Urta Islandica – Matarbúðin Nándin
Á Austurgötu 47 varð fjölskyldufyrirtækið Urta Islandica til fyrir tíu árum og þar fer enn öll tilraunastarfsemi fyrirtækisins fram þó framleiðslan sé komin í annað húsnæði. Í sumar opnaði fjölskyldan einnig Matarbúðina Nándin í húsnæðinu – plastlausa matvöruverslun.
Við hittum Láru, dóttirin sem gegnir starfi markaðsstjóra, til að fræðast um reksturinn.
Fyrirtæki vikunnar
Urta Islandica framleiðir um 200 vörutegundir úr íslenskum jurtum
Íslenskar jurtir og ber
„Í kjölfar hrunsins 2008 fór mamma mikið að velta því fyrir sér hvað gerist ef landið lokast, hvernig ætlum við að verða okkur út um lyf, vítamín og mat“, segir Lára. Þóra, mamma hennar, fór því að rannsaka íslenskar jurtir og að búa til te, fyrst var það aðalbláberjate en síðan bættust við aðrar tegundir og fljótlega fór hún að framleiða fjölbreytt jurtakryddsölt. Eins og fyrr segir hófst þetta allt í einu rými en síðan þá hefur ýmislegt verið brallað og geymsluskúr verið breytt í framleiðslurými og heimilinu nokkrum sinnum verið snúið við. Urta Islandica framleiðir í dag um 200 vörutegundir úr íslenskum jurtum en fyrir utan jurtate og jurtasölt eru þau einnig með sýróp og sultur.
Öll fjölskyldan kemur að rekstrinum á einn eða annan hátt. Þóra er framkvæmdastjóri, Sigurður maður hennar er framleiðslustjóri, sonur þeirra Kolbeinn tæknistjóri, Lára markaðsstjóri, Sigrún eldri dóttirin, sem er kennari, aðstoðar oft við textagerð eða prófarkarlestur, yngsti sonurinn Þangbrandur gengur í ýmis verkefni og Hólmfríður systir Þóru sér um bókhaldið. Aðrir fjölskyldumeðlimir og vinir hafa einnig sinnt hinum ýmsu störfum hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina.
Matarbúðin Nándin
Fjölskylduna hafði lengi dreymt um að getað verslað meira plastlaust enda búin að vinna náið með íslenskri náttúru í tíu ár og vildu leggja sitt af mörkum til að verja hana. „Flestar vörur Urta Islandica eru í gleri og viðskiptavinir höfðu verið að spyrja hvort hægt væri að skila krukkunum“, segir Lára. Út frá því vaknaði hugmyndin að plastlausri matvöruverslun þar sem áhersla væri á að selja matvöru í gleri sem hægt væri að skila til baka og búa þannig til hringrásarkerfi fyrir glerumbúðir.
Enn og aftur lagðist fjölskyldan í mikla rannsóknarvinnu en þau áttuðu sig fljótt á því að ekki væri hægt að setja allt í gler og því þyrftu þau einnig að finna annan valkost. Þau fundu þá jarðgeranlegar umbúðir sem henta í heimamoltu en það er að mörgu að huga, tildæmis þurfa límmiðarnir að fara auðveldlega af og henta hverri vöru. Til að búa til rétta ferla fyrir endurnýtingu á glerumbúðunum fjárfestu þau í sérsmíðaðari uppþvottavél sem sótthreinsar glerið.
„Við erum búin að lenda í ýmsu skrautlegu í þessu ferli, við þurfum að kynnast og læra á nær allar vörurnar sem við erum með í sölu, hvað varðar endingartíma og rétt útlit. Stundum hefur verið erfitt að sannfæra birgja um að afhenda okkur vörur plastlaust en þetta er allt að koma“, segir Lára og greinilegt að hún hefur mikla ástríðu fyrir verkefninu.
