Norðurbakkinn

Á gráum nóvembermorgni er afar notalegt að koma inn á Norðurbakkann þar sem ilmur af nýju bakkelsi, jazztónar og kertaljós taka á móti manni. 

Við settumst niður með Málfríði Gylfadóttur Blöndal eiganda og kynntumst kaffihúsinu sem fagnaði fimm ára afmæli sínu í síðustu viku.  

brunch.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Brönsinn er afar vinsæll á Norðurbakkanum

Mikill bókaunnandi

Það hafði lengi verið draumur Málfríðar að opna kaffihús þá sérstaklega bókakaffihús þar sem hún er mikill bókaunnandi. „Ég er alin upp í miklu návígi við bækur, er menntaður íslenskukennari og með meistaragráðu í ritstjórn og útgáfu og langaði því að reka kaffihús þar sem bækur koma við sögu“, segir hún en á Norðurbakkanum eru reglulega haldin bókaupplestrar- og ljóðakvöld yfir vetrartímann.

Þegar húsnæðið á Norðurbakkanum losnaði fyrir fimm árum ákvað Málfríður að stökkva til. Hún heillaðist strax af staðsetningunni í hjarta Hafnarfjarðar þar sem skemmtilegt er að fylgjast með mannlífinu út um gluggann sem og njóta útsýnisins með gömlu húsin í fyrirrúmi sem og bókasafnið.

Flestallar bækurnar á staðnum eru til sölu, bæði notaðar og nýjar. „Það er ekki endilega mikið selt af bókum en það er notalegt að hafa þær og viss upplifun þegar fólk sér einhverja gamla bók sem það tengir við ljúfar minningar og þá hefjast gjarnan skemmtilegar umræður“, segir Málfríður.

122844228_2539328226327709_5927304224698999090_n (1).jpg

Bröns vinsæll

Á Norðurbakkanum er hægt að fá gæðakaffi, te, léttvín, bjór og nokkra vinsæla kokteila sem og dýrindis kökur og bökur sem eru allar bakaðar á staðnum. Brönsinn þeirra er afar vinsæll en hann er hægt að fá á hverjum degi, laxabeyglan er jafnframt sígild og þá panta sérstaklega konur gjarnan grillaðan geitaost.

„Við eigum marga viðskiptavini sem koma alltaf aftur og aftur en mér finnst ákaflega mikils virði að veita persónulega þjónustu og vanda því starfsmannavalið vel en ég og dætur mínar stöndum jafnframt mikið vaktina“, segir Málfríður.

Veislur haldnar

Á Norðurbakkann kemur fólk á öllum aldri en Málfríður segir að stór hluti viðskiptavina sé í eldri kantinum. „Hingað koma gjarnan hópar eldra fólks eftir líkamsrækt eða göngur á vegum Janusar en einnig vina- og starfsmannahópar og þá eru oft sett upp löng borð“, segir Málfríður.

Á Norðurbakkanum hafa í gegnum tíðina einnig verið haldnar veislur af ýmsu tagi svo sem afmæli og fermingar en einnig litlar erfidrykkjur.

nordurbakkinn5.jpg

Áhrif Covid

Norðurbakkinn hefur að mestu náð að halda opnu á Covid-tímum og fólk kemur enn og gerir vel við sig. Samkvæmt Málfríði hefur það þó aukist töluvert að fólk komi og taki kaffi, te eða annað með sér. „Óvissan hefur verið erfiðust og ekki hægt að gera neinar áætlanir. Viðskiptavinirnir eru þó viljugir að koma en við höfum þurft að vísa fólki frá að undanförnu þá sérstaklega um helgar þegar mjög margir eru í göngutúr meðfram strandlengjunni og vilja koma inn í gott kaffi“, segir Málfríður og vonar að fólk haldi áfram að fara í göngutúra þegar faraldrinum er lokið.

Eins og gefur að skilja hefur ekki verið hægt að vera með uppákomur á kaffihúsinu sem hafa verið vinsælar í gegnum tíðina og einnig verið streymt á Facebook síðunni þeirra. Hún vonar að það verði bráðum mögulegt en á eftir að sakna þess sérstaklega núna í desember.

Sveitarómantíkin enn til staðar

Málfríður bjó fyrsta ár ævi sinnar í Hafnarfirði og eru til myndir af henni í Hellisgerði frá þeim tíma. Hún ólst þó upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi en flutti í Hafnarfjörðinn fyrir rúmum 15 árum og hér búa í dag systkini hennar og foreldrar. Aðspurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn brosir hún og segir að hún og mágkona hennar geti ekki hætt að mæra Hafnarfjörðinn. „Sveitarómantíkin er hér enn til staðar. Miðbærinn er fallegur, hafnarsvæðið skemmtilegt og hér býr fjölbreytt fólk“, segir Málfríður.

nordurbakkinn2b.jpg

Muna að njóta

Það kemur kannski ekki á óvart að þegar Málfríður er ekki á vaktinni á kaffihúsinu þá les hún mjög gjarnan og er í bókaklúbbum. „Ég hef sérstaklega gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og ljóðum og er einnig dugleg að gefa bækur“, segir hún.

Hún gengur líka gjarnan í kringum vötnin hér í nágrenninu með vinkonum sínum en hefur líka gengið hluta af Jakobsveginum og segir mikilvægt að muna að njóta en ekki þjóta á þannig göngum.

 
Previous
Previous

Skali merking

Next
Next

Urta Islandica – Matarbúðin Nándin