Á þeim tæpum sjö árum sem Litla Hönnunar Búðin á Strandgötunni hefur verið starfandi hefur framboðið aukist til muna, húsnæðið stækkað og lítið gallerí orðið hluti af rekstrinum.
Við hittum Sigríði Margréti Jónsdóttur (Siggu Möggu) eiganda Litlu Hönnunar Búðarinnar til að kynnast rekstrinum.
Vinnustofan varð að verslun
Litla Hönnunar Búðin opnaði haustið 2014 í litla húsinu við Strandgötu 17 og var fljótt málað í fallegum ljósbleikum lit. „Ég var búin að leigja rýmið og ætlaði að nýta það sem vinnustofu en varð síðan skyndilega án atvinnu og ákvað því að opna búð í staðin með aðeins öðruvísi hönnunarvörur,“ segir Sigga Magga sem fór fljótt í samstarf við ýmsa íslenska hönnuði og listamenn og hóf síðan sjálf að finna einstakar vörur víðsvegar að.
Hún segir að þetta hafi allt byrjað nokkuð rólega og henni fannst stundum eins og fólk væri smá feimið að koma inn í svona litla búð þar sem nálægðin er mikil. Reksturinn gekk samt bara nokkuð vel og þegar húsnæðið við hliðina á losnaði í ársbyrjun 2018 ákvað hún að flytja sig yfir. „Þetta var mjög stórt skref, allt í einu vorum við komin í næstum fjórfalt stærra húsnæði og skuldbindingin orðin mun meiri. Á sama tíma mynduðust ný tækifæri, möguleiki til að auka vöruúrvalið og svo varð ég bara að vona að Hafnfirðingar yrðu duglegir að versla í búðinni.“
Úlfurinn
Samhliða rekstrinum hélt Sigga Magga áfram að vinna við vörumerkið sitt Úlfinn en þær vörur eru ávallt seldar í versluninni. „Úlfurinn minn hefur þróast mikið í gegnum árin og aldeilis stækkað. Í upphafi var ég að gera myndir, skera út í pappír og vinna með mismunandi bakgrunn og fór síðan að þrykkja. Í dag er Úlfurinn orðinn að vörulínu með hálsmen, eyrnalokka, stuttermaboli, peysur og húfu fyrir utan myndirnar sem eru enn fáanlegar,“ segir Sigga Magga sem segir að úlfur sé í hennar huga sterkur, traustur, klókur, þrautseigur, gáfaður, gefandi, leiðtogi og vinur.
Fjölbreytt vöruúrval
Í dag er vöruúrvalið í Litlu Hönnunar Búðinni ansi fjölbreytt og að sögn Siggu Möggu kemur það fólki stundum mjög á óvart. „Við erum með gjafavörur fyrir allan aldur og öll kyn eins og skartgripi, kerti, púsl, naglalökk, spiladósir, myndir, súkkulaði og óáfengt freyðivín en einnig mikið af umhverfisvænum snyrti- og hreinlætisvörum.“
Nokkrar vörur hafa fylgt versluninni allt frá upphafi, sumir komið og farið og segir Sigga Magga að hún hafi verið upphafsstaður fyrir einhverja hönnuði sem hafi síðan ákveðið að stofna eigin verslun. „Hafnfirski skartgripahönnuðurinn Bára sem er með Blakk by B vörurnar hefur sem dæmi selt sínar vörur hjá mér alla tíð sem mér þykir afar vænt um.“
Hugmyndir að nýjum vörum til að selja í versluninni fær Sigga Magga annars víða að. Viðskiptavinir koma stundum með hugmyndir en hún segist sjálf vera líka orðin ansi lúnkinn við að finna flottar vörur og sýnir nýju litríku töskurnar, pokana og veskin frá hollenska merkinu Susan Bijl sem eru nýjasta viðbótin.
