VSB verkfræðistofa
Verkfræðistofan VSB á Bæjarhrauninu er rótgróið hafnfirskt fyrirtæki sem hefur komið að mörgum verkum í gegnum tíðina, bæði í Hafnarfirði sem og víða um land og einnig utan landsteinanna.
Við hittum Hjört Sigurðsson, framkvæmdastjóra VSB til að kynnast rekstrinum.
Verkfræðistofan VSB á Bæjarhrauninu er rótgróið hafnfirskt fyrirtæki sem hefur komið að mörgum verkum í gegnum tíðina, bæði í Hafnarfirði sem og víða um land og einnig utan landsteinanna.
Við hittum Hjört Sigurðsson, framkvæmdastjóra VSB til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Verkfræðistofan VSB er rótgróið hafnfirskt fyrirtæki.
Rótgróið hafnfirskt fyrirtæki
VSB rekur sögu sína allt aftur til ársins 1987 og fagnaði 34 ára afmæli þann 1. apríl síðastliðinn. Fyrstu árin starfaði hún undir nafninu Verkfræðistofa Stefáns og Björns en fékk heitið VSB verkfræðistofa haustið 1996. Í upphafi var stofan í eigu Stefáns B. Veturliðasonar og Björns Gústafssonar sem báðir starfa enn fyrir VSB. Í dag eru eigendurnir hins vegar orðnir tólf talsins, allt starfsfólk VSB og Stefán þar á meðal.
„Ég tók við framkvæmdastjórastöðunni fyrir einu ári eftir að hafa verið verið aðstoðarframkvæmdastjóri í tvö ár. Stefán hafði alla tíð verið framkvæmdastjóri en taldi kominn tíma til að hleypa öðrum í þann stól,“ segir Hjörtur en ítrekar að Stefán sé með sitt skrifborð hinum megin við vegginn og hann geti ávallt leitað til hans. Að mati Hjartar er VSB afar rótgróið hafnfirskt fyrirtæki. Það var fyrstu árin á Reykjavíkurvegi en verið á Bæjarhrauninu allt frá árinu 1992 og margir starfsmenn sem búa í bænum.
Margþætt þjónusta
Verkefnin hafa aukist jafnt og þétt í gegnum árin og í dag starfa 33 sérfræðingar hjá fyrirtækinu en verða vonandi 35 innan skamms þar sem verið er að auglýsa eftir tveimur nýjum starfsmönnum. „Flestir starfsmenn eru tæknifræðingar eða verkfræðingar en hér starfa einnig tækniteiknarar sem og iðnfræðingar og margir hverjir með aðra iðnmenntun í grunninn,“ segir Hjörtur.
Þjónustan sem VSB veitir er afar margþætt og verkefnin fjölbreytt. Kjarni starfseminnar er þó verkfræðiráðgjöf við verklegar framkvæmdir. „Við leiðum viðskiptavini í gegnum verkefni, veitum þeim ráðgjöf allt frá því að hugmynd verður til þangað til mannvirkið er fullunnið og þá reyndar sjáum við oft í framhaldinu um ýmsa þjónustu er tengist viðhaldi og eftirliti.“
Fyrirtækinu er því skipt upp í sex starfssvið og yfir hverju sviði er sérhæfður fagstjóri. Stærsta sviðið er byggingasvið sem sér um allt sem þarf til að hanna hús, s.s. burðavirki, rafkerfi og lagna- og loftræsikerfi. Þá er byggðatæknisvið sem sér um allt sem viðkemur hönnun gatna, vega og veitna, framkvæmdasviðið sér um byggingastjórnun og eftirlit með framkvæmdum síðan eru þrjú önnur svið sem eru þróunarsvið, fasteignaþjónustusvið og að lokum mælingar.
Sólvangur, Ásvallabraut og Hamranes
VSB tekur reglulega þátt í útboðum, einna helst hér á suðvesturhorninu en hafa einnig tekið að sér verk víðs vegar um landið sem og út í heimi í gegnum tíðina. „Við erum þessa dagana með eitt verk á Akureyri en vorum sem dæmi einnig að vinna verkefni í Karachi í Pakistan fyrir nokkrum árum,“ segir Hjörtur.
Stærstu kaupendurnir eru fasteignafélög og sveitarfélög og hefur stofan meðal annars unnið mörg verkefni fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þar á meðal er nýi Sólvangur þar sem þau sá um byggingastjórn og þessa dagana er verið að hanna nýtt tæknikerfi í gamla Sólvang. Þá sjá þau um gatnahönnun við nýju Ásvallabrautina og í nýja hverfinu við Hamranes sér VSB um hönnun gatna og fráveitu.
Önnur stór verkefni sem VSB hefur verið að vinna við að undanförnu er nýbygging Landsbankans þar sem stofan eru með umsjón með hönnun og annast framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. „Okkar hlutverk er sem sagt að tryggja að gæðin hjá verktökunum séu í lagi, halda utan um fjármál byggingarinnar og vera með almennt eftirlit,“ segir Hjörtur. Þá eru VSB einnig að veita ráðgjöf í vissum verkþáttum við byggingu nýja Landspítalans.
Hugsa, reikna og teikna
Aðspurður um hvernig venjulegur dagur flestra á verkfræðistofu sé segir Hjörtur að þetta sé mikil tölvuvinna. „Ég sem dæmi sit mikið við tölvuna þar sem ég hugsa, reikna og teikna. Þá eru fundir með samstarfsaðilum s.s. arkitektum, verktökum og öðrum verkfræðistofum einnig hluti af starfinu.“ Hann bætir við að starfsfólk hans á framkvæmdasviðinu sé meira úti á verkstað í skóm með stáltá í gulu vesti og gjarnan með með 360 gráðu myndavélar og ganga úr skugga um að allt sé eins og til sé ætlast. Þá séu ýmsar græjur til svo sem loftflæðismælar, hitamyndavélar og dróni sem mælingarmaður þeirra notar við að taka loftmyndir.
Áhrif Covid
Að sögn Hjartar hefur stofan ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum fjárhagslega vegna Covid en vissulega hafi faraldurinn haft mikil áhrif á daglegt líf á vinnustaðnum. Skrifstofunni hefur verið skipt upp í tvö sóttvarnarhólf og margir hafa verið að vinna heima.
„Það hefur verið mikið að gera undanfarið ár en það hafði verið nokkur samdráttur í faginu rétt áður en Covid byrjaði, höggið var því í raun komið. Það fór hins vegar allt á fleygiferð þegar vextir lækkuðu og margir ákváðu að fara í framkvæmdir,“ segir Hjörtur. Hann telur annars að fjölgun fjarfunda og viðhorf til þeirra sé visst tækifæri fyrir svona starfsemi þar sem áhrifasvæðið stækkar og einfaldara verði að sækja í verk lengra í burtu.
Best við Hafnarfjörðinn
Hjörtur segir að það sé ákaflega gott að starfa í Hafnarfirði, hann sé fljótur í vinnuna enda alltaf á móti umferð, komandi úr Reykjavík. „Mér finnst Hafnarfjörður vera afar fallegur bær, sérstaklega gamli bærinn og höfnin og síðan er stutt í náttúruna sem ég nýti gjarnan til útivistar. Ég gæti því vel hugsað mér að búa hér,“ segir Hjörtur aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn. Hann bætir síðan við að hjá VSB vinni margir Hafnfirðingar og það sé allt mjög gott fólk.
Hannar eigin lampa
Þegar Hjörtur er ekki í vinnunni nýtur hann þess að vera með fjölskyldunni sem og stunda útivist. Hann fer mikið í fjallgöngur, er á fjallahjóli, hleypur og gengur og segir að náttúran veiti honum orku. „Ég hef í frítíma mínum einnig verið að hanna og smíða lampa úr við, lampa með marga fleti sem ég kalla fjölflötunga,“ segir hann með bros á vör og sýnir einn flottan sem prýðir skrifstofuna.
Lögvík
Lögmannsstofan Lögvík á Reykjavíkurveginum tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu.
Við hittum Guðmundínu Ragnarsdóttur, lögmann og eiganda Lögvíkur til að kynnast rekstrinum.
Lögmannsstofan Lögvík á Reykjavíkurveginum tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu.
Við hittum Guðmundínu Ragnarsdóttur, lögmann og eiganda Lögvíkur til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Lögvík tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu
Einyrkjum fjölgar
Lögvík er rétt rúmlega tíu ára, var stofnuð árið 2010 og Guðmundína eigandi og eini starfsmaðurinn. Hún hefur þó starfað sem lögmaður í 20 ár og áður en hún stofnaði Lögvík vann hún á öðrum lögmannsstofum og var meðal annars meðeigandi á einni. „Það hefur ýmislegt breyst í lögmannsstéttinni undanfarin ár, sérstaklega eftir að bankarnir fóru sjálfir að sjá um innheimtu á eigin kröfum sem lögmenn sáu áður um. Það eru nú færri stórar lögmannsstofur og margir lögmenn sem starfa sem einyrkjar líkt og ég,“ segir Guðmundína. Hún deilir þó skrifstofuhúsnæði með öðrum lögmönnum og segist eiga í góðu og nánu samstarfi við þá sem sé ákaflega mikilvægt. „Við erum allar metnaðarfullar og tilbúnar að hjálpa hvor annarri, spegla hugmyndir og rökræða.“
Mikil fjölbreytni
Lögvík tekur að sér alla almenna lögfræðiþjónustu en Guðmundína segist vera mikið í fasteignalögfræði sem snertir fjöleignarhús, galla, vandefndir og byggingastjóraábyrgð ofl. en vinni einnig við innheimtur, skiptastjórn þrotabúa og dánarbúa, erfðamál, bótamál, verjendastörf, réttargæslu, skilnaðar- og forsjármál og barnaverndarmál svo eitthvað sé nefnt. „Starfið er því afar fjölbreytt og krefst oft mikillar yfirseta. Ég sem til dæmis afskaplega mikið af textum s.s. stefnur, greinargerðir, kærur, matsbeiðnir og alls kyns kröfugerð.“
Guðmundína hefur jafnframt langa reynslu af málflutningsstörfum í héraðsdómi þar sem hún hefur flutt á annað hundrað mál. „Sum þessara mála hef ég unnið en önnur ekki en mál enda oft með sátt líka. Ég er ákaflega glöð þegar mál enda vel fyrir umbjóðendur mína en þegar tveir deila geta mál vissulega farið á báða vegu,“ segir hún.
Samkeppni meðal lögmanna
Viðskiptavinir Lögvíkur eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög. Samkvæmt Guðmundínu eru flestir umbjóðendur hennar þó einstaklingar en hún hefur einnig starfað fyrir nokkur fyrirtæki í fjölda ára. „Ég er einnig skipaður skiptastjóri þrotabúa og t.d. til varnar eða sóknar í lögræðismálum. Það eru þá dómarar sem skipa lögmenn, en þar er mikil samkeppni um verkefnin og mikilvægt að minna stöðugt á sig“, segir Guðmundína og bætir við að hún þurfi líka reglulega að minna á sig hjá lögreglunni sem bendir grunuðum á lögmenn.
Sem einyrki gengur hún annars í öll störf Lögvíkur. „Ég er ritari, bókari, sendisveinn og lögmaður allt í senn auk þess að leita að nýjum viðskiptavinum.“
Áhrif Covid
Í fyrstu bylgju Covid var starfsemi Lögvíkur í hægagangi, mörgum málum var frestað í héraðsdómi og önnur mál stöðvuðust. Guðmundína segir að starfið einkennist þó almennt af miklum sveiflum í tekjum og vinnutörnum en þetta hafi verið óvenju sveiflukennt í fyrra sökum Covid, afar rólegt vor en mjög mikið að gera um haustið. „Ég gat þó sem betur fer alltaf mætt á skrifstofuna enda fámennur vinnustaður og hver og einn með sína skrifstofu,“ segir Guðmundína og bætir við að fjarfundum hafi einnig fjölgað til muna og nú sé sem dæmi kominn fjarfundarbúnaður í dómstóla sem hefur reynst vel og á örugglega eftir að vera notaður meira í framtíðinni.
Einn fallegasti bær landsins
Guðmundína lítur á sig sem Hafnfirðing enda gekk hún í Lækjarskóli og Flensborg, æfði handbolta með FH og bjó í Hafnarfirði stærstan hluta ævinnar, en læddist yfir bæjarmörkin fyrir fimm árum og býr nú í Urriðaholtinu. „Mér finnst Urriðaholtið eiginlega vera framhald af Setberginu og ég sæki flesta þjónustu í Hafnarfjörðinn,“ segir hún og brosir.
Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörð segir hún: „Þetta er mjög notalegur bær, þægileg stærð, auðvelt að komast um og oftast ekkert vesen með bílatæði. Hafnarfjörður er líka einn fallegasti bær landsins og hér er mikil veðursæld.“
Golf og útilegur
Þegar Guðmundína er ekki að sinna lögmannsstörfum fer hún gjarnan í golf og er forfallin útilegugeit. „Ég spila ekki bara golf heldur hef ég einnig starfað mikið fyrir GSÍ, er formaður aganefndar þar og einnig í klúbbnum mínum Oddi,“ segir Guðmundína sem segist líka fylgjast mikið með íþróttum, horfi á fótbolta og handbolta. Þá nýtur hún þess að verja tíma með börnum sínum og ættingjum og eiga gæðastundir í góðra vina hópi.
Lóðalausnir
Hellulagnir, hleðsla, jarðvinna, útplöntun, þökulagningar, trjáklippingar, trjáfellingar, beðahreinsun og garðsláttur eru meðal verka sem garðyrkjufyrirtækið Lóðalausnir sinnir.
Við hittum Ragnar Stein Guðmundsson, skrúðgarðyrkjumeistara og eiganda Lóðalausna til að kynnast rekstrinum.
Hellulagnir, hleðsla, jarðvinna, útplöntun, þökulagningar, trjáklippingar, trjáfellingar, beðahreinsun og garðsláttur eru meðal verka sem garðyrkjufyrirtækið Lóðalausnir sinnir.
Við hittum Ragnar Stein Guðmundsson, skrúðgarðyrkjumeistara og eiganda Lóðalausna til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Hellulagnir, þökulagningar, trjáklippingar, beðahreinsun og garðsláttur eru meðal verka sem Lóðalausnir sinna.
Grátt og grænt
Lóðalausnir var stofnað á vormánuðum árið 2009 en þá hafði Ragnar verið að vinna í hellulögnum og lóðafrágangi í nokkur ár og ákvað að fara í Landbúnaðarháskólann og læra skrúðgarðyrkju. „Ég var hálfnaður með námið þegar ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki sem hefur síðan gengið nokkuð vel,“ segir Ragnar sem var fyrst um sinn eini starfsmaðurinn og sótti um allt sem bauðst og var stundum undirverktaki í stærri verkum. Í dag eru starfsmenn Lóðalausna þrír yfir allt árið en þeim fjölgar í sjö eða átta yfir sumartímann en þá er teymi starfandi sem sér um garðaumhirðu fyrir einstaklinga, húsfélög og fyrirtæki.
Lóðalausnir annast fjölbreytt verkefni sem tengjast görðum og lóðum en sérsvið þeirra er þó einna helst lóðafrágangur, hellulagnir og endurnýjun garða og bílaplana. „Í mínu fagi tölum við um grá og græn verk og er þá átt við hellulagnir og gróður,“ segir Ragnar og bendir á litina í merki Lóðalausna sem eru einmitt grænn og grár þar sem fyrirtækið tekur að sér verkefni allt frá hellulögnum í beðahreinsun.
Vönduð vinnubrögð
Stór hluti verka sem Lóðalausnir hafa verið að vinna í undanfarin ár eru í Hafnarfirði. „Mér finnst afar þægilegt að þurfa ekki að keyra langt og legg því töluvert upp úr því að fá verkefni hér í Hafnarfirði og nærsveitum og hefur það gengið vel,“ segir Ragnar sem sá meðal annars um frágang lóðar fyrir utan Hafrannsóknarstofnun síðasta sumar sem og lóðina fyrir utan Kaplakrika fyrir nokkrum árum.
Þá hefur hann tekið ansi margar gamlar lóðir í bænum, sem máttu muna fíl sinn fegurri, í gegn og segir að það sé oft skemmtilegasta vinnan enda skynji hann þá einna best ánægju og þakklæti viðskiptavina, sem er stór hluti af því að gera starfið ánægjulegt.
Ragnar leggur annars mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum og segist vilja koma að flestum verkum sjálfur. „Ég passa upp á að hafa starfið viðráðanlegt og taka ekki að mér of mörg verkefni og stækka þannig fyrirtækið. Það hafa vissulega verið tækifæri til þess, en ég óttast að það gæti þá komið niður á gæðum,“ segir Ragnar sem er í raun fullbókaður næstu mánuðina, allavega í verkefnum sem snúa að frágangi og endurgerð lóða en getur bætt við sig litlum verkum eins og slátt og garðahreinsun.
