Atlantsolía, litla olíufélagið sem hleypir reglulega lífi í samkeppni á olíumarkaðnum, er með aðsetur á Lónsbrautinni.
Við hittum Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra til að kynnast fyrirtækinu.
Úr skipaflutning í olíusölu
Atlantsolía var stofnuð í júní 2002 af þeim Brandon C. Rose og feðgunum Guðmundi Kjærnested og Símoni Kjærnested sem voru þá eigendur Atlantsskipa og fannst olíuverð einfaldlega of dýrt hér á landi. Guðmundur og Brandon kynntust í háskóla í Bandaríkjunum en fengu Símon föður Guðmundar með sér í reksturinn en hann var sá eini af þeim búsettur hér á landi.
„Í upphafi var ætlunin að vera bara á skipamarkaði en síðan var eina bensínstöðin á landinu í einkaeigu til sölu á Kársnesinu og ákveðið að kaupa hana og fara í kjölfarið inn á almenna neytendamarkaðinn,“ segir Guðrún. Fljótlega opnaði Atlantsolía bensínstöð á Sprengisandi, á Óseyrarbrautinni hér í Hafnarfirði, á Bíldshöfðanum, Skeifunni, í Njarðvík og stuttu seinna í Kaplakrika. Árið 2007 voru stöðvarnar orðnar ellefu en í dag eru þær alls 25, þar af 18 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og sjö stöðvar á landbyggðinni.
Hleyptu lífi í samkeppnina
Allt frá upphafi var stefna Atlantsolíu að selja eldsneyti á sem lægstu verði og á einfaldan hátt, vera eingöngu með litlar ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar með sem minnstu umhverfisáreiti. Þá var fyrirtækið fyrst til að bjóða afslætti til einstaklinga og vera með dælulykla, tölvupóstkvittanir og aðgang að þjónustusvæði dælulykils. „Ég held að Atlantsolía hafi strax sett svip sinn á markaðinn, breytt honum mjög fljótt og hleypt lífi í samkeppni á olíumarkaði landsins sem hafi verið lítil sem engin áður,“ segir Guðrún ákveðin enda fyrirtækið einbeitt í því að selja einungis bensín og olíu.
Atlantsolía er með þrjá tanka á birgðastöðinni við Óseyrarbraut en einu sinni í mánuði leggst olíuskip við höfnina hér í Hafnarfirði og fyllir á tankanna en samkvæmt Guðrúnu fá öll olíufélög á Íslandi birgðir frá Equinor í Noregi og því allir að selja svo til sömu vöruna.
Harður bransi
Að mati Guðrúnar er olíubransinn mjög harður en litla olíufyrirtækið í Hafnarfirði standi alltaf í lappirnar. „Koma Costco inn á markaðinn fyrir nokkrum árum hafði sitt að segja í samkeppninni en við, minnsta félagið á markaðinum, ákváðum að svara þeim hressilega með því að gera stöðina okkar í Kaplakrika að afsláttarlausri stöð þar sem allir fengu sama góða verðið,“ segir Guðrún en það tók hin olíufélögin heilt ár að gera slíkt hið sama.
Í kjölfarið á þessum breytingum á markaði þurfti Atlantsolía að ráðast í gagngerar breytingar fyrir rúmum tveimur árum þar sem taka þurfti margar djarfar ákvarðanir. „Við fórum í mikla hagræðingu, breyttum og einfölduðum skipurit, endurskoðuðum alla ferla, sameinuðum þjónustu- og sölusvið, úthýstum verkefnum og fækkuðum því starfsfólki umtalsvert. Það þurfti að lækka kostnað en á sama tíma þó auka tekjur,“ segir Guðrún en í dag eru tíu starfsmenn hjá Atlantsolíu þar af sex konur.
