Saga Natura
Á Suðurhellu býr heimsmeistari. Hér er um að ræða hafnfirskan þörung sem er heimsmeistari í framleiðslu á Astaxanthin sem er eitt öflugasta andoxunarefni sem fyrirfinnst í náttúrunni. Þörungurinn er í eigu SagaNatura.
Við heyrðum í Lilju Kjalardóttur framkvæmdastjóra þessa ört vaxandi líftæknifyrirtækis til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Hjá Saga Natura á Suðurhellu býr heimsmeistari.
Sterkari sameinuð
Fyrirtækið SagaNatura var stofnað árið 2018 þegar fyrirtækin KeyNatura og Saga Medica voru sameinuð. Saga Medica hafði verið starfandi síðan um aldamótin og þróað hágæðavörur úr íslenskri náttúru en þeirra þekktasta vara er Saga Pro sem hefur slakandi áhrif á þvagblöðruna. KeyNatura var aftur á móti stofnað árið 2014 og sérhæfði sig í framleiðslu á Astaxanthin, sem er framleitt úr þörungum sem eru ræktaðir með nýrri og áhugaverðri tækni en meðal þörungana er einmitt heimsmeistarinn sem nefndur var hér í upphafi. „Astaxanthin hefur mjög breiða heilsufarslega virkni, svo sem fyrir augu, húð, liði og blóðfitu og því er hægt að leika sér á ýmsan hátt með vöruþróun“, segir Lilja og leggur áherslu á að vörur þeirra séu með einstaklega góð hráefni og góða virkni þannig að fólk taki strax eftir breytingu þegar það byrjar að taka þær.
Vítamín í áskrift
Fyrirtækið framleiðir tólf vörutegundir en nokkrar þeirra eru með undirflokka svo sem Voxis hálstöflurnar og hálsmixtúran sem fást í nokkrum bragðtegundum. Við sameiningu var fljótlega ákveðið að KeyNatura yrði þeirra vörumerki og hægt og rólega hafa Saga Medica vörurnar verið að færa sig í búning KeyNatura, úr pappaumbúðunum yfir í áldósirnar. „Við leggjum mikið upp úr hönnun á umbúðum og finnst mikilvægt að dósirnar séu það fallegar að hægt sé að vera með þær á borðinu eða við kaffivélina svo fólk gleymi síður að taka þær“, segir Lilja.
Þá er einnig hægt að fá vörur SagaNatura í áskrift í gegnum vef KeyNatura. Fólk kaupir þá í upphafi eina áldós en fær svo reglulega ábót inn um bréfalúguna, töflur í bréfpoka sem hægt er setja í dósina. Þar með minnkar umbúðarkostnaður og fyrirtækið veitir því 15% afslátt og fría heimsendingu. „Þetta hefur verið ótrúlega vinsælt og við erum búin að tífalda áskriftir síðan í janúar“ segir Lilja.
Vörurnar eru annars allar fáanlegar í heilsubúðum, apótekum og matvöruverslunum en Lilja nefnir til gamans að hafnfirska matvöruverslunin Fjarðarkaup hafi einmitt verið fyrsta búðin sem tók inn KeyNatura vörulínuna.
Mikil tækifæri á erlendum mörkuðum
Í dag selst rétt rúmlega helmingur framleiðslunnar innanlands en Lilja segir að það séu mikil tækifæri á erlendum mörkuðum svo sem í Asíu, þar sé sérstaklega mikil áhugi fyrir vörum sem koma frá Skandinavíu, en einnig séu tækifæri í Bandaríkjunum. „Ég býst við því að sölutölur eigi eftir að umturnast innan tveggja ára og þá verði allt að 75% að framleiðslunni seld á erlenda markaði en þá erum við einnig að selja formúlur og hráefni inn í vörumerki annara“, segir Lilja.
Áhrif Covid
Sala innanlands hefur gengið afar vel á Covid tímum og aukist í samanburði við síðasta ár. Í viðskiptum við aðila á erlendum mörkuðum hefur þó verið nokkuð um seinkanir í ýmsum ferlum. „Það hefur verið erfiðara að koma á viðskiptum við nýja viðskiptavini eða þeim hefur verið seinkað þar sem mikil varkárni er í gangi“, segir Lilja en bætir við að það gangi aftur á móti vel hjá þeim sem voru nú þegar í viðskiptum.
Covid hefur einnig leitt til þess að fyrirtækinu hefur verið hólfaskipt og starfsfólk hefur unnið meira að heiman og nýtt fjarskiptalausnir þá sérstaklega til að reyna að verja framleiðslufólkið sem verður að vera á staðnum. Lilja segir að þau séu heppin með húsnæðið sem hafi svo marga innganga og því gengið vel að aðgreina starfsfólk.
Best við Hafnarfjörðinn
SagaNatura flutti á Suðurhellu árið 2016 og byrjaði í tveimur bilum af sex í raðhúsalengjunni en eru nú komin í fimm af sex. Lilja segir þetta afar hentuga og góða staðsetningu fyrir fyrirtækið, mjög þægilegt umferðarlega séð en um þriðjungur starfsfólks sé Hafnfirðingar. Í dag starfa 18 manns hjá þeim þar á meðal eru sérfræðingar úr matvæla-, lyfjaframleiðslu- og næringarfræðigeiranum en einnig sérfræðingar í fjármálum sem og markaðsmálum.
Hvílir hugann með fótbolta
Lilja er doktor í líflæknisvísindum og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi árs 2018 en tók við framkvæmdastjórastöðunni í febrúar síðastliðinn. Lilja er einnig gömul fótboltakempa, spilaði fyrir Stjörnuna og var fyrirliði liðsins um tíma og spilar enn í dag fótbolta með fyrrum liðsfélögum. „Það gefur mér svo mikið að spila, þannig fæ ég útrás og næ að hreinsa hugann“, segir Lilja sem fer þó ekki nógu oft á leiki sökum anna en reynir þó að missa ekki af leikjum með íslensku landsliðunum sem og Liverpool.