Einfaldleiki og stærri hellur
Aðspurður hvort það sé mikil þróun í þessu geira segir Ragnar að í seinni tíð séu stærri hellur vinsælli og í raun einfaldleiki. Flestir vilji ekki of marga liti og kjósa að hafa allt frekar stílhreint og þá sé nokkuð um að farið sé að blanda saman timbri og grjóti. Það sem hafi þó breyst á undanförnum árum eru betri verkfæri sem hann og hans starfsfólk geti nýtt sér, sérstaklega í hellulögnum.
Það er ekki úr vegi að spyrja hvort hann eigi sér eitthvað uppáhalds tré og þá stendur ekki á svari. „Koparreynir er uppáhalds tréið mitt og ég var svo heppinn að þegar ég flutti inn í húsið mitt var einn fallegur nú þegar í garðinum.“
Aukin eftirspurn í Covid
Á Covid tímum eru margir í framkvæmdahug og vilja gjarnan fegra í kringum húsin sín. Það hefur því verið nóg að gera hjá Lóðalausnum og eftirspurnin verið meiri en þeir hafa geta sinnt. „Ég hef því miður þurft að hafna nokkrum verkum en þó hefur þetta góða veðurfar að undanförnu hjálpað til við að klára verk sem annars hefðu dregist inn á vorið eða sumarið,“ segir Ragnar ánægður.
Lítill stór bær
Ragnar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og mið- og suðurbærinn er hans staður. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann að þetta sé einhvern veginn lítill bær þrátt fyrir að vera stór. „Hér er einhver smábæjarfílingur sem ég kann vel við, menn með viðurnefni og allir þekkja alla.“
Þá segir Ragnar að hann leggi sig fram við að sækja alla þjónustu hér enda sé allt til alls í bænum og þá er hann sérstaklega ánægður með veitingastaðina sem hafa bæst í flóruna undanfarin ár.
Heimakær fjölskyldumaður
Þegar Ragnar er ekki í vinnunni nýtur hann þess fyrst og fremst að vera með fjölskyldunni og segist vera afar heimakær. „Við förum gjarnan saman á skíði á veturna sem og í sólarlandaferð þar sem ég tek mitt frí síður á sumrin enda þá mest að gera hjá Lóðalausnum,“ segir Ragnar.
Hann er einnig tíður gestur á leikjum í Kaplakrikanum, bæði í handbolta og fótbolta og fjölskyldan fer oft öll saman á fótboltaleiki. Þá er Ragnar stuðningsmaður Liverpool og fór með alla fjölskylduna á Anfield í janúar 2019 þar sem þau hittu Klopp og Salah rétt fyrir leik á hótelinu og synirnir fengu mynd af sér með þeim báðum.
Álfagull
Í Álfagulli á Strandgötunni má finna gersemar og dýrgripi sem álfar hafa valið af kostgæfni að sögn Jóhönnu Ploder eiganda verslunarinnar.
Við hittum Jóhönnu til að kynnast þessa litla fallega fjölskyldufyrirtæki.
Í Álfagulli á Strandgötunni má finna gersemar og dýrgripi sem álfar hafa valið af kostgæfni að sögn Jóhönnu Ploder eiganda verslunarinnar.
Við hittum Jóhönnu til að kynnast þessa litla fallega fjölskyldufyrirtæki.
Fyrirtæki vikunnar
Í Álfagulli má finna gersemar og dýrgripi sem álfar aðstoða við að velja
Tvinnaskúffa úr Einarsbúð
Álfagull var opnuð í nóvember 2016 og fagnar því fimm ára afmæli í lok ársins. Jóhanna er löggiltur leigumiðlari og starfaði í bankageiranum í mörg ár en ákvað að venda kvæði sínu í kross og gera eitthvað allt annað. „Mig langaði að breyta um gír, gera eitthvað gott fyrir sálina og velja fallega hluti,“ segir Jóhanna þegar hún er spurð um tilkomu Álfagulls.
Þegar hún sá að fallega húsnæðið við Strandgötu 49 væri laust var ekki aftur snúið og Jóhanna tók það á leigu. Verslunin er staðsett í gömlu Einarsbúð sem er elsta verslunarhúsnæði miðbæjarins. Líklegt er að einhverjir upplifi smá nostalgíu í versluninni þar sem hluti innréttinga eru upprunalegar enda friðaðar. Þá sýnir Jóhanna okkur gamla tvinnaskúffu sem var í Einarsbúð á árum áður sem hún sá auglýsta til sölu á netinu rétt eftir að verslunin opnaði og var fljót að kaupa. „Við getum reyndar ekki notað skúffurnar en þær og saga þeirra er bara svo falleg.“
Töfrar álfanna svífa um
Í Álfagulli er mikið og breytt úrval af gjafavöru, blanda af þekktum vörumerkjum og fallegum vörum sem búðin flytur inn sjálf. „Við leggjum mikið upp úr því að hér sé hægt að finna gjafir fyrir alla, konur, karla, börn og unglinga,“ segir Jóhanna og bætir við að þá sé afar mikilvægt að fólki þyki gaman að koma í búðina, það á að vera upplifun. Jóhanna stendur mikið vaktina sjálf ásamt Heidi systur sinni og segir að það hafi lengi verið draumur þeirra systra að vinna saman. „Við erum ekki bara systur heldur bestu vinkonur.“
Álfagull merkir gull og gersemar álfa og Jóhanna vill meina að þeir leiðbeini henni við val á gersemum og dýrgripum inn í búðina. Þar á meðal eru vörur fyrir ungabörn eins og hringlur, smekkir og púsl, fallegir húsmunir og skartgripir en einnig töluvert sem heillar karlmenn sérstaklega svo sem leðursvuntur, grilltöskur, viskíglös og sixpensarar. Þá fékk verslunin einnig tóbakssöluleyfi nýverið og selur handvafða vindla. „Ég reyni að vera dugleg að finna aðeins öðruvísi hluti þó ekki í miklu magni og er viss um að töfrar álfanna svífi hér um og geri búðina sérstaka og notalega.“
Gengur í öll verk
Í svona rekstri er að mati Jóhönnu mikilvægt að geta gengið í sem flest verk sjálfur. „Ég panta inn allar vörur, afgreiði, sé um reikninga og launagreiðslur og skúra líka,“ segir hún og bætir við að fjölskylda hennar leggi oft hönd á plóginn. Dagmar, dóttir hennar starfar í búðinni með skóla, Magnús, maður hennar, sér um bókhaldið og setti upp netverslunina þeirra sem opnaði í lok síðasta árs. Það tók þó samkvæmt Jóhönnu nokkuð langan tíma að koma netversluninni í loftið þar sem þau gerðu þetta allt sjálf en tókst að lokum. Viðtökurnar við henni hafa verið fínar en mikið er um að fólk skoði fyrst á netinu en komi svo í búðina til að kaupa hlutinn. Ef keypt er á netinu keyrir Álfagull frítt heim að dyrum innan Hafnarfjarðar og Garðabæjar fyrir þá sem það vilja.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Jóhanna að verslunin hafi ávallt verið opin, stundum hafi þó lítið sem ekkert verið að gera. Sumir voru smeykir við að kíkja inn þrátt fyrir grímur og spritt en þá hafi verið fínt að vera líka með vefverslun. „Það hefur annars verið lítið um stórafmæli, fermingar og brúðkaup. Allt viðburðir sem eru mikilvægir í okkar rekstri,“ segir Jóhanna en bætir við að jólin hafi aftur á móti gengið ákaflega vel og samdrátturinn því verið töluvert minni á síðasta ári en hún var byrjuð að búa sig undir.
Hafnfirðingar svo smekklegir
Jóhanna hefur búið í Hafnarfirðinum undanfarin ár og kann ákaflega vel við sig hér. „Ég var líka mjög mikið í Hafnarfirði sem barn en pabbi minn, Hans Ploder, var í 40 ár stjórnandi lúðrasveitar Hafnarfjarðar og við fjölskyldan tengdumst því bænum miklum vinaböndum.“
Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax ákveðin Strandgatan og miðbærinn. Bætir síðan við veitingastaðirnir og kaffihúsin sem að hennar mati skapa vissa stemmningu í miðbænum. „Hafnfirðingar eru líka svo smekklegir og duglegir að versla í heimabyggð, standa saman og styðja hvorn annan,“ segir Jóhanna sem er greinilega afar ánægð með bæinn.
Mótórhjól og línuskautar
Þegar Jóhanna er ekki að sinna Álfagulli nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni en hún og maðurinn hennar eiga samanlagt sjö börn og tíu barnabörn. „Við erum nokkuð dugleg að vera saman, eldum, berum fallega fram og njótum.“
Þá keyrir Jóhanna gjarnan um á mótorhjóli sem hún hefur gert allt frá 14 ára aldri og segir að þau systkinin séu öll á mótorhjóli fyrir utan eina systurina. Jóhanna lætur ekki mótorhjólið duga heldur rennir hún sér einnig gjarnan á línuskautum og hefur í gegnum tíðina oft ferðast þannig til og frá vinnu. „Fyrir nokkuð mörgum árum voru dóttir mín og bróðursonur að byrja að vera á línuskautum og ég fékk þau til að kenna mér. Fljótlega var ég síðan farin að stinga þau af og lét einnig hundinn oft draga mig áfram sem var mjög skemmtilegt,“ segir Jóhanna að lokum.
Atlantsolía
Atlantsolía, litla olíufélagið sem hleypir reglulega lífi í samkeppni á olíumarkaðnum, er með aðsetur á Lónsbrautinni.
Við hittum Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra til að kynnast fyrirtækinu.
Atlantsolía, litla olíufélagið sem hleypir reglulega lífi í samkeppni á olíumarkaðnum, er með aðsetur á Lónsbrautinni.
Við hittum Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra til að kynnast fyrirtækinu.
Fyrirtæki vikunnar
Atlantsolía er litla olíufélagið sem hleypir reglulega lífi í samkeppnina.
Úr skipaflutning í olíusölu
Atlantsolía var stofnuð í júní 2002 af þeim Brandon C. Rose og feðgunum Guðmundi Kjærnested og Símoni Kjærnested sem voru þá eigendur Atlantsskipa og fannst olíuverð einfaldlega of dýrt hér á landi. Guðmundur og Brandon kynntust í háskóla í Bandaríkjunum en fengu Símon föður Guðmundar með sér í reksturinn en hann var sá eini af þeim búsettur hér á landi.
„Í upphafi var ætlunin að vera bara á skipamarkaði en síðan var eina bensínstöðin á landinu í einkaeigu til sölu á Kársnesinu og ákveðið að kaupa hana og fara í kjölfarið inn á almenna neytendamarkaðinn,“ segir Guðrún. Fljótlega opnaði Atlantsolía bensínstöð á Sprengisandi, á Óseyrarbrautinni hér í Hafnarfirði, á Bíldshöfðanum, Skeifunni, í Njarðvík og stuttu seinna í Kaplakrika. Árið 2007 voru stöðvarnar orðnar ellefu en í dag eru þær alls 25, þar af 18 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og sjö stöðvar á landbyggðinni.
Hleyptu lífi í samkeppnina
Allt frá upphafi var stefna Atlantsolíu að selja eldsneyti á sem lægstu verði og á einfaldan hátt, vera eingöngu með litlar ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar með sem minnstu umhverfisáreiti. Þá var fyrirtækið fyrst til að bjóða afslætti til einstaklinga og vera með dælulykla, tölvupóstkvittanir og aðgang að þjónustusvæði dælulykils. „Ég held að Atlantsolía hafi strax sett svip sinn á markaðinn, breytt honum mjög fljótt og hleypt lífi í samkeppni á olíumarkaði landsins sem hafi verið lítil sem engin áður,“ segir Guðrún ákveðin enda fyrirtækið einbeitt í því að selja einungis bensín og olíu.
Atlantsolía er með þrjá tanka á birgðastöðinni við Óseyrarbraut en einu sinni í mánuði leggst olíuskip við höfnina hér í Hafnarfirði og fyllir á tankanna en samkvæmt Guðrúnu fá öll olíufélög á Íslandi birgðir frá Equinor í Noregi og því allir að selja svo til sömu vöruna.
Harður bransi
Að mati Guðrúnar er olíubransinn mjög harður en litla olíufyrirtækið í Hafnarfirði standi alltaf í lappirnar. „Koma Costco inn á markaðinn fyrir nokkrum árum hafði sitt að segja í samkeppninni en við, minnsta félagið á markaðinum, ákváðum að svara þeim hressilega með því að gera stöðina okkar í Kaplakrika að afsláttarlausri stöð þar sem allir fengu sama góða verðið,“ segir Guðrún en það tók hin olíufélögin heilt ár að gera slíkt hið sama.
Í kjölfarið á þessum breytingum á markaði þurfti Atlantsolía að ráðast í gagngerar breytingar fyrir rúmum tveimur árum þar sem taka þurfti margar djarfar ákvarðanir. „Við fórum í mikla hagræðingu, breyttum og einfölduðum skipurit, endurskoðuðum alla ferla, sameinuðum þjónustu- og sölusvið, úthýstum verkefnum og fækkuðum því starfsfólki umtalsvert. Það þurfti að lækka kostnað en á sama tíma þó auka tekjur,“ segir Guðrún en í dag eru tíu starfsmenn hjá Atlantsolíu þar af sex konur.
Yngst og eina konan
Guðrún hóf sjálf störf hjá Atlantsolíu árið 2006 sem aðstoðar fjármálastjóri, þá þrítug að aldri, en tók síðan við starfi framkvæmdastjóra árið 2008. „Ég er þaulsetnasti olíuforstjórinn á Íslandi í dag og er yngst og eina konan og jafnframt eina konan sem hef nokkurn tíman sinnt álíka starfi hér á landi,“ segir Guðrún.
Hjá Atlantsolíu er starfsaldur annars alla jafna mjög hár, sex af þeim tíu sem starfa þar í dag eru búin að vera í yfir 12 ár. „Hér er afar góður kjarni, lítil starfsmannavelta og helmingurinn Hafnfirðingar,“ segir Guðrún og brosir.
Áhrif Covid
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðrún að þau kvarti ekki og í raun hafi bara gengið nokkuð vel. Í fyrri bylgjunni féll salan um 35% eftir að hertar samkomutakmarkanir tóku gildi en heildarminnkun í sölu í mars og apríl var um 15% frá sömu mánuðum árið áður. Sumarið hafi aftur á móti gengið mjög vel, einhver söluminnkun verið í haust en heildarsala ársins 2020 var sú sama og árið 2019. „Okkar viðskiptavinir eru flestir búsettir á Íslandi og voru margir duglegir að ferðast um á bílnum í sumar. „Við höfum ekki verið stór á túristamarkaðnum og því hafði fækkun ferðamanna ekki mikil áhrif hjá Atlantsolíu,“ segir Guðrún.
Hún segir að þau hafi gætt vel að sóttvörnum vegna Covid og skipt vinnustaðnum upp í hólf þegar fyrsta bylgjan reið yfir. Helmingur starfsfólksins vann heima og hinn helmingurinn á staðnum. „Í fyrstu skiptum við þessum upp í viku og viku en seinna voru þetta orðnir tveir dagar heima og tveir dagar í vinnu, eitthvað sem starfsfólkið kunni mun betur við,“ segir Guðrún og bætir við að hún hafi sérstaklega þurft að passa upp á tæknideildina, sem varð ávallt að vera á staðnum en húsnæðið sem betur fer rúmgott og hægt var að aðgreina þá deild í tvö aðskilin hólf.
Hóf skólagönguna í Hafnarfirði
Guðrún bjó í Hafnarfirði sem barn eða til átta ára aldurs og hóf skólagöngu sína í Engidalsskóla. Þá flutti hún ásamt fjölskyldu sinni til Seyðisfjarðar. „Ég er mjög mikill Seyðfirðingur í dag en man að ég var afar ósátt með að flytja úr Hafnarfirðinum sem barn og er viss um að ef við hefðum ekki flutt þá væri ég mjög mikill Hafnfirðingur í dag,“ segir Guðrún sem býr í vesturbænum en segir það sé gott að koma í vinnuna í Hafnarfjörðinn enda keyri hún oftast á móti umferðarþunganum.
Hún segir að Hafnarfjörður tali algjörlega til sín og er á því að hann geri það sérstaklega fyrir fólk utan af landi. „Nálægðin við sjóinn, höfnin, nærsamfélagið, miðbærinn og tilfinningin að hér sé þétt samfélag er eitthvað sem ég kann mjög vel að meta og skil vel að fólk sem ólst hér upp vilji búa hér áfram,“ segir Guðrún með bros á vör.
Góður félagsskapur mikilvægur
Guðrún fer reglulega til Seyðisfjarðar þar sem hún á hús og fjölskyldu og nýtur þess mjög að vera þar. Áhugamálin eru annars nokkuð mörg. „Ég er byrjuð að ganga á fjöll, fór á golfnámskeið síðasta sumar og hef einnig prófað laxveiði, en í öllu þessu finnst mér góður félagsskapur skipta ákaflega miklu máli,“ segir Guðrún að lokum og bætir við að þau fjölskyldan fari einnig gjarnan á skíði sérstaklega fyrir austan og þá séu þau nýbúin að eignast hund svo það er nóg um að vera á heimilinu.
