Í sexhyrnda húsinu við við höfnina er Kænan, vinsæli hádegisverðarstaðurinn með heimilislega matinn. Við hittum Oddstein Gíslason (Steina) eiganda Kænunnar til að kynnast rekstrinum.
40 ára saga
Kænan hefur verið starfandi í rétt rúm 40 ár en dregur uppruna sinn af því þegar Árni Ingvarsson byrjaði að selja pulsur og fleira niður við höfn úr hjólhýsi. Elsa dóttir hans og Ingvar maður hennar ákveða síðan árið 1980 að byggja timburhús og stofna veitingastaðinn Kænuna við höfnina. Árið 1989 fékk timburhúsið hins vegar að víkja fyrir sexhyrnda húsinu sem hýsir staðinn enn þann dag í dag.
„Hér hefur verið farsæll rekstur í 40 ár en ég tók við staðnum árið 2016 og það hefur gengið mjög vel. Ég gerði fljótlega töluverðar breytingar, málaði, skipti út húsgögnum og tækjum í eldhúsi sem var kominn tími á,“ segir Steini sem hefur sjálfur verið 40 ár í matreiðslugeiranum og rak sem dæmi hádegisverðarstaðinn Bakhúsið við Hótel Hafnarfjörð og tók flesta viðskiptavini sína þaðan með sér niður á Kænu.
Lamb í bearnaise og purusteikin vinsælust
Á Kænunni er ávallt hægt að velja um fisk- eða kjötrétt plús einn aukarétt og þá er salatbar, súpa og kaffi innifalið í verðinu. Að sögn Steina er líka hægt að fá ábót og því fer enginn svangur þaðan út.
Það er annars viss stöðugleiki sem einkennir matseðilinn og hægt að ganga að því vísu á mánudögum að fá ýsu í raspi og á föstudögum lambalæri í bearnaise og purusteik. „Föstudagarnir eru langvinsælastir hjá okkur en þá hafa allt um 300 manns farið í gegn og sumir komið langt að,“ segir Steini og bætir við að þá sé líka alltaf kaka og rjómi í eftirrétt.
Fjölmargir fastakúnnar
Stór hluti viðskiptavina Kænunnar eru starfsmenn fyrirtækja í nágrenninu sem borga matinn fyrir sitt fólk. „Við erum í raun mötuneyti þessara fyrirtækja og hér koma því mjög margir iðnaðarmenn. Hingað kemur samt líka bara öll flóran s.s. eldra fólk sem er hætt að vinna og menn í jakkafötum en konur eru reyndar í mjög miklum minnihluta,“ segir Steini sem sendir einnig mat í nokkur fyrirtæki í hverju hádegi og því fara alla jafna um 300-350 máltíðir út á dag.
Aðspurður um sérstöðu Kænunnar segir hann það vera stöðugleikinn, staðsetningin og að maturinn sé unnin úr góðu hráefni. „Þegar sama fólkið kemur hingað ár eftir ár erum við greinilega að gera eitthvað rétt.“
Morgunkaffi, klúbbar og veislur
Hádegið er aðaltíminn á Kænunni, staðurinn opnar samt ávallt klukkan 7:30 en í morgunsárið koma vissir hópar í kaffi og spjall og hafa gert í mörg ár. Þegar okkur ber að garði eftir hádegistörnina er árgangur 1942 að hittast í kaffi og köku, eins og þau gera einu sinni í mánuði, og að sögn Steina er líka gönguhópur sem kemur á hverjum laugardegi.
Lions, Rotary og Kiwanis eru einnig meðal viðskiptavina Kænunnar, sumir klúbbar hittast hjá þeim á Óseyrarbrautinni en aðrir fá sendan mat til sín. „Það hefur verið ótrúlega gott að hafa þessa klúbba í viðskiptum en þeir hafa verið nokkuð góðar dyr fyrir mig utanbæjarmanninn inn í bæinn og þar hef ég myndað afar góð tengsl,“ segir Steini og brosir.
Á Kænunni hafa í gegnum tíðina einnig verið haldnar fjölmargar veislur, s.s. fermingar og brúðkaup en Steini selur einnig veitingar út úr húsi fyrir veislur og móttökur en viðurkennir að hann hafi ekki lagt mikla áherslu á þann hluta rekstrarins í seinni tíð.
Áhrif Covid
Í fyrstu bylgunni af Covid þurfti að fækka starfsfólki Kænunnar og setja á hlutabótaleið en í maí voru allir komnir aftur í fulla vinnu. „Við erum með gott pláss og auðvelt að stúka staðinn niður sem hefur komið sér ákaflega vel,“ segir Steini og bætir við að þá hafi allir verið tillitssamir, setið skemur en áður og sýnt stöðunni skilning.
Starfsfólk einhverja fyrirtækja hættu að mæta þegar ástandið var sem verst en fékk í staðinn matinn sendan á vinnustaðinn og einhverjir komu og sóttu bara mat og fóru með. Steini segir að andrúmsloftið hafi þó vissulega breyst aðeins. „Áður var fólk vant því að setjast niður hjá ókunnugum ef það var laust pláss við borðið en það gerist því miður ekki í dag og strúktúrinn því aðeins breyst en hann kemur vonandi aftur.“
Hann segir að þetta ástand hafi vissulega tekið á en hann og hans fólk standi í báðar lappirnar eftir þetta þó þau hafi saknað jólahlaðborðanna, þorrablótanna sem og starfsemi allra klúbbanna sem lagðist algjörlega af. „Við vorum ansi heppinn að fá síðastliðið haust að sjá amerískum hermönnum í sóttkví um mat í nokkrar vikur og þessar vikurnar erum við að þjónusta sóttkvíarhótel,“ segir Steini þakklátur fyrir törnina sem er núna í gangi.
Annað tempó í Hafnarfirði
Steini hefur unnið í Hafnarfirði frá árinu 2009 og kann ákaflega vel við sig hér. Hann keyrir hingað á hverjum morgni úr Vesturbænum þar sem hann býr. „Mér finnst miklu rólegra yfir öllu hér heldur en í Reykjavík, einhver þorpsbragur og allt annað tempó. Ég væri alveg til í að flytja í Hafnarfjörð en veit að fjölskylda mín er ekki endilega á sama máli.“
Steini segist jafnframt vera farinn að þekkja orðið töluvert mikið af Hafnfirðingum, allavega í sjón, sem hann kunni vel við.
Golf og sumarbústaðurinn
Þegar Steini er spurður um áhugamál er hann fljótur að svara, golf. „Ég spilaði fyrstu árin töluvert hér á Hvaleyrinni en er núna kominn í Nesklúbbinn og mér líður mjög vel á golfvellinum.“ Þá segist hann eiga sumarbústað í Grímsnesi og þar nái hann að slaka á. Annars er hann duglegur að vera með börnum og barnabörnum og sækir þá gjarnan fótbolta- og körfuboltaleiki sem og balletsýningar með þeim.