Lögvík

Lögmannsstofan Lögvík á Reykjavíkurveginum tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu.

Við hittum Guðmundínu Ragnarsdóttur, lögmann og eiganda Lögvíkur til að kynnast rekstrinum.

logvik4.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Lögvík tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu

Einyrkjum fjölgar

Lögvík er rétt rúmlega tíu ára, var stofnuð árið 2010 og Guðmundína eigandi og eini starfsmaðurinn. Hún hefur þó starfað sem lögmaður í 20 ár og áður en hún stofnaði Lögvík vann hún á öðrum lögmannsstofum og var meðal annars meðeigandi á einni. „Það hefur ýmislegt breyst í lögmannsstéttinni undanfarin ár, sérstaklega eftir að bankarnir fóru sjálfir að sjá um innheimtu á eigin kröfum sem lögmenn sáu áður um. Það eru nú færri stórar lögmannsstofur og margir lögmenn sem starfa sem einyrkjar líkt og ég,“ segir Guðmundína. Hún deilir þó skrifstofuhúsnæði með öðrum lögmönnum og segist eiga í góðu og nánu samstarfi við þá sem sé ákaflega mikilvægt. „Við erum allar metnaðarfullar og tilbúnar að hjálpa hvor annarri, spegla hugmyndir og rökræða.“

Mikil fjölbreytni

Lögvík tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu en Guðmundína segist vera mikið í fasteignalögfræði sem snertir fjöleignarhús, galla, vandefndir og byggingastjóraábyrgð ofl. en vinni einnig við innheimtur, skiptastjórn þrotabúa og dánarbúa, erfðamál, bótamál, verjendastörf, réttargæslu, skilnaðar- og forsjármál og barnaverndarmál svo eitthvað sé nefnt. „Starfið er því afar fjölbreytt og krefst oft mikillar yfirseta. Ég sem til dæmis afskaplega mikið af textum s.s. stefnur, greinargerðir, kærur, matsbeiðnir og alls kyns kröfugerð.“

logvik1.jpg

Guðmundína hefur jafnframt langa reynslu af málflutningsstörfum í héraðsdómi þar sem hún hefur flutt á annað hundrað mál. „Sum þessara mála hef ég unnið en önnur ekki en mál enda oft með sátt líka. Ég er ákaflega glöð þegar mál enda vel fyrir umbjóðendur mína en þegar tveir deila geta mál vissulega farið á báða vegu,“ segir hún.

Samkeppni meðal lögmanna

Viðskiptavinir Lögvíkur eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög. Samkvæmt Guðmundínu eru flestir umbjóðendur hennar þó einstaklingar en hún hefur einnig starfað fyrir nokkur fyrirtæki í fjölda ára. „Ég er einnig skipaður skiptastjóri þrotabúa og t.d. til varnar eða sóknar í lögræðismálum. Það eru þá dómarar sem skipa lögmenn, en þar er mikil samkeppni um verkefnin og mikilvægt að minna stöðugt á sig“, segir Guðmundína og bætir við að hún þurfi líka reglulega að minna á sig hjá lögreglunni sem bendir grunuðum á lögmenn.

Sem einyrki gengur hún annars í öll störf Lögvíkur. „Ég er ritari, bókari, sendisveinn og lögmaður allt í senn auk þess að leita að nýjum viðskiptavinum.“

logvik2.jpg

Áhrif Covid

Í fyrstu bylgju Covid var starfsemi Lögvíkur í hægagangi, mörgum málum var frestað í héraðsdómi og önnur mál stöðvuðust. Guðmundína segir að starfið einkennist þó almennt af miklum sveiflum í tekjum og vinnutörnum en þetta hafi verið óvenju sveiflukennt í fyrra sökum Covid, afar rólegt vor en mjög mikið að gera um haustið. „Ég gat þó sem betur fer alltaf mætt á skrifstofuna enda fámennur vinnustaður og hver og einn með sína skrifstofu,“ segir Guðmundína og bætir við að fjarfundum hafi einnig fjölgað til muna og nú sé sem dæmi kominn fjarfundarbúnaður í dómstóla sem hefur reynst vel og á örugglega eftir að vera notaður meira í framtíðinni.  

Einn fallegasti bær landsins

Guðmundína lítur á sig sem Hafnfirðing enda gekk hún í Lækjarskóli og Flensborg, æfði handbolta með FH og bjó í Hafnarfirði stærstan hluta ævinnar, en læddist yfir bæjarmörkin fyrir fimm árum og býr nú í Urriðaholtinu. „Mér finnst Urriðaholtið eiginlega vera framhald af Setberginu og ég sæki flesta þjónustu í Hafnarfjörðinn,“ segir hún og brosir.  

logvik3.jpg

Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörð segir hún: „Þetta er mjög notalegur bær, þægileg stærð, auðvelt að komast um og oftast ekkert vesen með bílatæði. Hafnarfjörður er líka einn fallegasti bær landsins og hér er mikil veðursæld.“

Golf og útilegur

Þegar Guðmundína er ekki að sinna lögmannsstörfum fer hún gjarnan í golf og er forfallin útilegugeit. „Ég spila ekki bara golf heldur hef ég einnig starfað mikið fyrir GSÍ, er formaður aganefndar þar og einnig í klúbbnum mínum Oddi,“ segir Guðmundína sem segist líka fylgjast mikið með íþróttum, horfi á fótbolta og handbolta.  Þá nýtur hún þess að verja tíma með börnum sínum og ættingjum og eiga gæðastundir í góðra vina hópi.