Nýform
Húsgagnaverslunin Nýform á Strandgötunni er ein af elstu verslunum Hafnarfjarðarbæjar en hún fagnar 47 ára afmæli næstkomandi mánudag.
Við hittum Guðjón Ágúst Sigurðarson framkvæmdastjóra og einn af eigendum Nýforms til að kynnast versluninni.
Húsgagnaverslunin Nýform á Strandgötunni er ein af elstu verslunum Hafnarfjarðarbæjar en hún fagnar 47 ára afmæli næstkomandi mánudag.
Við hittum Guðjón Ágúst Sigurðarson framkvæmdastjóra og einn af eigendum Nýforms til að kynnast versluninni.
Fyrirtæki vikunnar
Nýform er ein elsta verslun Hafnarfjarðar.
Fjölskyldufyrirtæki
Foreldrar Guðjóns þau Gróa Bjarnadóttir og Sigurður Guðjónsson opnuðu húsgagnaverslunina Nýform þann 8. mars árið 1974 á Strandgötu 4, þar sem nú er Mathiesen stofan. „Pabbi var húsgagnasmiður og hafði rekið verkstæði í mörg ár hér í Hafnarfirði en langaði að opna húsgagnaverslun þar sem hann gat selt sínar vörur, boðið upp á sérsmíði ásamt því að selja innflutt húsgögn. Verkstæðið rak hann samhliða verslunarrekstrinum í nokkur ár en ákvað síðan að einbeita sér að innflutningi,“ segir Guðjón sem sjálfur er alinn upp í Nýform og hefur unnið þar alla sína tíð.
Verslunin var lengst af á Reykjavíkurvegi 66 eða í heil 38 ár, frá 1978 til 2016 þegar hún kom aftur á Strandgötuna. Hún er í dag í eigu Guðjóns og tveggja systkina hans en hann er framkvæmdastjórinn og kemur mest að rekstrinum.
Klassísk skandinavísk hönnun
Í Nýform má finna breiða línu af húsgögnum sem koma í dag flest frá Danmörku og Svíþjóð. „Við erum einna helst með þessa klassísku skandinavísku hönnun sem stendur alltaf fyrir sínu og er í raun nokkuð tímalaus. Við leggjum mikið upp úr því að vera með vandaða vöru á sanngjörnu verði og höfum gert það frá upphafi.“
Að hans sögn þá eru borðstofusett og sófasett vinsælust en Nýform selur einnig mikið af hvíldarstólum sem eru til í mjög mörgum útfærslum í versluninni sem og fallegar hágæða mottur. Viðskiptavinir koma víða af höfuðborgarsvæðinu en Guðjón sendir einnig mikið af vörum út á land og segir að ánægðir viðskiptavinir séu alltaf besta auglýsingin.
Aðspurður um sérstöðu Nýforms segir Guðjón að þetta sé lítið fjölskyldufyrirtæki, verslunin sé því ekki of stór, þar sé starfsfólk með áratuga reynslu og sjálfur sjái hann oft um að keyra vörur heim að dyrum til fólks, þeim að kostnaðarlausu.
Skólainnréttingar
Nýform hefur í mörg ár einnig selt skólahúsgögn og -innréttingar og margir hafnfirskir skólar með innréttingar frá Nýform sem og skólar víðsvegar á landinu. Þá er ekki einungis átt við borð og stóla heldur sérinnréttingar fyrir heimilisfræði og náttúrufræði svo eitthvað sé nefnt.
„Við tökum alltaf þátt í útboðum fyrir skólahúsgögn og -innréttingar ef þau eru fyrir hendi,“ segir Guðjón en bætir við að þessi hluti rekstursins hafi þau eitthvað minnkað á undanförnum árum.
Áhrif Covid
Covid hefur haft lítil sem engin áhrif á rekstur Nýforms, ef eitthvað er þá voru þau frekar jákvæð. „Síðasta ár gekk mjög vel enda margir að huga að heimilinu og gera breytingar,“ segir Guðjón ánægður. Spritt og grímur sjá til þess að fólk hefur ekki veigrað sér við að koma inn í verslunina til að skoða og prófa að setjast í hvíldarstólana, sófana eða borðstofustólana.
Höfnin og hamarinn
Guðjón er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og hefur búið hér alla tíð, alltaf í Suðurbænum. Þegar hann er spurður hvað sé best við bæinn tekur hann sér tíma til að hugsa og nefnir að hann hafi nú ekki kynnst því að búa annars staðar enda finnist honum fínt að vera hér. „Ætli það sé ekki litli miðbærinn, fallegt umhverfi og sjórinn einna helst. Höfnin og hamarinn er eitthvað sem ég kann líka vel að meta en þaðan á ég margar góðar æskuminningar,“ segir Guðjón glettinn.
Sumarbústaður og golf
Foreldrar Guðjóns keyptu land í Grímsnesinu fyrir um 30 árum og þar byggði fjölskyldan bústað. „Þetta var eitt af samvinnuverkefnum okkar allra en í dag eiga ég og systir mín bústaðinn og förum þangað mjög mikið enda stöðugt hægt að ditta að bústaðnum,“ segir Guðjón.
Þá spilar hann einnig mikið golf a sumrin, er í Setbergsklúbbnum og mætir þangað gjarnan snemma á morgnanna til að taka níu holur. Guðjón segir að þau hjónin séu líka aftur farin að ferðast töluvert innanlands, eitthvað sem þau gerðu mikið á árum áður. Nú sé golfsettið í skottinu og hjólhýsi í eftirdragi.
Kvennastyrkur
Líkamsræktarstöðin Kvennastyrkur á Strandgötunni leggur áherslu á meðgöngu- og mömmutíma ásamt almennri styrktar- og þolþjálfun og þaðan koma konur víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu.
Við hittum Sigrúnu Maríu Hákonardóttur, framkvæmdastjóra, þjálfara og eiganda Kvennastyrks til að kynnast starfseminni.
Líkamsræktarstöðin Kvennastyrkur á Strandgötunni leggur áherslu á meðgöngu- og mömmutíma ásamt almennri styrktar- og þolþjálfun og þaðan koma konur víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu.
Við hittum Sigrúnu Maríu Hákonardóttur, framkvæmdastjóra, þjálfara og eiganda Kvennastyrks til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Í Kvennastyrk koma konur víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu.
Greip tækifærið
Kvennastyrkur opnaði í júlí síðastliðinn og stöðin er eins og nafnið getur til kynna einungis opin konum. Þar eru í boði 14 mismunandi námskeið, þar af sex meðgöngu- og mömmunámskeið og átta hefðbundin námskeið, öll kennd af tveimur þjálfurum. Þá má einnig finna þar fæðingafræðslunámskeið haldið af ljósmóður.
Sigrún hefur kennt almenna líkamsrækt í nokkur ár en segir að þegar hún varð sjálf ófrísk fyrir fjórum árum hafi hún áttað sig á því hversu mikið breytist í líkamanum á meðgöngu og eftir barnsburð og nauðsynlegt sé að gera sérstakar æfingar. „Ég fór að lesa mér til um þetta efni og ákvað í kjölfarið að skella mér í fjarnám í meðgöngu- og mömmuþjálfun frá Bandaríkjunum,“ segir Sigrún sem áður var búin að klára einkaþjálfaranám ásamt fleiri námskeiðum á sviði heilsuræktar.
Eftir námið árið 2018 byrjaði hún með meðgöngu- og mömmutíma á líkamsræktarstöð í Garðabæ og urðu tímarnir fljótt afar vinsælir og langir biðlistar mynduðust. „Konurnar voru farnar að biðja um fleiri tíma heldur en ég gat boðið upp á og vildu gjarnan framhaldsþjálfun eftir mömmutíma. Ég áttaði mig þá á því að ég yrði bara að opna eigin stöð sem fyrst, grípa tækifærið,“ segir Sigrún sem segist þó hafa verið búin að safna pening og skipuleggja í töluverðan tíma áður en hún opnaði Kvennastyrk.
Áhugamálið að vinnu
Sigrún segir að hún hafi nefnilega alla tíð vitað að hún ætti eftir að fara út í eigin rekstur en vissi bara ekki hvað það yrði. Að hennar sögn var þjálfun meira áhugamál og fín vinna meðan hún var í háskóla, fyrst að læra viðskiptafræði og síðar meistaranám í náms- og starfsráðgjöf. Hún bjóst hins vegar aldrei við því að geta gert þjálfun að fullu starfi og sótti í öryggið sem hún taldi háskólanámið vera. „Ég lenti síðan í bílsslysi stuttu eftir útskrift úr háskólanum og þá varð fljótt ljóst að ég gæti ekki verið í starfi þar sem krafist er mikillar setu, ég þarf að vera á hreyfingu.“
Hún segir að háskólanámið hafi þó vissulega komið sér vel þegar hún ákvað að hefja rekstur, hún kunni að gera viðskipta- og rekstraráætlanir og markmiðasetning og fleira nýtist vel úr náms- og starfsráðgjöfinni.
Jákvæð og uppbyggileg áhrif
Að sögn Sigrúnar var hún strax staðráðin í að stöðin yrði einungis fyrir konur. Það myndist annað andrúmsloft í svona kvennastöð og hún telur sig ná þannig frekar til hóps sem fer ekki gjarnan í hefðbundnar stöðvar. „Það skapast ákveðin sérstaða með þessu en svo hafa konur bara í gegnum tíðina verið minn helsti markhópur,“ segir Sigrún.
Í Kvennastyrk er lögð áhersla á að hafa þjálfunina hvetjandi, faglega og vandaða og markmiðið að ýta undir ákefðina og hvatann sem býr innra með öllum. „Þetta snýst ekki bara um útlit heldur innri líðan og hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif,“ segir Sigrún og bætir við að það sé mjög skemmtilegt að hingað komi konur alla leiðina frá Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ sem eru ákaflega góð meðmæli út af fyrir sig.
Bella og Flaska
Í Kvennastyrk má einnig finna litla verslun þar sem meðal annars má kaupa Bellu og Flösku, sérhannaðar vatnsflöskur af Sigrúnu. „Ég var aldrei nógu sátt við vatnsflöskur sem ég hafði kynnst og ákvað því bara að hanna mína eigin. Það verður að vera gott að halda utan um hana, þægilegt að opna og svo verður hún að líta vel út. Ég gaf flöskunum mínum líka nafn svo fólki þætti vænt um þær og væri duglegt að fylla þær aftur og aftur af vatni sem er svo mikilvægt,“ segir Sigrún ákveðin.
Í versluninni má einnig finna fótarúllur, kefli og rúllur sem hún flytur sjálf inn ásamt öðrum heilsuvörum. Dagbókin Ritleiðsla sem er nokkurs konar lífstílsbók eftir Sigrúnu verður síðan fáanleg í versluninni í mars. „Dagbókin er búin að vera hugmynd í fimm ár en ég hef verið að vinna í henni markvisst undanfarin tvö ár og nú styttist í útgáfuna,“ segir Sigrún stolt.
Áhrif Covid
Stöðin opnaði í miðjum heimsfaraldri og þurfti að loka tæplega þremur mánuðum eftir opnun. „Þetta var vissulega erfitt tímabil en ég ákvað að leggjast ekki í einhverja neikvæðni og einbeitti mér bara enn meira að fjarþjálfuninni, sem ég hef verið með í mörg ár, og lagði ég meiri áherslu á sölu á vörunum okkar,“ segir Sigrún sem vill meina að þarna sannaði það sig hversu gott að vera með fleiri en eina tekjuleið.
Um miðjan janúar opnaði Kvennastyrkur aftur og hefur verið nóg að gera síðan. Allir fá sitt hólf, engin deilir lóðum og áhöldum með öðrum og eftir tímann sótthreinsa og þrífa allir vel eftir sig. Að sögn Sigrúnar komast færri að í hverjum tíma en þess í stað eru fleiri tímar í boði til að koma í veg fyrir meira tekjutap.
Sigrún segir að Covid hafi einnig kennt henni hversu mikilvægt er að hafa góðan varasjóð í svona rekstri. Svartsýnasta tekjuáætlunin varð strax að veruleika í hennar tilfelli en hún var sem betur fer undir það búin.
Langt fram úr væntingum
Sigrún kann ákaflega vel við sig í Hafnarfirði. „Hér eru allir svo viðkunnanlegir og mér finnst eins bæjarfélagið sé ein stór fjölskylda,“ segir Sigrún brosandi og bætir við að hún geti vel hugsað sér að búa hérna í framtíðinni.
Hún er smátt og smátt að kynnast fólkinu í fyrirtækjunum í nágrenninu og segist hafa fengið góðar viðtökur. Þá er hún nú þegar komin í samstarf við Skyr Factory í Firði sem veitir viðskiptavinum hennar afslátt. „Ég hafði í gegnum árin heyrt margt gott um Hafnarfjörð en er núna að upplifa bæinn á eigin skinni og hann fer langt umfram mínar væntingar.“
Njóta þess að vera
Eins og fram hefur komið þá er vinnan í raun áhugamál Sigrúnar og hún les mikið af einhverju uppbyggilegu og hlustar á hlaðvörp. Hún segist þó einna helst njóta þess í frítíma sínum að vera með fjölskyldunni. „Ég er með tvö lítil börn og annað á leiðinni og við litla fjölskyldan njótum þess að vera saman, stundum að baka, elda eða fara út að leika en svo er líka dásamlegt að hangsa og njóta þess bara að vera,“ segir Sigrún að lokum.
Hópbílar
Uppi á Holti, nánar tiltekið á Melabrautinni, eru Hópbílar, rútufyrirtækið sem flestir kannast líklega við. Fyrirtækið hefur starfað í rúm 25 ár og leggur mikla áherslu á öryggi og umhverfismál.
Við hittum Pálmar Sigurðsson, skrifstofustjóra Hópbíla til að kynnast fyrirtækinu.
Uppi á Holti, nánar tiltekið á Melabrautinni, eru Hópbílar, rútufyrirtækið sem flestir kannast líklega við. Fyrirtækið hefur starfað í rúm 25 ár og leggur mikla áherslu á öryggi og umhverfismál.
Við hittum Pálmar Sigurðsson, skrifstofustjóra Hópbíla til að kynnast fyrirtækinu.
Fyrirtæki vikunnar
Öryggi og umhverfismál í forgrunni hjá Hópbílum
Úr flutningi á sandi og möl í fólksflutninga
Eigendur verktakafyrirtækisins Hagvirkis buðu árið 1991 í akstur strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu enda alla tíð verið að sjá um flutning, reyndar á sandi og möl en töldu sig einnig geta flutt fólk. Tilboðinu var tekið og í framhaldinu keypti fyrirtækið 18 vagna og fór að sjá um strætóakstur á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Hagvagnar. Stuttu seinna eða árið 1995 var fyrirtækið Hópbílar hf. stofnað af eigendum Hagvagna með kaupum á rótgrónu rútufyrirtæki af Pálma Larsen sem átti fyrir þrjár gamlar rútur. „Fjórir eigendur Hagvagna ráku fyrirtækið á upphafsárunum ásamt tveimur lykilstarfsmönnum sem urðu seinna meðeigendur. Árið 2006 tóku Gísli J. Friðjónsson og fjölskylda hins vegar alfarið yfir reksturinn og ráku það við góðan orðstír allt til ársins 2016 þegar fyrirtækið var selt fjárfestingasjóði HORN 3 á vegum Landsbréfa,“ segir Pálmar.
Hópbílar hafa alla tíð verið með aðsetur á Melabrautinni en hafa útvíkkað starfsemina þó nokkuð og eru því einnig með hús í Eyrartröð, götunni fyrir neðan, sem og á Selfossi, enda fyrirtækið og systurfyrirtækið Hagvagnar með um 200 bíla í heildina. „Við teygjum okkur yfir rúma tíu þúsund fermetra og erum alveg sjálfbærir með okkar eigin verkstæði sem sér um almennar viðgerðir, smurningu, réttingar, sprautun og alla rafmagnsvinnu, innflutning á varahlutum sem og þvott á öllum flotanum,“ segir Pálmar.
Hár starfsaldur og góður andi
„Hjá okkur snýst allt um að koma fólki á sína staði og á hverjum morgni, miðað við stöðuna í dag, leggja héðan um 115 bílar af stað út í daginn,“ en Hópbílar sjá í dag um skóla- og frístundaakstur fyrir Hafnarfjarðarbæ, akstur fatlaðra á Stór-Reykjavíkursvæðinu, utanbæjarakstur fyrir hönd Vegagerðarinnar, akstur fyrir starfsmenn Alcan og ýmsan annan akstur. Þá geta einnig fyrirtæki og einstaklingar fengið rútur leigðar hjá þeim fyrir stór eða lítil verkefni. Systurfyrirtækið Hagvagnar sér síðan um akstur hluta af leiðarkerfi Strætó Bs.
