Loforð brúðarverkstæði og verslun

Í einni af gömlu verbúðunum við Fornubúðir leynist Loforð, brúðarverslun og verkstæði þar sem brúðurin getur fundið allt sem tengist stóra deginum en þar er jafnframt hægt að finna gæða silkivörur og fleira fallegt.

Við hittum Ásdísi Gunnarsdóttur, kjólameistara og eiganda Loforðs til að kynnast starfseminni.

loford3.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Loforð, allt fyrir tilvonandi brúður sem og gæða silkivörur

Langþráður draumur

Ásdís ákvað þegar hún var tíu ára að hún ætlaði að verða klæðskeri enda alin upp í miklu sauma- og klæðskeraumhverfi. „Mamma var saumakona allan sinn starfsferil og föðurafi minn klæðskeri, sá fyrsti hér á landi sem sérhæfði sig í fatnaði fyrir konur,“ segir Ásdís. Hún fór því strax eftir grunnskólann að læra fagið og lauk sveinsprófi í kjólasaum. „Ég vann á brúðarkjólaleigu meðfram námi og þar kviknaði áhugi minn á brúðarkjólum. Þetta vandaða og mikla handverk heillaði mig,“ segir Ásdís sem fór í starfsnám hjá þekktum brúðarkjólahönnuði í New York til að kynnast faginu enn betur.

loford2.jpg

Í nokkur ár vann Ásdís hin ýmsu störf innan tískubransans en var alltaf með drauminn í maganum að stofna brúðarverkstæði og lét loksins til skarar skríða í janúar 2019 þegar Loforð varð til. Starfsemin var fyrst heima hjá henni en flutti í Fornubúðir í febrúar 2020.  

Sérstaða Loforðs

Loforð er eina brúðarkjólaverslunin á landinu sem býður upp á alla nauðsynlega þjónustu. „Við sérsaumum kjóla en seljum einnig tilbúna kjóla sem þarf þó oft á tíðum að aðlaga að hverri og einni sem við gerum hér á saumastofunni,“ segir Ásdís. Brúðurin getur jafnframt fengið alla fylgihluti í Loforð svo sem skó, slör, skart, hárskraut og nærföt sem og förðun þar sem Ásdís er einnig förðunarfræðingur og tekur gjarnan að sér förðun fyrir brúðkaup. Kjólar fyrir litlar brúðarmeyjar sem og fylgihlutir fást líka í versluninni.

loford5.jpg

Persónuleg þjónusta

Draumur Ásdísar um verslunina tengdist mikið handverkinu og persónulegri þjónustu. Þegar kemur að brúðarkjólum er oft á tíðum mikið lagt í flíkina, vandað til verks og hver kjóll er einstakur. Þá finnst Ásdísi mjög gefandi og skemmtilegt að geta veitt persónulega og góða þjónustu. „Ég hitti hverja brúði nokkrum sinnum og get gefið mér tíma í litlu hlutina, sem eru samt svo mikilvægir, en héðan labbar enginn út nema að kjóllinn sé fullkominn,“ segir Ásdís ákveðin.

Það er líka viss upplifun að velja sér brúðarkjól og því er ávallt bókaður tími í mátun. Þá koma gjarnan vinkonur, systur, mæður eða tengdamæður með og hægt er að panta freyðivín eða taka lúxusmátun sem felur í sér kampavín og makkarónur.

loford1.jpg

Andlitsgrímur og silkivörur komu til bjargar

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Ásdís að í byrjun árs og í sumar hafi gengið nokkuð vel, enda tilvonandi brúðar búnar að panta kjóla með miklum fyrirvara. Í lok ágúst þegar ástandið fór aftur að versna kom skellurinn enda öllum haust- og vetrarbrúðkaupum frestað. „Engin brúðkaup þýða engar tekjur fyrir mig og ég varð því annað hvort að loka eða gera eitthvað allt annað“, segir Ásdís sem valdi seinni kostinn og fór að sauma andlitsgrímur og flytja inn gæða silkivörur. „Þessar vörur björguðu rekstrinum og netverslunin hefur aldeilis blómstrað.“ Í Loforð og á loford.is er því nú hægt að versla andlitsgrímur, koddaver og svefngrímur úr gæða silki sem og handspritt og ilmkerti svo eitthvað sé nefnt.

Líður stundum eins og hún sé í útlöndum

Ásdís býr ekki í Hafnarfirði en segist eiga marga vinahópa héðan og verið mikið í bænum sem unglingur. Hún var ávallt staðráðin í að hafa verslunina og verkstæðið í iðnaðarhverfi eða helst í verbúð. Árið 2019 kom hún í Fornubúðir til að heimsækja vinkonu sína, sem er með rekstur þar, og heillaðist strax að staðnum og er ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið eitt bil leigt í þessari gömlu verbúð. „Hér er afar góður andi og konurnar sem koma til mín eru oft svo hissa en á sama tíma hrifnar af öllum andstæðunum í þessu umhverfi.“

loford8.jpg

Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir Ásdís að hér sé viss borgarstemmning, eins og í Reykjavík en samt á annan hátt, allt miklu nánara. Hún kann vel að meta að geta valið úr góðum veitingastöðum og hér sé allt til alls. „Mér líður stundum eins og ég sé í útlöndum þegar ég labba strandlengjuna frá Firði þegar ég kem hingað með strætó,“ segir hún og brosir.

Gera vel við sig í mat og drykk

Matur og drykkur, gönguferðir og ferðalög eru helstu áhugamál Ásdísar. Eiginmaður hennar, Garðar Aron, er matreiðslumaður og þau gera gjarnan vel við sig í mat og drykk. „Við erum líka mjög gott teymi þegar kemur að brúðkaupum en næsta sumar ætlum við að sjá um eitt saman á Bolungarvík. Ég sé um um kjólinn, fylgihlutina og förðunina en Garðar um matinn,“ segir Ásdís að lokum.

Previous
Previous

Dyr ehf.

Next
Next

NAS auglýsingastofa