Nýform

Húsgagnaverslunin Nýform á Strandgötunni er ein af elstu verslunum Hafnarfjarðarbæjar en hún fagnar 47 ára afmæli næstkomandi mánudag.

Við hittum Guðjón Ágúst Sigurðarson framkvæmdastjóra og einn af eigendum Nýforms til að kynnast versluninni.

nyform_stolar2.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Nýform er ein elsta verslun Hafnarfjarðar.

Fjölskyldufyrirtæki

Foreldrar Guðjóns þau Gróa Bjarnadóttir og Sigurður Guðjónsson opnuðu húsgagnaverslunina Nýform þann 8. mars árið 1974 á Strandgötu 4, þar sem nú er Mathiesen stofan. „Pabbi var húsgagnasmiður og hafði rekið verkstæði í mörg ár hér í Hafnarfirði en langaði að opna húsgagnaverslun þar sem hann gat selt sínar vörur, boðið upp á sérsmíði ásamt því að selja innflutt húsgögn. Verkstæðið rak hann samhliða verslunarrekstrinum í nokkur ár en ákvað síðan að einbeita sér að innflutningi,“ segir Guðjón sem sjálfur er alinn upp í Nýform og hefur unnið þar alla sína tíð.

Verslunin var lengst af á Reykjavíkurvegi 66 eða í heil 38 ár, frá 1978 til 2016 þegar hún kom aftur á Strandgötuna. Hún er í dag í eigu Guðjóns og tveggja systkina hans en hann er framkvæmdastjórinn og kemur mest að rekstrinum.

nyform7.jpg

Klassísk skandinavísk hönnun

Í Nýform má finna breiða línu af húsgögnum sem koma í dag flest frá Danmörku og Svíþjóð. „Við erum einna helst með þessa klassísku skandinavísku hönnun sem stendur alltaf fyrir sínu og er í raun nokkuð tímalaus. Við leggjum mikið upp úr því að vera með vandaða vöru á sanngjörnu verði og höfum gert það frá upphafi.“

Að hans sögn þá eru borðstofusett og sófasett vinsælust en Nýform selur einnig mikið af hvíldarstólum sem eru til í mjög mörgum útfærslum í versluninni sem og fallegar hágæða mottur. Viðskiptavinir koma víða af höfuðborgarsvæðinu en Guðjón sendir einnig mikið af vörum út á land og segir að ánægðir viðskiptavinir séu alltaf besta auglýsingin.

Aðspurður um sérstöðu Nýforms segir Guðjón að þetta sé lítið fjölskyldufyrirtæki, verslunin sé því ekki of stór, þar sé starfsfólk með áratuga reynslu og sjálfur sjái hann oft um að keyra vörur heim að dyrum til fólks, þeim að kostnaðarlausu.

nyform8.jpg

Skólainnréttingar

Nýform hefur í mörg ár einnig selt skólahúsgögn og -innréttingar og margir hafnfirskir skólar með innréttingar frá Nýform sem og skólar víðsvegar á landinu. Þá er ekki einungis átt við borð og stóla heldur sérinnréttingar fyrir heimilisfræði og náttúrufræði svo eitthvað sé nefnt.

„Við tökum alltaf þátt í útboðum fyrir skólahúsgögn og -innréttingar ef þau eru fyrir hendi,“ segir Guðjón en bætir við að þessi hluti rekstursins hafi þau eitthvað minnkað á undanförnum árum.

Áhrif Covid

Covid hefur haft lítil sem engin áhrif á rekstur Nýforms, ef eitthvað er þá voru þau frekar jákvæð. „Síðasta ár gekk mjög vel enda margir að huga að heimilinu og gera breytingar,“ segir Guðjón ánægður. Spritt og grímur sjá til þess að fólk hefur ekki veigrað sér við að koma inn í verslunina til að skoða og prófa að setjast í hvíldarstólana, sófana eða borðstofustólana.

Höfnin og hamarinn

Guðjón er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og hefur búið hér alla tíð, alltaf í Suðurbænum. Þegar hann er spurður hvað sé best við bæinn tekur hann sér tíma til að hugsa og nefnir að hann hafi nú ekki kynnst því að búa annars staðar enda finnist honum fínt að vera hér. „Ætli það sé ekki litli miðbærinn, fallegt umhverfi og sjórinn einna helst. Höfnin og hamarinn er eitthvað sem ég kann líka vel að meta en þaðan á ég margar góðar æskuminningar,“ segir Guðjón glettinn.

nyform9.jpg

Sumarbústaður og golf

Foreldrar Guðjóns keyptu land í Grímsnesinu fyrir um 30 árum og þar byggði fjölskyldan bústað. „Þetta var eitt af samvinnuverkefnum okkar allra en í dag eiga ég og systir mín bústaðinn og förum þangað mjög mikið enda stöðugt hægt að ditta að bústaðnum,“ segir Guðjón.

Þá spilar hann einnig mikið golf a sumrin, er í Setbergsklúbbnum og mætir þangað gjarnan snemma á morgnanna til að taka níu holur. Guðjón segir að þau hjónin séu líka aftur farin að ferðast töluvert innanlands, eitthvað sem þau gerðu mikið á árum áður. Nú sé golfsettið í skottinu og hjólhýsi í eftirdragi.