Það starfa 230 manns hjá allri samsteypunni í dag, það er Hópbílar, Hagvagnar, Hagvagnar þjónusta sem eru verkstæðin og Hvaleyrin fasteignafélagið. Fyrir COVID19 störfuðu þegar mest lét hins vegar 350 manns hjá þeim. „Ég er búin að starfa hér í næstum 20 ár og margir, sérstaklega á skrifstofunni og verkstæðunum, með ansi háan starfsaldur enda góður starfsandi og því ljóst að fólki líður vel hjá okkur,“ segir Pálmar.
Öryggi og umhverfismál í forgrunni
Hópbílar leggja mikla áherslu á öryggis- og umhverfismál. „Við höfum ætíð gert umhverfis- og öryggisvernd hátt undir höfði í starfsemi okkar samanber það að árið 2003 vorum við með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001,“ segir Pálmar stoltur og bætir við að reksturinn sé tekinn út tvisvar á ári til að standast strangar kröfur staðalsins og því nauðsynlegt að standa sig. Árið 2014 var jafnframt innleitt vottað öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóða staðlinum OHSAS 18001 hjá fyrirtækinu.
Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina ávallt verið duglegt að endurnýja bílaflotann enda menga nýir bílar minna og eru öruggari. „Sem dæmi um virka umhverfis-og öryggismeðvitund voru Hópbílar búnir að setja öryggisbelti í allar sínar rútur þremur árum áður en það varð skylda samkvæmt lögum,“ að sögn Pálmars, en hann ítrekar jafnframt að upplýsingagjöf, þjálfun og fræðsla starfsmanna sé afar mikilvæg og skili sér margfalt til baka, en bílstjórarnir þeirra leggja mikið upp úr góðakstri sem er bæði umhverfisvænni og öruggari.
Þá gerðu Hópbílar samning við Kolvið fyrir tveimur árum til að kolefnisjafna reksturinn og hafa að sögn Pálmars gróðursett heilan skóg eða 18.600 tré.
Áhrif Covid
Pálmar segir að Hópbílar komi betur út úr Covid heldur en margir aðrir í þessum bransa þar sem einungis um 20% af rekstrinum sé tengdur almennri ferðaþjónustu. „Þetta hefur samt vissulega verið skrýtinn og strembinn tími þar sem við höfum stöðugt verið að aðlaga okkur nýjum sóttvarnarreglum,“ segir hann og bætir við að síðan hafi sem dæmi frá einum degi til annars ýmiss fastur akstur samanber skólaakstur lagst niður tímabundið. Hann segir að fá úrræði stjórnvalda hafi náð til þeirra en sé samt nokkuð ánægður með hvernig stjórnvöld hafa brugðist við þó alltaf megi gera betur.
Ánægður með fjölgun veitingastaða í bænum
Pálmar hefur alla tíð búið í Hafnarfirði og honum þótti ákaflega gott að alast hér upp. „Þetta var lítið og kósý bæjarfélag. Maður lék sér í hrauninu, fjörunni, uppi á Hamri og var fljótt kominn upp í sveit,“ segir Pálmar sem var einnig ánægður með félags- og íþróttalífið sem var einstaklega öflugt og hann tók mjög virkan þátt í.
Hann segir að það hafi vissulega margt breyst, bærinn stækkað mikið en er þó á því að hér sé enn viss kjarni og góð bæjarstemmning. Þá finnst Pálmari hafa orðið mjög jákvæð breyting á undanförnum árum með t.d. fleiri veitingastöðum. „Það er frábært að geta haft það huggulegt í mat og drykk og síðan bara labbað heim,“ segir Pálmar með bros á vör.
Hættur að dripla eða henda bolta
Aðspurður hvað hann geri þegar hann sé ekki í vinnu glottir hann og segist vinna frekar mikið enda líði honum full vel þegar hann hefur mikið fyrir stafni. Hann fylgist annars nokkuð vel með flestum íþróttum en sé alveg hættur að dripla eða henda bolta. „Góður matur og góð bíómynd er eitthvað sem ég kann vel að meta. Síðan eru það góðar gönguferðir sem við konan eigum með hundinum okkar og svo er golfið reyndar búið að vera lengi á dagskrá hjá okkur“ segir Pálmar að lokum.
Bílaverk
Hjá Bílaverk á Kaplahrauninu er unnið með juðara, sprautukönnum, punktsuðuvél, réttingabekk sem og stórum sprautuklefa til að gera við tjónaða bíla.
Við hittum Guðmundur Örn Jónsson, bílamálarameistara og eiganda Bílaverks til að kynnast starfseminni.
Hjá Bílaverk á Kaplahrauninu er unnið með juðara, sprautukönnum, punktsuðuvél, réttingabekk sem og stórum sprautuklefa til að gera við tjónaða bíla.
Við hittum Guðmundur Örn Jónsson, bílamálarameistara og eiganda Bílaverks til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Bílaverk sér um tjónaskoðun, bílaréttingar og bílasprautun.
Tjónaskoðun, bílaréttingar og bílasprautun
Bílaverk hóf rekstur árið 1993 og var fyrstu fjögur árin á Dalshrauninu en hefur síðan þá verið á Kaplahrauni, fyrst í einu bili en stækkaði við sig nokkrum árum seinna. Grétar bróðir Guðmundar rak verkstæðið með honum allt til ársins 2001 en síðan þá hefur Guðmundur verið eini eigandinn.
Bílaverk tekur að sér tjónaskoðun, bílaréttingar og bílasprautun. „Við gerum við fyrir öll tryggingarfélög, fyrirtæki og einstaklinga,“ segir Guðmundur en ásamt honum eru tveir starfsmenn í fullu starfi í fyrirtækinu.
Umhverfisvænna vinnuumhverfi
Guðmundur segir að það hafi orðið mikil og góð þróun í faginu á þeim 30 árum sem hann hefur verið í þessu. „Öll efni eru mun umhverfisvænni, við notum núna vatnslökk í staðin fyrir olíulökk hér áður fyrr. Þá er minna um ryk, sprautuklefarnir loftræstir og öll aðstaða betri og skaðaminni fyrir okkur.“
Þá nefnir Guðmundur að samvinnan við tryggingarfélögin sé líka orðin betri. Nú sé unnið eftir vissum stöðlum og kerfið mun skilvirkara og sanngjarnara. „Það er enginn bíll eins en í þessu kerfi er búið að mæla og tímasetja hverja einustu bíltegund og ég fæ þá bara vissar fastar einingar fyrir að taka sem dæmi stuðara af ákveðnum bíl,“ segir Guðmundur sem hefur gert samning við tryggingarfélögin um verð fyrir hverja einingu.
Sjáumst ekki hentug kveðja
Tryggingafélögin eru langstærstu viðskiptavinirnir enda flestir með bíla sína í kaskó og fara með öll tjón í gegnum tryggingarnar. Á götunum nú eru miklu fleiri nýlegir bílar og því í kaskó samanborið við stöðuna fyrir 20 eða 30 árum þegar fólk var lengur að halda sig við gömlu bílana. Guðmundur segir að það hafi reyndar verið einhver breyting eftir hrunið og spurning hvað gerist núna.
Hann segist í raun ekki auglýsa starfsemina neitt. „Ég er á listanum hjá tryggingafélögunum en síðan er það bara orðsporið og maður þekkir mann.“ Hann hefur gaman að því að hitta skemmtilega viðskiptavini og leggur sig fram við að veita góða þjónustu. „Fólk vill þó helst ekki þurfa að láta rétta bílinn sinn aftur og aftur og ég má því eiginlega ekki segja sjáumst þegar ég kveð það“, segir Guðmundur og hlær en bætir við að þó séu alltaf nokkrir óheppnir sem hann sjái oftar en aðra en þeir eru þá greinilega ánægðir með þjónustuna.
Samdráttur í faginu vegna Covid
Það hefur verið töluverður samdráttur í faginu sökum Covid. Fækkun ferðamanna hefur mikil áhrif á bílaleigurnar en þaðan koma alla jafna mjög margir bílar í viðgerð. „Það hefur líka verið minni almenn umferð og það þýðir færri óhöpp og þar af leiðandi minna að gera hjá okkur,“ segir Guðmundur og bætir við að góð veðurtíð hér á suðvesturhorninu undanfarið hafi einnig sitt að segja.
Guðmundur segir að verkefnastaða hjá Bílaverk sé þrátt fyrir það ágæt, þó vissulega sé samdráttur. Þetta sé hins vegar tímabundið ástand og hann horfir björtum augum til framtíðar.
Góður bær
Guðmundur hefur búið í Hafnarfirði alla sína tíð, er uppalinn á Holtsgötunni og bjó lengst framan af í Suðurbænum en hefur nú fært sig upp í Áslandið. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn þá hlær hann og segir að þetta sé smá erfið spurning. „Mér finnst bara stutt í allt saman og get ekki hugsað mér að búa nein staðar annars staðar. Þetta er góður bær, hér eru mínir vinir, systkini og börnin mín.“
Göngutúrar og fótbolti
Þegar Guðmundur er ekki að gera við bíla þá er hann gjarnan í sumarbústaðnum sem hann er að leggja lokahönd á að smíða. Hann segist hreyfa sig töluvert, fer í sund og ræktina og spilaði fótbolta með félögunum þar til fyrir stuttu. „Ég labba líka mikið um bæinn en það hófst allt sökum Covid þegar ræktin og sundlaugarnar voru lokaðar. Við erum þrír félagarnir sem hittumst núna þrisvar í viku og göngu um bæinn, eitthvað sem ég held að sé komið til að vera.“
Guðmundur er harður Tottenham-maður, sem sést strax þegar komið er inn á verkstæðið þar sem trefill frá félaginu blasir við. Hann hefur farið á nokkra leiki með liðinu í gegnum tíðina og þá hafa starfsmenn Bílaverk einnig farið saman á leiki á Englandi þó þeir styðji ekki sama liðið. „Svo fer ég að sjálfsögðu líka á völlinn hér heima, fer í Kaplakrikann og styð mína menn en ég er bakhjarl FH og hef verið í mörg ár,“ segir Guðmundur að lokum.
Gatsby
Fyrir rúmum tveimur árum opnaði afar fögur verslun á horninu á Strandgötu 49, þar sem áður var Einarsbúð. Í staðin fyrir nýlenduvörur má þar nú finna litríka og fallega kjóla, hatta, sixpensara, skartgripi og ýmsar fallegar gjafavörur.
Við hittum Guðbjörgu Jóhannesdóttur sem á og rekur Gatsby ásamt eiginmanni sínum Ármanni Sigurðssyni.
Fyrir rúmum tveimur árum opnaði afar fögur verslun á horninu á Strandgötu 49, þar sem áður var Einarsbúð. Í staðin fyrir nýlenduvörur má þar nú finna litríka og fallega kjóla, hatta, sixpensara, skartgripi og ýmsar fallegar gjafavörur.
Við hittum Guðbjörgu Jóhannesdóttur sem á og rekur Gatsby ásamt eiginmanni sínum Ármanni Sigurðssyni.
Fyrirtæki vikunnar
Í Gatsby eru ekki einungis seldar vörur heldur einnig upplifun.
Kolféll fyrir húsnæðinu
Gatsby opnaði þann 24. nóvember 2018 en aðdragandinn var mjög stuttur. „Ég sá húsnæðið auglýst til leigu og fór að skoða það í tengslum við vinnu mína á þeim tíma. Sú hugsun gekk ekki upp en ég kolféll fyrir húsnæðinu og ákvað bara að opna eigin verslun,“ segir Guðbjörg en þetta var í október og því leið ekki nema rétt rúmur mánuður þar til Gatsby opnaði.
Guðbjörg er snyrtifræðingur og hafði áður rekið snyrtistofu en var búin að vinna í fatabransanum í nokkur ár á þessum tíma, aðallega fyrir íslenska hönnuði. Hún var hins vegar strax staðráðin í að vera með áherslu á millistríðsáratískuna í sinni búð, þá sérstaklega úrval af gatsby- eða flapperkjólum. „Mér finnst þetta tímabil svo æðislegt, það var svo mikið líf þrátt fyrir heimskreppu,“ segir hún með bros á vör.
Síðkjólar og söngkonur
Frá fyrsta degi hefur reksturinn gengið vel. Það kom fljótt í ljós að það vantaði greinilega síðkjóla á markaðinn og sem dæmi voru konur sem fara á árlegt síðkjólakvöld Oddfellow og Frímúrara fljótar að uppgötva búðina. Þá segir Guðbjörg að nokkrar söngkonur komi reglulega en annars sé hópur viðskiptavina mjög fjölbreyttur, bæði konur og karlar.
Þó að kjólar séu vissulega uppistaðan þá er mikið úrval fylgihluta bæði fyrir dömur og herra í Gatsby s.s. sokkar, slaufur, bindi, treflar, hanskar, ermahnappar, hattar og sixpensarar. „Ég byrjaði fljótlega að vera einnig með vörur fyrir herra enda mikið um að fyrirtæki hafi samband ef árshátíðin er með 20´s þema og því mikilvægt að vera einnig með vörur fyrir herramennina,“ segir Guðbjörg.
Pabbi mikill áhrifavaldur
Aðspurð hvaðan áhuginn á millistríðsáratímabilinu komi segir Guðbjörg að þar hafi pabbi hennar haft mikil áhrif. „Pabbi var fæddur árið 1915, var einn af stofnendum Sinfó, frumkvöðull í jazztónlist hér á landi, var einn af körlunum sem spiluðu á Borginni um 1940 og gekk alltaf með hatt eða sixpensara,“ segir Guðbjörg og bætir við að hún hafi því einfaldlega alist upp í þessu með pabba af gamla skólanum. Þá hafi hún líka mikið lesið Agatha Christie sem unglingur og hrifist af Art deco munum en ítrekar að hún hafi einna helst litast af pabba sínum.
Selur einnig upplifun
Guðbjörg segir að hún vilji ekki einungis selja vörur heldur einnig upplifun. „Húsnæðið, tónlistin, persónuleg þjónusta og fallegar umbúðir skipta miklu máli og ég hef oft heyrt að fólki finnist það næstum komið til Parísar þegar það stígur inn í Gatsby.“
Hún segir að það gefi sér mjög mikið að geta veitt góða og persónulega þjónustu. Hún sé minnug á andlit, með næmt auga og gangi því vel að spotta út stíl og stærðir. Fólki finnist því gott að koma til hennar og mjög margir komi aftur og aftur og ósjaldan með einhvern með sér.
Guðbjörg segist einnig senda mikið af vörum út á land. Hún sé þá dugleg að taka myndir og biðja konur um að mæla sig og hingað til hefur það alltaf gengið vel. Hún bjó sjálf úti á landi í 20 ár og vill því líka sinna þessum viðskiptavinum vel.
Áhrif Covid
Það stefndi í metmánuð í sölu hjá Gatsby í mars síðastliðinn enda margir á leið á árshátíð. Undir lok mánaðarins þegar Covid var komið á kreik þá skrúfaðist hins vegar hreinlega fyrir alla sölu frá einum degi til annars. „Ég ákvað því bara að loka búðinni og pakkaði niður síðkjólunum og opnaði ekki aftur fyrr en sex vikum síðar í byrjun maí með fulla búð af fallegum sumarkjólum,“ segir Guðbjörg.
Hún segir að sumarið hafi gengið mjög vel og í raun metsala mánuð eftir mánuð þetta árið. „Fólk er greinilega ekki að fara til útlanda og kemur frekar bara á rölt í miðbæ Hafnarfjarðar,“ segir hún og lýsir yfir sérstakri ánægju með aukna skreytingu fyrir jólin í bænum sem greinilega laðaði fólk að. Nú dreymir hana um að fá líka fallegt stórt hjarta á litla blettnum við hliðina á búðinni enda umhverfið sérstaklega myndrænt, hvort sem það sé gamla húsið sem búðin er í eða kirkjan.
Guðbjörg segist þó hafa þurft að breyta vöruúrvalinu aðeins á árinu sökum Covid, hafa það breiðara þar sem eftirspurnin sé önnur. Það selst lítið sem ekkert af síðkjólum enda lítið um árshátíðir eða aðrar stórveislur. Hún selur því núna sem dæmi vörur frá Freebird, íslensku merki sem hún vann hjá í nokkur ár en einnig hafa litlu dönsku mýslurnar slegið í gegn sem og ensku sápurnar og ilmkertin.
Bæjarsamfélagið best
Guðbjörg og fjölskylda hafa búið í Hafnarfirði í sjö ár, fyrst í stóru húsi í miðbænum en þegar börnin fóru að flytja að heiman hvert af öðru minnkuðu þau við sig og búa núna á Völlunum. „Mér líður mjög vel hérna og finnst bæjarsamfélagið best, hitta fólk í búðinni og heilsast. Hér er einhver góður kjarni, eitthvað skemmtilegt og notalegt“, segir Guðbjörg.
