NAS auglýsingastofa
Hönnun bæklinga, myndbandagerð, ljósmyndun, vefsíðugerð og umsjón með samfélagsmiðlum er meðal verkefna sem NAS auglýsingastofa á Reykjavíkurveginum tekur að sér.
Við hittum tvo af eigendunum þá Kristján Daða, markaðsstjóra og hönnuðinn Daða Frey.
Fyrirtæki vikunnar
Æskuvinir sem eiga auglýsingastofuna NAS
Æskuvinir
Kristján og Daði eru æskuvinir, kynntust í 5. bekk í Hraunvallaskóla og verið í sama vinahóp síðan þá. Fyrir rúmum tveimur árum var Kristján mikið að stúdera samfélagsmiðla og farinn að aðstoða fyrirtæki við að auglýsa vörur sínar á þeim. Hann vildi ganga skrefinu lengra og stofna auglýsingastofu og fór að spjalla við Daða sem þá var í Berlín að læra margmiðlunarhönnun. Úr varð að þeir félagar stofnuðu NAS auglýsingastofu ásamt þriðja vininum ljósmyndaranum Eggerti, sem hefur jafnframt verið að gera myndbönd frá því í grunnskóla. „Við komum allir með mismunandi þekkingu að borðinu og myndum mjög gott teymi“, segir Kristján.
Gaman í vinnunni
NAS tekur að sér alla grafísk hönnun, gerir myndbönd, tekur ljósmyndir, setur upp og hannar vefsíður og annast umsjón samfélagsmiðla. „Við höfum unnið mikið fyrir veitingastaði og aðila í ferðaþjónustu“, segir Daði en fyrstu stóru viðskiptavinirnir komu úr þeim bransa og það vatt upp á sig. Þeir hafa sem dæmi gert fjölmörg myndbönd fyrir ferðaskrifstofuna Tröll Expeditions. Byrjuðu á því að fara með þeim í jöklaferð og gera myndband sem fékk það góðar viðtökur að myndböndunum fjölgaði ört og fleiri aðilar höfðu samband sem vildu fá þá í vinnu fyrir sig. „Við höfum svo gaman að þessu og það skilar sér greinilega. Það er frábær upplifun að keyra út á land, kynnast landinu okkar, gera myndband og fá greitt fyrir það“, segir Kristján með bros á vör.
Stór hluti vinnunnar fer þó fram fyrir framan tölvuskjáinn. Þegar búið er að taka myndböndin upp þarf að útbúa þau fyrir ólíka miðla sem þýðir í mismunandi stærðum og gerðum. Sama er að segja um umsjón með samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki og stofnanir, þar sjá þeir oft um bakendavinnuna, eitthvað sem fólk sér ekki. „Það eru annars stöðugar breytingar í gangi á samfélagsmiðlum og mikilvægt að halda þekkingunni við sem og fylgjast með því nýjasta“, segir Kristján.
Mismunandi hvað virkar
Þeir segja að það sé mismunandi hvaða markaðsaðgerðir henti fyrir fyrirtæki enda markhóparnir ólíkir og markmiðið ekki alltaf það sama. „Sem dæmi virka myndbönd einstaklega vel fyrir ferðaþjónustuna og svo ætluðum við líka að gera myndbönd fyrir veitingastað en áttuðum okkur fljótt á því að þar vill fólk mun frekar sjá flottar ljósmyndir“, segir Daði.
Þeir segja að það sé annars fínt að vera lítil auglýsingastofa þar sem þeir geti þá alltaf veitt persónulega þjónustu. Þeir eru ekki með neina starfsmenn en nokkrir fastir aðilar koma að verkefnum sem verktakar. Fyrirtæki sem NAS hefur verið að vinna fyrir að undanförnu eru meðal annars Garðheimar, KSÍ, Einstök, Miðbær Hafnarfjarðar, Flúrlampar, IceMedica og nokkrir veitingastaðir og aðilar í ferðaþjónustu.
NAS
Okkar lék forvitni á því hvaðan nafnið NAS komi og fyrir hvað það standi. Kristján brosir og segir að það hafi í raun verið lítil hugsun á bak við það í upphafi. „Það stendur í raun fyrir Nýja AuglýsingaStofan sem var bara nokkurs konar vinnuheiti í upphafi og við skráðum okkur þannig í fyrirtækjaskrá. Síðan gerðum við lógó og fengum lénið nas.is og þá var ekki aftur snúið“, segir Kristján en samkvæmt honum er þriggja stafa lén mikils virði í dag.
Áhrif Covid
Það var allt á fljúgandi siglingu hjá NAS í upphafi árs og mörg verkefni í gangi. „Þegar Covid fór á stað í febrúar þá misstum við eiginlega 80% verkefna okkar á einni viku“ segir Kristján enda voru þeir að vinna mikið fyrir veitingastaði og aðila í ferðaþjónustu.
Daði segir að fyrirtækið hafi þó sem betur fer staðið vel og þeir standi þetta því af sér. „Við drógu saman í áætluðum tækjakaupum og fórum einfaldlega í það að leita að nýjum fyrirtækjum,“ segir hann.
Árið hefur þó vissulega verið frekar rólegt en þeir eru bjartsýnir á að staðan verði betri á nýju ári þegar ferðaþjónustan fari aftur á fullt. „Við lifum bara með þessu og erum vissir um að ef við höndlum þetta þá höndlum við allt“, segir Kristján.
Hafnfirðingar eru miklir Hafnfirðingar
Kristján og Daði eru báðir Hafnfirðingar og Kristján segir að öll sín fjölskylda búi í bænum. Það sem þeim finnst báðum best við Hafnfjörð er fólkið og samfélagið. „Hafnfirðingar eru miklir Hafnfirðingar, hér þekkjast næstum allir. Við erum eins og lítið þorp úti á landi samt í höfuðborginni“, segir Kristján. Þeir félagar eru þó sammála um það vanti kannski aðeins meira næturlíf fyrir þeirra aldur en kunna þó orðið vel að meta alla flottu veitingastaðina í bænum.
Flug, tölvur og hjól
Aðspurðir um áhugamál þá segir Daði strax að Kristján sé maður áhugamálanna og hafi prófað mjög margt. Kristján brosir og jánkar þessu en segir að þessa dagana sé skemmtilegast að fljúga. „Ég kláraði einkaflugmannsprófið í sumar og er núna í flugklúbb og flýg mjög gjarnan. Síðan hleyp ég, hjóla, fer á snjóbretti og í golf og keypti mér jeppa á stórum dekkjum í sumar og langar að vera jeppakarl.“
Daði segir að hann spili gjarnan tölvuleiki en hann ólst mikið upp við tölvur. „Pabbi er kerfisfræðingur og þegar ég var lítill var hann að búa til tölvu og ég fékk því ungur x-box og borðtölvu. Ég elska tæknina og hvernig hún virkar“, segir Daði sem hjólar líka gjarnan og hefur meðal annars hjólað hringinn í kringum landið.