Burkni
Blómabúðina Burkna þekkja líklega flestir Hafnfirðingar og margir sem eiga ljúfar minningar tengdri búðinni en hún hefur verið starfandi frá árinu 1962 og alltaf í eigu sömu fjölskyldunnar.
Blómabúðina Burkna þekkja líklega flestir Hafnfirðingar og margir sem eiga ljúfar minningar tengdri búðinni en hún hefur verið starfandi frá árinu 1962 og alltaf í eigu sömu fjölskyldunnar.
Við hittum Gyðu Gísladóttur eiganda og Brynhildi dóttur hennar sem sögðu okkur allt um Burkna.
Fyrirtæki vikunnar
Það eiga margir ljúfar minningar tengdar Burkna.
Mamma mikil ævintýrakona
Burkni var fyrst opnaður þann 10. nóvember árið 1962 af hjónunum Sigrúnu Þorleifsdóttur (Dúnu) og Gísla Jóni Egilssyni, foreldrum Gyðu. Fyrstu sex árin var búðin á Strandgötu 35 en flutti þá á Linnetstíginn og hefur verið þar síðan. Dúna var alltaf að búa til pappírsblóm úr kreppappír og seldi þau meðal annars fyrir jólin en þegar Gísli varð að hætta á sjónum ákváðu þau að opna blómabúð.
„Mamma var mjög framsækin og mikil ævintýrakona. Hún lagði mikið upp úr jólaskreytingum og var fyrst hérna í bænum til að strengja jólaljós yfir götuna og lýsa upp búðargluggann. Hann vakti ávallt athygli og fólk kom víðsvegar að til að skoða gluggaskreytingarnar og kaupa varning sem var sjaldséður á þeim tíma“, segir Gyða. Í Burkna fengust sem dæmi fyrst hér á landi vörur frá Bing & Gröndal og Georg Jensen.
Dúna er enn að gera pappírsblóm en hún verður 93 ára í desember og býr á Hrafnistu. „Amma fylgist enn spennt með rekstrinum og hefur skoðanir á hlutunum og kemur alltaf af og til með ráðleggingar“, segir Brynhildur með bros á vör.
Gyða keypti búðina af mömmu sinni árið 1996 og sér í dag aðallega um skreytingar og daglegan rekstur en Brynhildur einna helst um fjármál, starfsmannahald og markaðsmál en segist líka þurfa að stússast í blómunum til að næra sköpunarþörfina.
Alltaf afmæli
Konudagurinn og mæðradagurinn eru stærstu dagarnir hjá Burkna. Í kringum jólin er einnig mikil sala en hún dreifist yfir lengra tímabil. Reksturinn sveiflast annars eftir því sem er að gerast í þjóðfélaginu en þó er ákveðinn grunnur sem heldur búðinni gangandi. „Fólk á alltaf afmæli, sama hvað á gengur og blóm eru notuð við öll stærstu tímamót lífsins“, segir Gyða.
Vöruúrvalið breytist annars í takt við tímann. Í dag er selt minna af gjafavöru sem þær mæðgur tengja við umhverfismeðvitund fólks. Þær einbeita sér því meira að blómum af ýmsum gerðum en nú eru pottablóm og þurrkuð blóm mikið í tísku.
Skemmtilegast við reksturinn samkvæmt þeim mæðgum er að hver árstíð hefur sinn sjarma. Laukarnir og greinarnar sem koma í mars eru mikill vorboði en hver árstíð hefur upp á eitthvað fallegt að bjóða.
Ljúfar minningar
Burkni á stóran hóp viðskiptavina sem kemur reglulega og hefur gert í mjög mörg ár. „Það eru margir sem halda alltaf tryggð við búðina og í raun mann frá manni, við höfum oft heyrt að mamma eða amma hafi sent viðkomandi til okkar“, segir Gyða.
Viðskiptavinir eiga einnig sterkar æskuminningar tengdar búðinni. „Fólk segir okkur frá styttu sem það fékk í afmælisgjöf þegar það var 10 ára eða að það hafi alltaf dreymt um að vinna hér í æsku, nú eða einhverjar skemmtilegar fjölskyldusögur tengdar Burkna“, segir Brynhildur og bætir við að reglulega sé spurt um Dúnu ömmu og beðið fyrir kveðju til hennar.
Áhrif Covid
Á tímum Covid þegar flestir eru mikið heima er greinilegt að fólk reynir að gleðja sig og aðra með því kaupa blóm. Það hefur því orðið aukning í sölu sem þær mæðgur eru afar ánægðar með. Það kom reyndar smá frost í allt í mars en síðan hefur gengið vel og þær þakklátar fyrir að hafa sloppið við veikindi og geta haft búðina opna.
„Það myndast skemmtileg stemmning kringum helgarinnar núna þegar allir eru heima og við reynum að stíla inn á vendi sem kosta ekki mikið og erum gjarnan með svokallaða haustheimillisvendi sem og kerti þessa dagana “, segir Brynhildur.
Best við Hafnarfjörðinn
Þær mæðgur eru báðar fæddar og uppaldar í Hafnarfirði og Gyða segir að þetta sé fallegasti bærinn á landinu og bætir við að hér sé einhver notaleg þorpstemmning. „Við erum góður saman þjappaður hópur og fólk hittist hér í miðbænum sem er svo dýrmætt“, segir hún. Brynhildur tekur undir og segir einmitt að mannlífið sé það besta við í Hafnarfjörðinn.
Vinnan líka áhugamál
Fjölskyldan er greinilega samrýmd og fer gjarnan í sumarbústað í frítíma sínum. Þær viðurkenna þó að þar sé líka mikið spáð í búðina, göngutúrarnir fara oft í að týna köngla eða eitthvað fallegt í skreytingar en Kristján sonur Gyðu, tengdabörnin og barnabörnin taka mjög gjarnan þátt. „Við erum öll saman í þessu stórfjölskyldan“, segir Gyða og greinilegt að það eru óljós skil milli vinnu áhugamáls og þau hafa ástríðu fyrir því sem þau eru að gera.
Flúrlampar - Lampar.is
Fjölskyldufyrirtækið Flúrlampar á Reykjavíkurveginum selur ekki einungis ljós, lampa, perur og íhluti tengda ljósum heldur smíða þau einnig ljós og lampa, gera við og eru mjög öflug í að LED-væða eldri lampa sem og setja upp ljósastýringar.
Fjölskyldufyrirtækið Flúrlampar á Reykjavíkurveginum selur ekki einungis ljós, lampa, perur og íhluti tengda ljósum heldur smíða þau einnig ljós og lampa, gera við og eru mjög öflug í að LED-væða eldri lampa sem og setja upp ljósastýringar.
Við hittum eigandann og framkvæmdastjórann Jóhann Lúðvík Haraldsson og Elmu Björk Júlíusdóttur sambýliskonu hans sem sér um fjármálin og innflutning.
Fyrirtæki vikunnar
Sérsmíða ljós og gefa gömlum nýtt líf.
