Í Álfagulli á Strandgötunni má finna gersemar og dýrgripi sem álfar hafa valið af kostgæfni að sögn Jóhönnu Ploder eiganda verslunarinnar.
Við hittum Jóhönnu til að kynnast þessa litla fallega fjölskyldufyrirtæki.
Tvinnaskúffa úr Einarsbúð
Álfagull var opnuð í nóvember 2016 og fagnar því fimm ára afmæli í lok ársins. Jóhanna er löggiltur leigumiðlari og starfaði í bankageiranum í mörg ár en ákvað að venda kvæði sínu í kross og gera eitthvað allt annað. „Mig langaði að breyta um gír, gera eitthvað gott fyrir sálina og velja fallega hluti,“ segir Jóhanna þegar hún er spurð um tilkomu Álfagulls.
Þegar hún sá að fallega húsnæðið við Strandgötu 49 væri laust var ekki aftur snúið og Jóhanna tók það á leigu. Verslunin er staðsett í gömlu Einarsbúð sem er elsta verslunarhúsnæði miðbæjarins. Líklegt er að einhverjir upplifi smá nostalgíu í versluninni þar sem hluti innréttinga eru upprunalegar enda friðaðar. Þá sýnir Jóhanna okkur gamla tvinnaskúffu sem var í Einarsbúð á árum áður sem hún sá auglýsta til sölu á netinu rétt eftir að verslunin opnaði og var fljót að kaupa. „Við getum reyndar ekki notað skúffurnar en þær og saga þeirra er bara svo falleg.“
Töfrar álfanna svífa um
Í Álfagulli er mikið og breytt úrval af gjafavöru, blanda af þekktum vörumerkjum og fallegum vörum sem búðin flytur inn sjálf. „Við leggjum mikið upp úr því að hér sé hægt að finna gjafir fyrir alla, konur, karla, börn og unglinga,“ segir Jóhanna og bætir við að þá sé afar mikilvægt að fólki þyki gaman að koma í búðina, það á að vera upplifun. Jóhanna stendur mikið vaktina sjálf ásamt Heidi systur sinni og segir að það hafi lengi verið draumur þeirra systra að vinna saman. „Við erum ekki bara systur heldur bestu vinkonur.“
Álfagull merkir gull og gersemar álfa og Jóhanna vill meina að þeir leiðbeini henni við val á gersemum og dýrgripum inn í búðina. Þar á meðal eru vörur fyrir ungabörn eins og hringlur, smekkir og púsl, fallegir húsmunir og skartgripir en einnig töluvert sem heillar karlmenn sérstaklega svo sem leðursvuntur, grilltöskur, viskíglös og sixpensarar. Þá fékk verslunin einnig tóbakssöluleyfi nýverið og selur handvafða vindla. „Ég reyni að vera dugleg að finna aðeins öðruvísi hluti þó ekki í miklu magni og er viss um að töfrar álfanna svífi hér um og geri búðina sérstaka og notalega.“
Gengur í öll verk
Í svona rekstri er að mati Jóhönnu mikilvægt að geta gengið í sem flest verk sjálfur. „Ég panta inn allar vörur, afgreiði, sé um reikninga og launagreiðslur og skúra líka,“ segir hún og bætir við að fjölskylda hennar leggi oft hönd á plóginn. Dagmar, dóttir hennar starfar í búðinni með skóla, Magnús, maður hennar, sér um bókhaldið og setti upp netverslunina þeirra sem opnaði í lok síðasta árs. Það tók þó samkvæmt Jóhönnu nokkuð langan tíma að koma netversluninni í loftið þar sem þau gerðu þetta allt sjálf en tókst að lokum. Viðtökurnar við henni hafa verið fínar en mikið er um að fólk skoði fyrst á netinu en komi svo í búðina til að kaupa hlutinn. Ef keypt er á netinu keyrir Álfagull frítt heim að dyrum innan Hafnarfjarðar og Garðabæjar fyrir þá sem það vilja.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Jóhanna að verslunin hafi ávallt verið opin, stundum hafi þó lítið sem ekkert verið að gera. Sumir voru smeykir við að kíkja inn þrátt fyrir grímur og spritt en þá hafi verið fínt að vera líka með vefverslun. „Það hefur annars verið lítið um stórafmæli, fermingar og brúðkaup. Allt viðburðir sem eru mikilvægir í okkar rekstri,“ segir Jóhanna en bætir við að jólin hafi aftur á móti gengið ákaflega vel og samdrátturinn því verið töluvert minni á síðasta ári en hún var byrjuð að búa sig undir.
Hafnfirðingar svo smekklegir
Jóhanna hefur búið í Hafnarfirðinum undanfarin ár og kann ákaflega vel við sig hér. „Ég var líka mjög mikið í Hafnarfirði sem barn en pabbi minn, Hans Ploder, var í 40 ár stjórnandi lúðrasveitar Hafnarfjarðar og við fjölskyldan tengdumst því bænum miklum vinaböndum.“
Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax ákveðin Strandgatan og miðbærinn. Bætir síðan við veitingastaðirnir og kaffihúsin sem að hennar mati skapa vissa stemmningu í miðbænum. „Hafnfirðingar eru líka svo smekklegir og duglegir að versla í heimabyggð, standa saman og styðja hvorn annan,“ segir Jóhanna sem er greinilega afar ánægð með bæinn.
Mótórhjól og línuskautar
Þegar Jóhanna er ekki að sinna Álfagulli nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni en hún og maðurinn hennar eiga samanlagt sjö börn og tíu barnabörn. „Við erum nokkuð dugleg að vera saman, eldum, berum fallega fram og njótum.“
Þá keyrir Jóhanna gjarnan um á mótorhjóli sem hún hefur gert allt frá 14 ára aldri og segir að þau systkinin séu öll á mótorhjóli fyrir utan eina systurina. Jóhanna lætur ekki mótorhjólið duga heldur rennir hún sér einnig gjarnan á línuskautum og hefur í gegnum tíðina oft ferðast þannig til og frá vinnu. „Fyrir nokkuð mörgum árum voru dóttir mín og bróðursonur að byrja að vera á línuskautum og ég fékk þau til að kenna mér. Fljótlega var ég síðan farin að stinga þau af og lét einnig hundinn oft draga mig áfram sem var mjög skemmtilegt,“ segir Jóhanna að lokum.