VSB verkfræðistofa

Verkfræðistofan VSB á Bæjarhrauninu er rótgróið hafnfirskt fyrirtæki sem hefur komið að mörgum verkum í gegnum tíðina, bæði í Hafnarfirði sem og víða um land og einnig utan landsteinanna.

Við hittum Hjört Sigurðsson, framkvæmdastjóra VSB til að kynnast rekstrinum.

VSB_FB_minni.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Verkfræðistofan VSB er rótgróið hafnfirskt fyrirtæki.

Rótgróið hafnfirskt fyrirtæki

VSB rekur sögu sína allt aftur til ársins 1987 og fagnaði 34 ára afmæli þann 1. apríl síðastliðinn. Fyrstu árin starfaði hún undir nafninu Verkfræðistofa Stefáns og Björns en fékk heitið VSB verkfræðistofa haustið 1996. Í upphafi var stofan í eigu Stefáns B. Veturliðasonar og Björns Gústafssonar sem báðir starfa enn fyrir VSB. Í dag eru eigendurnir hins vegar orðnir tólf talsins, allt starfsfólk VSB og Stefán þar á meðal.

„Ég tók við framkvæmdastjórastöðunni fyrir einu ári eftir að hafa verið verið aðstoðarframkvæmdastjóri í tvö ár. Stefán hafði alla tíð verið framkvæmdastjóri en taldi kominn tíma til að hleypa öðrum í þann stól,“ segir Hjörtur en ítrekar að Stefán sé með sitt skrifborð hinum megin við vegginn og hann geti ávallt leitað til hans. Að mati Hjartar er VSB afar rótgróið hafnfirskt fyrirtæki. Það var fyrstu árin á Reykjavíkurvegi en verið á Bæjarhrauninu allt frá árinu 1992 og margir starfsmenn sem búa í bænum.

VSB_verkstadur.jpg

Margþætt þjónusta

Verkefnin hafa aukist jafnt og þétt í gegnum árin og í dag starfa 33 sérfræðingar hjá fyrirtækinu en verða vonandi 35 innan skamms þar sem verið er að auglýsa eftir tveimur nýjum starfsmönnum. „Flestir starfsmenn eru tæknifræðingar eða verkfræðingar en hér starfa einnig tækniteiknarar sem og iðnfræðingar og margir hverjir með aðra iðnmenntun í grunninn,“ segir Hjörtur.

Þjónustan sem VSB veitir er afar margþætt og verkefnin fjölbreytt. Kjarni starfseminnar er þó verkfræðiráðgjöf við verklegar framkvæmdir. „Við leiðum viðskiptavini í gegnum verkefni, veitum þeim ráðgjöf allt frá því að hugmynd verður til þangað til mannvirkið er fullunnið og þá reyndar sjáum við oft í framhaldinu um ýmsa þjónustu er tengist viðhaldi og eftirliti.“

Fyrirtækinu er því skipt upp í sex starfssvið og yfir hverju sviði er sérhæfður fagstjóri. Stærsta sviðið er byggingasvið sem sér um allt sem þarf til að hanna hús, s.s. burðavirki, rafkerfi og lagna- og loftræsikerfi. Þá er byggðatæknisvið sem sér um allt sem viðkemur hönnun gatna, vega og veitna, framkvæmdasviðið sér um byggingastjórnun og eftirlit með framkvæmdum síðan eru þrjú önnur svið sem eru þróunarsvið, fasteignaþjónustusvið og að lokum mælingar.

VSB8b.jpg

Sólvangur, Ásvallabraut og Hamranes

VSB tekur reglulega þátt í útboðum, einna helst hér á suðvesturhorninu en hafa einnig tekið að sér verk víðs vegar um landið sem og út í heimi í gegnum tíðina. „Við erum þessa dagana með eitt verk á Akureyri en vorum sem dæmi einnig að vinna verkefni í Karachi í Pakistan fyrir nokkrum árum,“ segir Hjörtur.