Úr gamla Rafha
Flúrlampar rekur sögu sína allt til ársins 1977 þegar gamla Rafha (Raftækjaverksmiðja Hafnarfjarðar) var skipt upp í nokkur fyrirtæki og úr lýsingahlutanum varð Flúrlampar sem starfaði til fjölda ára á Kaplahrauni. Árið 2004 keypti Jóhann fyrirtækið sem hefur aukið bæði vöruúrval og þjónustu á undanförnum árum og er nú staðsett á Reykjavíkurvegi 66.
Framleiða sín eigin ljós
Verkefnin hjá Flúrlömpum eru ansi fjölbreytt. „Við erum mikið með ljósastýringar fyrir stærri byggingar, svo sem skóla, hótel og banka en við sáum sem dæmi um ljósastýringu í nýja Sólvangi“, segir Jóhann. Þegar talað er um ljósastýringar er átt við forritaðan stjórnbúnað sem getur stýrt allri lýsingu í stórri byggingu. Öllu er stýrt frá einum skjá eða síma og hægt að stilla ljósin eftir því sem við á, hvort sem eigi að fara að halda fyrirlestur, veislur, þrífa eða bara hafa góða dagsbirtu, möguleikarnir eru ansi margir.
„Frá því við fluttum á Reykjavíkurveginn árið 2017 hefur smásalan aukist til muna en við erum með fjölbreytt úrval af perum, ljósum og lömpum, bæði sem við smíðum sjálf sem og önnur sem við flytjum inn“, segir Elma. Á fyrstu hæð er verslun, lager og skrifstofur en í kjallara hússins er framleiðsla og verkstæði. Þar eru ljós smíðuð frá grunni, málmur beygður, gataður, dufthúðaður og ljósgjafinn settur inn. „Ætli við séum ekki eini aðilinn á Íslandi sem sérsmíðar ljós frá a til ö“, segir Jóhann stoltur og greinilegt að mikið hugvit og reynsla býr þarna innanhúss.
Gefa gömlum ljósum nýtt líf
Það hefur verið gífurleg þróun í ljósaheiminum á undanförnum árum og spilar LED tæknin þar stórt hlutverk. Líftími LED ljósa er allt upp í 12 ár og því mikil hagkvæmni að vera með þannig ljós sérstaklega í stórum byggingum þar sem erfitt er að skipta um perur. „Við höfum mikið verið að setja LED ljósgjafa inn í eldri ljós og gefa þeim þar með nýtt líf, sem dæmi settum við nýverið LED í gömlu glæsilegu ljósakrónurnar í Þjóðleikhúsinu“, segir Jóhann og ítrekar að þó ljós virki ekki lengur þá sé alveg óþarfi að henda umgjörðinni, það sé hægt að setja nýja ljósgjafa í gamla lampa sem hann gerir greinilega mjög gjarnan.
Vöfflur á föstudögum
Fastaviðskiptavinir Flúrlampa eru margir en þar á meðal eru rafvirkjar, umsjónarmenn bygginga og aðrir stórnotendur sem finna oftast það sem þeir þurfa á Reykjavíkurveginum enda er framboð íhluta gífurlega mikið. Jóhann og Elma leggja mikið upp úr því að veita góða þjónustu og vilja að það sé gott að koma til þeirra. Þar er því notalegt sófahorn og alltaf heitt á könnunni. Á föstudögum er ávallt skellt í vöfflur og láta góðvinir sig sjaldan vanta og oft spinnast fjörugar umræður og málin rædd.
Eins og fyrr segir þá er hér um fjölskyldufyrirtæki að ræða en synir Jóhanns þeir Óliver og Vilmar Breki starfa báðir í fyrirtækinu. „Þeir ólust báðir dálítið upp hérna og setja núna svip sinn á fyrirtækið og hafa sérhæft sig á ólíkum sviðum“, segir Jóhann og Elma bætir við að þeir séu nú bestu sölumennirnir þá sérstaklega í tæknilegri málum.
Áhrif Covid
Aðspurð hvort Covid hafi haft einhver áhrif á reksturinn segir Elma að blessunarlega hafi faraldurinn ekki enn haft nein sérstök áhrif enda þurfi allir lýsingu sama hvert árferðið er. Það hafi verið ágætt að gera í vefversluninni þeirra og greinilegt að margir séu að uppgötva búðina og þau mikið að senda út á land.
Besti staður í heimi
Jóhann er Gaflari í allar ættir og hefur búið hér alla sína tíð, fyrir utan eitt ár í Vestmannaeyjum. Þau segjast hvorug getað hugsað sér að búa annars staðar. „Bæjarbragurinn er einstakur, þó við séum stækkandi bær þá náum við enn að halda í góðan smábæjarbrag“, segir Elma og Jóhann bætir við „þetta er besti staður í heimi, sérstaklega þegar veður er gott.“
Þegar þau eru ekki í vinnunni þá gengur Jóhann gjarnan á fjöll og þau ferðast líka gjarnan, bæði innanlands og erlendis. Góðar stundir með vinum og fjölskyldu eru þeim einnig mikilvægar. „Við reynum að vanda okkur við að taka frí um helgar, en það gengur samt ekki alltaf upp, eitthvað sem fleiri fyrirtækjaeigendur þekkja líklega mætavel“, segir Elma að lokum.
Saga Natura
Á Suðurhellu býr heimsmeistari. Hér er um að ræða hafnfirskan þörung sem er heimsmeistari í framleiðslu á Astaxanthin sem er eitt öflugasta andoxunarefni sem fyrirfinnst í náttúrunni. Þörungurinn er í eigu SagaNatura.
Á Suðurhellu býr heimsmeistari. Hér er um að ræða hafnfirskan þörung sem er heimsmeistari í framleiðslu á Astaxanthin sem er eitt öflugasta andoxunarefni sem fyrirfinnst í náttúrunni. Þörungurinn er í eigu SagaNatura.
Við heyrðum í Lilju Kjalardóttur framkvæmdastjóra þessa ört vaxandi líftæknifyrirtækis til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Saga Natura á Suðurhellu býr heimsmeistari.
Sterkari sameinuð
Fyrirtækið SagaNatura var stofnað árið 2018 þegar fyrirtækin KeyNatura og Saga Medica voru sameinuð. Saga Medica hafði verið starfandi síðan um aldamótin og þróað hágæðavörur úr íslenskri náttúru en þeirra þekktasta vara er Saga Pro sem hefur slakandi áhrif á þvagblöðruna. KeyNatura var aftur á móti stofnað árið 2014 og sérhæfði sig í framleiðslu á Astaxanthin, sem er framleitt úr þörungum sem eru ræktaðir með nýrri og áhugaverðri tækni en meðal þörungana er einmitt heimsmeistarinn sem nefndur var hér í upphafi. „Astaxanthin hefur mjög breiða heilsufarslega virkni, svo sem fyrir augu, húð, liði og blóðfitu og því er hægt að leika sér á ýmsan hátt með vöruþróun“, segir Lilja og leggur áherslu á að vörur þeirra séu með einstaklega góð hráefni og góða virkni þannig að fólk taki strax eftir breytingu þegar það byrjar að taka þær.