Hún segir að það sé líka greinilegt að húsnæði verslunarinnar sé Hafnfirðingum mjög kært og þeim sé ekki sama hvað sé þarna inni. „Ég hef ósjaldan fengið klapp á bakið frá fólki sem er ánægt með að hafa svona fallega búð í húsinu og fæ nokkurs konar samþykki frá þeim,“ segir Guðbjörg greinilega mjög ánægð.
Ástríðukokkur
Þegar Guðbjörg er ekki að sinna búðinni sinni þá segist hún mjög gjarnan vera í eldhúsinu. „Ég er ástríðukokkur, elska að elda og pæla í mat og þá verður indverskur eða miðjarðarhafsmatur gjarnan fyrir valinu“, segir Guðbjörg sem ætlaði að verða kokkur og byrjaði í því námi á sínum tíma og vann á sínum yngri árum á nokkrum veitingastöðum. „Ætli ég sé ekki nokkurs konar ítölsk mamma, ég á mörg börn og vil hafa nóg af öllu þegar kemur að mat, eitthvað sem vinir og fjölskylda geta staðfest “ segir hún að lokum.
Dyr ehf.
Í Setberginu er skrifstofa Dyra ehf., ráðgjafafyrirtæki sem aðstoðar bæði fyrirtæki og einstaklinga í ýmsum málum tengdum fasteignum og fjármálum. Eigandinn Ingvar Guðmundsson á einnig gamla Drafnarhúsið við Strandgötu 75 og hlaut viðurkenningu á hvatningarverðlaunahátíð markaðsstofunnar árið 2018 fyrir að hafa komið á blómlegri starfsemi í húsinu.
Við hittum Ingvar til að kynnast starfseminni.
Í Setberginu er skrifstofa Dyra ehf., ráðgjafafyrirtæki sem aðstoðar bæði fyrirtæki og einstaklinga í ýmsum málum tengdum fasteignum og fjármálum. Eigandinn Ingvar Guðmundsson á einnig gamla Drafnarhúsið við Strandgötu 75 og hlaut viðurkenningu á hvatningarverðlaunahátíð markaðsstofunnar árið 2018 fyrir að hafa komið á blómlegri starfsemi í húsinu.
Við hittum Ingvar til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Dyr er ráðgjafafyrirtæki en einnig eigandi Drafnarhússins
Fjölbreytt verkefni
Dyr ehf. var stofnað árið 1997 í kringum vissar fjárfestingar Ingvars. Á þeim tíma átti hann þó enn Ás fasteignasölu sem hann stofnaði árið 1988. Ingvar sem er ekki bara löggiltur fasteignasali heldur einnig löggiltur verðbréfasali og rekstrarfræðingur ákvað því árið 1999 að selja Ás og vinna alfarið sjálfstætt undir nafninu Dyr. „Ég hef tekið að mér mörg og fjölbreytt verkefni í gegnum árin og oft á tíðum verið að aðstoða fólk sem lendir í vandræðum við kerfið, sem getur verið ansi flókið og erfitt“, segir Ingvar og bætir við að í starfinu felist því af og til viss félagsráðgjöf. Hann hefur einnig aðstoðað fólk sem er að selja fasteignir, er að endurfjármagna eða þarf fagaðila við samninga- eða skjalagerð. Þá nefnir Ingvar Geymslusvæðið ehf. í Kaplahrauni sem dæmi um stórt verkefni sem hann hefur unnið að í fjölda ára. „„Ég hef veitt eigandanum ráðgjöf en þar er verið að byggja upp og þróa iðnaðarhverfi í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ“.
Persónuleg tengsl
Það vekur athygli spyrjanda að fyrirtækið er ekki með heimasíðu og hvergi skráð á samfélagsmiðlum. „Ég hef lítið verið að auglýsa eða kynna starfsemina í gegnum tíðina, þetta er meira maður þekkir mann, persónuleg tengsl og orðspor,“ segir Ingvar og bætir við að löng og mikil reynsla á þessu sviði sé mikils virði.
Hann hefur alla tíð verið með skrifstofuna heima í Setberginu en segir að flestir fundir fari fram á kaffihúsum eins og Pallett eða Súfistanum. Þá hafi miklar breytingar átt sér stað í vinnulagi í gegnum árin, nú getur hann gert flestallt í tölvunni en áður fyrr þurfti sem dæmi að fara á staðinn og sækja veðbókarvottorð og annað.
Áhugamaður um fasteignir
Ingvar er mikill áhugamaður um fasteignir og gamlar byggingar með sögu heilla hann sérstaklega. Hann ákvað því að kaupa Drafnarhúsið þar sem hann sá í því mikla möguleika. „Ég keypti það í bútum, fyrsta hlutann árið 2004 og daginn fyrir hrun árið 2007 restina. Hrunið seinkaði þó öllu og það var ekki fyrr en árið 2015 sem mér tókst að breyta húsinu og koma í það einhverja lifandi starfsemi.“, segir Ingvar. Þá á hann einnig græna húsið við Linnetstíg 1 þar sem veitingastaðurinn Tilveran er til húsa.
Ingvar brennur greinilega fyrir uppbyggingu bæjarins og hefur sterkar skoðanir. Hann er á því að við eigum að hætta að rífa gömul hús, hann vill frekar gera þau upp og nota á skapandi máta. „Það er svo mikil saga í mörgum húsum sem hafa verið rifin eða stendur til að rífa. Staðreyndin er hins vegar sú að öll þróun sem hefur gengið vel hefur gerst í gömlum húsum,“ segir Ingvar sem er mótfallinn því að byggja endalausar blokkir sem eru að hans mati flestar eins og með litla sérstöðu eða sjarma.
Áhrif Covid
Ingvar segir að Covid hafi vissulega haft áhrif á reksturinn eða allavega svona óbeint en hann leigir jú þremur veitingastöðum og þar hefur faraldurinn haft mikil áhrif. Hann segist hafa haft áhyggjur af leigjendum sínum en þeir standi sig þó allir ótrúlega vel. „Ég lít á þetta sem samvinnuverkefni og mér finnst afar mikilvægt að starfsemin í húsunum mínum nái að blómstra,“ segir Ingvar.
Á Linnetstígnum er hann einnig með tvær íbúðir sem hafa verið leigðar ferðamönnum undanfarin ár og gengið vel en eins og gefur að skilja hefur ekkert verið að gera þar undanfarið. „Við náðum þó að koma íbúðunum í langtímaleigu. Það þýðir þó minni tekjur en á sama tíma minni vinnu en það var oft mikið að gera hjá okkur hjónum í að þrífa og þvo eftir ferðamennina,“ segir Ingvar en eiginkona hans Rut Brynjarsdóttir tekur þátt í öllum rekstrinum og gengur eins og hann sjálfur í öll störf.
Höfnin og sagan
Ingvar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, bjó fyrst á Holtsgötunni en flutti síðan upp á Holt með foreldrum sínum. Rut er einnig Hafnfirðingur og hafa þau hjónin ávallt búið saman hér í bænum. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörð segir hann eftir stutta umhugsun höfnin og öll sagan. „Þess vegna verðum við að umgangast þetta með virðingu og það gerum við ekki með því að byggja endalaus blokkarhverfi,“ segir Ingvar ákveðinn.
Golf og veiði
Ingvar ólst upp við hliðina á Keilisvellinum en byrjaði þó ekki fyrr en fyrir um tíu árum að spila golf að einhverju ráði. Nú fer hann hins vegar oft á völlinn og er félagi í Keili. „Ég hef einnig verið mikið í stangveiði í gegnum tíðina en fer mun sjaldnar nú en áður og er ekki hrifin af veiða og sleppa aðferðinni,“ segir hann en bætir við að hann fari þó enn af og til með sonum sínum að veiða þar sem fengurinn kemur með heim og finnst þá samveran og útivistin vera besti hlutinn.
Loforð brúðarverkstæði og verslun
Í einni af gömlu verbúðunum við Fornubúðir leynist Loforð, brúðarverslun og verkstæði þar sem brúðurin getur fundið allt sem tengist stóra deginum en þar er jafnframt hægt að finna gæða silkivörur og fleira fallegt.
Við hittum Ásdísi Gunnarsdóttur kjólameistara og eiganda Loforðs til að kynnast starfseminni.
Í einni af gömlu verbúðunum við Fornubúðir leynist Loforð, brúðarverslun og verkstæði þar sem brúðurin getur fundið allt sem tengist stóra deginum en þar er jafnframt hægt að finna gæða silkivörur og fleira fallegt.
Við hittum Ásdísi Gunnarsdóttur, kjólameistara og eiganda Loforðs til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Loforð, allt fyrir tilvonandi brúður sem og gæða silkivörur
Langþráður draumur
Ásdís ákvað þegar hún var tíu ára að hún ætlaði að verða klæðskeri enda alin upp í miklu sauma- og klæðskeraumhverfi. „Mamma var saumakona allan sinn starfsferil og föðurafi minn klæðskeri, sá fyrsti hér á landi sem sérhæfði sig í fatnaði fyrir konur,“ segir Ásdís. Hún fór því strax eftir grunnskólann að læra fagið og lauk sveinsprófi í kjólasaum. „Ég vann á brúðarkjólaleigu meðfram námi og þar kviknaði áhugi minn á brúðarkjólum. Þetta vandaða og mikla handverk heillaði mig,“ segir Ásdís sem fór í starfsnám hjá þekktum brúðarkjólahönnuði í New York til að kynnast faginu enn betur.
Í nokkur ár vann Ásdís hin ýmsu störf innan tískubransans en var alltaf með drauminn í maganum að stofna brúðarverkstæði og lét loksins til skarar skríða í janúar 2019 þegar Loforð varð til. Starfsemin var fyrst heima hjá henni en flutti í Fornubúðir í febrúar 2020.
Sérstaða Loforðs
Loforð er eina brúðarkjólaverslunin á landinu sem býður upp á alla nauðsynlega þjónustu. „Við sérsaumum kjóla en seljum einnig tilbúna kjóla sem þarf þó oft á tíðum að aðlaga að hverri og einni sem við gerum hér á saumastofunni,“ segir Ásdís. Brúðurin getur jafnframt fengið alla fylgihluti í Loforð svo sem skó, slör, skart, hárskraut og nærföt sem og förðun þar sem Ásdís er einnig förðunarfræðingur og tekur gjarnan að sér förðun fyrir brúðkaup. Kjólar fyrir litlar brúðarmeyjar sem og fylgihlutir fást líka í versluninni.
Persónuleg þjónusta
Draumur Ásdísar um verslunina tengdist mikið handverkinu og persónulegri þjónustu. Þegar kemur að brúðarkjólum er oft á tíðum mikið lagt í flíkina, vandað til verks og hver kjóll er einstakur. Þá finnst Ásdísi mjög gefandi og skemmtilegt að geta veitt persónulega og góða þjónustu. „Ég hitti hverja brúði nokkrum sinnum og get gefið mér tíma í litlu hlutina, sem eru samt svo mikilvægir, en héðan labbar enginn út nema að kjóllinn sé fullkominn,“ segir Ásdís ákveðin.
Það er líka viss upplifun að velja sér brúðarkjól og því er ávallt bókaður tími í mátun. Þá koma gjarnan vinkonur, systur, mæður eða tengdamæður með og hægt er að panta freyðivín eða taka lúxusmátun sem felur í sér kampavín og makkarónur.
Andlitsgrímur og silkivörur komu til bjargar
Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Ásdís að í byrjun árs og í sumar hafi gengið nokkuð vel, enda tilvonandi brúðar búnar að panta kjóla með miklum fyrirvara. Í lok ágúst þegar ástandið fór aftur að versna kom skellurinn enda öllum haust- og vetrarbrúðkaupum frestað. „Engin brúðkaup þýða engar tekjur fyrir mig og ég varð því annað hvort að loka eða gera eitthvað allt annað“, segir Ásdís sem valdi seinni kostinn og fór að sauma andlitsgrímur og flytja inn gæða silkivörur. „Þessar vörur björguðu rekstrinum og netverslunin hefur aldeilis blómstrað.“ Í Loforð og á loford.is er því nú hægt að versla andlitsgrímur, koddaver og svefngrímur úr gæða silki sem og handspritt og ilmkerti svo eitthvað sé nefnt.
Líður stundum eins og hún sé í útlöndum
Ásdís býr ekki í Hafnarfirði en segist eiga marga vinahópa héðan og verið mikið í bænum sem unglingur. Hún var ávallt staðráðin í að hafa verslunina og verkstæðið í iðnaðarhverfi eða helst í verbúð. Árið 2019 kom hún í Fornubúðir til að heimsækja vinkonu sína, sem er með rekstur þar, og heillaðist strax að staðnum og er ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið eitt bil leigt í þessari gömlu verbúð. „Hér er afar góður andi og konurnar sem koma til mín eru oft svo hissa en á sama tíma hrifnar af öllum andstæðunum í þessu umhverfi.“
Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Ásdís að hér sé viss borgarstemmning, eins og í Reykjavík en samt á annan hátt, allt miklu nánara. Hún kann vel að meta að geta valið úr góðum veitingastöðum og hér sé allt til alls. „Mér líður stundum eins og ég sé í útlöndum þegar ég labba strandlengjuna frá Firði þegar ég kem hingað með strætó,“ segir hún og brosir.
Gera vel við sig í mat og drykk
Matur og drykkur, gönguferðir og ferðalög eru helstu áhugamál Ásdísar. Eiginmaður hennar, Garðar Aron, er matreiðslumaður og þau gera gjarnan vel við sig í mat og drykk. „Við erum líka mjög gott teymi þegar kemur að brúðkaupum en næsta sumar ætlum við að sjá um eitt saman á Bolungarvík. Ég sé um um kjólinn, fylgihlutina og förðunina en Garðar um matinn,“ segir Ásdís að lokum.
NAS auglýsingastofa
Hönnun bæklinga, myndbandagerð, ljósmyndun og umsjón með samfélagsmiðlum er meðal verkefna sem NAS auglýsingastofa á Reykjavíkurveginum tekur að sér.
Við hittum tvo af eigendunum þá Kristján Daða, markaðsstjóra og hönnuðinn Daða Frey.
Hönnun bæklinga, myndbandagerð, ljósmyndun, vefsíðugerð og umsjón með samfélagsmiðlum er meðal verkefna sem NAS auglýsingastofa á Reykjavíkurveginum tekur að sér.
Við hittum tvo af eigendunum þá Kristján Daða, markaðsstjóra og hönnuðinn Daða Frey.
Fyrirtæki vikunnar
Æskuvinir sem eiga auglýsingastofuna NAS
Æskuvinir
Kristján og Daði eru æskuvinir, kynntust í 5. bekk í Hraunvallaskóla og verið í sama vinahóp síðan þá. Fyrir rúmum tveimur árum var Kristján mikið að stúdera samfélagsmiðla og farinn að aðstoða fyrirtæki við að auglýsa vörur sínar á þeim. Hann vildi ganga skrefinu lengra og stofna auglýsingastofu og fór að spjalla við Daða sem þá var í Berlín að læra margmiðlunarhönnun. Úr varð að þeir félagar stofnuðu NAS auglýsingastofu ásamt þriðja vininum ljósmyndaranum Eggerti, sem hefur jafnframt verið að gera myndbönd frá því í grunnskóla. „Við komum allir með mismunandi þekkingu að borðinu og myndum mjög gott teymi“, segir Kristján.
Gaman í vinnunni
NAS tekur að sér alla grafísk hönnun, gerir myndbönd, tekur ljósmyndir, setur upp og hannar vefsíður og annast umsjón samfélagsmiðla. „Við höfum unnið mikið fyrir veitingastaði og aðila í ferðaþjónustu“, segir Daði en fyrstu stóru viðskiptavinirnir komu úr þeim bransa og það vatt upp á sig. Þeir hafa sem dæmi gert fjölmörg myndbönd fyrir ferðaskrifstofuna Tröll Expeditions. Byrjuðu á því að fara með þeim í jöklaferð og gera myndband sem fékk það góðar viðtökur að myndböndunum fjölgaði ört og fleiri aðilar höfðu samband sem vildu fá þá í vinnu fyrir sig. „Við höfum svo gaman að þessu og það skilar sér greinilega. Það er frábær upplifun að keyra út á land, kynnast landinu okkar, gera myndband og fá greitt fyrir það“, segir Kristján með bros á vör.
Stór hluti vinnunnar fer þó fram fyrir framan tölvuskjáinn. Þegar búið er að taka myndböndin upp þarf að útbúa þau fyrir ólíka miðla sem þýðir í mismunandi stærðum og gerðum. Sama er að segja um umsjón með samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki og stofnanir, þar sjá þeir oft um bakendavinnuna, eitthvað sem fólk sér ekki. „Það eru annars stöðugar breytingar í gangi á samfélagsmiðlum og mikilvægt að halda þekkingunni við sem og fylgjast með því nýjasta“, segir Kristján.
