Íshús Hafnarfjarðar

Töskuhönnuður, bátasmiður, keramiker, gullsmiður, blöðrulistamaður, vöruhönnuður, arkitekt, myndhöfundur og tónskáld eru meðal þeirra sem eru með vinnuaðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar.

Við hittum Ólaf Gunnar Sverrisson (Óla) eiganda Íshússins til að kynnast rekstrinum.

Ishusid1.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Í Íshúsi Hafnarfjarðar eru 50 aðilar með vinnuaðstöðu og þar myndast oft áhugavert þverfaglegt samkurl

Hugmyndin lengi í maganum

Í Íshúsinu kemur saman skapandi fólk úr ólíkum greinum og leigir opið vinnustofurými og úr verður samfélag. Óli var búinn að ganga með hugmyndina að svona stað í maganum í langan tíma en árið 2014 varð hún að veruleika þegar hann og eiginkona hans Anna María Karlsdóttir opnuðu Íshúsið. „Ég ólst upp í svona umhverfi, pabbi minn Sverrir Ólafsson listamaður var einn af stofnendum listamiðstöðvarinnar í Straumi og ég var mikið með honum þar,“ segir Óli og bætir við að hann hafi þó sjálfur viljað hafa sína listamiðstöð fyrir breiðan hóp hönnuða, iðn- og listamanna.

Óli Stef gullsmiður

Óli Stef gullsmiður

Þverfaglegt samkurl

Í upphafi voru um tólf rými en aðstaðan hefur stækkað og breyst í gegnum árin. Í dag eru 37 rými eða einingar innan Íshússins og í þeim hafa 50 aðilar aðstöðu. Að sögn Óla er húsnæðinu í raun skipt upp í þrjú svæði. „Uppi á lofti er keramikdeildin, hérna niðri eru síðan trésmíðaverkstæðið þar sem getur verið dálitið um ryk og hávaða en hinu megin í húsinu þar sem verið er að vinna með textíl, gullsmíði eða myndskreytingar sem dæmi er mun meira um rólegheit.“

Hluti leigjenda hafa verið í húsinu allt frá upphafi en aðrir skemur. „Flestir eru með langtíma leigusamning en svo hafa sumir komið hér inn í einn mánuð eða skemur, þar á meðal erlendir listamenn, en við erum ákaflega sveigjanleg með flest hérna í húsinu,“ segir Óli sem segist alltaf vera að sjá eitthvað nýtt enda mikil þróun og ýmsar tilraunir gerðar. Hann segir að það sé jafnframt mikill samgangur á milli aðila og margir sem vinni saman í hugmyndum og úr því verði oft áhugavert þverfaglegt samkurl. „Grunnhugsunin fyrir svona stað er einmitt að eiga samtal og fólk komi hingað með hugmyndir sem það getur þróað áfram án þess að þurfa að fara í mikla fjárfestingu. Eins og gengur og gerist virkar sumt en annað ekki.“

Ishusid9.jpg

Iðnvillingur

Sjálfur er Óli tréskipasmiður og lærði í Dröfn. Hann hefur einnig frá unga aldri teiknað mikið og stúderað ýmsar listar. „Ég hef prófað ýmislegt í gegnum tíðina gert skartgripi, húsgögn, keramik og er í raun óttarlegur iðnvillingur. Ef mér dettur eitthvað í hug þá hef ég vanalega bara hafist handa og prófað,“ segir Óli sem hefur undanfarin ár unnið mikið í kringum þróun og uppbyggingu á mink campers, litla gula hjólhýsinu sem eru nú komið í sölu. Þessa dagana er hann þó mest að vinna við prótótýpur af kúlugróðurhúsi þar sem hugmyndin er að fólk geti bæði ræktað gróður en jafnframt sinnt mannrækt svo sem með jóga eða hugleiðslu.

Opið hús á sjómannadaginn

Það er reglulega opið hús hjá Íshúsinu. „Við opnum dyrnar alltaf upp á gátt í kringum Bjarta daga, á sjómannadaginn, á afmælisdaginn okkar í nóvember og svo í kringum jólin,“ segir Óli og vill hvetja sem flesta til að kíkja til þeirra núna á sjómannadaginn og ítrekar að vel verði hugað að sóttvörnum. Þá er alla jafna opið upp á keramikloftið fyrsta fimmtudag í mánuði.

Davíð arkitekt

Davíð arkitekt

Áhrif Covid

Að sögn Óla hafði Covid mjög mismunandi áhrif á fólkið sem er með vinnustofur í Íshúsinu. „Hjá sumum varð óskaplega rólegt, einhverjir drógu sig bara inn í skel meðan að aðrir hafa aldrei haft eins mikið að gera.“ Mesta röskunin í húsinu almennt var þó að það voru engin opin hús sem margir hafi vissulega saknað. Þau þurftu samt sem betur fer aldrei að loka húsinu og enginn þurft að fara í sóttkví vegna veru sinnar þar.

Bæjarfílingur og höfnin

Óli er uppalinn hér í Hafnarfirði, gekk í Víðistaðaskóla og hann og Anna María bjuggu lengi í bænum en eru núna flutt í gamlan sveitabæ á Álftanesi en sækja alla þjónustu hér. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann það vera bæjarfílinginn. „Þó við séum orðið stórt sveitarfélag þá er enn einhver bæjarfílingur eða landsbyggðarfílingur hér sem ég kann ákaflega vel við.“ Þá bætir hann við að höfnin hafi sinn sjarma, þar ólst hann mikið upp, man eftir skipaniðinum á nóttunni, togarana vera koma inn í höfnina og mikið líf í frystihúsunum.

Ishusid3.jpg

Sund og ferðalög

Óli er fastagestur í Suðurbæjarlauginni en hann fer einnig töluvert í sjóinn til að synda eða segir að Anna María sé dugleg að taka hann með í sjóinn. „Við ferðumst einnig gjarnan um landið, erum hrifin af heitu laugunum og síðan förum við reglulega á ættaróðalið hennar Önnu Maríu í Skagafirði til að slaka á,“ segir Óli að lokum.