Fasteignafélagið Haraldur Jónsson ehf á fjölmargar fasteignir í Hafnarfirði en fjölskyldan á bakvið fyrirtækið á sér atvinnusögu í bænum allt frá árinu 1970.
Við hittum Marinellu R. Haraldsdóttur á skrifstofunni í Norðurturninum í Firði en hún er í forsvari fyrir fyrirtækið ásamt föður sínum Haraldi Jónssyni.
Fjölskyldufyrirtæki með langa sögu
„Grunnurinn að fyrirtækinu er vissulega í útgerð en afi minn og langafi stofnuðu sitt fyrsta fyrirtæki, Sjólastöðina, árið 1963 og fjölskyldan verið tengd rekstri og útgerð allt frá þeim tíma,“ segir Marinella. Faðir hennar stofnaði fyrirtækið Haraldur Jónsson ehf árið 2002 og keypti síðar allar eignir af fjölskyldu sinni og rekur fasteignirnar undir eigin nafni.
Marinella segir að í dag eigi fyrirtækið stóran hluta í verslunarmiðstöðinni Firði og fjórar hæðir í turnum tveimur tengdum Firði. Þess utan eru eignirnar í bænum fimm talsins. „Við eigum Íshúsið, Drafnarslippinn, byggingu á Óseyrarbrautinni, Fornubúðir 3 sem og eitt hús á Bæjarhrauninu.“
Fjölbreyttir leigjendur
Fyrirtækið er alla jafna með um 20 til 30 leigjendur. Sumir þeirra hafa verið mjög lengi en í fasteignum þar sem breytingar eru í farvatninu er, eins og gefur að skilja, minna um langtímaleigu. „Leigjendur okkar eru í mjög fjölbreyttri starfsemi en þar á meðal er fasteignasala, fiskvinnsla, tattústofa, söngkona, sprotafyrirtæki og vélsmiður,“ segir Marinella og bætir við að nýjustu leigjendurnir séu aðilar sem hafa gert langtímasamning um veislusalinn á efstu hæðinni í Firði þar sem opna á svokallaða betri stofu.
Spennandi verkefni framundan
Það eru að sögn Marinellu ótrúlega spennandi verkefni fram undan en fyrirtækið tekur virkan þátt í uppbyggingu í miðbænum og á Flensborgarhafnarsvæðinu. „Við erum stór hluthafi í fyrirtækinu 220 Fjörður sem stendur bakvið stækkunina á Firði sem teygir sig yfir á Strandgötuna en þar verður bókasafnið, stór matvöruverslun, ásamt öðrum minni verslunum og íbúðir eða skrifstofur á efstu hæðunum,“ segir Marinella sem greinilega er spennt fyrir verkefninu og vonar að hægt verði að byrja á framkvæmdum á næsta ári.
Annað stórt verkefni sem er á borði fyrirtækisins í dag er uppbyggingin á Flensborgar- og Óseyrarsvæðinu þar sem áður stóð meðal annars fiskmarkaðurinn sem brann sumarið 2019. „Það var mjög erfitt fyrir okkur fjölskylduna, sérstaklega pabba, þegar fiskmarkaðurinn brann en hann var mun meira en bara bygging í huga pabba sem kom að stofnun markaðarins á sínum tíma,“ segir Marinella. Þau vilja því gjarnan að á þetta svæði komi einhver blómleg starfsemi. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að Tækniskólinn byggi þarna húsnæði og verði þá allur undir einu þaki og einnig verði byggðar stúdentaíbúðir á svæðinu. „Við erum mjög ánægð með að fá að halda áfram að byggja upp á hafnarsvæðinu, sem við þekkjum svo vel, en nú með öðrum áherslum enda hefur hafnarstarfsemin breyst mikið.“ Marinella segir að þetta sé þó afar langt ferli, nú sé verið að vinna við aðal- og deiliskipulag en hún vonar að hægt verið að byrja að byggja upp svæðið eftir tvö til þrjú ár.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á rekstur fyrirtækisins segir Marinella að faraldurinn hafi vissulega haft sín áhrif. „Það sem hefur áhrif á leigjendur okkar hefur áhrif á okkur. Einn leigjandi þurfti sem dæmi því miður að hætta sínum rekstri en við höfum reynt að koma til móts við okkar fólk á þessum erfiðu tímum.“ Þá hefur útleiga á veislusalnum efst í Firði verið lítil sem engin. Fyrirtækið er annars með stórt stuðningsnet í kringum sig og mun standa Covid vel af sér. Að sögn Marinellu var bruninn á fiskmarkaðnum þeim mun erfiðari en þar var stærsti hluti af leigutekjum félagsins.
Höfnin og hjartað
Marinella er mikill Hafnfirðingur í sér og hefur búið hér frá unga aldri. Hún er alin upp í Norðurbænum, ól börnin sín upp í Áslandinu en býr nú í Hvömmunum og hefur liðið vel í öllum þessum hverfum. „Höfnin er alltaf það besta við Hafnarfjörðinn enda hefur hún verið hluti af mínu lífi allt frá barnæsku, byrjaði ung að vinna í frystihúsinu. Svo er það hjartað í bænum sem er eitthvað svo fallegt, hér er einhver viss sjarmi, við erum smábærinn í borginni og skiljanlegt að landsbyggðarfólk flytji gjarnan i Hafnarfjörð,“ segir Marinella brosandi og lýsir einnig fallega útsýninu yfir miðbæinn sem hún hefur frá skrifstofunni sinni.
Fjölskyldan og ferðalög
Þegar Marinella er ekki í vinnunni nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni. „Öll börnin mín eru öflug í sínum tómstundum og ég legg mikið upp úr því að fylgja þeim eftir,“ segir Marinella sem sést því oft á hliðarlínunni þegar kemur að keppni í körfubolta, hestaíþróttinni eða fótbolta. Þá segist hún einnig reyna að ferðast eins mikið og hún getur, sérstaklega innanlands yfir sumarmánuðina og þá er Húsafell í miklu uppáhaldi þar sem fjölskyldan hefur verið með bústað frá árinu 1979.