Mismunandi hvað virkar
Þeir segja að það sé mismunandi hvaða markaðsaðgerðir henti fyrir fyrirtæki enda markhóparnir ólíkir og markmiðið ekki alltaf það sama. „Sem dæmi virka myndbönd einstaklega vel fyrir ferðaþjónustuna og svo ætluðum við líka að gera myndbönd fyrir veitingastað en áttuðum okkur fljótt á því að þar vill fólk mun frekar sjá flottar ljósmyndir“, segir Daði.
Þeir segja að það sé annars fínt að vera lítil auglýsingastofa þar sem þeir geti þá alltaf veitt persónulega þjónustu. Þeir eru ekki með neina starfsmenn en nokkrir fastir aðilar koma að verkefnum sem verktakar. Fyrirtæki sem NAS hefur verið að vinna fyrir að undanförnu eru meðal annars Garðheimar, KSÍ, Einstök, Miðbær Hafnarfjarðar, Flúrlampar, IceMedica og nokkrir veitingastaðir og aðilar í ferðaþjónustu.
NAS
Okkar lék forvitni á því hvaðan nafnið NAS komi og fyrir hvað það standi. Kristján brosir og segir að það hafi í raun verið lítil hugsun á bak við það í upphafi. „Það stendur í raun fyrir Nýja AuglýsingaStofan sem var bara nokkurs konar vinnuheiti í upphafi og við skráðum okkur þannig í fyrirtækjaskrá. Síðan gerðum við lógó og fengum lénið nas.is og þá var ekki aftur snúið“, segir Kristján en samkvæmt honum er þriggja stafa lén mikils virði í dag.
Áhrif Covid
Það var allt á fljúgandi siglingu hjá NAS í upphafi árs og mörg verkefni í gangi. „Þegar Covid fór á stað í febrúar þá misstum við eiginlega 80% verkefna okkar á einni viku“ segir Kristján enda voru þeir að vinna mikið fyrir veitingastaði og aðila í ferðaþjónustu.
Daði segir að fyrirtækið hafi þó sem betur fer staðið vel og þeir standi þetta því af sér. „Við drógu saman í áætluðum tækjakaupum og fórum einfaldlega í það að leita að nýjum fyrirtækjum,“ segir hann.
Árið hefur þó vissulega verið frekar rólegt en þeir eru bjartsýnir á að staðan verði betri á nýju ári þegar ferðaþjónustan fari aftur á fullt. „Við lifum bara með þessu og erum vissir um að ef við höndlum þetta þá höndlum við allt“, segir Kristján.
Hafnfirðingar eru miklir Hafnfirðingar
Kristján og Daði eru báðir Hafnfirðingar og Kristján segir að öll sín fjölskylda búi í bænum. Það sem þeim finnst báðum best við Hafnfjörð er fólkið og samfélagið. „Hafnfirðingar eru miklir Hafnfirðingar, hér þekkjast næstum allir. Við erum eins og lítið þorp úti á landi samt í höfuðborginni“, segir Kristján. Þeir félagar eru þó sammála um það vanti kannski aðeins meira næturlíf fyrir þeirra aldur en kunna þó orðið vel að meta alla flottu veitingastaðina í bænum.
Flug, tölvur og hjól
Aðspurðir um áhugamál þá segir Daði strax að Kristján sé maður áhugamálanna og hafi prófað mjög margt. Kristján brosir og jánkar þessu en segir að þessa dagana sé skemmtilegast að fljúga. „Ég kláraði einkaflugmannsprófið í sumar og er núna í flugklúbb og flýg mjög gjarnan. Síðan hleyp ég, hjóla, fer á snjóbretti og í golf og keypti mér jeppa á stórum dekkjum í sumar og langar að vera jeppakarl.“
Daði segir að hann spili gjarnan tölvuleiki en hann ólst mikið upp við tölvur. „Pabbi er kerfisfræðingur og þegar ég var lítill var hann að búa til tölvu og ég fékk því ungur x-box og borðtölvu. Ég elska tæknina og hvernig hún virkar“, segir Daði sem hjólar líka gjarnan og hefur meðal annars hjólað hringinn í kringum landið.
RAG Import Export
Lúxusrútur, tengivagnar, landbúnaðarvélar, kerrur, fjórhjól, snjóblásarar, rafmagnsbílar fyrir börn og infrarauðir gufuskálar eru meðal þess sem RAG Import Export á Hellnahrauni selur.
Við hittum Rafn Arnar Guðjónsson framkvæmdarstjóri til að kynnast fyrirtækinu.
Lúxusrútur, tengivagnar, landbúnaðarvélar, kerrur, fjórhjól, snjóblásarar, rafmagnsbílar fyrir börn og infrarauðir klefar eru meðal þess sem RAG Import Export á Helluhrauni selur.
Við hittum Rafn Arnar Guðjónsson framkvæmdarstjóri til að kynnast fyrirtækinu.
Fyrirtæki vikunnar
Lúxusrúturnar vinsælar hjá RAG á Hellnahrauni
Bíladella á háu stigi
Það eru margir sem þekkja Rafn undir nafninu Rabbi bílasali enda hefur hann hátt í 40 ára reynslu af sölu bifreiða og vinnuvéla. Hann var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist sem löggiltir bílasalar hér á landi og hefur selt mörg þúsund farartæki í gegnum árin.
Rafn ætlaði þó upphaflega að vera sjómaður, fór í Stýrimannaskólann en var ráðlagt að læra iðngrein áður en hann færi í Sjómannaskólann. Hann lærði því innréttingarsmíði og rak sitt eigið fyrirtæki í nokkur ár en í staðin fyrir að fara á sjóinn snéri sér hann sér að bílum. „Ég hef alltaf verið með bíladellu á háu stigu, svo vægt til orða sé tekið“, segir Rafn.
Þekking og gott tengslanet
Rafn var einn af eigendum bílasölunnar Hrauns sem og Hrauntaks en hóf að starfa undir eigin nafni árið 2009 þegar hann stofnaði RAG. „Ég byrjaði frekar snemma að sérhæfa mig í sölu á atvinnubílum og hef því byggt upp mikla þekkingu á því sviði og er með góð tengsl víðs vegar um Evrópu“, segir Rafn og bætir við að hann telji að enginn hér á landi hafi náð að selja tæki eins lengi og hann.
RAG stundar innflutning á nýjum og notuðum atvinnubílum, vinnuvélum og öðrum tækjum þar á meðal eru umhverfisvænir metanbílar. Hann á mjög marga stóra fastakúnna, fyrirtæki og stofnanir sem hafa í 20 eða 30 ár alltaf verslað við Rafn. Hann er umboðsaðili fyrir þýska fyrirtækið Fliegl sem og fleiri fyrirtækja. Þessa dagana er hann að leggja lokahönd á samstarf við tékkneska fyrirtækið Hecht og fær þá einkasöluleyfi þeirra hér á landi.
Samstarfsfyrirtæki í Póllandi
Undanfarin ár hefur Rafn einna helst verið að selja rútur og aðilar í ferðaþjónustunni keypt margar af honum. Hann á í góðu samstarfi við pólska fyrirtækið Bus-pl sem sérsmíða rútur og geta auðveldlega aðlagað sig að því sem markaðurinn þarf hverju sinni. „Þökk sé þessu samstarfi gat ég boðið byltingu í gæðum og verðum hér á landi. Nú þurfa þessir stóru að berjast við litla manninn í Hafnarfirði“, segir Rafn ákveðinn.
Sérsmíðuðu 4x4 Benz rúturnar með háu og lágu drifi og 35 tommu dekkjum hafa verið afar vinsælar. Þar er um að ræða sannkallaðar lúxusrútur sem henta vel hér á landi. Rafn segist þó selja rútur víðs vegar um Evrópu. „Það voru átta rútur á leiðinni hingað til lands í sumar en vegna ástandsins þurftu kaupendur að afturkalla kaupin. Ég endurgreiddi öllum strax og seldir rúturnar einfaldlega áfram til Noregs, Austurríkis, Frakklands, Spánar, Ítalíu og Svartfjallalands“, segir hann.
Áhrif Covid – leitaði á önnur mið
Þegar Covid fór að herja á landið stöðvuðust öll viðskipti við ferðaþjónustuna. Þá hófst aftur á móti mikill innflutningur á atvinnutækjum, bæði nýjum og notuðum sem hélt fram á vor. Í sumar var aftur á móti lítið sem ekkert að gera. „Sumarið er reyndar alltaf rólegasti tíminn en það hefur aldrei verið eins rólegt og síðasta sumar“, segir Rafn.
Hann segir að þá hafi ekkert annað verið í stöðunni nema að bretta upp ermarnar og leita á önnur mið. Hann byrjaði á því að panta snjóblásara frá Hecht í Tékklandi og fljótlega bættust við rafmagns fjórhjól frá sama fyrirtæki. „Þetta eru götuskráð rafmagnshjól og þau fyrstu og einu sem seld eru hér á landi“, segir Rafn. Þá er hann einnig farin að flytja inn klefa með infrarauðu ljósi. „Konan mín hafði komist í kynni við svona klefa fyrir nokkrum árum og var mjög hrifin. Þegar ég sá að Hecht voru með klefa ákvað ég að slá til.“ Skemmst er frá því að segja að sendingin af klefunum sem er á leið til landsins er uppseld og sama er að segja um rafmagnshjólin.
Innflutningur á atvinnutækjum er kominn á fullt aftur svo það er meira en nóg að gera hjá Rafni þessa dagana.
Giftist inn í Sigga Þorláksættina
Rafn er uppalinn í Garðabæ en giftist inn í Sigga Þorláksættina, eina af stærstu Hafnarfjarðarfjölskyldunum, fyrir um 40 árum og hefur búið í Hafnarfirði síðan þá. Hann er mikill FH-ingur og fastagestur í Krikanum, bæði í fótbolta og handbolta og hefur styrkt félagið í gegnum tíðina.
Rafn segir að þetta sé fallegur og góður bær og hér búi gott fólk. Hann vilji því hvergi annars staðar búa þó hann sé ekki alltaf vera sáttur við stjórnarhættina.
Sumarbústaðurinn, bílar, veiði og ferðalög
Eins og fyrr segir er Rafn með mikla bíladellu og á skrifstofunni er fjöldinn allur af verðlaunabikurum. „Ég hef keppt í öllum greinum bílasports nema go-kart“, segir hann og hefur komist á verðlaunapall í rallý, torfæru, kvartmílu og sandspyrnu.
Hann segir að aðaláhugamál þeirra hjóna í dag sé hins vegar sumarbústaðurinn, þar sé gott að græja og rækta. „Við ræktum þar tré og góðmennsku og allskonar“, segir hann með bros á vör. Þá fer Rafn gjarnan í stangveiði og í ferðalög um Evrópu með nokkrum vinahjónum.
BRIKK
Saltkaramellusnúður, kanilsnúður með mascarpone kremi, ostasalat og grófa brauðið eru vinsælustu vörurnar hjá Brikk á Norðurbakkanum.
Við hittum eigendurna þá Davíð Magnússon, bakara og Odd Smára Rafnsson, matreiðslumann til að kynnast starfseminni.
Saltkaramellusnúður, kanilsnúður með mascarpone kremi, ostasalat og grófa súrdeigsbrauðið eru vinsælustu vörurnar hjá Brikk á Norðurbakkanum.
Við hittum eigendurna þá Davíð Magnússon, bakara og Odd Smára Rafnsson, matreiðslumann til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Snúðarnir eru ákaflega vinsælir hjá BRIKK.
Hugmyndin nokkurra ára
Brikk opnaði þann 16. júní 2017 á Norðurbakkanum og viðtökurnar voru frábærar strax frá fyrsta degi. Þetta var sumarið þar sem veðrið lék við okkur en Davíð og Oddur sáu samt varla sólina enda unnu þeir frá morgni til kvölds. „Þetta var smá geggjun en á sama tíma svo frábær og skemmtileg minning“, segir Davíð.
Hugmyndin að fyrirtækinu hafði þó í raun orðið til um tíu árum áður þegar Davíð og Oddur unnu saman og ræddu þá sín á milli að það vantaði sárlega hágæða íslenskt bakarí sem væri að gera eitthvað annað og öðruvísi en það sem var á boðstólnum þá. „Mér fannst viss stöðnun í gangi í bakaríum og langaði að gera eitthvað í því, útvíkka hugsunina og koma inn með sjónarhorn kokksins“, segir Oddur.
Þeir félagar hittust aftur fyrir tilviljun á Thorsplaninu haustið 2016 og bar þá hugmyndin aftur á góma og að þessu sinni ákváðu þeir að láta verða af þessu. Einar Hjörvar Benediktsson æskuvinur Davíðs kom þá inn í hópinn og úr varð að fjölskyldurnar þrjár opnuðu Brikk.
Allt gert frá grunni
Upphaflega hugmyndin var að vera einna helst heildsala og þjónusta minni veitingastaði og veisluþjónustur þar sem okkur fannst vera pláss á markaði fyrir slíka starfsemi, sem fæli það í sér að sérframleiða vörur í minna magni fyrir þessa staði. Bakaríið átti síðan að fylgja með en hugmyndin snerist bara strax á fyrsta degi í höndunum á okkur segja þeir.
Viðtökurnar voru, eins og segir hér að ofan, afar góðar strax frá fyrsta degi en mikið er gert úr því að hafa umhverfið hlýlegt og innréttingar fallegar. „Fólki á að líða vel hjá okkur, upplifa sig eins og á veitingastað þó verðlagið sé annað“, segir Oddur.
Hjá Brikk er mikið lagt upp úr því að búa til góða og vandaða vöru. „Við viljum vera einstakir og ákváðum strax að gera allt frá grunni og förum alla leið með það“, segir Davíð og bætir við að það sé mikil vinna bakvið hvern snúð. „Við notum ekta súkkulaði og rjóma í kremin okkar og nautakjötið í samlokurnar er hægeldað“, segir Oddur.
Norðurbakkinn og Miðhella
Þeir voru búnir að skoða nokkrar staðsetningar en þegar Norðurbakkinn var auglýstur til leigu voru þeir fljótir að stökkva á það húsnæði. „Við vorum eiginlega að keyra framhjá þegar verið var að setja skiltið Til leigu upp og drifum okkur strax á staðinn“, segir Davíð sem er afar ánægður með staðsetninguna. Í fyrstu fór öll framleiðsla fram á Norðurbakkanum en fljótlega varð rýmið of lítið. Í dag eru þeir því með húsnæði á Miðhellu þar sem öll forvinnsla fer fram en vörurnar eru bakaðar á Norðurbakkanum og nýju útibúi þeirra á Mýrargötu í Reykjavík sem var opnað snemma á síðasta ári.
Á Miðhellu fer jafnframt öll framleiðsla heildsöluhluta Brikks fram en sá hluti fyrirtækisins, sem fór ört vaxandi hefur eitthvað dregist saman í ástandinu.
Áhrif Covid
Covid hefur haft töluverð áhrif á reksturinn. Lokað hefur verið í veitingasal á báðum stöðum Brikks og stórir viðskiptavinir hurfu einfaldlega, enda engar veislur og einhverjir hættu rekstri.
Þeir segja að það hafi ekki síður verið mikil áskorun að þurfa að breyta öllum verkþáttum. „Hvernig eigum við að taka á móti fólki? Eigum við að loka veitingasal eða hafa opið? Það eru margar ákvarðanir sem við höfum þurft að taka og alltaf mikil óvissa“, segir Davíð.
Þeir eru þakklátir fyrir að hafa þrátt fyrir allt ekki þurft að segja upp fólki en stærsta áskorunin var að útvega starfsfólki í framleiðslunni vinnu. „Við fórum bara út og leituðum og leituðum að verkefnum og það tókst“, segir Davíð. Þeir eru sem dæmi núna með nokkrar vörutegundir inni í Nettóbúðunum, það átti upphaflega bara að vera pizzadeigið en fleiri vörur hafa ratað í hillur Nettó t.d. jólasmákökur og svo eru fleiri vöruliðir væntanlegir þar inn á næstu dögum og vikum.
Best við Hafnarfjörðinn
Oddur er Hafnfirðingur í húð og hár sem og Allý eiginkona Davíðs, og fyrrum bekkjarfélagi Odds í Hvaleyrarskóla, sem dró Davíð í fjörðinn úr Kópavoginum. Davíð segir að hér sé gott að búa, „það er notalegur smábæjarbragur í Hafnarfirði, nærumhverfið sé fjölbreytt og stutt í afþreyingu fyrir fjölskylduna.
Oddur segir að það séu bara tveir staðir á Íslandi sem hann gæti hugsað sér að búa á, það eru Hafnarfjörður og Akureyri sem eru að hans mati nokkuð lík bæjarfélög. „Við erum að vissu leiti sveit í borg, þétt samfélag og næstum því eins og vera úti á landi“, segir Oddur aðspurður um hvað sé best við Hafnarfjörðinn.