Vítamín í áskrift
Fyrirtækið framleiðir tólf vörutegundir en nokkrar þeirra eru með undirflokka svo sem Voxis hálstöflurnar og hálsmixtúran sem fást í nokkrum bragðtegundum. Við sameiningu var fljótlega ákveðið að KeyNatura yrði þeirra vörumerki og hægt og rólega hafa Saga Medica vörurnar verið að færa sig í búning KeyNatura, úr pappaumbúðunum yfir í áldósirnar. „Við leggjum mikið upp úr hönnun á umbúðum og finnst mikilvægt að dósirnar séu það fallegar að hægt sé að vera með þær á borðinu eða við kaffivélina svo fólk gleymi síður að taka þær“, segir Lilja.
Þá er einnig hægt að fá vörur SagaNatura í áskrift í gegnum vef KeyNatura. Fólk kaupir þá í upphafi eina áldós en fær svo reglulega ábót inn um bréfalúguna, töflur í bréfpoka sem hægt er setja í dósina. Þar með minnkar umbúðarkostnaður og fyrirtækið veitir því 15% afslátt og fría heimsendingu. „Þetta hefur verið ótrúlega vinsælt og við erum búin að tífalda áskriftir síðan í janúar“ segir Lilja.
Vörurnar eru annars allar fáanlegar í heilsubúðum, apótekum og matvöruverslunum en Lilja nefnir til gamans að hafnfirska matvöruverslunin Fjarðarkaup hafi einmitt verið fyrsta búðin sem tók inn KeyNatura vörulínuna.
Mikil tækifæri á erlendum mörkuðum
Í dag selst rétt rúmlega helmingur framleiðslunnar innanlands en Lilja segir að það séu mikil tækifæri á erlendum mörkuðum svo sem í Asíu, þar sé sérstaklega mikil áhugi fyrir vörum sem koma frá Skandinavíu, en einnig séu tækifæri í Bandaríkjunum. „Ég býst við því að sölutölur eigi eftir að umturnast innan tveggja ára og þá verði allt að 75% að framleiðslunni seld á erlenda markaði en þá erum við einnig að selja formúlur og hráefni inn í vörumerki annara“, segir Lilja.
Áhrif Covid
Sala innanlands hefur gengið afar vel á Covid tímum og aukist í samanburði við síðasta ár. Í viðskiptum við aðila á erlendum mörkuðum hefur þó verið nokkuð um seinkanir í ýmsum ferlum. „Það hefur verið erfiðara að koma á viðskiptum við nýja viðskiptavini eða þeim hefur verið seinkað þar sem mikil varkárni er í gangi“, segir Lilja en bætir við að það gangi aftur á móti vel hjá þeim sem voru nú þegar í viðskiptum.
Covid hefur einnig leitt til þess að fyrirtækinu hefur verið hólfaskipt og starfsfólk hefur unnið meira að heiman og nýtt fjarskiptalausnir þá sérstaklega til að reyna að verja framleiðslufólkið sem verður að vera á staðnum. Lilja segir að þau séu heppin með húsnæðið sem hafi svo marga innganga og því gengið vel að aðgreina starfsfólk.
Best við Hafnarfjörðinn
SagaNatura flutti á Suðurhellu árið 2016 og byrjaði í tveimur bilum af sex í raðhúsalengjunni en eru nú komin í fimm af sex. Lilja segir þetta afar hentuga og góða staðsetningu fyrir fyrirtækið, mjög þægilegt umferðarlega séð en um þriðjungur starfsfólks sé Hafnfirðingar. Í dag starfa 18 manns hjá þeim þar á meðal eru sérfræðingar úr matvæla-, lyfjaframleiðslu- og næringarfræðigeiranum en einnig sérfræðingar í fjármálum sem og markaðsmálum.
Hvílir hugann með fótbolta
Lilja er doktor í líflæknisvísindum og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi árs 2018 en tók við framkvæmdastjórastöðunni í febrúar síðastliðinn. Lilja er einnig gömul fótboltakempa, spilaði fyrir Stjörnuna og var fyrirliði liðsins um tíma og spilar enn í dag fótbolta með fyrrum liðsfélögum. „Það gefur mér svo mikið að spila, þannig fæ ég útrás og næ að hreinsa hugann“, segir Lilja sem fer þó ekki nógu oft á leiki sökum anna en reynir þó að missa ekki af leikjum með íslensku landsliðunum sem og Liverpool.
Prentun.is
Í bakhúsi á Bæjarhrauni 22 er eina starfandi prentsmiðjan í Hafnarfirði og þar er hægt að láta prenta allt sem hugurinn girnist, stórt sem smátt.
Í bakhúsi á Bæjarhrauni 22 er eina starfandi prentsmiðjan í Hafnarfirði og þar er hægt að láta prenta allt sem hugurinn girnist, stórt sem smátt.
Við fórum að hitta tvo af eigendunum þá Hlyn Guðlaugsson og Þorstein Yngvason.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Prentun.is má finna nýjar og gamlar prentvélar.
Mikil þróun
Prentsmiðjan var stofnuð árið 1997 af Guðlaugi Sigurðssyni (Lauga), föður Hlyns en Hlynur og Þorsteinn (Steini) komu fljótlega inn í reksturinn. Laugi hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um tæki og tilbúinn að tileinka sér nýjungar og var prentsmiðjan því strax stafræn og hét einfaldlega Stafræna prentsmiðjan, tækni sem var að ryðja sér til rúms á þeim tíma. Í takti við þróunina í faginu ákváðu þeir fyrir nokkrum árum að breyta nafni fyrirtækisins í Prentun.is.
Samstarfið hefur gengið vel í gegnum árin en þeir eru allir menntaðir í faginu en hafa ólíka styrkleika sem hentar ákaflega vel í svona rekstri. Það er mikil þróun í prentiðnaðinum en samkvæmt Hlyn hafa þeir ávallt lagt áherslu á að að vera fremstir meðal jafningja í tækninýjungum og aðferðum til prentunar.
Um aldamótin fluttu þeir í húsnæðið á Bæjarhrauninu og hafa verið þar allar götur síðan.
Ánægðir með nýju vélinni
Þau eru mörg handtökin í prentsmiðju sem þessari og vélarnar eru margar. „Við vorum að fá nýja prentvél sem er flaggskipið í þessum bransa og erum ákaflega ánægðir með hana“, segir Hlynur. Þarna eru nokkrar stafrænar prentvélar en einnig svokallaðar offset vélar sem og gamlar og fallegar prentvélar kallaðar díglar en auk þess má finna fjöldan allan af allskyns smávélum og tækjum sem sjá meðal annars um að hefta, bora, fella og brjóta. Sumar eru gamlar en standa algjörlega enn fyrir sínu. „Hérna mætir gamli tíminn þeim nýja“, segir Steini þegar hann sýnir eitt tækið sem kallast hornskella og rúnar horn á pappír.
Með allan þennan fjölda af tækjum geta þeir prentað nánast allt, hvort sem það er lítið nafnspjald eða risaplakat í metravís. „Við getum einnig séð um að hanna allt útlit“ segir Steini sem stýrir hönnunardeild fyrirtækisins „og bjóðum upp á hraða, gæði og gott verð“, bætir Hlynur við.
Góð þjónusta mikilvæg
Viðskiptavinahópurinn er afar fjölbreytur, allt frá stærstu fyrirtækjum landsins niður í einstaklinga. Það er mikil fjölbreytni í verkefnum og Hlynur segir að í raun sé enginn dagur eins. Aðspurður hvort honum finnist einhver verkefni skemmtilegri en önnur segir hann að svo sé eiginlega ekki, þó sé reyndar gaman að vinna með skáldsögur og ljóðabækur þar sem þau verk eigi sér svo langan líftíma. „Mikilvægast af öllum í þessum bransa er samt að veita góða þjónustu“, segir hann.
