RAG Import Export

Lúxusrútur, tengivagnar, landbúnaðarvélar, kerrur, fjórhjól, snjóblásarar, rafmagnsbílar fyrir börn og infrarauðir klefar eru meðal þess sem RAG Import Export á Helluhrauni selur.

Við hittum Rafn Arnar Guðjónsson framkvæmdarstjóri til að kynnast fyrirtækinu.

2020-02-09 13.46.46.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Lúxusrúturnar vinsælar hjá RAG á Hellnahrauni

Bíladella á háu stigi

Það eru margir sem þekkja Rafn undir nafninu Rabbi bílasali enda hefur hann hátt í 40 ára reynslu af sölu bifreiða og vinnuvéla. Hann var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist sem löggiltir bílasalar hér á landi og hefur selt mörg þúsund farartæki í gegnum árin.

Rafn ætlaði þó upphaflega að vera sjómaður, fór í Stýrimannaskólann en var ráðlagt að læra iðngrein áður en hann færi í Sjómannaskólann. Hann lærði því innréttingarsmíði og rak sitt eigið fyrirtæki í nokkur ár en í staðin fyrir að fara á sjóinn snéri sér hann sér að bílum. „Ég hef alltaf verið með bíladellu á háu stigu, svo vægt til orða sé tekið“, segir Rafn.

RAG4.jpg

Þekking og gott tengslanet

Rafn var einn af eigendum bílasölunnar Hrauns sem og Hrauntaks en hóf að starfa undir eigin nafni árið 2009 þegar hann stofnaði RAG. „Ég byrjaði frekar snemma að sérhæfa mig í sölu á atvinnubílum og hef því byggt upp mikla þekkingu á því sviði og er með góð tengsl víðs vegar um Evrópu“, segir Rafn og bætir við að hann telji að enginn hér á landi hafi náð að selja tæki eins lengi og hann.

RAG stundar innflutning á nýjum og notuðum atvinnubílum, vinnuvélum og öðrum tækjum þar á meðal eru umhverfisvænir metanbílar. Hann á mjög marga stóra fastakúnna, fyrirtæki og stofnanir sem hafa í 20 eða 30 ár alltaf verslað við Rafn. Hann er umboðsaðili fyrir þýska fyrirtækið Fliegl sem og fleiri fyrirtækja. Þessa dagana er hann að leggja lokahönd á samstarf við tékkneska fyrirtækið Hecht og fær þá einkasöluleyfi þeirra hér á landi.  

RAG3.jpg

Samstarfsfyrirtæki í Póllandi

Undanfarin ár hefur Rafn einna helst verið að selja rútur og aðilar í ferðaþjónustunni keypt margar af honum. Hann á í góðu samstarfi við pólska fyrirtækið Bus-pl sem sérsmíða rútur og geta auðveldlega aðlagað sig að því sem markaðurinn þarf hverju sinni. „Þökk sé þessu samstarfi gat ég boðið byltingu í gæðum og verðum hér á landi. Nú þurfa þessir stóru að berjast við litla manninn í Hafnarfirði“, segir Rafn ákveðinn.

Sérsmíðuðu 4x4 Benz rúturnar með háu og lágu drifi og 35 tommu dekkjum hafa verið afar vinsælar. Þar er um að ræða sannkallaðar lúxusrútur sem henta vel hér á landi. Rafn segist þó selja rútur víðs vegar um Evrópu. „Það voru átta rútur á leiðinni hingað til lands í sumar en vegna ástandsins þurftu kaupendur að afturkalla kaupin. Ég endurgreiddi öllum strax og seldir rúturnar einfaldlega áfram til Noregs, Austurríkis, Frakklands, Spánar, Ítalíu og Svartfjallalands“, segir hann.

RAG7.jpg

Áhrif Covid – leitaði á önnur mið

Þegar Covid fór að herja á landið stöðvuðust öll viðskipti við ferðaþjónustuna. Þá hófst aftur á móti mikill innflutningur á atvinnutækjum, bæði nýjum og notuðum sem hélt fram á vor. Í sumar var aftur á móti lítið sem ekkert að gera. „Sumarið er reyndar alltaf rólegasti tíminn en það hefur aldrei verið eins rólegt og síðasta sumar“, segir Rafn.

Hann segir að þá hafi ekkert annað verið í stöðunni nema að bretta upp ermarnar og leita á önnur mið. Hann byrjaði á því að panta snjóblásara frá Hecht í Tékklandi og fljótlega bættust við rafmagns fjórhjól frá sama fyrirtæki. „Þetta eru götuskráð rafmagnshjól og þau fyrstu og einu sem seld eru hér á landi“, segir Rafn. Þá er hann einnig farin að flytja inn klefa með infrarauðu ljósi. „Konan mín hafði komist í kynni við svona klefa fyrir nokkrum árum og var mjög hrifin. Þegar ég sá að Hecht voru með klefa ákvað ég að slá til.“ Skemmst er frá því að segja að sendingin af klefunum sem er á leið til landsins er uppseld og sama er að segja um rafmagnshjólin.

Innflutningur á atvinnutækjum er kominn á fullt aftur svo það er meira en nóg að gera hjá Rafni þessa dagana.  

RAG6.jpg

Giftist inn í Sigga Þorláksættina

Rafn er uppalinn í Garðabæ en giftist inn í Sigga Þorláksættina, eina af stærstu Hafnarfjarðarfjölskyldunum, fyrir um 40 árum og hefur búið í Hafnarfirði síðan þá. Hann er mikill FH-ingur og fastagestur í Krikanum, bæði í fótbolta og handbolta og hefur styrkt félagið í gegnum tíðina.

Rafn segir að þetta sé fallegur og góður bær og hér búi gott fólk. Hann vilji því hvergi annars staðar búa þó hann sé ekki alltaf vera sáttur við stjórnarhættina.

Sumarbústaðurinn, bílar, veiði og ferðalög

Eins og fyrr segir er Rafn með mikla bíladellu og á skrifstofunni er fjöldinn allur af verðlaunabikurum. „Ég hef keppt í öllum greinum bílasports nema go-kart“, segir hann og hefur komist á verðlaunapall í  rallý, torfæru, kvartmílu og sandspyrnu.

Hann segir að aðaláhugamál þeirra hjóna í dag sé hins vegar sumarbústaðurinn, þar sé gott að græja og rækta. „Við ræktum þar tré og góðmennsku og allskonar“, segir hann með bros á vör. Þá fer Rafn gjarnan í stangveiði og í ferðalög um Evrópu með nokkrum vinahjónum.

Previous
Previous

NAS auglýsingastofa

Next
Next

BRIKK