrjuð að byggja okkar sumarhús í Borgarfirðinum. Við byggjum það sjálf með dyggri aðstoð bændanna í Hvítársíðunni,“ segir Ása sem er greinilega mjög spennt fyrir verkefninu og nefnir að nýverið hafi þau sem dæmi verið að ulla og plasta, eitthvað sem hún hafi aldrei gert áður.