Söngur, veiðar, golf og folf
Þegar Davíð er ekki í vinnunni þá hefur hann gaman af því að rífa eitthvað í sundur. „Ég smíða gjarnan en fer einnig í golf og stangveiði. Síðan eru það samverustundirnar með fjölskyldunni“, segir hann.
Oddur segist syngja mikið og vera mörgum sönghópum og kórum en hann fer einnig gjarnan í veiði, bæði skot og stöng. „Við fjölskyldan erum frisbígolfspilarar og sækjum folfvelli víðsvegar um landið. Ég er því ánægður með að það sé búið að uppfæra völlinn á Víðistaðatúni en það mætti gjarnan bæta við öðrum velli í bæjarlandinu. Ég legg til að gerður verði folfvöllur við Hvaleyrarvatn, Brikk er þá til í að fjármagna eina holuna“, segir Oddur að lokum með bros á vör.
Annríki
Faldbúningar, skautbúningar, kyrtlar, upphlutir, peysuföt og karlbúningar kallast gersemarnar sem taka á móti manni hjá Annríki - Þjóðbúningar og skart á Suðurgötunni.
Við hittum hjónin Guðrúni Hildi Rosenkjær (Hildi) og Ásmund Kristjánsson (Ása) til að kynnast starfseminni.
Faldbúningar, skautbúningar, kyrtlar, upphlutir, peysuföt og karlbúningar kallast gersemarnar sem taka á móti manni hjá Annríki - Þjóðbúningar og skart á Suðurgötunni.
Við hittum hjónin Guðrúni Hildi Rosenkjær (Hildi) og Ásmund Kristjánsson (Ása) til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Listaverk unnin með þræði hjá Annríki - þjóðbúningar og skart
Fræðasetur fyrir íslenska þjóðbúninga
Hildur er klæðskeri og kjólameistari og er að leggja lokahönd á meistararitgerð sína í sagnfræði. Hún sérhæfði sig mjög fljótt í þjóðbúningum og öllu sem þeim viðkemur og hefur verið að kenna þjóðbúningasaum allt frá árinu 1997. Ási er vélvirki en ákvað fyrir tíu árum að fara í gullsmíði til að geta smíðað allt fallega skartið sem fylgir þjóðbúningunum.
Árið 2011 ákváðu þau að stofna Annríki en þá voru þau bæði búin að vera í námi og við það opnuðust nýjar víddir og þau tilbúin að taka skref út á við. Hildur segir að starfsemin sé mjög fjölþætt. „Við erum í raun fræðasetur fyrir íslenska þjóðbúninga enda höfum við ákaflega mikla þekkingu á því sviði, höfum gert ýmsar rannsóknir, eigum orðið mikið safn búninga og höldum vinsæl námskeið“, segir Hildur. „Hér er einnig gullsmíðaverkstæði þar sem ég smíða skartið fyrir búninga en einnig ýmis verkfæri og svo erum við einnig með sérhæfða verslun“, segir Ási. Þau segja annars að þjóðbúningaveröldin sé ekki stór hér á landi en þau séu vissulega stærst í þeirri veröld.
Annríki til heiðurs Guðrúnu
Þegar kom að því að velja nafn á fyrirtækið var Hildur strax nokkuð ákveðin í hvað það ætti að vera. „Guðrún Skúladóttir, dóttir Skúla fógeta sem er fædd árið 1740 var með saumastofu í Viðeyjarstofu sem hún kallaði Annríki og þaðan kemur nafnið“, segir Hildur en Guðrún hefur verið nokkurs konar samstarfskona Hildar frá árinu 2000. „Árið 1999 þegar ég starfaði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu fórum við á Victoria Albert safnið í London til að skoða íslenskan brúðarbúning sem var saumaður af Guðrúnu á árunum 1790 til 1800 en seldur úr landi árið 1809“, segir Hildur. Hún heillaðist greinilega mjög af búningnum og ákváð árið 2000 að hefja endurgerð á honum og lagðist í mikla rannsóknarvinnu til þess. „Ég er búin að fara aftur til London til að skoða búninginn en það er að mörgum smáatriðum að huga og í raun stórundarlegt hvað Guðrún lagði mikið í verkið“, en Hildur stefnir að því að klára búninginn fyrir tíu ára afmæli Annríkis næsta sumar.
Rannsóknir og námskeið
Hluti starfs þeirra hjóna eru rannsóknir en þau þurfa að finna út hvernig hlutirnir voru gerðir á árum áður. Ási rannsakar skartið sem enginn veit hvernig var smíðað fyrir 200 árum. Hann skoðar gripina, teiknar þá upp og hefst síðan handa við endurgera þá. Meistaraverkefni Hildar í sagnfræði er rannsókn á prjóni í íslenskri búningasögu. Hún fer þar yfir hvað var prjónað en stór hluti af rannsókninni er að endurgera hlutina til að skilja hvernig þeir voru gerðir og þá þarf oft að gera margar tilraunir. Þau segjast bæði gjarnan vilja hafa meiri tíma fyrir rannsóknir en nóg sé að gera í námskeiðahaldi og fleiru. „Ég vil heldur ekki hætta að kenna, það gefur mér mikið“, segir Hildur.
Á hverju misseri eru haldin tvö eða þrjú þjóðbúninganámskeið sem standa í ellefu vikur. Þar sauma þátttakendur 20. aldar búning á sjálfa sig eða einhvern annan en Hildur sér þá um að mæla alla og sníða búningana fyrir hvern og einn. Námskeiðin eru jafnframt haldin á landsbyggðinni og eru þá yfir fjórar helgar. Annríki er einnig með námskeið í gerð fald- og skautbúninga en þau taka þrjú ár enda mikil vinna sem felst í því að sauma þannig listaverk.
Ási segir að sumir þátttakendur komi alltaf aftur og aftur og dæmi eru um að einhverjir hafi saumað hátt í 20 búninga undir leiðsögn Hildar.
Búningar til sýnis
Hjá Annríki eru tæplega 50 búningar á gínum en þau segjast þó eiga enn fleiri. Aðspurð hvað hún hafi saumað marga búninga í gegnum tíðina segir Hildur það eiginlega vera óvinnandi veg að segja til um. „Ég hef allavega komið að gerð á um annað þúsund búninga í gegnum tíðina. Þetta eru þá búningar sem hafa orðið til undir minni leiðsögn og eru núna í eigu viðskiptavina okkar“.
Á hverjum föstudegi eftir hádegi taka Hildur og Ási búningana fram og fólk getur komið og skoðað þá hjá þeim á Suðurgötunni. Þann 17. júní hafa þau einnig undanfarin ár verið með sýningu á búningum í Hafnarborg og Hildur þá jafnframt verið með kynningu á þeim.
Áhrif Covid
Covid hefur haft lítil áhrif á reksturinn ef eitthvað er hefur orðið aukning. „Við óttuðumst að þurfa að fella niður námskeiðin í haust en þátttakendur vildu ólmir mæta og vera bara með grímur“, segir Hildur en þau voru með þrjá hópa í stað tveggja til að hver og einn fengi meira pláss. „Fyrir marga þátttakendur er það nokkkurs konar heilun eða þerapía að koma hingað“, segir Ási.
Þau þurftu reyndar að fresta námskeiði sem átti að vera á Patreksfirði og geta heldur ekki verið með útskrift þann 1. desember eins og vanalega. „Við verðum þá bara með enn stærri útskrift á tíu ára afmælinu okkar þann 1. júní næstkomandi“, segir Hildur með bros á vör.
Dreymir um nýtt húsnæði
Hildur fædd og uppalin í Hafnarfirði og segist vera ein af frumbyggjunum á Hvaleyrarholtinu. Hún segir að Hafnarfjörður sé góður bær til að búa í og hún vilji helst hvergi annars staðar vera. „Þetta er enn bær út af fyrir sig og hér fæ ég allt sem ég þarf“, segir Hildur og bætir við að nálægðin við náttúruna sé henni mikils virði.
Ási er austan úr Flóa og segir að Hafnarfjörður sé eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem hann gæti hugsað sér að búa á. „Hér er enn viss bæjarbragur og hægt að tala við fólk“, segir hann.
Þau segjast bæði vona innilega að geta verið áfram með fyrirtækið sitt hér í bænum en þau dreymir um að finna hentugt húsnæði fyrir alla starfsemina. Ítreka samt að þeim líði vel á Suðurgötunni og í þessu húsnæði hafi alla tíð verið atvinnustarfsemi af ýmsu tagi.
Áhugamálin og vinnan nátengd
Hildur og Ási segja bæði að vinnan og áhugamálin séu að miklu leiti nátengd. „Við ferðumst mikið um landið en áfangastaðirnir reyndar oft valdir útfrá einhverju vinnutengdu“, segir Hildur en bætir síðan við að þau séu fastagestir í Suðurbæjarlauginni.
„Við förum líka alltaf í berjatínslu á haustin vestur á firði og ég sinni heimaslátrun á æskuslóðunum“, segir Ási að lokum.
Skali merking
Ef þig vantar filmu í útidyrahurð, eldhús eða sturtuklefa nú eða merkingar eða skilti fyrir fyrirtæki þá getur Skali merking séð um verkið.
Við hittum Þór Ólafsson prentsmið og eiganda Skala merkingar til að kynnast starfseminni.
Ef þig vantar filmu í útidyrahurð eða eldhúsglugga, merkingu á bílinn nú eða sandblástursfilmu, merkingar eða skilti fyrir fyrirtæki þá getur Skali merking séð um verkið.
Við hittum Þór Ólafsson prentsmið og eiganda Skala merkingar til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Skali sér um prentun og merkingar af ýmsu tagi.
40 ára reynsla
Þór hefur unnið við prentsmíði og skiltagerð í 40 ár og þekkir því fagið út og inn. Árið 2017 stofnaði hann Skali merking og er með fínt aðsetur á verkstæðinu sínu við Álfaskeið. Hann segist vinna jafnt fyrir fyrirtæki og einstaklinga og hefur séð um allar merkingar fyrir ýmis fyrirtæki til fjölda ára. „Þegar ég vinn fyrir einstaklinga þá snýst þetta líka mikið um að ráðleggja fólki og hjálpa því að hanna útlitið hvort sem það er fyrir útidyrahurðir, í eldhúsglugga nú eða skreytingar á veggi“, segir Þór sem leggur mikið upp úr því að veita góða þjónustu.
Áhersla á gæði
„Í þessum bransa skipta smáatriðin og gæðin öllu máli“, segir Þór og sýnir stoltur glænýjan skurðarplotter (skurðarvél) sem er ótrúlega nákvæmur og getur skorið út allar filmur og kartonpappír. Samkvæmt honum er mikilvægt að fylgja tækninni og vera með bestu tækin.
Það eru til margskonar efni sem hægt er að vinna með en Þór leggur áherslu á gæði. „Ég vil alltaf vinna með besta hráefnið þar sem gæðin eru tryggð“, segir hann og bætir við að núna séu líka komnar á markað fólíur sem eru ekki úr plasti en ná sömu gæðum, eitthvað sem hann nýti mjög gjarnan og ítrekar að hann flokki allan úrgang á verkstæði sínu.
Jólalegir gluggar
Þór er með viðskiptavini víðsvegar um höfuðborgarsvæðið en hefur þó reynt að einbeita sér að Hafnarfirði undanfarin ár. Hann hefur mikla löngun til að gera bæinn okkar enn fallegri með skreytingum í gluggum þá sérstaklega núna fyrir jólin. Hann hefur því verið duglegur að tala við verslunareigendur og bjóða þeim þjónustu sína.
Nú þegar er Þór búinn að setja upp jólaskreytingar í gluggum hjá nokkrum fyrirtækjum og stofnunum í bænum en er einnig að selja jólakúlur sem límast í glugga með mismunandi mynstri í Litlu Hönnunar Búðinni. „Það er mikilvægt að taka fram að jólakúlurnar mínar eru úr efni sem ekki skilur eftir sig lím þegar þegar það er tekið niður“, segir Þór en þegar við komum til hans var hann nýverið að klára rúmlega fjögurra metra langa jólasveinamynd í heimilisglugga, verkefni sem honum þykir afar skemmtilegt.
Áhrif Covid
Covid hefur haft töluverð áhrif á rekstur Skala. Mörgum viðburðum hefur verið aflýst þar sem Þór átti að sjá um allar merkingar og hann hefur jafnframt átt töluvert af viðskiptavinum í ferðaiðnaðinum og lítið verið að gera þar.
Það er þó enginn bilbugur á honum og hann segir að nú sé mikilvægt að virkja hugmyndaflugið og leita nýrra verkefna og eitt af því er að leggja meiri áherslu á jólaskreytingar, eitthvað sem hann hefur ekki haft mikinn tíma til undanfarin ár.
Hlýlegt samfélag
Þór er Gaflari og hefur búið á nokkrum stöðum í Hafnarfirði í gegnum árin en síðustu 20 verið á Álfaskeiðinu þar sem hann kann afar vel við sig. Þegar hann er spurður hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hann „hlýlegt samfélag, svolítið eins og gamall smábær en það hafa bara fleiri bæst í hópinn“. Þá bætir hann við að bæjarbragurinn sé líka á góðri uppleið með frábærum fyrirtækjum og verslunum á Strandgötunni og víðar þar sem menning og listir njóti sín.
Þór þykir líka vænt um upplandið og nefnir þá Hvaleyrarvatnið, Sléttuhlíðina, Helgarfellið og Krýsuvíkina en hann veiddi líka mikið í Kleifarvatni sem barn.
Nýtur þess að veiða
Þegar Þór er ekki í vinnunni þá flakkar hann gjarnan um hálendið, bæði keyrandi og gangandi og hefur sérstaklega gaman af því að veiða. „Ég var laxveiðileiðsögumaður í yfir 20 ár en er núna farin að veiða meira sjálfur og nýt þess mjög“, segir Þór að lokum.
Norðurbakkinn
Á gráum nóvembermorgni er afar notalegt að koma inn á Norðurbakkann þar sem ilmur af nýju bakkelsi, jazztónar og kertaljós taka á móti manni.
Við settumst niður með Málfríði Gylfadóttur Blöndal eiganda og kynntumst kaffihúsinu sem fagnaði fimm ára afmæli sínu í síðustu viku.
Á gráum nóvembermorgni er afar notalegt að koma inn á Norðurbakkann þar sem ilmur af nýju bakkelsi, jazztónar og kertaljós taka á móti manni.
Við settumst niður með Málfríði Gylfadóttur Blöndal eiganda og kynntumst kaffihúsinu sem fagnaði fimm ára afmæli sínu í síðustu viku.
Fyrirtæki vikunnar
Brönsinn er afar vinsæll á Norðurbakkanum
Mikill bókaunnandi
Það hafði lengi verið draumur Málfríðar að opna kaffihús þá sérstaklega bókakaffihús þar sem hún er mikill bókaunnandi. „Ég er alin upp í miklu návígi við bækur, er menntaður íslenskukennari og með meistaragráðu í ritstjórn og útgáfu og langaði því að reka kaffihús þar sem bækur koma við sögu“, segir hún en á Norðurbakkanum eru reglulega haldin bókaupplestrar- og ljóðakvöld yfir vetrartímann.
Þegar húsnæðið á Norðurbakkanum losnaði fyrir fimm árum ákvað Málfríður að stökkva til. Hún heillaðist strax af staðsetningunni í hjarta Hafnarfjarðar þar sem skemmtilegt er að fylgjast með mannlífinu út um gluggann sem og njóta útsýnisins með gömlu húsin í fyrirrúmi sem og bókasafnið.
Flestallar bækurnar á staðnum eru til sölu, bæði notaðar og nýjar. „Það er ekki endilega mikið selt af bókum en það er notalegt að hafa þær og viss upplifun þegar fólk sér einhverja gamla bók sem það tengir við ljúfar minningar og þá hefjast gjarnan skemmtilegar umræður“, segir Málfríður.
Bröns vinsæll
Á Norðurbakkanum er hægt að fá gæðakaffi, te, léttvín, bjór og nokkra vinsæla kokteila sem og dýrindis kökur og bökur sem eru allar bakaðar á staðnum. Brönsinn þeirra er afar vinsæll en hann er hægt að fá á hverjum degi, laxabeyglan er jafnframt sígild og þá panta sérstaklega konur gjarnan grillaðan geitaost.
„Við eigum marga viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur en mér finnst ákaflega mikils virði að veita persónulega þjónustu og vanda því starfsmannavalið vel en ég og dætur mínar stöndum jafnframt mikið vaktina“, segir Málfríður.
Veislur haldnar
Á Norðurbakkann kemur fólk á öllum aldri en Málfríður segir að stór hluti viðskiptavina sé í eldri kantinum. „Hingað koma gjarnan hópar eldra fólks eftir líkamsrækt eða göngur á vegum Janusar en einnig vina- og starfsmannahópar og þá eru oft sett upp löng borð“, segir Málfríður.
