ICE Design by Thora H

Eyrnalokkar, hálsmen, hringar, armbönd, ermahnappar, bindisnælur, vasapelar og lyklakippur skreyttar með fiskiroði og hálsmen og hringar með íslenskum hraunmolum eru meðal þess sem má fá hjá ICE Design by Thora H í Firði.

Við hittum Þóru Hvanndal, konuna á bakvið merkið til að kynnast rekstrinum.

IceDesign5b.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Skartgripir með fiskiroði og hraunmolum eru meðal þess sem ICE Design by Thora H selur.

Seldi fyrstu eyrnalokkana sem barn

Þóra var aðeins 12 ára þegar hún byrjaði að búa til og selja eyrnalokka. „Við vorum tvær vinkonurnar sem vorum að gera eyrnalokka sem við seldum niður á Lækjartorgi og kölluðum okkur Lokkar hf.,“ segir Þóra og brosir. Hana dreymdi því lengi vel að gerast gullsmiður en ákvað hins vegar rúmlega tvítug að fara til Danmerkur og læra blómaskreytingar. Dvölin þar í landi sem átti bara að vera eitt ár endaði með því að vera 18 ár og oftast var skartgripagerðaráhuginn ekki langt undan. „Ég fór í grunntækninám í gullsmíði en ákvað að halda ekki áfram og sótti frekar ýmis námskeið tengd skartgripagerð,“ segir Þóra sem segist því vera skartgripahönnuður.  

Hraun og fiskiroð

Þóra vinnur alla skartgripi sína úr silfri en skreytir þá annars vegar með hrauni og hins vegar með roði. „Ég byrjaði að vinna með hraunið árið 2005 en margir voru á því að það væri ekki hægt að vinna með það en ég þrjóskaðist áfram og tókst ætlunarverkið,“ segir Þóra. Úr varð að hún stofnaði fyrirtækið ICE Design by Thora H í mars 2008 og fór að selja silfurhálsmen og -hringa skreyttum hraunmolum.

IceDesign8b.jpg

Um svipað leiti kynntist hún roði af þorski, lax og hlýra og fannst spennandi að prófa að vinna með það. Hún fékk strax góðar viðtökur og í dag selur Þóra eyrnalokka, hálsmen, hringa, armbönd, ermahnappa, bindisnælur, vasapela og lyklakippur skreytt með ýmiss konar roði. „Fyrst keypti ég sútað og litað roð en nú er ég byrjuð að handmála það sjálf og er sem dæmi þessa dagana undir miklum áhrifum frá litum gossins á Reykjanesi í litavali,“ segir Þóra en vinsælasta vara hennar er án efa eyrnalokkar með fiskiroði sem eru til í þremur stærðum og mismunandi litum og margir sem eiga þá í nokkrum útgáfum.

Hraunmolatínsla viss íhugun

Hraunmolana tínir Þóra í þremur fjörum og segir að hraunið sé mismunandi eftir því hvar hún finni það. Hraunmolarnir í fjörunni í Hafnarfirði eru grófastir, fjaran í Gróttu geymir aðeins fínna hraun en fínast er það hins vegar í fjörunni við Vík. „Fyrir mér er það viss íhugun eða heilun að fara í fjöruna og finna fallegt sjávarslípað hraun. Ég sit þá í fjörunni og grófsortera steinana en tíni svo aftur út bestu molana þegar ég kem heim og sýð þá til að hreinsa áður en ég get byrjað að vinna með hraunið,“ segir Þóra og bætir við að sumir skartgripir séu einungis með hraunmola úr Hafnarfirði, Gróttu eða Vík en í öðrum gripum blandar hún þessum þremur tegundum saman og hefur þróað vissa tækni til þess.

IceDesign4b.jpg

Verslun í Firði

Í október síðastliðnum opnaði Þóra verslun á fyrstu hæðinni í Firði sem er opin þrjá daga vikunnar en áður seldi hún vörur sínar í Litlu Hönnunar Búðinni sem og í Danmörku. „Ég hef einnig verið með bás í jólaþorpinu síðastliðinn sex ár sem hefur ávallt gengið mjög vel og margir sem versla þar hjá mér ár eftir ár,“ segir Þóra sem er þessa dagana einnig að leggja lokahönd á nýja vefsíðu með sinni eigin vefverslun sem hún bindur miklar vonir við.

Áhrif Covid

Covid hefur vissulega haft mikil áhrif á rekstur ICE Design, bæði jákvæð og neikvæð. „Ég missti vinnuna hjá Icelandair síðastliðið vor, sem var vissulega mikið sjokk, en ég hef starfað í flugbransanum í yfir 20 ár. Það var þó til þess að ég lét verða að því að opna búðina mína hér í Firði, eitthvað sem ég hefði ekki getað gert þegar ég var í fullri vinnu,“ segir Þóra. Hún segir að það hafi gengið ágætlega, reyndar sé mikill munur í sölu á milli mánaða og hún gerir sér grein fyrir því að geta ekki lifað á þessu einu saman og er því að leita sér að hlutastarfi. Hún er þrátt fyrir það spennt að sjá hvernig muni ganga í venjulegu árferði þegar það verða haldnar fermingar, stúdentsveislur og afmæli og segist hafa fulla trú á því að með hækkandi sól verði allt betra.

IceDesign10.jpg

Miðbærinn æðislegur

Þóra hefur búið í Hafnarfirði allt frá því hún flutti heim frá Danmörku fyrir sjö árum og gæti ekki hugsað sér að búa nein staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Þó ég sé fædd og uppalin í Reykjavík þá er ég smá sveitastelpa og Hafnarfjörður hentar mér einstaklega vel. Hér er bæjarbragur og miðbærinn er æðislegur,“ segir Þóra sem segist sækja nær alla þjónustu hér í bænum og dreymir um að finna hlutastarf hér sem hún geti unnið meðfram búðinni sinni og þurfi sem minnst að fara úr firðinum fagra.

Ferðalög og fuglasöngur

Þóra segir að ferðalög séu eitt af hennar áhugamálum, gjarnan utanlands en núna séu hún og Andri maður hennar dugleg að ferðast innanlands. „Eins og gefur að skilja þá sæki ég gjarnan í fjörurnar en yfir höfuð þá þykir mér íslensk náttúran ákaflega fögur og saknaði hennar þegar ég bjó í Danmörku,“  segir Þóra og bætir við að það sé líka fátt betra en að liggja í heita pottinum heima á palli eða uppi í sumarbústað og hlusta á fuglasöng.