Áhrif Covid
Hluti viðskiptavina Prentun.is eru hótel, veitingastaðir og aðrir í ferðaþjónustu og Covid hefur því eðlilega haft áhrif á reksturinn. „Það er er erfitt að meta stöðuna eins og hún er í dag en það þýðir ekkert annað en að halda áfram og vera tilbúinn þegar ástandið batnar, og það mun batna á endanum“, segir Hlynur og bætir við að fyrirtækið hafi verið vel rekið í gegnum tíðina og það hjálpi mikið á svona óvissutímum.
Best við Hafnarfjörðinn
Laugi, Hlynur og Steini eiga allir rætur að rekja til Vestmannaeyja og tengja því vel við höfnina og miðbæinn hér í Hafnarfirði.
Hlynur segir annars að það besta við Hafnarfjörð sé einfaldlega fólkið en vissulega líka flott og einstakt bæjarstæði en hann reynir að sækja alla verslun og þjónustu hér.
Steini býr í Garðabænum en er afar sáttur við að vera með fyrirtækið í Hafnarfirði. „Það eru forréttindi að vera á móti umferð alla daga“, segir hann og brosir.
JAK
Rafsuðuvélar, rafsuðuvírar, plasmaskurðarvélar, loftpressur og rafsuðuhjálmar eru meðal þess sem finna má hjá JAK á Dalshrauninu.
Rafsuðuvélar, rafsuðuvírar, plasmaskurðarvélar, loftpressur og rafsuðuhjálmar eru meðal þess sem finna má hjá JAK á Dalshrauninu.
Við fórum að hitta hjónin Aðalstein og Oddný til að kynnast starfseminni í þessu rétt rúmlega 30 ára gamla fjölskyldufyrirtæki.
Fyrirtæki vikunnar
JAK, fjölskyldufyrirtæki á Dalshrauninu
Upphafsstafirnir
Árið 1989 ákvað vélvirkinn Jón Arnar Karlsson að stofna fyrirtæki með vörur fyrir málmiðnaðinn. Hann byrjaði fyrst í bílskúrnum heima, stoppaði síðan stutt í húsnæði á Flatahrauninu en fann fljótt framtíðarhúsnæðið á Dalshrauninu og hefur verið með fyrirtækið þar allar götur síðan. Þegar kom að því að velja nafn á fyrirtækið ákvað Jón að nota einfaldlega upphafsstafi sína og úr varð JAK ehf.
Anna Björg kona Jóns hóf fljótt störf í fyrirtækinu og nokkrum árum eftir stofnun byrjaði Aðalsteinn sonur þeirra að vinna hjá þeim og því sannarlega um fjölskyldufyrirtæki að ræða. Í dag hafa Jón og Anna Björg að mestu dregið sig út úr rekstrinum og Aðalsteinn stendur vaktina ásamt Oddný eiginkonu sinni.
Fastakúnnar og framtíðarviðskiptavinir
Það eru fjölmargir fastakúnnar sem koma reglulega á Dalshraunið og hafa gert það til fjölda ára, sumir allt frá upphafi. Það eru aðallega járnsmiðir og verktakar en skólarnir versla einnig töluvert við þau. „Það hefur verið mikil aukning í grunndeild málmiðnaðar í Tækniskólanum og Borgarholtsskóla og skólarnir kaupa því meira en áður“, segir Aðalsteinn og bætir við að nemendur í hönnun séu einnig mikið í eldsmíði og kemur sá hópur, þar á meðal fleiri konur, líka inn í viðskiptavinahópinn.
Sökum Covid þurfa nemendur núna að eiga sína eigin rafsuðuhjálma og hlífðargleraugu og því meira um að ungt fólk komi inn í búðina. „Við veitum þeim góðan afslátt og það er gaman að fá nemendur til okkar enda vonandi um framtíðarviðskiptavini að ræða“, segir Aðalsteinn með bros á vör.
Meira um símtöl og tölvupósta
Covid hefur ekki haft mikil áhrif á sölu sem er mjög svipuð og á síðasta ári. „Við seljum hins vegar meira í gegnum síma og tölvupóst þar sem sumir vilja vera minna á ferðinni“, segir Oddný en hún sér þá oftast um að keyra vörurnar til viðskiptavina og í vor þegar Covid ástandið var verst þurfti hún oft að skilja pakkana eftir fyrir utan dyrnar hjá fyrirtækjum.
Vissulega koma þó margir enn í búðina sérstaklega ef þeir eru eitthvað að spá og spekúlera og vantar faglega aðstoð. Aðalsteinn sér einnig um að kenna viðskiptavinum á vélarnar og þá er nú betra að mæta á staðinn.
Rafsuðuvírinn eins og mjólkin
Þegar spurt er um vinsælustu vöruna þá nefna þau bæði rafsuðuvírinn eða hann er allavega mest keyptur. „Rafsuðuvírinn er eins og mjólkin á heimilinu, hann klárast oft og þá þarf að kaupa meira“, segir Aðalsteinn.
Í JAK eru nokkur vörumerki en þau hafa sem dæmi verið með danska merkið Migatronic & Hypertherm frá USA allt frá upphafi og selja einnig vörur frá Fronius og fengu umboðið fyrir ESAB fyrir nokkrum árum og eru afar ánægð með það. Aðalsteinn sækir einnig reglulega námskeið, kynningar og ráðstefnur til að fylgjast með þróuninni sem á sér stað í málmiðnaðinum, eitthvað sem hann telur vera afar mikilvægt.
Gaflarar
Aðalsteinn og Oddný eru bæði sannir Gaflarar, fædd á Sólvangi og hafa alla tíð búið í Hafnarfirði. „Hér er allt svo lítið og þægilegt, stutt í allt og fjölskylduvænt“, segir Oddný.
Þegar þau eru ekki í vinnunni þá gengur Oddný gjarnan á fjöll, þau ferðast líka mikið saman með börnum og barnabörnum en allt sem inniheldur vél heillar Aðalstein mikið hvort sem það séu mótórhjól, rallýbílar, vélsleðar eða jeppar.
Íshestar
Perla í upplandi Hafnarfjarðar er fyrirtækið Íshestar þar sem hægt er að fara í reiðtúr, sækja reiðnámskeið, taka hest í fóstur, fara með starfsmenn í hvataferð nú eða halda barnaafmæli, fermingu eða brúðkaup
Perla í upplandi Hafnarfjarðar er fyrirtækið Íshestar þar sem hægt er að fara í reiðtúr, sækja reiðnámskeið, taka hest í fóstur, fara með starfsmenn í hvataferð nú eða halda barnaafmæli, fermingu eða brúðkaup.
Við hittum Magnús, framkvæmdastjóra og einn af eigendunum sem og Erlu, sölu- og markaðsstjóra Íshesta til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Íshestar eiga 140 hross.
