Hellulagnir, hleðsla, jarðvinna, útplöntun, þökulagningar, trjáklippingar, trjáfellingar, beðahreinsun og garðsláttur eru meðal verka sem garðyrkjufyrirtækið Lóðalausnir sinnir.
Við hittum Ragnar Stein Guðmundsson, skrúðgarðyrkjumeistara og eiganda Lóðalausna til að kynnast rekstrinum.
Grátt og grænt
Lóðalausnir var stofnað á vormánuðum árið 2009 en þá hafði Ragnar verið að vinna í hellulögnum og lóðafrágangi í nokkur ár og ákvað að fara í Landbúnaðarháskólann og læra skrúðgarðyrkju. „Ég var hálfnaður með námið þegar ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki sem hefur síðan gengið nokkuð vel,“ segir Ragnar sem var fyrst um sinn eini starfsmaðurinn og sótti um allt sem bauðst og var stundum undirverktaki í stærri verkum. Í dag eru starfsmenn Lóðalausna þrír yfir allt árið en þeim fjölgar í sjö eða átta yfir sumartímann en þá er teymi starfandi sem sér um garðaumhirðu fyrir einstaklinga, húsfélög og fyrirtæki.
Lóðalausnir annast fjölbreytt verkefni sem tengjast görðum og lóðum en sérsvið þeirra er þó einna helst lóðafrágangur, hellulagnir og endurnýjun garða og bílaplana. „Í mínu fagi tölum við um grá og græn verk og er þá átt við hellulagnir og gróður,“ segir Ragnar og bendir á litina í merki Lóðalausna sem eru einmitt grænn og grár þar sem fyrirtækið tekur að sér verkefni allt frá hellulögnum í beðahreinsun.
Vönduð vinnubrögð
Stór hluti verka sem Lóðalausnir hafa verið að vinna í undanfarin ár eru í Hafnarfirði. „Mér finnst afar þægilegt að þurfa ekki að keyra langt og legg því töluvert upp úr því að fá verkefni hér í Hafnarfirði og nærsveitum og hefur það gengið vel,“ segir Ragnar sem sá meðal annars um frágang lóðar fyrir utan Hafrannsóknarstofnun síðasta sumar sem og lóðina fyrir utan Kaplakrika fyrir nokkrum árum.
Þá hefur hann tekið ansi margar gamlar lóðir í bænum, sem máttu muna fíl sinn fegurri, í gegn og segir að það sé oft skemmtilegasta vinnan enda skynji hann þá einna best ánægju og þakklæti viðskiptavina, sem er stór hluti af því að gera starfið ánægjulegt.
Ragnar leggur annars mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum og segist vilja koma að flestum verkum sjálfur. „Ég passa upp á að hafa starfið viðráðanlegt og taka ekki að mér of mörg verkefni og stækka þannig fyrirtækið. Það hafa vissulega verið tækifæri til þess, en ég óttast að það gæti þá komið niður á gæðum,“ segir Ragnar sem er í raun fullbókaður næstu mánuðina, allavega í verkefnum sem snúa að frágangi og endurgerð lóða en getur bætt við sig litlum verkum eins og slátt og garðahreinsun.
Einfaldleiki og stærri hellur
Aðspurður hvort það sé mikil þróun í þessu geira segir Ragnar að í seinni tíð séu stærri hellur vinsælli og í raun einfaldleiki. Flestir vilji ekki of marga liti og kjósa að hafa allt frekar stílhreint og þá sé nokkuð um að farið sé að blanda saman timbri og grjóti. Það sem hafi þó breyst á undanförnum árum eru betri verkfæri sem hann og hans starfsfólk geti nýtt sér, sérstaklega í hellulögnum.
Það er ekki úr vegi að spyrja hvort hann eigi sér eitthvað uppáhalds tré og þá stendur ekki á svari. „Koparreynir er uppáhalds tréið mitt og ég var svo heppinn að þegar ég flutti inn í húsið mitt var einn fallegur nú þegar í garðinum.“
Aukin eftirspurn í Covid
Á Covid tímum eru margir í framkvæmdahug og vilja gjarnan fegra í kringum húsin sín. Það hefur því verið nóg að gera hjá Lóðalausnum og eftirspurnin verið meiri en þeir hafa geta sinnt. „Ég hef því miður þurft að hafna nokkrum verkum en þó hefur þetta góða veðurfar að undanförnu hjálpað til við að klára verk sem annars hefðu dregist inn á vorið eða sumarið,“ segir Ragnar ánægður.
Lítill stór bær
Ragnar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og mið- og suðurbærinn er hans staður. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann að þetta sé einhvern veginn lítill bær þrátt fyrir að vera stór. „Hér er einhver smábæjarfílingur sem ég kann vel við, menn með viðurnefni og allir þekkja alla.“
Þá segir Ragnar að hann leggi sig fram við að sækja alla þjónustu hér enda sé allt til alls í bænum og þá er hann sérstaklega ánægður með veitingastaðina sem hafa bæst í flóruna undanfarin ár.
Heimakær fjölskyldumaður
Þegar Ragnar er ekki í vinnunni nýtur hann þess fyrst og fremst að vera með fjölskyldunni og segist vera afar heimakær. „Við förum gjarnan saman á skíði á veturna sem og í sólarlandaferð þar sem ég tek mitt frí síður á sumrin enda þá mest að gera hjá Lóðalausnum,“ segir Ragnar.
Hann er einnig tíður gestur á leikjum í Kaplakrikanum, bæði í handbolta og fótbolta og fjölskyldan fer oft öll saman á fótboltaleiki. Þá er Ragnar stuðningsmaður Liverpool og fór með alla fjölskylduna á Anfield í janúar 2019 þar sem þau hittu Klopp og Salah rétt fyrir leik á hótelinu og synirnir fengu mynd af sér með þeim báðum.