Hverfisbúð með hugsjón
Matarbúðin opnaði formlega þann 17. júní síðastliðinn og hafa viðtökurnar verið ótrúlega góðar. „Fólk er mjög jákvætt og er til í þetta. Við erum á vissan hátt að vekja upp nostalgíu, þar sem sumum finnst dásamlegt að geta aftur keypt mjólk í glerflösku og koma í litla hverfisverslun með allt það helsta sem heimilið þarf og að bakvið búðarborðið standi fjölskyldan sem á og rekur búðina“, segir Lára.
Þau eru með ýmsar vörur frá smáframleiðendum og leggja sig fram við að stilla verðinu í hóf. „Við bjóðum upp á persónulega þjónustu, sem gerir viðskiptavinum auðveldara fyrir að velja plastlaust“, bætir hún við.
Helstu viðskiptavinirnir eru vissulega Hafnfirðingar úr hverfinu en sumir koma víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu og þá kannski sérstaklega fólk með mikla hugsjón sem kemur jafnvel með strætó til að skila krukkum og kaupa nýjar vörur. Verslunin hlaut nýverið Bláskelina, umhverfisverðlaun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og prýðilegt fordæmi, eitthvað sem þau eru ákaflega stolt af.
Búðin er opin alla virka daga frá 10 til 19 og frá 10 til 16 á laugardögum eða þegar hurðin er opin segir Lára og bætir við að þau vinni jafnframt hörðum höndum að því að opna vefverslun undir matarbudin.is
Áhrif Covid
Covid hefur haft mjög mikil áhrif á rekstur Urta Islandica en framleiðsluvörur þeirra voru seldar á yfir 60 stöðum þegar allt lék í lyndi en nú eru útsölustaðirnir orðnir afar fáir þar sem það eru að stærstum hluta erlendir ferðamenn eða Íslendingar að ferðast til annarra landa sem kaupa vörurnar sem eru hannaðar sem matargjafavara. „Við vonumst þó eftir að ná í ágætis sölu fyrir jólin en við erum að útbúa fallegar gjafakörfur fyrir einstaklinga og fyrirtæki, eitthvað sem hefur verið vinsælt undanfarin ár“, segir Lára.
Það jákvæða hefur þó kannski verið að fjölskyldan hefur getað sinnt Matarbúðinni betur og komið henni vel á stað. Samkvæmt Láru var nefnilega mun flóknara að koma henni á kjölinn en þau áttuðu sig á og hefði líklega ekki gengið að hafa hana bara sem hálfgert gæluverkefni eins og stóð til upphaflega.
Hafnfirðingar skemmtilegir
Lára er fædd og uppalin á Austurgötunni en pabbi hennar er Gaflari og hún er skírð eftir fóstru ömmu sinnar, Emelíu Láru í Lárugerði sem margir Hafnfirðingar kannast við. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn þá segir hún strax að það sé svo margt. „Það er þó sérstaklega þessi tenging við fortíðina og framtíðina og að við náum að halda í smábæjarbrag þrátt fyrir að vera orðin að stórum bæ“, segir Lára og nefnir síðan öll gömlu húsin og það að geta horft á hafið sé henni mikils virði og bætir við að Hellisgerði sé jafnframt í miklu uppáhaldi. „Hafnfirðingar eru líka svo skemmtilegir en ég finn það sérstaklega mikið núna þegar ég stend bakvið búðarborðið og spjalla við viðskiptavini“, segir hún.
Umhverfismálin heilla
Þegar Lára er ekki í vinnunni er nóg að gera við að ala upp tveggja ára gutta. Hún er annars mjög áhugasöm um hafnfirska sögu, sérstaklega um gömlu húsin og þær fjölmörgu verslanir sem voru hér áður og hvernig bæjarbragurinn hefur verið að lifna við aftur síðastliðin ár með frábærum búðum og veitingastöðum. Umhverfismál og verðmætasköpun er það sem hún svo brennur fyrir, en vinnan við að búa til plastlausan valkost er að hennar mati ákaflega mikilvægt fyrir okkur jafnt sem einstaklinga og þjóð. En með hverri skilakrukku og skilaflösku erum við saman að búa til hringrásarkerfi fyrir gler á Íslandi“, segir Lára að lokum.