Kvennastyrkur

Líkamsræktarstöðin Kvennastyrkur á Strandgötunni leggur áherslu á meðgöngu- og mömmutíma ásamt almennri styrktar- og þolþjálfun og þaðan koma konur víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu.

Við hittum Sigrúnu Maríu Hákonardóttur, framkvæmdastjóra, þjálfara og eiganda Kvennastyrks til að kynnast starfseminni.  

kvennastyrkur2.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Í Kvennastyrk koma konur víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu.

Greip tækifærið

Kvennastyrkur opnaði í júlí síðastliðinn og stöðin er eins og nafnið getur til kynna einungis opin konum. Þar eru í boði 14 mismunandi námskeið, þar af sex meðgöngu- og mömmunámskeið og átta hefðbundin námskeið, öll kennd af tveimur þjálfurum. Þá má einnig finna þar fæðingafræðslunámskeið haldið af ljósmóður.

Sigrún hefur kennt almenna líkamsrækt í nokkur ár en segir að þegar hún varð sjálf ófrísk fyrir fjórum árum hafi hún áttað sig á því hversu mikið breytist í líkamanum á meðgöngu og eftir barnsburð og nauðsynlegt sé að gera sérstakar æfingar. „Ég fór að lesa mér til um þetta efni og ákvað í kjölfarið að skella mér í fjarnám í meðgöngu- og mömmuþjálfun frá Bandaríkjunum,“ segir Sigrún sem áður var búin að klára einkaþjálfaranám ásamt fleiri námskeiðum á sviði heilsuræktar.  

kvennastyrkur5.jpg

Eftir námið árið 2018 byrjaði hún með meðgöngu- og mömmutíma á líkamsræktarstöð í Garðabæ og urðu tímarnir fljótt afar vinsælir og langir biðlistar mynduðust. „Konurnar voru farnar að biðja um fleiri tíma heldur en ég gat boðið upp á og vildu gjarnan framhaldsþjálfun eftir mömmutíma. Ég áttaði mig þá á því að ég yrði bara að opna eigin stöð sem fyrst, grípa tækifærið,“ segir Sigrún sem segist þó hafa verið búin að safna pening og skipuleggja í töluverðan tíma áður en hún opnaði Kvennastyrk.

Áhugamálið að vinnu

Sigrún segir að hún hafi nefnilega alla tíð vitað að hún ætti eftir að fara út í eigin rekstur en vissi bara ekki hvað það yrði. Að hennar sögn var þjálfun meira áhugamál og fín vinna meðan hún var í háskóla, fyrst að læra viðskiptafræði og síðar meistaranám í náms- og starfsráðgjöf. Hún bjóst hins vegar aldrei við því að geta gert þjálfun að fullu starfi og sótti í öryggið sem hún taldi háskólanámið vera. „Ég lenti síðan í bílsslysi stuttu eftir útskrift úr háskólanum og þá varð fljótt ljóst að ég gæti ekki verið í starfi þar sem krafist er mikillar setu, ég þarf að vera á hreyfingu.“

Hún segir að háskólanámið hafi þó vissulega komið sér vel þegar hún ákvað að hefja rekstur, hún kunni að gera viðskipta- og rekstraráætlanir og markmiðasetning og fleira nýtist vel úr náms- og starfsráðgjöfinni.  

Jákvæð og uppbyggileg áhrif

Að sögn Sigrúnar var hún strax staðráðin í að stöðin yrði einungis fyrir konur. Það myndist annað andrúmsloft í svona kvennastöð og hún telur sig ná þannig frekar til hóps sem fer ekki gjarnan í hefðbundnar stöðvar. „Það skapast ákveðin sérstaða með þessu en svo hafa konur bara í gegnum tíðina verið minn helsti markhópur,“ segir Sigrún.

kvennastyrkur12.jpg

Í Kvennastyrk er lögð áhersla á að hafa þjálfunina hvetjandi, faglega og vandaða og markmiðið að ýta undir ákefðina og hvatann sem býr innra með öllum. „Þetta snýst ekki bara um útlit heldur innri líðan og hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif,“ segir Sigrún og bætir við að það sé mjög skemmtilegt að hingað komi konur alla leiðina frá Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ sem eru ákaflega góð meðmæli út af fyrir sig.