Á Norðurbakkanum hafa í gegnum tíðina einnig verið haldnar veislur af ýmsu tagi svo sem afmæli og fermingar en einnig litlar erfidrykkjur.
Áhrif Covid
Norðurbakkinn hefur að mestu náð að halda opnu á Covid-tímum og fólk kemur enn og gerir vel við sig. Samkvæmt Málfríði hefur það þó aukist töluvert að fólk komi og taki kaffi, te eða annað með sér. „Óvissan hefur verið erfiðust og ekki hægt að gera neinar áætlanir. Viðskiptavinirnir eru þó viljugir að koma en við höfum þurft að vísa fólki frá að undanförnu þá sérstaklega um helgar þegar mjög margir eru í göngutúr meðfram strandlengjunni og vilja koma inn í gott kaffi“, segir Málfríður og vonar að fólk haldi áfram að fara í göngutúra þegar faraldrinum er lokið.
Eins og gefur að skilja hefur ekki verið hægt að vera með uppákomur á kaffihúsinu sem hafa verið vinsælar í gegnum tíðina og einnig verið streymt á Facebook síðunni þeirra. Hún vonar að það verði bráðum mögulegt en á eftir að sakna þess sérstaklega núna í desember.
Sveitarómantíkin enn til staðar
Málfríður bjó fyrsta ár ævi sinnar í Hafnarfirði og eru til myndir af henni í Hellisgerði frá þeim tíma. Hún ólst þó upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi en flutti í Hafnarfjörðinn fyrir rúmum 15 árum og hér búa í dag systkini hennar og foreldrar. Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn brosir hún og segir að hún og mágkona hennar geti ekki hætt að mæra Hafnarfjörðinn. „Sveitarómantíkin er hér enn til staðar. Miðbærinn er fallegur, hafnarsvæðið skemmtilegt og hér býr fjölbreytt fólk“, segir Málfríður.
Muna að njóta
Það kemur kannski ekki á óvart að þegar Málfríður er ekki á vaktinni á kaffihúsinu þá les hún mjög gjarnan og er í bókaklúbbum. „Ég hef sérstaklega gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og ljóðum og er einnig dugleg að gefa bækur“, segir hún.
Hún gengur líka gjarnan í kringum vötnin hér í nágrenninu með vinkonum sínum en hefur líka gengið hluta af Jakobsveginum og segir mikilvægt að muna að njóta en ekki þjóta á þannig göngum.
Urta Islandica – Matarbúðin Nándin
Á Austurgötu 47 varð fjölskyldufyrirtækið Urta Islandica til fyrir tíu árum og þar fer enn öll tilraunastarfsemi fyrirtækisins fram þó framleiðslan sé komin í annað húsnæði. Í sumar opnaði fjölskyldan einnig Matarbúðina Nándin í húsnæðinu – plastlausa matvöruverslun.
Á Austurgötu 47 varð fjölskyldufyrirtækið Urta Islandica til fyrir tíu árum og þar fer enn öll tilraunastarfsemi fyrirtækisins fram þó framleiðslan sé komin í annað húsnæði. Í sumar opnaði fjölskyldan einnig Matarbúðina Nándin í húsnæðinu – plastlausa matvöruverslun.
Við hittum Láru, dóttirin sem gegnir starfi markaðsstjóra, til að fræðast um reksturinn.
Fyrirtæki vikunnar
Urta Islandica framleiðir um 200 vörutegundir úr íslenskum jurtum
Íslenskar jurtir og ber
„Í kjölfar hrunsins 2008 fór mamma mikið að velta því fyrir sér hvað gerist ef landið lokast, hvernig ætlum við að verða okkur út um lyf, vítamín og mat“, segir Lára. Þóra, mamma hennar, fór því að rannsaka íslenskar jurtir og að búa til te, fyrst var það aðalbláberjate en síðan bættust við aðrar tegundir og fljótlega fór hún að framleiða fjölbreytt jurtakryddsölt. Eins og fyrr segir hófst þetta allt í einu rými en síðan þá hefur ýmislegt verið brallað og geymsluskúr verið breytt í framleiðslurými og heimilinu nokkrum sinnum verið snúið við. Urta Islandica framleiðir í dag um 200 vörutegundir úr íslenskum jurtum en fyrir utan jurtate og jurtasölt eru þau einnig með sýróp og sultur.
Öll fjölskyldan kemur að rekstrinum á einn eða annan hátt. Þóra er framkvæmdastjóri, Sigurður maður hennar er framleiðslustjóri, sonur þeirra Kolbeinn tæknistjóri, Lára markaðsstjóri, Sigrún eldri dóttirin, sem er kennari, aðstoðar oft við textagerð eða prófarkarlestur, yngsti sonurinn Þangbrandur gengur í ýmis verkefni og Hólmfríður systir Þóru sér um bókhaldið. Aðrir fjölskyldumeðlimir og vinir hafa einnig sinnt hinum ýmsu störfum hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina.
Matarbúðin Nándin
Fjölskylduna hafði lengi dreymt um að getað verslað meira plastlaust enda búin að vinna náið með íslenskri náttúru í tíu ár og vildu leggja sitt af mörkum til að verja hana. „Flestar vörur Urta Islandica eru í gleri og viðskiptavinir höfðu verið að spyrja hvort hægt væri að skila krukkunum“, segir Lára. Út frá því vaknaði hugmyndin að plastlausri matvöruverslun þar sem áhersla væri á að selja matvöru í gleri sem hægt væri að skila til baka og búa þannig til hringrásarkerfi fyrir glerumbúðir.
Enn og aftur lagðist fjölskyldan í mikla rannsóknarvinnu en þau áttuðu sig fljótt á því að ekki væri hægt að setja allt í gler og því þyrftu þau einnig að finna annan valkost. Þau fundu þá jarðgeranlegar umbúðir sem henta í heimamoltu en það er að mörgu að huga, tildæmis þurfa límmiðarnir að fara auðveldlega af og henta hverri vöru. Til að búa til rétta ferla fyrir endurnýtingu á glerumbúðunum fjárfestu þau í sérsmíðaðari uppþvottavél sem sótthreinsar glerið.
„Við erum búin að lenda í ýmsu skrautlegu í þessu ferli, við þurfum að kynnast og læra á nær allar vörurnar sem við erum með í sölu, hvað varðar endingartíma og rétt útlit. Stundum hefur verið erfitt að sannfæra birgja um að afhenda okkur vörur plastlaust en þetta er allt að koma“, segir Lára og greinilegt að hún hefur mikla ástríðu fyrir verkefninu.
Hverfisbúð með hugsjón
Matarbúðin opnaði formlega þann 17. júní síðastliðinn og hafa viðtökurnar verið ótrúlega góðar. „Fólk er mjög jákvætt og er til í þetta. Við erum á vissan hátt að vekja upp nostalgíu, þar sem sumum finnst dásamlegt að geta aftur keypt mjólk í glerflösku og koma í litla hverfisverslun með allt það helsta sem heimilið þarf og að bakvið búðarborðið standi fjölskyldan sem á og rekur búðina“, segir Lára.
Þau eru með ýmsar vörur frá smáframleiðendum og leggja sig fram við að stilla verðinu í hóf. „Við bjóðum upp á persónulega þjónustu, sem gerir viðskiptavinum auðveldara fyrir að velja plastlaust“, bætir hún við.
Helstu viðskiptavinirnir eru vissulega Hafnfirðingar úr hverfinu en sumir koma víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu og þá kannski sérstaklega fólk með mikla hugsjón sem kemur jafnvel með strætó til að skila krukkum og kaupa nýjar vörur. Verslunin hlaut nýverið Bláskelina, umhverfisverðlaun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og prýðilegt fordæmi, eitthvað sem þau eru ákaflega stolt af.
Búðin er opin alla virka daga frá 10 til 19 og frá 10 til 16 á laugardögum eða þegar hurðin er opin segir Lára og bætir við að þau vinni jafnframt hörðum höndum að því að opna vefverslun undir matarbudin.is
Áhrif Covid
Covid hefur haft mjög mikil áhrif á rekstur Urta Islandica en framleiðsluvörur þeirra voru seldar á yfir 60 stöðum þegar allt lék í lyndi en nú eru útsölustaðirnir orðnir afar fáir þar sem það eru að stærstum hluta erlendir ferðamenn eða Íslendingar að ferðast til annarra landa sem kaupa vörurnar sem eru hannaðar sem matargjafavara. „Við vonumst þó eftir að ná í ágætis sölu fyrir jólin en við erum að útbúa fallegar gjafakörfur fyrir einstaklinga og fyrirtæki, eitthvað sem hefur verið vinsælt undanfarin ár“, segir Lára.
Það jákvæða hefur þó kannski verið að fjölskyldan hefur getað sinnt Matarbúðinni betur og komið henni vel á stað. Samkvæmt Láru var nefnilega mun flóknara að koma henni á kjölinn en þau áttuðu sig á og hefði líklega ekki gengið að hafa hana bara sem hálfgert gæluverkefni eins og stóð til upphaflega.
Hafnfirðingar skemmtilegir
Lára er fædd og uppalin á Austurgötunni en pabbi hennar er Gaflari og hún er skírð eftir fóstru ömmu sinnar, Emelíu Láru í Lárugerði sem margir Hafnfirðingar kannast við. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn þá segir hún strax að það sé svo margt. „Það er þó sérstaklega þessi tenging við fortíðina og framtíðina og að við náum að halda í smábæjarbrag þrátt fyrir að vera orðin að stórum bæ“, segir Lára og nefnir síðan öll gömlu húsin og það að geta horft á hafið sé henni mikils virði og bætir við að Hellisgerði sé jafnframt í miklu uppáhaldi. „Hafnfirðingar eru líka svo skemmtilegir en ég finn það sérstaklega mikið núna þegar ég stend bakvið búðarborðið og spjalla við viðskiptavini“, segir hún.
Umhverfismálin heilla
Þegar Lára er ekki í vinnunni er nóg að gera við að ala upp tveggja ára gutta. Hún er annars mjög áhugasöm um hafnfirska sögu, sérstaklega um gömlu húsin og þær fjölmörgu verslanir sem voru hér áður og hvernig bæjarbragurinn hefur verið að lifna við aftur síðastliðin ár með frábærum búðum og veitingastöðum. Umhverfismál og verðmætasköpun er það sem hún svo brennur fyrir, en vinnan við að búa til plastlausan valkost er að hennar mati ákaflega mikilvægt fyrir okkur jafnt sem einstaklinga og þjóð. En með hverri skilakrukku og skilaflösku erum við saman að búa til hringrásarkerfi fyrir gler á Íslandi“, segir Lára að lokum.
Rekstrarumsjón
Innheimta, tryggingar, þrif, garðsláttur, snjómokstur og aðalfundur eru hluti verkefna sem húsfélög í fjölbýlishúsum þurfa að annast. Hafnfirska fjölskyldufyrirtækið Rekstrarumsjón aðstoðar húsfélög við öll þessi verkefni og meira til.
Innheimta, tryggingar, þrif, garðsláttur, snjómokstur og aðalfundur eru hluti verkefna sem húsfélög í fjölbýlishúsum þurfa að annast. Hafnfirska fjölskyldufyrirtækið Rekstrarumsjón aðstoðar húsfélög við öll þessi verkefni og meira til.
Við hittum Helgu Soffíu Guðjónsdóttur og Bjartmar Stein Guðjónsson sem eru bæði framkvæmdastjórar fyrirtækisins á skrifstofu þeirra á Dalshrauni og kynntumst starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Öll þekkingin innan fjölskyldunnar hjá Rekstrarumsjón.
Öll þekkingin innan fjölskyldunnar
Systurnar Helga Soffía og Hrafnhildur bjuggu báðar í fjölbýlishúsi, Helga Soffía var gjaldkeri í sínu húsfélagi og Bjartmar maður Hrafnhildar var formaður í þeirra. Þær töldu svigrúm á markaði til stofnunar á fyrirtæki sem gæti aðstoðað húsfélög við hin ýmsu verkefni og veitt jafnframt persónulega og góða þjónustu. „Við áttuðum okkur svo fljótt á því að í raun væri öll sú þekking sem nauðsynleg er innan okkar fjölskyldu. Í systkinahópnum er lögfræðingur, viðskiptafræðingur og byggingartæknifræðingur og pabbi okkar Guðjón Snæbjörnsson er múrarameistari og mamma vön að sjá um bókhald“, segir Helga Soffía. Úr varð að Rekstrarumsjón var stofnað árið 2017 en eigendur eru foreldrarnir þau Guðjón og Soffía auk barna þeirra fjögurra, Elínar Önnu, Björns, Hrafnhildar og Helgu Soffíu.
Helga Soffía, sem er viðskipta- og hagfræðingur, og mágur hennar Bjartmar, lögfræðingur, sjá um daglegan rekstur en öll systkinin og foreldrarnir koma að rekstrinum á einn eða annan hátt.
Yfir 100 húsfélög
Verkefni húsfélaga geta verið mörg, sum jafnvel flókin og þá getur verið betra að fá fagfólk í verkið. „Við erum í raun hægri hönd stjórnar húsfélaga og veitum þeim faglega ráðgjöf og sjáum um hin ýmsu verkefni fyrir þau“, segir Bjartmar. Rekstrarumsjón sér meðal annars um árlega aðalfundi og þar á meðal er ársreikningagerð, rekstraráætlun og húsgjaldaskipting svo hver íbúðareigandi viti nákvæmlega hvað hann er að greiða fyrir. „Við semjum við tryggingarfélög, sjáum um bankareikninga og sendum út kröfur, bjóðum út hin ýmsu verk s.s. þrif, snjómokstur og garðslátt, en veitum einnig almenna lögfræðiráðgjöf sem og ráðgjöf ef upp koma ágreiningsmál og komum þá fram sem hlutlaus aðili þess ágreinings til úrlausnar“, segir Helga Soffía.
Í dag eru yfir 100 húsfélög í þjónustu Rekstrarumsjónar, mörg hver hér í Hafnarfirði en einnig nokkur víðsvegar um suðvesturhornið.
Breytt samfélag
Á landsvísu eru aðeins um fjögur sambærileg fyrirtæki og það fyrsta var stofnað árið 2001. Hér er því á ferðinni frekar ný tegund af þjónustu og telja Helga Soffía og Bjartmar að það sé hluti af breyttu samfélagi og tengist auknum hraða í samfélaginu. „Mér finnst vera nokkur kynslóðamunur þegar kemur að kaupum á svona þjónustu. Eldra fólk var vant að sjá um þetta allt sjálft en yngra fólk vill frekar kaupa út svona þjónustu af fagaðilum og nýta frítíma sinn með fjölskyldunni eða í eitthvað annað“, segir Bjartmar.
Áhrif Covid
Covid hefur blessunarlega ekki haft mikil áhrif á reksturinn en þau njóta góðs af því að geta sinnt þjónustu við sína viðskiptavini að mestu í gegnum tölvupóst og síma. Það er einna helst að það lengdist töluvert í aðalfundartímabilinu en samkvæmt lögum um fjöleignarhús á að halda aðalfundi frá janúar til apríl. Í ár var þó gerð undantekning frá því og teygðist töluvert á því tímabili. „Við höldum vanalega aðalfundi hérna á skrifstofunni en í ár leigðum við stóra sali víðsvegar til að geta haldið fjarlægð á fundum og tókst þannig að klára þá alla í sumar“, segir Helga Soffía.
„Við erum þrátt fyrir allt að ná markmiðum okkar fyrir árið“, segir Bjartmar og bætir við að þau séu í raun að stækka og eru að auglýsa eftir þjónusturáðgjafa þessa dagana. Þau gerðu jafnframt nýverið styrktarsamning við körfuknattleiksdeild Hauka og þykir þeim mikilvægt að styrkja íþróttastarf í bænum.
Best við Hafnarfjörðinn
Helga Soffía er fædd og uppalin í Hafnarfirði og er Setbergið hennar staður. „Smábæjarfílingurinn er það besta við Hafnarfjörðinn, hér þekkja allir alla og hér er hægt að fá allt og það er í raun algjör hending ef ég þarf að fara út fyrir bæinn“, segir hún. Bjartmar tekur undir og bætir við að bókasafnið og kaffihúsin séu vinsæl hjá þeim í fjölskyldunni. „Eftir að það opnuðu góð veitingahús eins og Von og Krydd þá þarf ekkert að fara út fyrir bæinn, frábært að geta fengið mjög góðan mat og labbað síðan heim“, segir hann.
Hundar og handlaginn húsfaðir
Í frítíma sínum er Helga Soffía einnig mest hér í Hafnarfirði og fer þá gjarnan upp á Hvaleyrarvatn eða á hundasvæðin hér í kring með hundinn og barnið. Bjartmar fer gjarnan á veiðar, bæði skot og stöng en síðan var hann að byrja að læra trésmíði í kvöldskóla. „Mig dreymir um að vera handlaginn húsfaðir en held að smíðin nýtist líka vel í starfinu“ segir Bjartmar með bros á vör.