Þakklát fastaviðskiptavinum
Í Litlu Hönnunar Búðinni er mikið lagt upp úr hlýlegu andrúmslofti og persónulegri þjónustu. „Það hefur alltaf verið mitt mottó að viðskiptavinum líði vel þegar þeir koma hingað inn og ég reyni líka að hafa sem minnsta álagningu til að halda verðum niðri eða að það sé sanngjarnt fyrir alla aðila,“ segir Sigga Magga og bætir við að hún eigi mjög marga fastaviðskiptavini sem sé því heilsað með vinalegu hæ-i í staðin fyrir góðan daginn.
„Ég er óendanlega þakklát fyrir fólkið sem kemur alltaf aftur og aftur og leggur sig sem dæmi fram við að kaupa allar gjafir hér í Hafnarfirði. Rekstur eins og þessi gengur annars ekkert upp. Ef fólk vill hafa svona litlar búðir hér í bænum þá þarf það að koma og versla,“ segir Sigga Magga ákveðin.
Vefverslun og Litla Gallerí
Stóran hluta af vörunum í versluninni má einnig kaupa í vefversluninni litlahonnunarbudin.is sem hefur verið starfrækt í nokkur ár. Þar er boðið upp á fría heimsendingu um allt land en að sögn Siggu Möggu eru líka margir sem skoða fyrst vöruúrvalið á netinu en komi síðan í búðina og versli.
Haustið 2019 ákváð Sigga Magga ásamt Elvari, manninum sínum, að nýta lager búðarinnar og búa til gallerí. „Við vorum búin að vera með þessa hugmynd í nokkra mánuði enda ekkert gallerí starfandi í Hafnarfirði og rýmið skemmtilegt og öðruvísi,“ segir Sigga Magga um upphafið að Litla Gallerí sem er samtengt búðinni en með sérinngang.
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, sérstaklega frá listamönnum. Fyrst um sinn voru mánaðarlegar sýningar en frá og með síðustu áramótum var fyrirkomulaginu breytt og núna er ný sýning um hverja helgi. „Það skemmtilega við að hafa svona ör skipti er að sýningarnar draga alltaf til sín nýtt og nýtt fólk. Þar af eru einhverjir sem eru að uppgötva hvað Hafnarfjörður hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða,“ segir Sigga Magga sem greinilega ber hag bæjarins í brjósti.
Þungur róður í Covid
Að sögn Siggu Möggu hefur Covid haft mikil áhrif á reksturinn og róðurinn verið ansi þungur enda lítið verið um veislur og hátíðarhöld og fólk því minna að kaupa gjafir. Versluninni var lokað í nokkrar vikur í fyrstu bylgunni, eitthvað sem allir sýndu skilning, en vefverslunin kom þá sterk inn. „Þetta er lítill og viðkvæmur rekstur en ég vonast til að fólk styðji vel við bakið á okkur núna til að komast út úr þessu. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Sigga Magga og brosir.
Allt í göngufæri
Sigga Magga hefur búið í Hafnarfirði allt frá barnæsku. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörð segir hún strax: „Hér get ég sótt allt, náttúru, innkaup, þjónustu, samfélag - allt í göngufæri. Lítið og kósý, friður og ró.“
Uppland Hafnarfjarðar er annars í miklu uppáhaldi hjá henni, sérstaklega Krýsuvíkin og nágrenni Hvaleyrarvatns þar sem hún gengur mjög mikið. Þá er Strandgatan og mannlífið sem henni fylgir einnig í uppáhaldi hjá Siggu Möggu.
Hundar og útivist
Sigga Magga á fimm hunda og er hundaræktandi. „Ég rækta Coton de Tulér hunda og hef gert það síðan árið 2007 en átt tegundina í yfir 20 ár. Hundar eru mín ástríða, ég vinn mikið með Hundaræktendafélaginu, sýni hundana mína og geng með þá á fjöll.“
Þá segist Sigga Magga líka ferðast gjarnan um landið og fer reglulega á Strandirnar þar sem fjölskylduóðalið Veiðileysa er í Veiðileysufirði. „Okkur finnst lítið mál að hoppa upp í bíl og keyra bara af stað en ef við förum ekki vestur á Strandir þá verður Snæfellsnesið eða Þingvellir oft fyrir valinu“, segir Sigga Magga að lokum.