Bella og Flaska

Í Kvennastyrk má einnig finna litla verslun þar sem meðal annars má kaupa Bellu og Flösku, sérhannaðar vatnsflöskur af Sigrúnu. „Ég var aldrei nógu sátt við vatnsflöskur sem ég hafði kynnst og ákvað því bara að hanna mína eigin. Það verður að vera gott að halda utan um hana, þægilegt að opna og svo verður hún að líta vel út. Ég gaf flöskunum mínum líka nafn svo fólki þætti vænt um þær og væri duglegt að fylla þær aftur og aftur af vatni sem er svo mikilvægt,“ segir Sigrún ákveðin.

Í versluninni má einnig finna fótarúllur, kefli og rúllur sem hún flytur sjálf inn ásamt öðrum heilsuvörum. Dagbókin Ritleiðsla sem er nokkurs konar lífstílsbók eftir Sigrúnu verður síðan fáanleg í versluninni í mars. „Dagbókin er búin að vera hugmynd í fimm ár en ég hef verið að vinna í henni markvisst undanfarin tvö ár og nú styttist í útgáfuna,“ segir Sigrún stolt.

Áhrif Covid

Stöðin opnaði í miðjum heimsfaraldri og þurfti að loka tæplega þremur mánuðum eftir opnun. „Þetta var vissulega erfitt tímabil en ég ákvað að leggjast ekki í einhverja neikvæðni og einbeitti mér bara enn meira að fjarþjálfuninni, sem ég hef verið með í mörg ár, og lagði ég meiri áherslu á sölu á vörunum okkar,“ segir Sigrún sem vill meina að þarna sannaði það sig hversu gott að vera með fleiri en eina tekjuleið.

kvennastyrkur11.jpg

Um miðjan janúar opnaði Kvennastyrkur aftur og hefur verið nóg að gera síðan. Allir fá sitt hólf, engin deilir lóðum og áhöldum með öðrum og eftir tímann sótthreinsa og þrífa allir vel eftir sig. Að sögn Sigrúnar komast færri að í hverjum tíma en þess í stað eru fleiri tímar í boði til að koma í veg fyrir meira tekjutap.

Sigrún segir að Covid hafi einnig kennt henni hversu mikilvægt er að hafa góðan varasjóð í svona rekstri. Svartsýnasta tekjuáætlunin varð strax að veruleika í hennar tilfelli en hún var sem betur fer undir það búin.

Langt fram úr væntingum

Sigrún kann ákaflega vel við sig í Hafnarfirði. „Hér eru allir svo viðkunnanlegir og mér finnst eins bæjarfélagið sé ein stór fjölskylda,“ segir Sigrún brosandi og bætir við að hún geti vel hugsað sér að búa hérna í framtíðinni.

kvennastyrkur8b.jpg

Hún er smátt og smátt að kynnast fólkinu í fyrirtækjunum í nágrenninu og segist hafa fengið góðar viðtökur. Þá er hún nú þegar komin í samstarf við Skyr Factory í Firði sem veitir viðskiptavinum hennar afslátt. „Ég hafði í gegnum árin heyrt margt gott um Hafnarfjörð en er núna að upplifa bæinn á eigin skinni og hann fer langt umfram mínar væntingar.“

Njóta þess að vera

Eins og fram hefur komið þá er vinnan í raun áhugamál Sigrúnar og hún les mikið af einhverju uppbyggilegu og hlustar á hlaðvörp. Hún segist þó einna helst njóta þess í frítíma sínum að vera með fjölskyldunni. „Ég er með tvö lítil börn og annað á leiðinni og við litla fjölskyldan njótum þess að vera saman, stundum að baka, elda eða fara út að leika en svo er líka dásamlegt að hangsa og njóta þess bara að vera,“ segir Sigrún að lokum.