Reiðtúrar eða hestaferðir
Íshestar var stofnað árið 1982 af þremur fjölskyldum, með Einar Bollason fremstan í flokki. Hann og hans fjölskylda hafa nú dregið sig út úr rekstrinum en Magnús segir að Einar hafi verið mikill frumkvöðull á sviði hestatengdrar ferðaþjónustu á Íslandi og sé þeim enn innan handar.
Í dag er fyrirtækið einkahlutafélag í eigu þriggja fjölskyldna, þó annarra fjölskyldna en í upphafi. Magnús og hans fjölskylda eru þar á meðal en þau eru öll í hestunum.
Íshestar er fyrst og fremst ferðamannafyrirtæki og tekur vanalega á móti um 20 þúsund ferðamönnum á ári sem annað hvort koma í styttri reiðtúra eða nokkra daga hestaferðir.
Fleiri námskeið
Þetta árið hefur þó verið töluvert öðruvísi sökum Covid en nauðsynlegt var að finna aðrar leiðir til að sinna hrossunum 140, sem fyrirtækið á, og nýta innviðina. „Við ákváðum að fjölga námskeiðum til muna í vor og sumar sem gekk mjög vel og greinilegt að eftirspurnin var til staðar. Við verðum því líka með námskeið í vetur og það er í raun orðið fullt á barnanámskeiðin en laus pláss fyrir fullorðna“, segir Magnús.
Hestur í fóstur
Börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennskunni en eiga ekki hest geta tekið hest í fóstur hjá Íshestum og hugsa þá um hann eins og sinn eiginn ásamt því að læra að vinna dagleg verk í hesthúsi. Það að vera í hestamennsku snýst ekki bara um að ríða út heldur þarf að kemba, leggja á, setja sag í stíur, hreinsa gerði og gefa. Allt þetta geta börnin lært á tólf vikna námskeiði og þegar þau útskrifast jafnvel gengið í hestamannafélag.
Þessi námskeið hafa verið mjög vinsæl en þau eru í umsjá Margrétar, sem er auk þess að vera afar fær með hesta, er einnig með kennaramenntun.
Veislur og hvataferðir
Aðstaðan í húsnæði Íshesta er afar góð, þar er fullbúið veislueldhús og hlýlegur salur. Þar hafa verið haldnar giftingar- og fermingarveislur og nokkuð vinsælt er að halda barnaafmæli hjá þeim. „Við höfum verið að taka á móti heilu bekkjunum en þá eru stundum nokkrir að halda afmæli saman og hér er mikið fjör. Krakkarnir fá að fara á bak í gerðinu okkar en þau sem ekki vilja fara á bak geta tekið mynd af sér með hestunum“, segir Erla og bætir við að þau feli líka stundum bangsa í skóginum, gamall og góður leikur sem ávallt vekur lukku.
Fyrirtæki hafa einnig verið að koma með starfsfólk sitt í svokallaðar hvataferðir sem hægt er að sérsníða fyrir hvern hóp fyrir sig. Þau er mjög stutt frá borginni en samt í afar rólegu og fallegu umhverfi. Þarna er jafnframt fín aðstaða til fundarhalda og svo er hægt að fara í reiðtúr eða leiki tengda hestunum.
Einstök staðsetning
Staðsetningin í upplandi Hafnarfjarðar er einstök að mati Magnúsar. „Hér eru bestu reiðleiðirnar á höfuðborgarsvæðinu, fjölbreytt landslag, hraun, skógur og fjöll“, segir hann. Þá sé líka gott að vera svona miðsvæðis á leiðinni til Keflavíkur og í Bláa lónið.
Hestahnegg og fuglasöngur
Magnús byrjaði í hestamennsku fyrir tíu árum og er kominn með bakteríuna, en fyrir voru konan hans og börn í íþróttinni. Hann segir að þessu fylgi mikil ástríða og mjög fljótt verði hestarnir manns bestu vinir. Aðspurður hvort hann eigi einhvern uppáhalds hest segir hann svo ekki vera en þó eigi hann uppáhalds minningu með hverjum hesti fyrir sig.
Erla segist vera meira í hundunum en fór á reiðnámskeið fyrir fullorðna þegar hún byrjaði í starfinu og lærði heilmikið. Hún hvetur að lokum fólk til að koma til þeirra og upplifa, sumt er ekki hægt að lýsa með orðum, fólk verður bara að prófa en hún lofar þeim hestahneggi og fuglasöng.
Fjörukráin
Freyjuhof, Tunna, Ísbjörn, Súð, Fjörugarður og Valhöll heita salirnir sex á Fjörukránni þar sem hægt er að fá kjötsúpu og svið en einnig flatbökur og hamborgara og tilvalið fyrir fjölskyldur, vinahópa eða vinnustaði til að heimsækja og upplifa víkingastemmningu.
Freyjuhof, Tunna, Ísbjörn, Súð, Fjörugarður og Valhöll heita salirnir sex á Fjörukránni þar sem hægt er að fá kjötsúpu og svið en einnig flatbökur og hamborgara og tilvalið fyrir fjölskyldur, vinahópa eða vinnustaði til að heimsækja og upplifa víkingastemmningu.
Við settumst niður með Jóhannesi, manninum á bakvið Fjörukránna og dætrum hans Birnu og Unni til að kynnast staðnum þeirra.
Fyrirtæki vikunnar
Freyjuhof er einn af sex sölum á Fjörukránni
Úr einu húsi í heilt þorp
Fjörukráin átti 30 ára afmæli þann 10. maí síðastliðinn en í upphafi var staðurinn einungis í gamla húsinu, næstelsta húsi Hafnarfjarðar byggt árið 1841. Þá tók staðurinn tæplega 40 manns í sæti en í gegnum árin hafa nokkrar viðbyggingar bæst við smátt og smátt og nú geta þau tekið á móti allt að 350 manns í mat í sex sölum.
„Ég vildi draga ferðamenn til Hafnarfjarðar og opnaði því útieldhús í tjaldi árið 1992 fyrir utan staðinn þar sem haldnar voru fjörugar víkingaveislur“ segir Jóhannes. Veislurnar urðu strax mjög vinsælar og nokkrum árum seinna varð víkingahátíðin til og allur reksturinn byggður í kringum þá hugmyndafræði. Stafakirkja var reist, þar sem Jóhannesi fannst ótækt að einungis Norðmenn ættu þannig kirkju, hótel kom í kjölfarið og bæjaryfirvöld gáfu götunni nafnið Víkingastræti enda nokkurs konar þorp risið.
Hugmyndaríkasti maður í heimi
Birna segir pabba sinn vera hugmyndaríkasta mann í heimi og hann fái stöðugt nýjar hugdettur og hugmyndir. Útlit staðarins sé í raun hans hugmynd en unnið að miklu leiti í samstarfi við listamennina Hauk Halldórsson og Erlend Magnússon. Innréttingar og húsgögn eru m.a. gerð úr hundrað ára gömlum neftóbaks- og víntunnum. Veggirnir skreyttir með málverkum og ýmsum víkingamunum. Á staðnum má jafnframt finna yfir 100 uppstoppuð dýr og 1200 lítra fiskabúr. „Pabbi er safnari, hann tímir ekki að henda neinu og litli afastrákurinn hans og nafni er alveg eins“, segir Birna jafnframt. Jóhannes brosir þá og segir að það hafi nú oft komið sér vel í gegnum tíðina.