Yngst og eina konan
Guðrún hóf sjálf störf hjá Atlantsolíu árið 2006 sem aðstoðar fjármálastjóri, þá þrítug að aldri, en tók síðan við starfi framkvæmdastjóra árið 2008. „Ég er þaulsetnasti olíuforstjórinn á Íslandi í dag og er yngst og eina konan og jafnframt eina konan sem hef nokkurn tíman sinnt álíka starfi hér á landi,“ segir Guðrún.
Hjá Atlantsolíu er starfsaldur annars alla jafna mjög hár, sex af þeim tíu sem starfa þar í dag eru búin að vera í yfir 12 ár. „Hér er afar góður kjarni, lítil starfsmannavelta og helmingurinn Hafnfirðingar,“ segir Guðrún og brosir.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðrún að þau kvarti ekki og í raun hafi bara gengið nokkuð vel. Í fyrri bylgjunni féll salan um 35% eftir að hertar samkomutakmarkanir tóku gildi en heildarminnkun í sölu í mars og apríl var um 15% frá sömu mánuðum árið áður. Sumarið hafi aftur á móti gengið mjög vel, einhver söluminnkun verið í haust en heildarsala ársins 2020 var sú sama og árið 2019. „Okkar viðskiptavinir eru flestir búsettir á Íslandi og voru margir duglegir að ferðast um á bílnum í sumar. „Við höfum ekki verið stór á túristamarkaðnum og því hafði fækkun ferðamanna ekki mikil áhrif hjá Atlantsolíu,“ segir Guðrún.
Hún segir að þau hafi gætt vel að sóttvörnum vegna Covid og skipt vinnustaðnum upp í hólf þegar fyrsta bylgjan reið yfir. Helmingur starfsfólksins vann heima og hinn helmingurinn á staðnum. „Í fyrstu skiptum við þessum upp í viku og viku en seinna voru þetta orðnir tveir dagar heima og tveir dagar í vinnu, eitthvað sem starfsfólkið kunni mun betur við,“ segir Guðrún og bætir við að hún hafi sérstaklega þurft að passa upp á tæknideildina, sem varð ávallt að vera á staðnum en húsnæðið sem betur fer rúmgott og hægt var að aðgreina þá deild í tvö aðskilin hólf.
Hóf skólagönguna í Hafnarfirði
Guðrún bjó í Hafnarfirði sem barn eða til átta ára aldurs og hóf skólagöngu sína í Engidalsskóla. Þá flutti hún ásamt fjölskyldu sinni til Seyðisfjarðar. „Ég er mjög mikill Seyðfirðingur í dag en man að ég var afar ósátt með að flytja úr Hafnarfirðinum sem barn og er viss um að ef við hefðum ekki flutt þá væri ég mjög mikill Hafnfirðingur í dag,“ segir Guðrún sem býr í vesturbænum en segir það sé gott að koma í vinnuna í Hafnarfjörðinn enda keyri hún oftast á móti umferðarþunganum.
Hún segir að Hafnarfjörður tali algjörlega til sín og er á því að hann geri það sérstaklega fyrir fólk utan af landi. „Nálægðin við sjóinn, höfnin, nærsamfélagið, miðbærinn og tilfinningin að hér sé þétt samfélag er eitthvað sem ég kann mjög vel að meta og skil vel að fólk sem ólst hér upp vilji búa hér áfram,“ segir Guðrún með bros á vör.
Góður félagsskapur mikilvægur
Guðrún fer reglulega til Seyðisfjarðar þar sem hún á hús og fjölskyldu og nýtur þess mjög að vera þar. Áhugamálin eru annars nokkuð mörg. „Ég er byrjuð að ganga á fjöll, fór á golfnámskeið síðasta sumar og hef einnig prófað laxveiði, en í öllu þessu finnst mér góður félagsskapur skipta ákaflega miklu máli,“ segir Guðrún að lokum og bætir við að þau fjölskyldan fari einnig gjarnan á skíði sérstaklega fyrir austan og þá séu þau nýbúin að eignast hund svo það er nóg um að vera á heimilinu.