Uppi á Holti, nánar tiltekið á Melabrautinni, eru Hópbílar, rútufyrirtækið sem flestir kannast líklega við. Fyrirtækið hefur starfað í rúm 25 ár og leggur mikla áherslu á öryggi og umhverfismál.
Við hittum Pálmar Sigurðsson, skrifstofustjóra Hópbíla til að kynnast fyrirtækinu.
Úr flutningi á sandi og möl í fólksflutninga
Eigendur verktakafyrirtækisins Hagvirkis buðu árið 1991 í akstur strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu enda alla tíð verið að sjá um flutning, reyndar á sandi og möl en töldu sig einnig geta flutt fólk. Tilboðinu var tekið og í framhaldinu keypti fyrirtækið 18 vagna og fór að sjá um strætóakstur á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Hagvagnar. Stuttu seinna eða árið 1995 var fyrirtækið Hópbílar hf. stofnað af eigendum Hagvagna með kaupum á rótgrónu rútufyrirtæki af Pálma Larsen sem átti fyrir þrjár gamlar rútur. „Fjórir eigendur Hagvagna ráku fyrirtækið á upphafsárunum ásamt tveimur lykilstarfsmönnum sem urðu seinna meðeigendur. Árið 2006 tóku Gísli J. Friðjónsson og fjölskylda hins vegar alfarið yfir reksturinn og ráku það við góðan orðstír allt til ársins 2016 þegar fyrirtækið var selt fjárfestingasjóði HORN 3 á vegum Landsbréfa,“ segir Pálmar.
Hópbílar hafa alla tíð verið með aðsetur á Melabrautinni en hafa útvíkkað starfsemina þó nokkuð og eru því einnig með hús í Eyrartröð, götunni fyrir neðan, sem og á Selfossi, enda fyrirtækið og systurfyrirtækið Hagvagnar með um 200 bíla í heildina. „Við teygjum okkur yfir rúma tíu þúsund fermetra og erum alveg sjálfbærir með okkar eigin verkstæði sem sér um almennar viðgerðir, smurningu, réttingar, sprautun og alla rafmagnsvinnu, innflutning á varahlutum sem og þvott á öllum flotanum,“ segir Pálmar.
Hár starfsaldur og góður andi
„Hjá okkur snýst allt um að koma fólki á sína staði og á hverjum morgni, miðað við stöðuna í dag, leggja héðan um 115 bílar af stað út í daginn,“ en Hópbílar sjá í dag um skóla- og frístundaakstur fyrir Hafnarfjarðarbæ, akstur fatlaðra á Stór-Reykjavíkursvæðinu, utanbæjarakstur fyrir hönd Vegagerðarinnar, akstur fyrir starfsmenn Alcan og ýmsan annan akstur. Þá geta einnig fyrirtæki og einstaklingar fengið rútur leigðar hjá þeim fyrir stór eða lítil verkefni. Systurfyrirtækið Hagvagnar sér síðan um akstur hluta af leiðarkerfi Strætó Bs.
Það starfa 230 manns hjá allri samsteypunni í dag, það er Hópbílar, Hagvagnar, Hagvagnar þjónusta sem eru verkstæðin og Hvaleyrin fasteignafélagið. Fyrir COVID19 störfuðu þegar mest lét hins vegar 350 manns hjá þeim. „Ég er búin að starfa hér í næstum 20 ár og margir, sérstaklega á skrifstofunni og verkstæðunum, með ansi háan starfsaldur enda góður starfsandi og því ljóst að fólki líður vel hjá okkur,“ segir Pálmar.
Öryggi og umhverfismál í forgrunni
Hópbílar leggja mikla áherslu á öryggis- og umhverfismál. „Við höfum ætíð gert umhverfis- og öryggisvernd hátt undir höfði í starfsemi okkar samanber það að árið 2003 vorum við með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001,“ segir Pálmar stoltur og bætir við að reksturinn sé tekinn út tvisvar á ári til að standast strangar kröfur staðalsins og því nauðsynlegt að standa sig. Árið 2014 var jafnframt innleitt vottað öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóða staðlinum OHSAS 18001 hjá fyrirtækinu.
Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina ávallt verið duglegt að endurnýja bílaflotann enda menga nýir bílar minna og eru öruggari. „Sem dæmi um virka umhverfis-og öryggismeðvitund voru Hópbílar búnir að setja öryggisbelti í allar sínar rútur þremur árum áður en það varð skylda samkvæmt lögum,“ að sögn Pálmars, en hann ítrekar jafnframt að upplýsingagjöf, þjálfun og fræðsla starfsmanna sé afar mikilvæg og skili sér margfalt til baka, en bílstjórarnir þeirra leggja mikið upp úr góðakstri sem er bæði umhverfisvænni og öruggari.
Þá gerðu Hópbílar samning við Kolvið fyrir tveimur árum til að kolefnisjafna reksturinn og hafa að sögn Pálmars gróðursett heilan skóg eða 18.600 tré.
Áhrif Covid
Pálmar segir að Hópbílar komi betur út úr Covid heldur en margir aðrir í þessum bransa þar sem einungis um 20% af rekstrinum sé tengdur almennri ferðaþjónustu. „Þetta hefur samt vissulega verið skrýtinn og strembinn tími þar sem við höfum stöðugt verið að aðlaga okkur nýjum sóttvarnarreglum,“ segir hann og bætir við að síðan hafi sem dæmi frá einum degi til annars ýmiss fastur akstur samanber skólaakstur lagst niður tímabundið. Hann segir að fá úrræði stjórnvalda hafi náð til þeirra en sé samt nokkuð ánægður með hvernig stjórnvöld hafa brugðist við þó alltaf megi gera betur.
Ánægður með fjölgun veitingastaða í bænum
Pálmar hefur alla tíð búið í Hafnarfirði og honum þótti ákaflega gott að alast hér upp. „Þetta var lítið og kósý bæjarfélag. Maður lék sér í hrauninu, fjörunni, uppi á Hamri og var fljótt kominn upp í sveit,“ segir Pálmar sem var einnig ánægður með félags- og íþróttalífið sem var einstaklega öflugt og hann tók mjög virkan þátt í.
Hann segir að það hafi vissulega margt breyst, bærinn stækkað mikið en er þó á því að hér sé enn viss kjarni og góð bæjarstemmning. Þá finnst Pálmari hafa orðið mjög jákvæð breyting á undanförnum árum með t.d. fleiri veitingastöðum. „Það er frábært að geta haft það huggulegt í mat og drykk og síðan bara labbað heim,“ segir Pálmar með bros á vör.
Hættur að dripla eða henda bolta
Aðspurður hvað hann geri þegar hann sé ekki í vinnu glottir hann og segist vinna frekar mikið enda líði honum full vel þegar hann hefur mikið fyrir stafni. Hann fylgist annars nokkuð vel með flestum íþróttum en sé alveg hættur að dripla eða henda bolta. „Góður matur og góð bíómynd er eitthvað sem ég kann vel að meta. Síðan eru það góðar gönguferðir sem við konan eigum með hundinum okkar og svo er golfið reyndar búið að vera lengi á dagskrá hjá okkur“ segir Pálmar að lokum.