Matur og upplifun
Að fara á Fjörukrána er því í raun miklu meira heldur en að fara út að borða, það er upplifun og ýmislegt sem hægt er að skoða. „Þetta er frábært staður fyrir fjölskyldur, mjög gaman fyrir krakka að sjá alla víkingamunina og fiskana“, segir Birna. Þá sé einnig tilvalið fyrir vinahópa eða vinnustaði að koma í víkingaveislu og jafnvel lenda í óvæntu víkingaráni.
Hópar, sem og vissulega einstaklingar og fjölskyldur, geta einnig gist við Víkingastræti þar sem nú eru 54 herbergi í ýmsum stærðum og í bakgarði hótelsins er heitur pottur og gufubað.
Áhrif Covid
Undanfarin ár hefur langstærsti hluti viðskiptavina verið erlendir ferðamenn sem hafa sótt í víkingaveislur og reksturinn gengið afar vel. Covid hafði því mjög mikil áhrif á starfsemina og þau ákváðu að loka í þrjá mánuði. Tíminn var þó nýttur vel og farið í ýmsar betrumbætur á staðnum, sem loks gafst tími fyrir. Það var málað, skipt um gólfefni, eldhúsið lagað og margt fleira.
„Nú þurfum við að fara aftur á upphafsreitinn og fá Íslendinga til okkar“, segir Jóhannes og Birna tekur undir og segir það bara vera spennandi og gaman að takast á við. „Við erum sem dæmi nú komin með flatbökur á matseðilinn, eitthvað sem ég var búin að reyna að ná í gegn í mörg ár án árangurs“, segir Birna og brosir. Vissulega er þó enn í boði svið, kjötsúpa, humarsúpa og margt annað girnilegt en nýr vetrarmatseðill verður kynntur á næstunni.
Pabbi öflugur í uppvaskinu
Feðginin sem eru greinilega mjög samrýmd segjast í raun ganga í öll störf. „Pabbi er öflugur í uppvaskinu en við systur getum líka gert ótrúlega margt enda þekkjum við staðinn út og inn, ólumst upp hér að hluta“, segir Unnur sem er hótelstjórinn í dag en Birna systir hennar er veitingastjóri staðarins. Það er greinilegt að feðginin eru alls ekki af baki dottin og vita að þó að á brattann sé að sækja núna muni þetta ganga yfir. Jóhannes segist hafa gengið í gegnum ýmsar kreppur í gegnum tíðina og staðið þær allar af sér.
Fjörukráin er opin alla daga frá kl. 18:00, þar má nýta Ferðagjöfina og nú er tilboð á gistingu hjá þeim í gegnum Hópkaup.
H-Berg
Uppi á Holti er vikulega meira en tonn af hnetusmjöri framleitt, möndlur ristaðar aðrar hjúpaðar pipar sem og ýmislegt annað bragðgott búið til og pakkað inn hjá fyrirtækinu H-Berg.
Við mæltum okkur mót við eigandann Halldór Berg Jónsson og fengum að kynnast fyrirtækinu sem og smakka smá af nýjustu vörunni.
Uppi á Holti er vikulega meira en tonn af hnetusmjöri framleitt, möndlur ristaðar aðrar hjúpaðar pipar sem og ýmislegt annað bragðgott búið til og pakkað inn hjá fyrirtækinu H-Berg.
Við mæltum okkur mót við eigandann Halldór Berg Jónsson og fengum að kynnast fyrirtækinu sem og smakka smá af nýjustu vörunni.
Fyrirtæki vikunnar
Þegar við komum í heimsókn í H-Berg var verið að vigta og pakka Granóla.
Úr rafskutlum í gráfíkjur og döðlur
Halldór hefur átt nokkur fyrirtæki í gegnum tíðina, þar á meðal fyrirtækið Hagver frá árunum 1983-1990, en stofnaði H-Berg árið 2007 ásamt fjölskyldu sinni sem flutti fyrst inn golfbíla og rafskutlur. Á sama tíma var hann í skúrnum heima hjá sér farinn að dunda við að gera gráfíkjukúlur og hjúpa döðlur með súkkulaði sem nokkurs konar áhugamál þar sem hann átti enn nokkrar vélar frá Hagversárunum. Vélapökkun hefur einmitt alla tíð heillað Halldór og er hann í raun frumkvöðull í vélpökkun á Íslandi.
Fyrir jólin 2009 var haft samband við Halldór frá stórri verslunarkeðju og hann beðinn um að útvega döðlur sem hann að sjálfsögðu gerði. Upp frá því ákvað hann að snúa sér alfarið að pakkningu á þurrkuðum ávöxtum og hnetum undir vörumerkinu H-Berg og hóf þá sonur hans fullt starf hjá fyrirtækinu og starfar enn sem sölustjóri.
Piparmöndlur vinsælastar
Í upphafi voru vörutegundirnar hjá H-Berg einungis fjórar en í dag eru þær rúmlega 80. Tíðarandinn hefur mikið breyst en hér áður fyrr voru hnetur nær einungis seldar í jólabaksturinn. Í dag eru þær aftur á móti keyptar allan ársins hring og úrvalið orðið mun meira en Halldór kom sem dæmi fyrstur með kasjúhnetur til landsins.
Starfsfólk H-Bergs leggur mikið upp úr vöruþróun og hefur prófað ýmislegt í gegnum tíðina, margt sem gengur vel en annað sem á styttri líftíma. Heilsubylgjan hefur þar haft mikil áhrif en vikulega fer t.d. rúmlega tonn af hnetusmjöri, gjarnan í stórum pakkningum, til svokallaðra „boost-bara“. Vinsælasta varan í dag er hins vegar piparmandlan sem kom fyrst á markað árið 2016 og það varð hreinlega sprenging í sölu. Nýjasta varan eru kókosflögur með karamellu og sjávarsalti sem Halldór er viss um að eigi eftir að njóta mikilla vinsælda.
Áhrif Covid
Það hefur verið aukning í sölu hjá H-Berg þetta árið en hún hefur verið öðruvísi en undanfarin ár sökum Covid. Það er minni sala til veitingahúsa og mötuneyta en á móti hefur orðið mikil aukning í smásölu. Í fyrri bylgju Covid voru allir heima og nokkurs konar bökunaræði braust út. Það tæmdist því næstum allt úr búðunum í lok mars og H-Berg setti upp aukavaktir til að anna eftirspurn.
Best við Hafnarfjörðinn
Halldór er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum en hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 1983. Verandi eyjapeyi er höfnin honum því vera afar mikilvæg. Hér í Hafnarfirði finnst honum annars afar gott samfélag og það eru forréttindi að búa mjög nálægt vinnunni og geta skotist heim í hádegismat.
Þurrkað mangó best
Þegar Halldór er ekki í vinnunni fer hann gjarnan á veiðar hvort sem það er með stöng eða byssu. Hann hlakkar þó til þess á hverjum degi að mæta í vinnuna, það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast og hann umvafinn góðu starfsfólki sem margt hvert hefur verið lengi starfandi hjá H-Berg.
Uppáhalds H-Berg vara Halldórs þessar dagana er annars þurrkað mangó.
