Gatsby
Fyrir rúmum tveimur árum opnaði afar fögur verslun á horninu á Strandgötu 49, þar sem áður var Einarsbúð. Í staðin fyrir nýlenduvörur má þar nú finna litríka og fallega kjóla, hatta, sixpensara, skartgripi og ýmsar fallegar gjafavörur.
Við hittum Guðbjörgu Jóhannesdóttur sem á og rekur Gatsby ásamt eiginmanni sínum Ármanni Sigurðssyni.
Fyrirtæki vikunnar
Í Gatsby eru ekki einungis seldar vörur heldur einnig upplifun.
Kolféll fyrir húsnæðinu
Gatsby opnaði þann 24. nóvember 2018 en aðdragandinn var mjög stuttur. „Ég sá húsnæðið auglýst til leigu og fór að skoða það í tengslum við vinnu mína á þeim tíma. Sú hugsun gekk ekki upp en ég kolféll fyrir húsnæðinu og ákvað bara að opna eigin verslun,“ segir Guðbjörg en þetta var í október og því leið ekki nema rétt rúmur mánuður þar til Gatsby opnaði.
Guðbjörg er snyrtifræðingur og hafði áður rekið snyrtistofu en var búin að vinna í fatabransanum í nokkur ár á þessum tíma, aðallega fyrir íslenska hönnuði. Hún var hins vegar strax staðráðin í að vera með áherslu á millistríðsáratískuna í sinni búð, þá sérstaklega úrval af gatsby- eða flapperkjólum. „Mér finnst þetta tímabil svo æðislegt, það var svo mikið líf þrátt fyrir heimskreppu,“ segir hún með bros á vör.
Síðkjólar og söngkonur
Frá fyrsta degi hefur reksturinn gengið vel. Það kom fljótt í ljós að það vantaði greinilega síðkjóla á markaðinn og sem dæmi voru konur sem fara á árlegt síðkjólakvöld Oddfellow og Frímúrara fljótar að uppgötva búðina. Þá segir Guðbjörg að nokkrar söngkonur komi reglulega en annars sé hópur viðskiptavina mjög fjölbreyttur, bæði konur og karlar.
Þó að kjólar séu vissulega uppistaðan þá er mikið úrval fylgihluta bæði fyrir dömur og herra í Gatsby s.s. sokkar, slaufur, bindi, treflar, hanskar, ermahnappar, hattar og sixpensarar. „Ég byrjaði fljótlega að vera einnig með vörur fyrir herra enda mikið um að fyrirtæki hafi samband ef árshátíðin er með 20´s þema og því mikilvægt að vera einnig með vörur fyrir herramennina,“ segir Guðbjörg.
Pabbi mikill áhrifavaldur
Aðspurð hvaðan áhuginn á millistríðsáratímabilinu komi segir Guðbjörg að þar hafi pabbi hennar haft mikil áhrif. „Pabbi var fæddur árið 1915, var einn af stofnendum Sinfó, frumkvöðull í jazztónlist hér á landi, var einn af körlunum sem spiluðu á Borginni um 1940 og gekk alltaf með hatt eða sixpensara,“ segir Guðbjörg og bætir við að hún hafi því einfaldlega alist upp í þessu með pabba af gamla skólanum. Þá hafi hún líka mikið lesið Agatha Christie sem unglingur og hrifist af Art deco munum en ítrekar að hún hafi einna helst litast af pabba sínum.
Selur einnig upplifun
Guðbjörg segir að hún vilji ekki einungis selja vörur heldur einnig upplifun. „Húsnæðið, tónlistin, persónuleg þjónusta og fallegar umbúðir skipta miklu máli og ég hef oft heyrt að fólki finnist það næstum komið til Parísar þegar það stígur inn í Gatsby.“
Hún segir að það gefi sér mjög mikið að geta veitt góða og persónulega þjónustu. Hún sé minnug á andlit, með næmt auga og gangi því vel að spotta út stíl og stærðir. Fólki finnist því gott að koma til hennar og mjög margir komi aftur og aftur og ósjaldan með einhvern með sér.
Guðbjörg segist einnig senda mikið af vörum út á land. Hún sé þá dugleg að taka myndir og biðja konur um að mæla sig og hingað til hefur það alltaf gengið vel. Hún bjó sjálf úti á landi í 20 ár og vill því líka sinna þessum viðskiptavinum vel.
Áhrif Covid
Það stefndi í metmánuð í sölu hjá Gatsby í mars síðastliðinn enda margir á leið á árshátíð. Undir lok mánaðarins þegar Covid var komið á kreik þá skrúfaðist hins vegar hreinlega fyrir alla sölu frá einum degi til annars. „Ég ákvað því bara að loka búðinni og pakkaði niður síðkjólunum og opnaði ekki aftur fyrr en sex vikum síðar í byrjun maí með fulla búð af fallegum sumarkjólum,“ segir Guðbjörg.
Hún segir að sumarið hafi gengið mjög vel og í raun metsala mánuð eftir mánuð þetta árið. „Fólk er greinilega ekki að fara til útlanda og kemur frekar bara á rölt í miðbæ Hafnarfjarðar,“ segir hún og lýsir yfir sérstakri ánægju með aukna skreytingu fyrir jólin í bænum sem greinilega laðaði fólk að. Nú dreymir hana um að fá líka fallegt stórt hjarta á litla blettnum við hliðina á búðinni enda umhverfið sérstaklega myndrænt, hvort sem það sé gamla húsið sem búðin er í eða kirkjan.
Guðbjörg segist þó hafa þurft að breyta vöruúrvalinu aðeins á árinu sökum Covid, hafa það breiðara þar sem eftirspurnin sé önnur. Það selst lítið sem ekkert af síðkjólum enda lítið um árshátíðir eða aðrar stórveislur. Hún selur því núna sem dæmi vörur frá Freebird, íslensku merki sem hún vann hjá í nokkur ár en einnig hafa litlu dönsku mýslurnar slegið í gegn sem og ensku sápurnar og ilmkertin.
Bæjarsamfélagið best
Guðbjörg og fjölskylda hafa búið í Hafnarfirði í sjö ár, fyrst í stóru húsi í miðbænum en þegar börnin fóru að flytja að heiman hvert af öðru minnkuðu þau við sig og búa núna á Völlunum. „Mér líður mjög vel hérna og finnst bæjarsamfélagið best, hitta fólk í búðinni og heilsast. Hér er einhver góður kjarni, eitthvað skemmtilegt og notalegt“, segir Guðbjörg.
Hún segir að það sé líka greinilegt að húsnæði verslunarinnar sé Hafnfirðingum mjög kært og þeim sé ekki sama hvað sé þarna inni. „Ég hef ósjaldan fengið klapp á bakið frá fólki sem er ánægt með að hafa svona fallega búð í húsinu og fæ nokkurs konar samþykki frá þeim,“ segir Guðbjörg greinilega mjög ánægð.
Ástríðukokkur
Þegar Guðbjörg er ekki að sinna búðinni sinni þá segist hún mjög gjarnan vera í eldhúsinu. „Ég er ástríðukokkur, elska að elda og pæla í mat og þá verður indverskur eða miðjarðarhafsmatur gjarnan fyrir valinu“, segir Guðbjörg sem ætlaði að verða kokkur og byrjaði í því námi á sínum tíma og vann á sínum yngri árum á nokkrum veitingastöðum. „Ætli ég sé ekki nokkurs konar ítölsk mamma, ég á mörg börn og vil hafa nóg af öllu þegar kemur að mat, eitthvað sem vinir og fjölskylda geta staðfest “ segir hún að lokum.