Umbúðagerðin er nýtt framleiðslufyrirtæki á Melabrautinni sem framleiðir fjölbreytta pappakassa úr bylgjupappa. Hafnarfjörður hefur þar með eignast sína eigin kassagerð.
Við hittum hjónin Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur og Eyþór Pál Hauksson eigendur Umbúðagerðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Úr innflutningi í eigin framleiðsla
Umbúðagerðin var stofnuð árið 2014 en í upphafi var það einungis í innflutningi á umbúðum. Sigrún og Eyþór sáu síðan tækifæri á markaðnum og ákváðu að hefja framleiðslu á umbúðum úr bylgjupappa. „Þetta var stór ákvörðun sem fylgdi töluverð fjárfesting þar sem bæði þurfti að fjárfesta í vélbúnaði og setja upp verksmiðju frá grunni auk þess sem við fluttum litla fyrirtækið okkar Prentmiðlun úr bílskúrnum heima í tæplega 500 fermetra húsnæði hér í Hafnarfirði,“ segir Eyþór sem er prentari og með áratugareynslu á því sviði.
Húsnæðið á Melabrautinni fundu þau á seinni hluta síðasta árs en framleiðsla á fyrstu pappakössunum hófst í upphafi þessa árs. „Sérstaða okkar er að við getum sérframleitt kassa fyrir okkar viðskiptavini í þeirri stærð sem óskað er eftir án þess að það kosti handlegginn ef svo má að orði komast. Þá höfum við lagt okkur fram við að veita skjóta þjónustu og bjarga mönnum um kassa ef mikið liggur við, eitthvað sem tekur annars margar vikur eða mánuði ef flytja þarf umbúðirnar inn,“ segir Sigrún og bætir við að þá eigi viðskiptavinir þeirra auðveldara með að kaupa umbúðir í minna magni og bindur hún vonir við að innlend fyrirtæki taki við sér hvað þetta varðar.
Hagræðing með réttum kassa
Að sögn þeirra hjóna er kassi ekki bara kassi en það getur verið töluverð hagræðing í því að nota réttan kassa. „Það er sem dæmi dýrt að flytja loft og óþarfi að vera með of efnismikila bylgju ef þess þess er ekki þörf,“ segir Eyþór og Sigrún bætir við að það kosti líka sitt fyrir fyrirtæki að nota dýrmæta fermetra undir mikið magn umbúða og því oft betra að kaupa minna í einu og vera í reglulegum viðskiptum með kassa.
Bylgjupappinn sem þau nota kemur allur frá Evrópu, úr ábyrgum skógum með FSC vottun og vel hugað að umhverfismálum. Endurvinnslu- og endurnýtingarhlutfall bylgjupappírs er gríðarlega hátt og því talið afar umhverfisvænt hráefni. „Við leggjum líka mikið upp úr því að nýta hráefnið sem allra best og hendum sem dæmi ekki afskurðarræmum heldur höfum við verið að hvetja fólk til að nýta það til pakkninga, sem undirlag fyrir gæludýrin sín eða í moltugerð í garðinum sem dæmi,“ segir Sigrún.
Breið flóra viðskiptavina
Umbúðagerðin er mest að vinna fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Þar á meðal eru fiskvinnslur, heildsölur, framleiðslufyrirtæki og netverslanir svo eitthvað sé nefnt. Enn þjónusta þau fyrirtæki sem þau sinntu áður, þegar þau voru í innflutningi, nema í dag eru kassarnir framleiddir hér í Hafnarfirði og boðið upp á hraðari og persónulegri þjónustu á sambærilegu verði. „Einnig höfum við verið að taka þátt í þróunarverkefnum og vinna að hentugum lausnum með viðskiptavinum okkar. Gerum þá ýmsar tilraunir og prófanir sem getur verið skemmtilegt og áhugavert ferli,“ segir Eyþór en viðskiptavinir þeirra koma alls staðar af landinu.
Hnífar og skæri úr keramík
Nýverið hóf Umbúðagerðin að selja hnífa og skæri úr keramík frá bandaríska fyrirtækinu Slice sem hentar vel fyrir ýmsan iðnað sem og heimili. „Keramíkið hefur ellefu sinnum lengri endingu en sambærilegir hnífar með stálblöðum. Þetta eru verkfæri sem eru ákaflega einföld og örugg í notkun og eru síður líklegri til að valda slysum eða ryðga,“ segir Sigrún sem heillaðist af þessum vörum og ákvað að byrja að flytja þær inn og selja samhliða pappakössunum sem vörulínu fyrir umbúða- og pökkunarlausnir. Þá segist hún einnig vera ákaflega ánægð með að fyrirtækið Slice sé samfélagslega ábyrgt en 1% af allri sölu fyrirtækisins fer til rannsókna á einhverfu.
Áhrif Covid
Covid hefur haft mikil áhrif á umbúðageirann um allan heim að sögn Eyþórs. Verksmiðjur ekki verið að framleiða eins mikið og vanalega á sama tíma og fólk hefur þurft að vera meira heima við og nýtt sér þjónustu netverslana en netverslun hefur aukist gríðarlega í Covid sem hefur sömuleiðis haft mikil áhrif á eftirspurn á markaði. „Framleiðendur hafa ekki verið að taka við nýjum viðskiptavinum og sumir sett hámarks kvóta á sína viðskiptavini. Við vorum því í raun heppinn að finna góðan aðila sem hefur getað útvegað okkur hráefni,“ segir Eyþór en í þessu ástandi hefur afgreiðslutíminn verið að lengjast og verð sömuleiðis að hækka enda eftirspurnin mun meiri en framboðið. Þetta hefur vissulega haft áhrif á okkur sem aðra auk þess sem það hefur verið erfiðara að banka upp á hjá fyrirtækjum til að kynna sína þjónustu.
Best við Hafnarfjörðinn
Sigrún og Eyþór kunna ákaflega vel við sig hér í Hafnarfirði og segjast bæði elska að keyra í vinnuna frá Álftanesinu enda leiðin afar fögur. „Við komum bæði úr litlum samfélögum vestan af fjörðum og finnum að hér ríkir góður andi og þetta er samfélag, eitthvað sem við kunnum vel að meta,“ segir Sigrún og bætir við að þau hafi í gegnum árin sem dæmi alltaf komið hingað á sjómannadaginn og sæki gjarnan veitingastaði, verslanir og ýmsa þjónustu í bænum.
Siglingar og félagsstörf
Aðspurð um áhugamál segja þau í fyrstu að vinnudagarnir geti verið ansi langir. Þau fari þó reglulega á heimaslóðirnar vestur á firði, en Eyþór er fæddur og uppalinn á Ísafirði og Sigrún er frá Suðureyri en þar eiga þau gamalt hús og lítinn bát. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á siglinum, var mikið á seglbretti hér áður fyrr, og síðar á kajak en ég hef nýlega tekið skemmtibátaskírteini og stefni á að taka skútupróf í sumar ef tími gefst til,“ segir Eyþór.
Sigrún er öflug í ýmsum félagsstörfum þá sérstaklega þegar kemur að skólamálum og er formaður Heimilis og skóla, landssambands foreldra. „Ég var einnig að gefa út ljóðabók sem heitir Ljóðin hans pabba sem eru ljóð og vísur eftir föður minn Eðvarð Sturluson og fer ágóði bókarinnar í endurbætur á Suðureyrarkirkju sem er okkur fjölskyldunni afar kær,“ segir Sigrún að lokum.