Amarayoga
Amarayoga er lítil og persónuleg jógastöð í hjarta Hafnarfjarðar þar sem hægt er að sækja mjúkt morgunyoga, hádegisyoga, síðdegisyoga, kvöldtíma sem og jógakennaranám.
Við ákváðum að fá að prófa einn tíma og spjalla við Ástu Maríu eiganda stöðvarinnar í kjölfarið.
Amarayoga er lítil og persónuleg jógastöð í hjarta Hafnarfjarðar þar sem hægt er að sækja mjúkt morgunjóga, hádegisjóga, síðdegisjóga, kvöldtíma sem og jógakennaranám.
Við ákváðum að fá að prófa einn tíma og spjalla við Ástu Maríu eiganda stöðvarinnar í kjölfarið.
Fyrirtæki vikunnar
Amarayoga, lítil og persónuleg jógastöð á Strandgötunni
Jógaáhuginn hófst í æsku
„Ég á einhverja óljósa æskuminningu um þátt í sjónvarpinu um jóga og mig sitjandi eftir það á teppi og gera ýmsar teygjur, að þykjast vera jógi“, segir Ásta María aðspurð um hvernig áhuginn á jóga hafi kviknað. Hún telur einnig að dvöl á Sri Lanka þegar hún var 13 ára, þar sem hún kynntist hindúum og búddistum og varð forvitin um andlegt líf og hugleiðslu, hafi eitthvað með þetta að gera. Á unglingsárunum fór hún með mömmu sinni og stóru systir í jógatíma og byrjaði upp frá því að leita sér að tímum og námskeiðum.
Í nokkuð mörg ár lá jógaiðkunin samt niðri og hún fór að eignast börn og vann sem skjalaþýðandi. Eftir síðasta barnsburðinn árið 1998 var líkaminn í hálfgerðum henglum og hún leitaði því aftur í jógað og komst fljótt að því að þetta var það sem hún þurfti.
Hún vissi að hún þyrfti þrýsting til að halda iðkuninni áfram og skellti sér því í jógakennaranám hjá Ásmundi Gunnlaugssyni og Yogi Shanti Desai veturinn 1999 til 2000 og þá var ekki aftur snúið. Hún fór að vinna við heilsuna sína og hefur ekki séð eftir því.
Fyrsta jógatímann sinn var hún með í íþróttahúsinu í gamla Lækjarskóla veturinn 2001 en kenndi eftir það víða á höfðuðborgarsvæðinu. Árið 2011 opnaði hún sína eigin stöð á Strandgötunni og nýtur þess að geta gengið í vinnuna.
Mikilvægast að kyrra hugann
Það eru vissulega til margar gerðir af jóga í dag en í huga Ástu Maríu er jóga hugleiðsla. „Fyrir mér snýst jóga um að kyrra hugann. Allt annað er aukaatriði. Mögulega endum við með sterkan og lipran líkama, en ef hugurinn og tilfinningarnar eru ekki í ró erum við ekki vel sett. Jóga, gert á réttan hátt, kyrrir hugann og allt verður miklu auðveldara“, segir hún.
Í tímum hennar Mjúkt flæði eru því aðallega rólegar styrktaræfingar, alveg eins og hún lærði í upphafi en hún hefur vissulega þróað sinn stíl í gegnum árin. Í Amarayoga starfa fimm aðrir jógakennarar og því fjölbreyttir tímar á stundaskránni svo sem jóga nidra, vinyasa og kundalini jóga.
Ásta María er jafnframt formaður jógakennarafélagsins og er með sitt eigið jógakennaranám. Nú þegar hafa tíu hópar útskrifast hjá henni en fyrsti framhaldsnámshópurinn er nú á sínu öðru ári.
Amara – hið eilífa
Okkur lék forvitni á að vita hvernig nafn stöðvarinnar Amarayoga kom til. Samkvæmt Ástu Maríu kom það til hennar í gegnum smá krókaleiðir og tengist gömlu netfangi sem hún bjó til og var amar@ (stytting á nafni hennar Ásta MARía) og hún notaði meðal annars í samskiptum sínum við bandarísk jógasamtök. Eitt sinn fékk hún símtal frá nunnu í samtōkunum, sem bar nafnið Amara. Ásta María hafði lært smá sanskrít á háskólaárunum sínum og fletti nafninu upp og komst að því að það þýðir “ódauðlegt” eða “eilíft”. Þegar Ásta María opnaði stōðina sína fannst henni þetta nafn því afar viðeigandi og fallegt, hið eilífa jóga.
Gullkonurnar
Nokkrar konur sem byrjuðu að sækja jógatíma hjá Ástu Maríu árið 2001 koma enn í dag til hennar og hafa fylgt henni milli stöðva í gegnum árin. Nú eru þær fastagestir á Strandgötunni og Ásta María kallar þær gullkonurnar sínar. Annars er stór hópur fólks sem kemur alltaf aftur og aftur ár eftir ár.
Áhrif Covid
Um miðjan mars þurfti Ásta María að loka stöðinni vegna Covid og fékk ekki að opna aftur fyrr en þann 25. maí og þá bara með hálfbókaðan sal. Í sumar mátti allt vera opið en þá voru vissulega flestir í sumarfríi. Hún hlakkaði því til ágústmánaðar og ætlaði að taka á móti fólkinu sínu með bros á vör en þá kom seinni bylgjan.
Nú er búið að fjarlægja alla púða og teppi, þar sem ekki er hægt er að sótthreinsa það eftir hverja notkun. Í hillunum eru einungis kubbar og dýnur en fólk hvatt til að koma með sinn eigin búnað. Þátttakendum í hverjum tíma fækkar úr 15 niður í 6 og nauðsynlegt er að hafa meiri tíma á milli kennslustunda til að geta hreinsað og fólk mætist ekki í dyrunum.
Ásta María er þrátt fyrir allt þakklát fyrir að geta haft opið og segir að Covid sé í raun mjög góð jógaæfing, við verðum bara að anda inn og anda út og sýna sveigjanleika.
Best við Hafnarfjörðinn
Þegar Ásta María er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Hann er einfaldlega bestur“ og heldur áfram að tala um dásamlega litla bæjarkjarnann og höfnina sem sé næstum hægt að sjá alls staðar frá. „Ég get labbað innanbæjar allra minna ferða og svo eru það gömlu húsin“, segir hún með glampa í augum.
Hellisgerði þykir henni einnig vera perla og Óla Run túnið sem er rétt við heimilið hennar. Nýi ærslabelgurinn sé æðislegur, þar sé nú þvílíkt líf og gleði og hún vill gjarnan sjá meira gert á því túni og nefnir tré og bekki sem dæmi.
Stingur puttum í moldina
Þegar Ásta María er ekki að kenna jóga eða sinna stöðinni sinni elskar hún að stinga puttunum ofan í í mold, það sé hennar hleðslustöð. Hún vil helst rækta það sem hægt er að borða og er með meðal annars með agúrkur, tómata, lækningarjurtir og kryddjurtir í sínum garði. Hún er búin að festa rætur hér í Hafnarfirði í orðsins fyllstu merkingu og finnst það dásamlegt.
