Dyr ehf.

Í Setberginu er skrifstofa Dyra ehf., ráðgjafafyrirtæki sem aðstoðar bæði fyrirtæki og einstaklinga í ýmsum málum tengdum fasteignum og fjármálum. Eigandinn Ingvar Guðmundsson á einnig gamla Drafnarhúsið við Strandgötu 75 og hlaut viðurkenningu á hvatningarverðlaunahátíð markaðsstofunnar árið 2018 fyrir að hafa komið á blómlegri starfsemi í húsinu.

Við hittum Ingvar til að kynnast starfseminni.

dyr5.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Dyr er ráðgjafafyrirtæki en einnig eigandi Drafnarhússins

Fjölbreytt verkefni

Dyr ehf. var stofnað árið 1997 í kringum vissar fjárfestingar Ingvars. Á þeim tíma átti hann þó enn Ás fasteignasölu sem hann stofnaði árið 1988. Ingvar sem er ekki bara löggiltur fasteignasali heldur einnig löggiltur verðbréfasali og rekstrarfræðingur ákvað því árið 1999 að selja Ás og vinna alfarið sjálfstætt undir nafninu Dyr. „Ég hef tekið að mér mörg og fjölbreytt verkefni í gegnum árin og oft á tíðum verið að aðstoða fólk sem lendir í vandræðum við kerfið, sem getur verið ansi flókið og erfitt“, segir Ingvar og bætir við að í starfinu felist því af og til viss félagsráðgjöf. Hann hefur einnig aðstoðað fólk sem er að selja fasteignir, er að endurfjármagna eða þarf fagaðila við samninga- eða skjalagerð. Þá nefnir Ingvar Geymslusvæðið ehf. í Kaplahrauni sem dæmi um stórt verkefni sem hann hefur unnið að í fjölda ára. „„Ég hef veitt eigandanum ráðgjöf en þar er verið að byggja upp og þróa iðnaðarhverfi í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ“.     

dyr1.jpg

Persónuleg tengsl

Það vekur athygli spyrjanda að fyrirtækið er ekki með heimasíðu og hvergi skráð á samfélagsmiðlum. „Ég hef lítið verið að auglýsa eða kynna starfsemina í gegnum tíðina, þetta er meira maður þekkir mann, persónuleg tengsl og orðspor,“ segir Ingvar og bætir við að löng og mikil reynsla á þessu sviði sé mikils virði.

Hann hefur alla tíð verið með skrifstofuna heima í Setberginu en segir að flestir fundir fari fram á kaffihúsum eins og Pallett eða Súfistanum. Þá hafi miklar breytingar átt sér stað í vinnulagi í gegnum árin, nú getur hann gert flestallt í tölvunni en áður fyrr þurfti sem dæmi að fara á staðinn og sækja veðbókarvottorð og annað.

Áhugamaður um fasteignir

Ingvar er mikill áhugamaður um fasteignir og gamlar byggingar með sögu heilla hann sérstaklega. Hann ákvað því að kaupa Drafnarhúsið þar sem hann sá í því mikla möguleika. „Ég keypti það í bútum, fyrsta hlutann árið 2004 og daginn fyrir hrun árið 2007 restina. Hrunið seinkaði þó öllu og það var ekki fyrr en árið 2015 sem mér tókst að breyta húsinu og koma í það einhverja lifandi starfsemi.“, segir Ingvar. Þá á hann einnig græna húsið við Linnetstíg 1 þar sem veitingastaðurinn Tilveran er til húsa.

dyr3.jpg

Ingvar brennur greinilega fyrir uppbyggingu bæjarins og hefur sterkar skoðanir. Hann er á því að við eigum að hætta að rífa gömul hús, hann vill frekar gera þau upp og nota á skapandi máta. „Það er svo mikil saga í mörgum húsum sem hafa verið rifin eða stendur til að rífa. Staðreyndin er hins vegar sú að öll þróun sem hefur gengið vel hefur gerst í gömlum húsum,“ segir Ingvar sem er mótfallinn því að byggja endalausar blokkir sem eru að hans mati flestar eins og með litla sérstöðu eða sjarma.   

Áhrif Covid

Ingvar segir að Covid hafi vissulega haft áhrif á reksturinn eða allavega svona óbeint en hann leigir jú þremur veitingastöðum og þar hefur faraldurinn haft mikil áhrif. Hann segist hafa haft áhyggjur af leigjendum sínum en þeir standi sig þó allir ótrúlega vel. „Ég lít á þetta sem samvinnuverkefni og mér finnst afar mikilvægt að starfsemin í húsunum mínum nái að blómstra,“ segir Ingvar.

dyr4.jpg

Á Linnetstígnum er hann einnig með tvær íbúðir sem hafa verið leigðar ferðamönnum undanfarin ár og gengið vel en eins og gefur að skilja hefur ekkert verið að gera þar undanfarið. „Við náðum þó að koma íbúðunum í langtímaleigu. Það þýðir þó minni tekjur en á sama tíma minni vinnu en það var oft mikið að gera hjá okkur hjónum í að þrífa og þvo eftir ferðamennina,“ segir Ingvar en eiginkona hans Rut Brynjarsdóttir tekur þátt í öllum rekstrinum og gengur eins og hann sjálfur í öll störf.

Höfnin og sagan

Ingvar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, bjó fyrst á Holtsgötunni en flutti síðan upp á Holt með foreldrum sínum. Rut er einnig Hafnfirðingur og hafa þau hjónin ávallt búið saman hér í bænum. Aðspurður hvað sé best við Hafnarfjörð segir hann eftir stutta umhugsun höfnin og öll sagan. „Þess vegna verðum við að umgangast þetta með virðingu og það gerum við ekki með því að byggja endalaus blokkarhverfi,“ segir Ingvar ákveðinn.

dyr2b.jpg

Golf og veiði

Ingvar ólst upp við hliðina á Keilisvellinum en byrjaði þó ekki fyrr en fyrir um tíu árum að spila golf að einhverju ráði. Nú fer hann hins vegar oft á völlinn og er félagi í Keili. „Ég hef einnig verið mikið í stangveiði í gegnum tíðina en fer mun sjaldnar nú en áður og er ekki hrifin af veiða og sleppa aðferðinni,“ segir hann en bætir við að hann fari þó enn af og til með sonum sínum að veiða þar sem fengurinn kemur með heim og finnst þá samveran og útivistin vera besti hlutinn.  

Previous
Previous

Gatsby

Next
Next

Loforð brúðarverkstæði og verslun