Stærstu kaupendurnir eru fasteignafélög og sveitarfélög og hefur stofan meðal annars unnið mörg verkefni fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þar á meðal er nýi Sólvangur þar sem þau sá um byggingastjórn og þessa dagana er verið að hanna nýtt tæknikerfi í gamla Sólvang. Þá sjá þau um gatnahönnun við nýju Ásvallabrautina og í nýja hverfinu við Hamranes sér VSB um hönnun gatna og fráveitu.

Önnur stór verkefni sem VSB hefur verið að vinna við að undanförnu er nýbygging Landsbankans þar sem stofan eru með umsjón með hönnun og annast framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. „Okkar hlutverk er sem sagt að tryggja að gæðin hjá verktökunum séu í lagi, halda utan um fjármál byggingarinnar og vera með almennt eftirlit,“ segir Hjörtur. Þá eru VSB einnig að veita ráðgjöf í vissum verkþáttum við byggingu nýja Landspítalans.  

VSB2.jpg

Hugsa, reikna og teikna

Aðspurður um hvernig venjulegur dagur flestra á verkfræðistofu sé segir Hjörtur að þetta sé mikil tölvuvinna. „Ég sem dæmi sit mikið við tölvuna þar sem ég hugsa, reikna og teikna. Þá eru fundir með samstarfsaðilum s.s. arkitektum, verktökum og öðrum verkfræðistofum einnig hluti af starfinu.“ Hann bætir við að starfsfólk hans á framkvæmdasviðinu sé meira úti á verkstað í skóm með stáltá í gulu vesti og gjarnan með með 360 gráðu myndavélar og ganga úr skugga um að allt sé eins og til sé ætlast. Þá séu ýmsar græjur til svo sem loftflæðismælar, hitamyndavélar og dróni sem mælingarmaður þeirra notar við að taka loftmyndir.

Áhrif Covid

Að sögn Hjartar hefur stofan ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum fjárhagslega vegna Covid en vissulega hafi faraldurinn haft mikil áhrif á daglegt líf á vinnustaðnum. Skrifstofunni hefur verið skipt upp í tvö sóttvarnarhólf og margir hafa verið að vinna heima.

„Það hefur verið mikið að gera undanfarið ár en það hafði verið nokkur samdráttur í faginu rétt áður en Covid byrjaði, höggið var því í raun komið. Það fór hins vegar allt á fleygiferð þegar vextir lækkuðu og margir ákváðu að fara í framkvæmdir,“ segir Hjörtur. Hann telur annars að fjölgun fjarfunda og viðhorf til þeirra sé visst tækifæri fyrir svona starfsemi þar sem áhrifasvæðið stækkar og einfaldara verði að sækja í verk lengra í burtu.

VSB5.jpg

Best við Hafnarfjörðinn

Hjörtur segir að það sé ákaflega gott að starfa í Hafnarfirði, hann sé fljótur í vinnuna enda alltaf á móti umferð, komandi úr Reykjavík. „Mér finnst Hafnarfjörður vera afar fallegur bær, sérstaklega gamli bærinn og höfnin og síðan er stutt í náttúruna sem ég nýti gjarnan til útivistar. Ég gæti því vel hugsað mér að búa hér,“ segir Hjörtur aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn. Hann bætir síðan við að hjá VSB vinni margir Hafnfirðingar og það sé allt mjög gott fólk.

Hannar eigin lampa

Þegar Hjörtur er ekki í vinnunni nýtur hann þess að vera með fjölskyldunni sem og stunda útivist. Hann fer mikið í fjallgöngur, er á fjallahjóli, hleypur og gengur og segir að náttúran veiti honum orku. „Ég hef í frítíma mínum einnig verið að hanna og smíða lampa úr við, lampa með marga fleti sem ég kalla fjölflötunga,“ segir hann með bros á vör og sýnir einn flottan sem prýðir skrifstofuna.