Nánari upplýsingar um jógatímana í Amarayoga má finna hér
Súfistinn
Fyrirtæki vikunnar er Súfistinn, kaffihúsið á Strandgötunni sem líklega allir Hafnfirðingar þekkja og mjög margir elska. Fastagestirnir eru margir og hafa verið alla tíð, sumir koma jafnvel tvisvar eða þrisvar á dag. Fyrst er það morgunkaffið, síðan einn bolli eftir vinnu og um kvöldið jafnvel samverustund með vinum.
Fyrirtæki vikunnar er Súfistinn, kaffihúsið á Strandgötunni sem líklega allir Hafnfirðingar þekkja og mjög margir elska. Fastagestirnir eru margir og hafa verið alla tíð, sumir koma jafnvel tvisvar eða þrisvar á dag. Fyrst er það morgunkaffið, síðan einn bolli eftir vinnu og um kvöldið jafnvel samverustund með vinum.
Við settumst niður með feðginunum Birgi og Hjördísi til að kynnast Súfistanum enn betur.
Fyrirtæki vikunnar
Þegar sólin lætur sjá sig fyllist útisvæði Súfistans ansi fljótt
Kaffihúsamenning mótuð
Þegar hjónin Birgir Finnbogason og Hrafnhildur Blomsterberg stofnuðu Súfistann árið 1994 var markmiðið að breyta og móta kaffi- og kaffihúsamenningu Íslendinga. Þau vildu búa til nokkurs konar „félagsmiðstöð" þar sem fólk gat hisst yfir góðum kaffibolla og ákváðu að gera það hér í heimabæ sínum, en á þeim tíma var lítið sem ekkert að gerast á Strandgötunni og í raun enginn miðbær.
Rétta stemmningin mikilvæg
Súfistinn er fjölskyldurekið fyrirtæki og Birgir og Hrafnhildur stóðu alltaf vaktina í mörg ár og var það þeim mikið hjartans mál að búa til réttu stemmninguna. Þau vildu ekki vera bar þar sem áherslan er á áfengi heldur kaffihús eins og þau höfðu kynnst þegar þau bjuggu í Kaliforníu. Dæturnar tvær Hjördís og Valgerður ólust hálfpartinn upp á kaffihúsinu en í dag er Hjördís rekstrarstjóri og eigandi en byrjaði um tólf ára aldur að pakka te og var farin að afgreiða stuttu síðar.
Gott kaffi lykilatriði
Sérstaða Súfistans hefur allt frá upphafi verið gott kaffi og dýrindis heimagerðar tertur. Þau blanda sjálf sitt kaffi sem er frekar dökkristað en einnig flytja þau inn upprunavottað og organic te frá Bandaríkjunum. Sama uppskriftin hefur verið notuð í margar terturnar frá byrjun. Baby Ruth, Granola og marengsterturnar eru mjög vinsælar og gamla góða perutertan stendur alltaf fyrir sínu sem og Karl Viggó tertan , súkkulaðiterta með espresso. Allar kökur svo og matur er unnið á staðnum. Lagt er upp með að vera með "kaffihúsamat", létta rétti á hóflegu verði.
Hús með sögu
Súfistinn er í elsta steinhúsi bæjarins sem var byggt árið 1912. Þar hefur verið ýmis starfsemi í gegnum árin svo sem rakarastofa, hjólbarðaverkstæði, snyrtistofa, vefnaðarvöruverslun og hinn frægi Mánabar.
Birgir og Hrafnhildur keyptu húsið á sínum tíma og tóku það í gegn. Markmiðið í upphafi var að skapa rými og útlit er myndi lifa lengi og yrði ekki fórnarlamb tískubreytinga. Engar breytingar hafa því verið gerðar í 26 ár. Sömu innréttingar og veggirnir málaðir eins og í upphafi, eitthvað sem margir kunna vel að meta.
Af hverju Súfistinn?
Birgir fékk gefins bók um upphaf kaffidrykkju í miðausturlöndum frá vini sínum í Kaliforníu. Þar er sagt frá munkum í Norður Jemen sem voru fyrstir manna að drekka kaffi en munkarnir tilheyra reglu Sufi bræðralagsins. Út frá því varð nafnið Súfistinn til. Í kjölfarið hannaði Birgir lógó kaffihússins í samvinnu við Þóru Dal auglýsingateiknara. Lógóið hefur ávallt vakið mikla athygli, tvíræð manneskja, hvorki karl né kona en kaffibollinn í hendi.
Áhrif Covid
Covid hefur vissulega komið niður á rekstri Súfistans. Nauðsynlegt hefur verið að fækka borðum og opnunartíminn verið styttur, eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður. Eigendum hefur alla tíð þótt mikilvægt að hafa opið frá kl. 8:00 á morgnanna til kl. 23:30 á kvöldin til að geta þjónað þörfum mismunandi hópa, sumir að sækja morgunkaffið sitt meðan aðrir kjósa að koma á kvöldin og hitta vini. Nú ákveða þau opnunartímann viku fyrir viku og auglýsa það á Facebook síðu sinni.
Súfistinn er þó fyrst og fremst „local“ kaffihús og því lítið verið háð ferðamönnum. Eldra fólkið sem kom í tertur kemur nú síður vegna ástandsins, en á góðviðrisdögum er alltaf mikið að gera enda þykir mörgum gott að geta setið úti.
Best við Hafnarfjörðinn
Þau feðginin voru spurð hvað væri best við Hafnarfjörðinn. Hjördís sagði það vera að hér væri fallegur miðbæjarkjarni og í Hafnarfirði gæti hún nálgast nánast allar þær vörur sem hennar heimili þyrfti á að halda. Birgir nefndi einnig miðbæinn en nálægðin við hraunið og sjóinn væri honum líka mjög mikilvæg
Þau eru annars afar ánægð með þróun miðbæjarins undanfarin ár og fagna því hversu fjölbreyttar verslanir sem og kaffi- og veitingastaðir eru hér að finna. Þau eru einnig afar ánægð með framtak bæjarins að hafa sett upp jólaþorp á sínum tíma, það hafi verið mikil lyftistöng fyrir rekstur á Strandgötunni sem og miðbæjarstemmninguna og sjálfsmynd bæjarins.
Að lokum segjast þau feðginin vera afar spennt fyrir því þegar ráðhústorgið verði orðið grænt eins og framtíðarskipulag geri ráð fyrir.
Fyrirtæki vikunnar
Vikulega ætlum við því að draga út eitt fyrirtæki, fara að heimsækja það, taka myndir og skrifa grein í kjölfarið.
Aðildarfyrirtæki markaðsstofunnar eru úr öllum hverfum bæjarins, þau eru stór og smá og stunda afar fjölbreytta starfsemi. Okkur langar til að kynnast fyrirtækjunum betur og leyfa ykkur að gera slíkt hið sama.
Vikulega ætlum við því að draga út eitt fyrirtæki, heimsækja það, taka myndir og skrifa grein í kjölfarið. Öll fyrirtækin eru komin í pott og dregið verður á hverjum mánudegi. Hægt að fylgjast með útdrættinum í story á Facebook og Instagram en greinin verður birt á heimasíðu MsH sem og á samfélagsmiðlum.
Fyrsti útdráttur verður mánudaginn 17. ágúst.
Miðar með nafni allra aðildarfyrirtækja komin í pott