H-Berg

Uppi á Holti er vikulega meira en tonn af hnetusmjöri framleitt, möndlur ristaðar aðrar hjúpaðar pipar sem og ýmislegt annað bragðgott búið til og pakkað inn hjá fyrirtækinu H-Berg.

Við mæltum okkur mót við eigandann Halldór Berg Jónsson og fengum að kynnast fyrirtækinu sem og smakka smá af nýjustu vörunni.

hberg6.jpg

Fyrirtæki vikunnar

Þegar við komum í heimsókn í H-Berg var verið að vigta og pakka Granóla.

Úr rafskutlum í gráfíkjur og döðlur

Halldór hefur átt nokkur fyrirtæki í gegnum tíðina, þar á meðal fyrirtækið Hagver frá árunum 1983-1990, en stofnaði H-Berg árið 2007 ásamt fjölskyldu sinni sem flutti fyrst inn golfbíla og rafskutlur. Á sama tíma var hann í skúrnum heima hjá sér farinn að dunda við að gera gráfíkjukúlur og hjúpa döðlur með súkkulaði sem nokkurs konar áhugamál þar sem hann átti enn nokkrar vélar frá Hagversárunum. Vélapökkun hefur einmitt alla tíð heillað Halldór og er hann í raun frumkvöðull í vélpökkun á Íslandi.

Fyrir jólin 2009 var haft samband við Halldór frá stórri verslunarkeðju og hann beðinn um að útvega döðlur sem hann að sjálfsögðu gerði. Upp frá því ákvað hann að snúa sér alfarið að pakkningu á þurrkuðum ávöxtum og hnetum undir vörumerkinu H-Berg og hóf þá sonur hans fullt starf hjá fyrirtækinu og starfar enn sem sölustjóri.

hberg4.jpg

Piparmöndlur vinsælastar

Í upphafi voru vörutegundirnar hjá H-Berg einungis fjórar en í dag eru þær rúmlega 80. Tíðarandinn hefur mikið breyst en hér áður fyrr voru hnetur nær einungis seldar í jólabaksturinn. Í dag eru þær aftur á móti keyptar allan ársins hring og úrvalið orðið mun meira en Halldór kom sem dæmi fyrstur með kasjúhnetur til landsins.

Starfsfólk H-Bergs leggur mikið upp úr vöruþróun og hefur prófað ýmislegt í gegnum tíðina, margt sem gengur vel en annað sem á styttri líftíma. Heilsubylgjan hefur þar haft mikil áhrif en vikulega fer t.d. rúmlega tonn af hnetusmjöri, gjarnan í stórum pakkningum, til svokallaðra „boost-bara“. Vinsælasta varan í dag er hins vegar piparmandlan sem kom fyrst á markað árið 2016 og það varð hreinlega sprenging í sölu. Nýjasta varan eru kókosflögur með karamellu og sjávarsalti sem Halldór er viss um að eigi eftir að njóta mikilla vinsælda.

hberg2.jpg

Áhrif Covid

Það hefur verið aukning í sölu hjá H-Berg þetta árið en hún hefur verið öðruvísi en undanfarin ár sökum Covid. Það er minni sala til veitingahúsa og mötuneyta en á móti hefur orðið mikil aukning í smásölu. Í fyrri bylgju Covid voru allir heima og nokkurs konar bökunaræði braust út. Það tæmdist því næstum allt úr búðunum í lok mars og H-Berg setti upp aukavaktir til að anna eftirspurn.

Best við Hafnarfjörðinn

Halldór er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum en hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 1983. Verandi eyjapeyi er höfnin honum því vera afar mikilvæg. Hér í Hafnarfirði finnst honum annars afar gott samfélag og það eru forréttindi að búa mjög nálægt vinnunni og geta skotist heim í hádegismat.  

hberg9.jpg

Þurrkað mangó best

Þegar Halldór er ekki í vinnunni fer hann gjarnan á veiðar hvort sem það er með stöng eða byssu. Hann hlakkar þó til þess á hverjum degi að mæta í vinnuna, það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast og hann umvafinn góðu starfsfólki sem margt hvert hefur verið lengi starfandi hjá H-Berg.

Uppáhalds H-Berg vara Halldórs þessar dagana er annars þurrkað mangó.

Previous
Previous

Fjörukráin

Next
Next

Amarayoga